29.10.1948
Neðri deild: 8. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

23. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég vildi tjá hæstv. menntmrh. þakkir fyrir flutning þessa frv. Ég tel, að frv. stefni í megindráttum í rétta átt og muni verða til verulegra bóta, ef að l. verður. Það, að ég tel mig vera umkominn að segja þetta, byggist á því, að ég tel frv. byggt á þeirri reynslu, þótt lítil sé enn, sem fengizt hefur á því að leysa vandamál ofdrykkjumanna.

Sá læknir, sem mest hefur um þessi mál hugsað, Alfreð Gíslason, hefur fyrir löngu sett fram sina greinargerð og tillögur um þessi mál, og frv. er í samræmi við þær tillögur, sem hann hefur lagt fram.

Ætlunin er sú, að drykkjusjúkir menn verði fluttir á sjúkrahús í stað þess að vera settir í ósæmilega fangaklefa. Á sjúkrahúsinu á síðan að kveða upp úrskurð um það, hvað helzt er hægt fyrir mennina að gera.

Það kom fljótt í ljós, er þessi mál voru rannsökuð, að nauðsyn var á tvenns konar hælum; því að sjúkdómurinn er mismunandi, enda gerir frv. ráð fyrir því: En það er eitt atriði, sem ég vil vekja athygli n. á, og það er það, að mér virðist naumast nógu vel séð fyrir mönnum, er þeir koma út af hælunum. Ég hygg, að það sé þýðingarmikið, að eitthvert starf sé innt af höndum fyrir þá, er fara á hælin og útskrifast þaðan. Ég held, að þörf sé á sérstakri fyrirgreiðslustarfsemi í þessum efnum, ekki bara fyrir þá, sem eru ofdrykkjumenn, heldur líka fyrir hina, sem lenda í kasti við réttvísina og koma út úr fangelsunum. Mér virðist, að reynslan hafi sannað, að þörf sé á þessu. Mér virðist, að vel mundi fara á því, að þessi fyrirgreiðslustarfsemi væri í höndum félagsskapar áhugamanna, er ríkisvaldið styrki. Þetta vildi ég, að n. athugaði, hvort ekki væri hægt að koma upp slíkri fyrirgreiðslustofnun.

Ég kemst ekki hjá því að minnast á 15. gr. frv. Mér er ánægja að því, að hæstv. ríkisstj. vill vera stórtæk, hvað það snertir að bæta úr þeirri brýnu nauðsyn, sem hér er fyrir hendi. En ég get ekki látið hjá líða að spyrja: „Hvenær skapaðist þessi þörf?“ Saga áfengismálanna hefur oft verið rædd, bæði hér í sölum hæstv. Alþ. og annars staðar. En við hvaða tímamót skapaðist þessi mikla þörf? Það var ekki á árunum 1915–22. Höfðum við þá tugi eða hundruð af ofdrykkjumönnum? Ég segi nei. Ástandið var ekki slíkt í landinu þá, að þörf væri á stórkostlegum hælum til hjálpar. Næsta tímabil mætti kalla hálfbannið, eða Spánarvínatímabilið, fram til ársins 1935. Skapast þessi þörf þá? Ekki í viðlíka mæli og nú, en það er rétt, að þá fór að bera á ofdrykkjumönnum. Það sást ískyggileg blika á lofti, en það var ekki talað um það þá að verja millj. kr. til drykkjumannahæla, enda er það staðreynd, að þörfin var þá ekki neitt viðlíka brýn og nú. Þörfin skapast eftir 1935, er stefna andbanninga varð ráðandi í landinu. Það verður ekki annað sagt en að það sé einkennilegt ástand í því þjóðfélagi, sem rekur með áfengisverzlun hernað gegn þegnunum með þeim árangri, að tugir liggja í svaðinu, og svo verður ríkið að verja 9 millj. kr. til þess að sjá sómasamlega fyrir hinum föllnu. Enginn má skilja mig svo, að ég vilji draga úr því, að þetta fé sé veitt. Það er ekki lagt fram um of. En væri ekki nær að hætta við þessa stórfengu áfengissölu og sjá, hvort við getum ekki losnað við þennan herkostnað og notað stofnanirnar, er nú er nauðsyn á að reisa, til annars?

Um hælið í Kaldaðarnesi vildi ég segja það, að því var valinn staður samkvæmt tillögum tveggja manna fyrst og fremst, er kunnugir voru þessum málum, Vilmundar Jónssonar landlæknis og þáverandi sakadómara Jónatans Hallvarðssonar, núverandi hæstaréttardómara. Að byggingu hælisins var starfað eftir tillögum eins af byggingarmeisturum ríkisstj. Gamla húsið var skinnað upp, svo að þar var gott pláss fyrir 17 sjúklinga, og byggt var hús fyrir umsjónarmanninn. Það var þá ekki eins ljóst og nú, að hælin þurftu að vera tvö, það var ekki sízt reynslan í Kaldaðarnesi, sem sýndi það. Eigi að síður var þarna komið upp gæzluhæli, og nú vil ég spyrja, eins og hv. þm. A-Húnv., af hverju var þessari starfsemi ekki haldið áfram þar? Af hverju var horfið frá þessu ráði? Það er síður en svo, að ég vilji halda því fram, að hæstv. ráðh. vilji hætta að vinna að þessum málum almennt, en það væri æskilegt að fá upplýsingar um, af hverju þessari starfsemi var hætt. Í öðru lagi hefur verið seld þarna eign ríkisins. Ég vildi spyrja: með hvaða verði og með hvaða heimild? Fyrir nokkru var lagt hér fram frv. um heimild fyrir hæstv. stj. til að selja lóðarskika í Reykjavík, þar sem talið var, að sala gæti ekki farið fram án slíkrar heimildar. Því spyr ég, ef sala hefur farið fram, með hvaða heimild fór hún fram, og hvað var söluverðið?

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um málið. Ég vænti þess, að n. vinni störf sín fljótt og vel og að frv. fái afgreiðslu á þessu þingi í megindráttum eins og það er.