11.05.1949
Efri deild: 103. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (1212)

23. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Frsm. meiri hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta mál var lagt fyrir þingið rétt fyrir þingbyrjun og hefur verið í meðferð þingsins síðan. Heilbr.- og félmn. Nd. lagði einróma til, að frv. yrði samþ. óbreytt, og þannig kom það hingað. Hæstv. heilbrmrh. lagði frv. fyrir, en það er samið af landlækni og dr. Helga Tómassyni. Á fyrsta fundi, sem heilbr.- og félmn. Ed. tók þetta mál fyrir, voru höfundar frv. mættir og ræddu málið við nm. Þá þótti sýnt, að nm. væru ekki að öllu leyti sammála um frv., eins og betur kom í ljós síðar. Eins og fram kemur í nál. hefur þetta mál verið rætt á flestum fundum n. síðan og tilraunir gerðar til að jafna þann ágreining, sem var milli nm. En allar voru árangurslausar og enduðu með því, að n. klofnaði um málið. Í meiri hl. voru hv. 1. þm. N–M., hv. 4. landsk., hv. þm. Seyðf. og ég. En einn þessara nm., hv. 4. landsk., tekur fram, að hann áskilji sér rétt til að fylgja öðrum brtt. en þeim, sem koma frá meiri hl. n., þ. á m. brtt. frá hv. minni hl. n., hv. þm. Barð. Meiri hl. n. var samþykkur frv. með þeim breyt., sem um getur á þskj. 629, en hv. minni hl. aðeins með því móti, að því verði gerbreytt, og hefur borið fram 10-12 brtt. á þskj. 658, sem gerbreyta frv.

Aðalefni frv. er það, að þeir menn, sem handteknir eru fyrir ölvun og ekki er hægt að sleppa strax, skuli fluttir á þar til gert sjúkrahús til að vera undir læknishendi. Þessir menn skulu vera undir læknishendi, unz runnið er af þeim, og má halda þeim þar allt að 2 sólarhringum, meðan rannsókn fer fram, en ekki lengur. Í 3. gr. er tekið fram, að læknir, sem stundar sjúklingana samkv. ákvæðum í 1. og 2. gr., skuli kynna sér ásigkomulag og ástæður þessara manna, og verði niðurstaðan sú, að um drykkjusýki eða yfirvofandi drykkjusýki sé að ræða, skal læknirinn ráðfæra sig við sjúklinginn eða aðstandendur hans um, hvað gera skuli. Í 4. gr. eru ákvæði um það, að sveitarfélög, er koma upp sjúkrahúsum eða sjúkradeildum til að fullnægja 1., 2. og 3. gr., skuli styrkt úr ríkissjóði að 1/2 kostnaði. Ég sé ekki ástæðu til að hafa nein orð til að skýra 5.–7. gr., en kem þá að meginefni frv., sem segir, hvað hið opinbera skuli gera til að framkvæma þessa meðferð á drykkjusjúkum mönnum. Í 8. gr. er svo kveðið á, að geðveikrahælið á Kleppi skuli hafa yfirumsjón með drykkjusjúkum mönnum og annast um lækningu á þeim. Ætlazt er til, að ríkið reisi og reki gæzluvistarhæli handa mönnum þeim, sem læknar telja unnt að lækna, og skuli það vera í nágrenni við Klepp eða Reykjavík. Í annan stað skuli sveitarfélög, eitt eða fleiri saman, reisa og reka hæli fyrir þá menn, sem ekki er hægt að lækna, þ.e. áfengisöryrkja. Þriðja meginatriðið er að drykkjusjúkum mönnum, sem ekki eru á lækningahæli eða visthæli fyrir áfengisöryrkja, sé komið fyrir á vönduðum einkaheimilum og sé þar tekið fullt tillit til heilsu þeirra. Til að hafa slíka gæzlu með höndum, skulu valdir menn eða konur af heilbrigðisstjórninni. Öll yfirstjórn þessara mála skal vera hjá yfirlækninum á Kleppi. 9. gr. kveður á um, hverjir skuli vera í gæzluvist á hælum:

1. Þeir, sem eru dæmdir til þess.

2. Þeir, sem sækja um það sjálfir eða lögráðamenn fyrir þeirra hönd.

3. Þeir, sem dómsmrh. ráðstafar þangað eftir ákvæðum um lögræði.

