29.10.1948
Neðri deild: 8. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

23. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Jón Pálmason:

Herra forseti. Mér skilst, að aðalatriðið í þessu frv. sé það, að á næstu 6 árum verði varið 9 millj, kr. af tekjum ríkissjóðs til þess að stofna drykkjumannahæli. Ég skal ekki hafa á móti því, að þetta sé gert, ef hagur ríkissjóðs er svo góður, að það þyki fært, en ég vil minna á það, að á tveimur undanförnum árum hef ég ásamt fleiri þingmönnum flutt frv. um byggingu héraðshæla. Það frv. er byggt á því, að heilbrigðismálin í mörgum héruðum landsins horfa nú til vandræða. Þannig er það í mínu héraði og mörgum fleirum. Þó að þörf sé á því í mínu héraði að byggja sjúkrahús, þá er þó ástandið enn verra í sumum öðrum héruðum, því að þar er vegna sjúkrahúsleysis ekki hægt að fá lækna í héruðin: Þetta frv. okkar, sem ég áður gat um, hefur tvisvar sinnum verið stöðvað í heilbr.og félmn., þótt ekki bóli á neinu frá hæstv. stj. til úrbóta. Með flutningi þessa frv. er því auðsætt, að hæstv. ríkisstj. telur að gera eigi drykkjusjúkum mönnum hærra undir höfði en öðrum sjúkum mönnum.

Það er vert að minna á það, að þegar núverandi hæstv. menntmrh. tók við, var nýbúið að byggja, á árunum 1943–46, hæli fyrir drykkjusjúka menn fyrir 4 millj. kr. Eftir því sem ég veit bezt, var hæli þetta lagt niður og látið af hendi með nokkuð undarlegum hætti. Þetta frv. kemur mér því undarlega fyrir sjónir.

Ég vildi biðja hv. heilbr.- og félmn. að athuga það, hvort ríkari þörf er á því að stofna drykkjumannahæli eða á því að bæta úr ágöllum og vandkvæðum varðandi meðferð annarra sjúklinga. Í öðru lagi vildi ég biðja n. að athuga, hvaða orsakir lágu til þess, að það drykkjumannahæli, er til var, var lagt niður. Í þriðja lagi vildi ég biðja n. að athuga það, hvort ekki er hægt að fá upplýsingar um það, hvað miklir peningar hafa komið í ríkissjóð fyrir hælið, en eins og ég áður sagði, var varið til þess 3/4 millj. kr.

Ég vænti þess, að þegar þetta mál kemur til 2. umr., þá gefi hv. heilbr.- og félmn. upplýsingar um þessi atriði.