30.11.1948
Efri deild: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (1209)

23. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég hefði gjarna viljað taka það fram áður, en mun ekki hafa gert það, þó að ég vilji ekki gera ágreining við hæstv. menntmrh. um það, í hvaða n, málið skuli fara. Það var í heilbr.- og félmn. í Nd. Málið er þó þannig vaxið, að ég tel nauðsynlegt, að það komi undir álit fjvn., því að hvaða leið sem farið er til að taka þetta fé, hvort sem það er tekið úr tekjum áfengisverzlunarinnar, eins og lagt er til í frv., eða beinlínis lagt fram af ríkistekjum, þá er niðurstaðan sú sama, tekjumissir eða útgjöld fyrir ríkissjóð. Mér finnst því, að eigi að hafa fjvn. með í ráðum um afgreiðslu þess. (PZ: Hún er í Sþ.) Ég veit það, en hún er samt ekki svo langt undan, að sú n., sem fjallar um málið, getur vel haft samband við hana, og mér finnst það nauðsynlegt, þar sem um er að ræða að ráðstafa þannig beint eða óbeint stórfé út úr þjóðarbúinu. Mér finnst því ekki viðeigandi að n. afgr. málið án þess að ráðgast um það við fjvn.

Það er rétt hjá hæstv. menntmrh., að við verðum að hafa ráð á því að gera eitthvað fyrir þá menn, sem svona er ástatt fyrir, en það má gera jafnmyndárlega við þá eftir þeirri beinu leið, sem venjulega er farin, að veita fé í fjárl., eins og með þeirri aðferð, sem lagt er til í frv.

Hæstv. ráðh. sagði, að kannske væri hér fulldjúpt tekið í árinni, og eins og hv. 1. þm. N-M. sagði, þá verður líka að taka tillit til þess, hvað hægt er að gera vegna fjárhags ríkisins í þessu efni. En um leið og ég viðurkenni það, vil ég undirstrika, að mér finnst, að ríkinu beri skylda til að taka upp í fjárl. sómasamlega upphæð í þessu skyni.