Hver sem dæmdur hefur verið á hæli eða hefur sótt um það, skal hlíta gæzlu og virða reglur, sem þar eru settar. Í 10. gr. er ákveðið, að allir skuli hlíta gæzlu svo lengi sem læknirinn á Kleppi ákveður, en þó ekki lengur en þeir hafa sótt um dvöl á hælinu, nema þeir hafi þá endurnýjað umsóknina. Samkv. 11. gr. er því slegið föstu, að gæzluvist fylgi vinnuskylda gæzluvistarmanns. Í 12. gr. eru ákveðin viðurlög við því að aðstoða vistþega í útvegun áfengis, en sekt ekki ákveðin. Kostnaður af þessu greiðist yfirleitt samkv. l. um sjúkrahús, en það er 2/5 úr ríkissjóði, en þó á fjórðungssjúkrahúsum. Ætlazt er til, að ráðh. geti sett reglugerð um drykkjusjúklinga eftir þessum l., hvort sem um hæli eða einkaheimili er að ræða. Þá er ákvæði um það, að verja skuli 11/2 millj. af gróða áfengisverzlunar ríkisins í sérstakan sjóð, gæzluvistarsjóð. Í lokakaflanum er svo tekið fram, að l. þessi öðlist þegar gildi og eftir því sem ástæður leyfa. Þetta er innihald frv. eins og það var lagt fyrir þingið af heilbrmrh. Það kom hingað óbreytt, og það mun hafa verið 11. febr., sem ég og hv. þm. Barð. lögðum fram hvor í sínu lagi víðtækar brtt. við frv. Meginbreyt. í till. okkar beggja var að gera það enn skýrara en í frv., að meðferðin á drykkjusjúkum mönnum skyldi alls ekki vera á þann veg sem um sakamenn væri að ræða, heldur sjúklinga. Önnur meginbreyt. var sú, að þessi mál skyldu ekki heyra undir geðveikrahælið á Kleppi, heldur undir sérstakan sérfræðing, sem falið væri að stjórna þessu. 3. breyt. var sú, að allur kostnaður af lækningum og uppihaldi, hvort heldur væri á gæzluhælinu eða dvalarhæli fyrir áfengisöryrkja, skýldi að fullu greiddur úr ríkissjóði. Það sýndi sig, að hv. þm. Barð. lagði kapp á fleiri breyt., og fund eftir fund var reynt að bræða saman till. okkar, m.a. var einum hv. nm. sérstaklega falið að reyna að sameina till. okkar, en allar tilraunir í þá átt urðu árangurslausar. Enn fremur var ljóst, að hæstv. heilbrmrh. vildi á hvorugar till. fallast. Enn fremur voru höfundar frv. andvígir brtt. Þegar svo var komið, óskaði hæstv. heilbrmrh., að brtt. yrði ekki kastað fram, en athugaðar og allar leiðir reyndar til, að n. gæti sameinazt um till., sem hæstv. ráðh. gæti fallizt á. Þetta er því ástæðan fyrir því, að afgreiðslan dróst á langinn, en ekki eins og kemur fram í nál. hv. minni hl., sem segir, að þetta hafi stafað af áhugaleysi meiri hl., og er það áreiðanlega sagt gegn betri vitund, því að ég varð var við, að þetta mál var rætt af miklum áhuga af hv. nm. og ekki gætti þar neins áhugaleysis.

Ég skal þá fara örfáum orðum um brtt. meiri hl. Að athuguðu máli og í þeim tilgangi að valda sem minnstum ágreiningi hurfum við frá brtt. við 1., 2. og 3. gr. Við teljum það augljóst mál, að eins og þar er, þá er það ætlunin að meðhöndla áfengissjúklinga á þá lund sem um sjúklinga, en ekki afbrotamenn sé að ræða. Við gerðum því fyrst smábreyt. við 4. gr., að gr. orðist svo: „Sveitarfélög, sem koma upp sjúkrahúsum eða sjúkrahúsdeildum til fullnægingar 1.–3. gr., njóta til þess ríkisstyrks samkv. ákvæðum l. nr. 30 19. júní 1933, um sjúkrahús o.fl.“ Ég geri ráð fyrir, að þetta yrði víðast hvar svo í framkvæmd, að bæjarfélög, sem eiga sjúkrahús, mundu breyta einu eða tveim herbergjum í þessu skyni, og er því eðlilegast, að þáttur ríkisins í kostnaðinum yrði sá sami og í l. um sjúkrahús. Mín skoðun er sú, að þarna yrði ekki um stórkostlegar byggingaframkvæmdir að ræða, þó að þyrfti að halda á 1–2 herbergjum. — Næsta brtt. er við 8. gr. og fer fram á, að yfirumsjón með drykkjusjúklingum sé í höndum taugasérfræðings og í engum tengslum við Klepp. Með því er þó enginn dómur lagður á, að dr. Helgi Tómasson sé óhæfur til að gegna þessu starfi eða að þessir menn eigi enga verulega samleið með öðrum taugasjúklingum, en við teljum ekki heppilegt, að þetta sé saman, og ekki heppilegt að hafa þetta sem aukastarf læknisins á Kleppi. En að öðru leyti er sú breyting gerð, að ríkissjóður tekur reksturinn á sinn kostnað, bæði lækningahæli og dvalarheimili fyrir drykkjusjúklinga. Frv. ætlast hins vegar til, að eitt eða fleiri sveitarfélög beri kostnaðinn af þessum dvalarheimilum, en mér finnst full ástæða til þess, að ríkið beri allan kostnaðinn, þar sem það fær allan ágóðann af sölu áfengis, og í samanburði við þann ágóða er þetta harla lítið framlag, sem krafizt er. Þá staðfestum við það einnig, að drykkjusjúkum mönnum megi koma fyrir á einkaheimilum. — Aðrar breytingar, sem við höfum gert við frv., eru svo þær, að alls staðar þar, sem orðið „Kleppur“ kemur fyrir, þá falli það burt. Þá er og lagt til, að sektir fyrir að útvega þessum drykkjusjúklingum vín, verði allt að 2.000 kr., og enn fremur leggjum við til, að ákvæði 15. gr. um sjóðmyndun falli niður, þar sem ríkissjóður á að bera allan kostnaðinn, að svo miklu leyti sem hann greiðist ekki af aðilum sjálfum. Það er hugsanlegt, að einstaka aðilar geti greitt sjálfir fyrir dvöl sína á hælinu. Efnamaður getur verið áfengissjúklingur, og þá er engin ástæða til þess, að ríkissjóður borgi fyrir hann. Af þessum till. um tekjuöflun fellur því III. kafli frv. alveg niður.

