30.11.1948
Efri deild: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

23. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég skal ekki efa hæstv. menntmrh., að bókfæra megi þennan útgjaldalið sómasamlega og á allan hátt svo, að sómasamlegt sé að dómi ráðh., en þessi aðferð hefur verið notuð stundum áður og ekki alltaf þótzt reynast vel. En ef ríkisvaldið ætlar að láta framkvæma eitthvað menntalegt, heilbrigðislegt eða atvinnulegt, þá held ég, að það sé rétta leiðin, að hreinlega sé komið fram í þeim efnum. Um upphæðina, sem lagt er til að greiða árlega, hef ég ekkert sagt, en upphæðin er rausnarleg, sem við mátti búast af hæstv. ráðh., en mér er ljóst, að þegar fjvn. er, oft á síðustu dögum þingsins, að vega og meta tekjur og gjöld ríkissjóðs og balansera gjöld og tekjur ríkiskassans, þá geti henni sézt yfir þessa greiðslu, þegar þetta kropp, — já, ég vil kalla þetta kropp, — þegar verið er að kroppa svona utangátta í ríkiskassann. Menn segja nú, að hafa megi þetta, í huga, en það vill nú sjást yfir það, og ég held því fram, að það ætti að færa þetta inn á fjárlög. Annars verður niðurstaðan sú, að tekjustofnar ríkisins rýrna. Niðurstaðan verður sú, að tekjustofnarnir svara ekki því, sem ætlazt er til. Afleiðingin verður halli á fjárl., sem kemur á bak þess fjmrh., sem í hvert sinn á að svara fyrir það. Ég er þess vegna mjög á þeirri hugsun að flytja brtt., ef hún kemur ekki frá n., að hér skuli „stýra af hafinu stórskipaleið og stefna á Engeyjarsund“, fara ekki neinar krókaleiðir, heldur ganga hreint til verks, og Alþ. sjái sjálft fyrir því, hvað það vill leggja mikið fé í þetta á þessu árabili, og gera viðeigandi ráðstafanir, en hætta að taka fé til þess úr ríkisstofnunum bakdyramegin.