29.10.1948
Neðri deild: 8. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

23. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Út af því, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði, þar sem hann tók fram, að hann hefði ekki fengið tæmandi ástæður fram færðar fyrir því, að hælið var lagt niður í Kaldaðarnesi, skal ég taka það fram, að það voru þrjár ástæður fyrir því. Fyrst — og það, sem mestu máli skipti, var það, að reynslan sýndi að dómi þeirra, sem bezt munu hafa vit á því, að það væri ekki heppilegt að hafa lækningahæli fyrir drykkjusjúklinga alllangt frá höfuðstöðvum þeirra mála, eins og Kaldaðarnes var. Og reynslan sýndi þetta mjög glöggt, eins og m.a. kom fram í því, hversu fáir voru á hælinu, eins og þó var mikil nauðsyn á slíkri hælisvist fyrir drykkjusjúka menn. Það sýndi sig, að heppilegra mundi að flytja hælið nær höfuðstaðnum. Þetta var fyrsta atriðið. Og í sambandi við þetta kom til greina sá rekstrarhalli á hælinu, sem raun bar vitni. — Annað var, sem mælti með flutningi hælisins, að mikið ófremdarástand var þarna í Kaldaðarnesi, sem hæstv. atvmrh. hefur lýst og hv. 6. þm. Reykv. og fleiri hafa bent á, og sýnt var, að kosta mundi mikið, ef sómasamlega ætti að ganga um aftur í Kaldaðarnesi. - Í þriðja lagi var sótt eftir þessari jörð og húsum þar af atvmrn., eins og hæstv. atvmrh. hefur upplýst. Þegar þetta lá allt fyrir, vildi ég ekki taka á mig ábyrgð af því að halda þessum rekstri á jörðinni áfram með þeim hætti sem hann var, heldur samþ., að atvmrn. tæki jörðina til sín, gegn því að fá fjármuni þá aftur til heilbrmrn., sem fyrir húsin kæmu. Og ég má segja, að við höfum fengið hátt á fjórða hundrað þús. kr. fyrir þau. Og ég hygg, að frá sjónarmiði heilbrigðismálanna í landinu sé þetta ekki óhyggileg ráðstöfun, þó að sumir líti kannske öðruvísi á.

Hv. þm. A-Húnv. sagði, að það væri einkennilegt að leggja niður stofnun, en koma svo með till. um þrjár í staðinn. Þetta er ekki rétt upp sett hjá hv. þm., því að hér var ekki lögð niður stofnun, heldur gerðar ráðstafanir til þess að flytja þessa stofnun nær höfuðstöðvum þessara mála, sem sé geðveikrahælinu á Kleppi. Og þær undirbúningsráðstafanir, sem verið er að gera á Úlfarsá, miða að því að flytja þessa stofnun þangað, sem var í Kaldaðarnesi, af því að lækningahæli fyrir drykkjusjúka menn þarf að vera mun nær höfuðstöðvum þessara mála en hægt er að láta það vera með því að hafa það í Kaldaðarnesi.

Hv. þm. Borgf. spurðist nánar fyrir um Úlfarsá. Enn sem komið er, er undirbúningur litill þar á staðnum, en meiningin er að taka upp hælisrekstur í húsum, sem eru þar, með því móti að flytja tilraunastöðina. Síðan kemur svo til athugunar að byggja hús til viðbótar á þessum stað. En það er ekki komið svo langt með það, að ég geti gefið upplýsingar um það nú. En meiningin er að byrja þarna hælisrekstur í smáum stíl, þegar tilraunastöðin er flutt þaðan (PO: Hvenær verður hún flutt?) Ég skil það svo, að það verði nú alveg á næstunni. Annars hefur landlæknir annazt þetta mál fyrir ráðuneytisins hönd.

Inn í þessar umr. hefur verið dregið að tala um Skálholt og ábúanda þess, Jörund Brynjólfsson. Ég ætla, að það sé rangt til getið, að hér sé á bak við nokkur tilhneiging til að láta þennan hv. þm. fá óeðlileg hlunnindi. En mér hefur fundizt, að sumt, sem hv. 6. þm. Reykv. hefur sagt, og jafnvel hv. þm. A-Húnv. líka, hafi átt að skilja svo, þó að ekki hafi þetta beinlínis verið sagt. En viðkomandi þessu vil ég taka tvennt fram. Fyrst það, sem hv. þm. raunar vita, að þegar ákveðið var með l., að settur skyldi á fót Skálholtsskóli, þá var náttúrlega þannig komið, að hv. 1. þm. Árn., Jörundur Brynjólfsson, gat ekki vitað, hvort honum mundi verða auðið að sitja á þeirri jörð eitt, tvö, þrjú eða kannske fjögur missiri, þannig að framtíðin um ábúð fyrir hann var í óvissu, og vita allir, sem komið hafa að búskap, að undir þeim kringumstæðum er ómögulegt að starfa að búskap. Þá þurfti vegna skólans fyrirhugaða að losa Skálholt úr ábúð, eins og hæstv. atvmrh. tók fram. Og var þá ekki hægt að gera ráð fyrir, að Jörundur Brynjólfsson stæði upp af ábýlisjörð sinni án þess að hafa eitthvað til að hverfa að. Og ef hann vildi halda áfram búskap, var því sjálfsagt að leitast fyrir um, hvort fáanleg mundi vera jörð, sem hann vildi nota, og ganga þá frá því á eignaskiptagrundvelli, ef unnt væri, að hann hefði ábúðaskipti. Og var þá ekki hægt að miða við annað í því efni en mat óvilhallra manna. Og hér hefur ekki gerzt annað en það, að atvmrn. hefur losað Skálholt úr ábúð og látið í staðinn til ábúandans aðra jörð, Kaldaðarnes. Og þetta hefur farið fram á báða bóga eftir mati óvilhallra manna, hvað verð og skilmála snertir. Og það skilst mér, að sé sú aðferð ein, sem viðhafa beri í slíkum málum sem þessu. — Að vísu lýtur þetta, sem ég hef nú síðast gert að umtalsefni, ekki að þessu hæli, sem um hefur verið rætt, en af því að þetta atriði hefur dregizt nokkuð inn í umr., gat ég þessa.

En svo kemur í annarri röð það atriði, sem eru hæli fyrir þá drykkjusjúklinga, sem lengur þurfa að dvelja á hæli. Og þar er gert ráð fyrir, að Reykjavíkurbær og aðrir bæir eigi að eiga frumkvæðið um að koma upp þeim hælum. Sú skylda er lögð á ríkið.