29.10.1948
Neðri deild: 8. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

23. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það er nú flestum kunnugt, að hið mesta ófremdarástand ríkir hér um aðbúnað allan þeim til handa, er hafa orðið ofdrykkju að bráð, og ábótavant er um leiðbeiningar fyrir þá, sem vilja fá aðstoð til þess að forðast að lenda um of út á drykkjuskaparbrautina. Það er nú þannig, að raunverulega skortir samvinnu milli lögreglunnar annars vegar og heilbrigðisstofnananna hins vegar um aðbúnað þeirra manna, sem lögreglan þarf að hafa skipti af vegna ölvunar, og eru í þessu frv. gerðar till. til úrbóta í þessum efnum. Fyrst er þá lagt til, að tekin verði upp ný stefna, þannig að lögboðin verði samvinna milli þessara aðila um aðbúnað fyrrgreindra manna. Þessi samvinna verður á þá lund, að ef lögreglan þarf að taka mann, sem þannig er ástatt fyrir, að hún telur ekki rétt að fara með hann heim til sín þá skal læknir koma til, og skal eftir það farið eftir fyrirmælum hans um meðferð mannsins, og í 4. gr. er svo í framhaldi af þessu gert ráð fyrir, að sveitar- og bæjarfélög komi upp sjúkrahúsum eða sjúkrahúsdeildum til afnota fyrir þá, sem teknir eru vegna ölvunar, svo að þeir fái þar hjúkrun og læknishjálp og aðrar þarfir. Ætlazt er til, að ríkissjóður styrki þessar byggingar verulega, eða svo nemi helming eðlilegs byggingarkostnaðar, eða að öðru leyti skv. lögunum um sjúkrahús.

Þetta er þá í sem fæstum orðum hin nýja samvinna milli lögreglu og heilbrigðisstofnana, sem ráðgerð er og greinir frá í I. kafla frv. Ég tek það fram og undirstrika það, að áformað er, að þessar stofnanir hafi ekki aðeins með höndum aðhlynningu þeirra, sem nauðsyn ber til, að lögreglan skipti sér af, heldur er þeim ætlað víðtækara verksvið, sem sé að gefa leiðbeiningar og hvers konar aðstoð öllum þeim, sem þess þarfnast og leita eftir því af frjálsum og fúsum vilja. Ákvæðin um þetta verða sett síðar með reglugerð. Þá geta menn fengið aðstoð til að öðlast bata og forðast það að lenda lengra út á drykkjuskaparbrautina.

Þetta lýtur að þeim, sem ekki geta beint kallazt sjúkir, en um hina, sem beinlínis eru haldnir drykkjusýki og þurfa þar af leiðandi læknis við, er fjallað í II. kafla. Þar er þó ekki um mikil nýmæli að ræða, heldur miklu fremur staðfestingu á því, sem áður hefur verið, en þó eru gerðar nýjar ráðstafanir. Þar er því slegið föstu, að ríkið reisi og reki gæzluvistarhæli fyrir þá drykkjusjúklinga, sem gera má ráð fyrir, að fái bata. Þetta hæli skal alveg reisa og reka á ríkisins kostnað, og er það hliðstætt ákvæðum þeim, sem nú eru í lögum. Þessi stofnun skal vera undir stjórn geðveikrahælisins á Kleppi, eins og drykkjumannahælið var áður. Enn þarf annað drykkjumannahæli fyrir þá, sem svo illa eru farnir, að búast má við, að þurfi að dvelja lengi án þess að fá bata, og þá kom spurningin, hvort ríkið ætti einnig að taka að sér slíkar hælisbyggingar. Nú er það vitað, að hjá bæjaryfirvöldum og öðrum aðilum hefur verið mikill áhugi á að gera eitthvað fyrir þessa menn, sem svo illa eru farnir, og ég tel rétt, að nota beri alla krafta, sem lið vilja leggja í þessu skyni, því að ekki mun af veita. Því tókum við þá ákvörðun, að við gerðum ráð fyrir, að ríkið byggði þetta ekki, heldur legði fram stofnkostnað á móti þeim aðilum, er vildu leggja í að koma þessum hælum upp, og í 8. gr. er svo ráð fyrir gert, að skipting stofnkostnaðarins fari eftir sömu reglum og um stofnkostnað sjúkrahúsa. Það er gert ráð fyrir því, að sjúklingum á þessi hæli verði ráðstafað þangað í samráði við forstöðumenn geðveikrahælisins á Kleppi, eins og áður hefur verið, og það er tvímælalaust rétt, að samráð sé haft við þá aðila, því að hér er vitanlega um nokkurs konar geðveikisjúklinga að ræða.

En vafalaust verða þessi hæli kostnaðarsöm, og þá er spurningin, hvar taka á peninga til að reisa þau og reka, og finnst mér ekki óeðlilegt, að tekin sé fúlga af gróða þeim, sem Áfengisverzlun ríkisins veitir, til þess að koma þessum málum í rétt horf, og er því gert ráð fyrir að taka af þeim gróða 1,5 millj. kr. árlega í 6 ár. Ekki liggur að vísu fyrir kostnaðaráætlun, en það mun ekki af þessari upphæð veita.

Ég þykist vita, að hv. þm. geri sér ljóst, hve mikil þörf er á framkvæmdum í þessum efnum. og vil því biðja hv. þm. að athuga málið með öllum velvilja, það má vera hægt að finna betri leiðir, en þó er þess að gæta, að frv. hefur fengið góðan undirbúning áhugasamra aðila, og ég endurtek það, að ég bið hv. þm. að athuga frv. gaumgæfilega og með velvilja og kynna sér allar aðstæður, áður en þeir leggjast gegn því eða bera fram brtt. við það. Ég legg svo til að málinu verði vísað til hv. heilbr.- og félmn. að lokinni þessari umr.