09.12.1948
Efri deild: 27. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (1146)

94. mál, nauðungaruppboð

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er svipað um þetta frv. að segja og nokkur önnur, sem ég hef flutt, að það er réttarfarsfrv., þar sem reynt er að setja heildarlöggjöf með þessu frv. um nauðungaruppboð. Þau fyrirmæli, sem nú gilda um þetta, eru sum allt aftan úr Jónsbók og önnur frá því árið 1793 og síðar, og leikur oft vafi á, hvað af þessum lagaleiðum skuli gilda, og segja má, að engin grein réttarfarsins sé eins erfið að átta sig á og þessi. Það var því brýn þörf á að safna saman fyrirmælum um þetta, samræma þau og setja ný ákvæði, þar sem það mátti kalla ómögulegt að átta sig á þeim nema með ærinni vinnu og fyrirhöfn. Auk þess voru sum fyrirmælin orðin mjög úrelt og ekki sniðin fyrir staðhætti hér á landi sérstaklega eða nútíma hugmyndir um réttarfar. Ég fékk því fyrrv. hæstaréttardómara, Einar Arnórsson, til þess að semja um þetta frv., og hafði hann síðan samvinnu um það við mig, dómsmrn. og bæjarfógetann hér í Rvík, sem hefur manna mesta reynslu í þessu efni. Þetta frv. er árangur af því samstarfi, og ég hika ekki við að segja, að það horfir til mikilla bóta í réttarfarinu. Það hefur heldur engin aukin útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð, enda aðeins um heillegri reglur að ræða en gilt hafa hingað til, svo að það getur ekki verið neitt áhorfsmál, að frv. beri að samþ. sem allra fyrst. Ég vil ekki segja, að engar breytingar geti komið til mála á frv. Betur sjá augu en auga. En ég vil leggja til, að því verði vísað til allshn. og vænti þess, að hún afgr. það fljótt og vinsamlega og að það fái síðan greiðan framgang á Alþ.