29.10.1948
Neðri deild: 8. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (1187)

23. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. A-Húnv. benti á, að það væri margt annað óunnið, sem framkvæma þyrfti í heilbrigðismálum landsins, en það, sem frv. þetta fjallar um, og taldi hann, að þess vegna væri vafasamt, að fært væri að ætla svo mikið fjármagn árlega til þessara mála af tekjum ríkissjóðs eins og hér er gert ráð fyrir. Ég mótmæli því ekki, að margt er óunnið í heilbrigðismálum landsins og mörgum öðrum menningarmálum hjá okkur. En samt held ég, að við verðum að horfast í augu við það, að ástandið í þessum málum er svo slæmt, að óhugsandi er annað en að efna þar til framkvæmda með algerri stefnubreytingu frá því, sem verið hefur, og hlýtur það vitanlega að kosta mjög verulegar fjárhæðir. Annaðhvort er að láta það, sem gerist í þessum efnum, dingla eins og það er, sem er fullkomin ófremd, og ég hygg, að allir séu sammála um, að það sé ófremd hin mesta, eða hins vegar að verja verulegum fjármunum til þess að gera verulegt átak til úrbóta í þessum efnum. Ég skal ekkert fullyrða, að það sé nákvæmlega til tekin sú upphæð, sem í frv. er gert ráð fyrir, að varið verði til þessara framkvæmda, og mætti sjálfsagt breyta þar um eitthvað, ef nauðsynlegt þætti. En ég lít svo á, að við getum ekki látið framkvæmdir til úrbóta í þessum efnum, sem frv. fjallar um, bíða þangað til a.m.k. öll önnur heilbrigðismál, sem bíða úrlausnar, eru leyst; þótt aðkallandi séu. Það er nú þegar verið að leysa mörg þeirra aðkallandi mála, þar sem m.a. er verið að reisa allmörg sjúkrahús. Og kemur það til álita og úrskurðar út af fyrir sig, hvort hægt sé að auka fjárframlög til þeirra. En það verður að skoða út af fyrir sig, hvernig ástandið er í þessum efnum, sem þetta frv. fjallar um, og hvort menn vilja fórna fjármunum til þess að bæta þar úr.

Þrír hv. þm. hafa minnzt á drykkjumannahælin, sem áður hafa verið starfrækt, og spurzt fyrir í því sambandi. Þegar ég tók við þessum málum, var rekið drykkjumannahæli í Kaldaðarnesi. Það sýndi sig, að rekstur þess hælis notaðist ekki vel. Mjög fáir leituðu vistar á hælinu, sem vafalaust hefur verið meðfram fyrir það, að sambandið milli hælisins og yfirstjórnar þess var mjög losaralegt. Það var því álit þeirra, sem kunnugastir voru þessu, að hælið væri ekki heppilega sett sem lækningahæli, sem það átti að vera. Og við rekstur hælisins rann það betur upp fyrir mönnum, að það þyrfti tvískiptingar við í þessu efni, þyrfti að reka í tvennu lagi hæli fyrir drykkjusjúka menn. En ríkisstjórnin hefur hugsað sér, að á vegum ríkisins verði rekið hæli fyrir þá menn, sem allgóðar batahorfur eru með. — Jafnframt var af atvmrn. sótt um að fá Kaldaðarnes til annarra afnota. Og þegar það var fyrir hendi og hitt einnig, að lítil aðsókn var að hælinu á þessum stað, sem það var á, þá sá heilbrmrn. ekki ástæðu til að halda að sínu leyti í eignir á þessum stað, en féllst á, að húsin þar, sem voru gömul hús, nokkuð viðgerð, væru afhent eftir mati ásamt jörðinni að öðru leyti atvmrn. til ráðstöfunar. Þetta var ekki gert í þeirri meiningu að leggja hælið niður, heldur var meiningin að koma því upp á öðrum stað. Og við höfum ætlað að vinna að því að koma upp gæzluvistar- og lækningahæli fyrir ofdrykkjusjúka menn á Úlfarsá í Mosfellssveit. Það er byrjað að vinna að því að koma þar upp slíku lækningahæli, sem ætti fyrir sér að stækka, ef þessum málum verður meira sinnt. Og ég býst við, að hægt verði að reisa þarna slíkt hæll með tiltölulega litlum stofnkostnaði, af því að atvmrn. hefur látið þarna land af hendi með góðum húsum. En ef einhver stofnkostnaður yrði við að reisa slíkt hæli á þessum stað, þá er hægt að mæta honum með fé því, sem komið hefur fyrir eignir í Kaldaðarnesi, sem seldar hafa verið. Ég man ekki, hve há sú upphæð var. En sú upphæð var ekki eins há og það fé, sem varið hafði verið af því opinbera til þess að gera við hús á þeirri jörð, því að þegar gert er við hús og á að selja þau aftur, vill verða misbrestur á því, að það fé komi til baka við söluna, sem varið hefur verið til umbótanna. Þessar viðgerðir í Kaldaðarnesi kostuðu mikið á sinni tíð. En talsverð fjárfúlga kom fyrir þetta. Salan á þessum mannvirkjum var byggð á matsgrundvelli, sem nánar væri hægt að lýsa fyrir heilbr.- og félmn. — Þetta, sem ég hef sagt um Úlfarsá, er um leið svar til hv. þm. Borgf., þar sem hann spurði, hvað liði framkvæmdum af hendi ríkisins til byggingar lækningahælis fyrir ölvunarsjúka menn. Þarna á Úlfarsá höfum við hugsað okkur að byrja þessa starfsemi og efla hana síðan með einhverju af þeim fjármunum, sem veittir yrðu, ef frv. þetta yrði að l.

Þá er hin spurningin frá hv. þm. Borgf., um framkvæmdir í sambandi við byggingu þeirra hæla, sem bæjum er samkv. þessu frv. ætlað að leggja fram fé í að nokkru leyti og í þessu tilfelli Reykjavíkurbæ. Ég get ekki upplýst, hve langt því máli er komið af hálfu Reykjavíkurbæjar. En af viðtölum við borgarstjórann í Reykjavík er mér kunnugt um, að mikill undirbúningur hefur verið af hálfu bæjarstjórnar Reykjavíkur gerður til þess að hefjast handa í þessu efni sem allra fyrst. Og ég er viss um, að mikill aukinn skriður mundi koma á málið af hendi bæjaryfirvalda Reykjavíkur, ef þau sæju, að þetta frv. væri samþ., því að þá gætu þau átt vísan svo mikinn stuðning við þessar framkvæmdir af hendi ríkisins. Ég get ekki frekar upplýst um þetta atriði. Ég sé, að hv. þm. Snæf., borgarstjórinn í Reykjavík, er hér ekki viðstaddur. En hann hefði getað upplýst betur um þetta atriði.

Þá fannst hv. 6. þm. Reykv. það áfátt við þetta frv., að ekki væri í því gert ráð fyrir leiðbeiningarstarfsemi þeim mönnum til handa, sem hefðu verið í vist á svona hælum, en hefðu náð bata. Ég vil taka það fram, að í 7. gr. frv., og reyndar á fleiri stöðum í frv., er gert ráð fyrir, að reglur verði gefnar út um rekstur þeirra stofnana, sem þarna er um að ræða, og um leiðbeiningar og aðstoð þeim mönnum til handa, sem drykkjusjúkir eru eða hætt er við drykkjusýki, þeim til viðréttingar. Einnig er tekið fram í I. kafla frv., 3. gr., að leiðbeiningar eigi að veita þeim eða vegna þeirra, sem drykkjusjúkir eru eða yfirvofandi er, að verði drykkjusjúkir. — Annars mætti að sjálfsögðu greina eitthvað nánar um það í frv., hvernig leiðbeiningastarfsemi í þessum efnum skuli hagað, ef menn við athugun komast að þeirri niðurstöðu, að það sé réttara.