Ég veit, að minni hl. n., hv. þm. Barð., mun gera hér grein fyrir nál. sínu. Ég tel, að í aðalatriðum sé nál. hans samhljóða okkar nál., og aðalmunurinn er sá, að hann vill fara dálítið lengra. Ég tel hins vegar tilefnislaust að draga Kaldaðarnes inn í þessar umr. og óviðeigandi að vera með aðdróttanir á lögregluþjóna fyrir meðferð þeirra á drukknum mönnum, og sömuleiðis tel ég óviðeigandi að koma fram með vantraustsyfirlýsingar á dr. Helga Tómasson, þar sem lagt er til, að honum verði ekki falin yfirstjórn þessara mála. Ein ástæðan fyrir því, að meiri hl. n. vildi ekki fallast á till. minni hl., var sú, að við teljum, að ef þær till. næðu fram að ganga, þá yrði þetta frv. slíkt bákn, að það kæmist aldrei í framkvæmd. Við teljum, að málinu sé betur borgið, ef frv. verður afgr. eins og við leggjum til en ef það yrði aukið þannig og endurbætt eins og hv. þm. Barð. vill gera, en yrði þá um leið svo mikið bákn, að frv. yrði eingöngu pappírsplagg, enda þótt það yrði samþ. Hv. þm. Barð. nægir ekki minni breyt. á 1. gr. frv. en að hún orðist svo: „Menn þá, konur sem karla, sem ölvaðir eru á almannafæri, á samkomustöðum eða á heimilum og raska ró manna, gera árásir á aðra eða valda óspjektum með drykkjulátum, skal flytja í sjúkrahús, sem hefur tök á að veita slíkum sjúklingum viðtöku. Það er borgaraleg skylda að aðstoða við slíka flutninga.“ Það hlýtur hver maður að sjá, að eins og nú er málum háttað, þá er þetta algerlega óframkvæmanlegt, því að eins og drukkið er nú hér á landi, þyrfti geysilegan fjölda af sjúkrahúsum um allt landið til þess að þetta væri framkvæmanlegt. Vissulega er þetta óskadraumur okkar, sem höfum áhuga fyrir þessum málum, að þetta megi verða á þann veg, sem segir í brtt. minni hl., en ég fyrir mitt leyti tel betra, að samþ. verði minna, en það síðan framkvæmt, heldur en að samþ. verði róttækar ráðstafanir, sem aðeins verða svo á pappírnum.

Þá segir í 2. brtt. minni hl., að ölvuðum mönnum skuli hjúkra, unz af þeim sé runnið, og er þetta samhljóða frv., en síðan er bætt við í brtt., að það skuli varða sektum að misþyrma sjúklingunum á einn eða annan hátt. Mér virðist nú satt að segja harla undarlegt, ef þarf að taka það fram, að ekki megi misþyrma sjúklingunum, og mér finnst því, að þetta komi þarna alveg eins og skrattinn úr sauðarleggnum og sé vægast sagt alveg út í hött.

Þá er 3. brtt. minni hl. svo víðtæk, að mér finnst, að það hljóti frekar að verða reglugerðaratriði en lagafyrirmæli, hvernig læknar skuli rannsaka sjúklingana, hve lengi tilraunir skuli gerðar á þeim og í þriðja lagi, hvort senda skuli sjúklinginn á lækningahæli fyrir drykkjusjúka menn eða á geðveikrahæli. Það liggur í augum uppi, að það eru sérfræðingar í þessum málum, sem verða að taka ákvörðun um þetta, og því tel ég þetta reglugerðaratriði.

Í brtt. minni hl. er lagt til, að úrskurði sjúkrahússlæknis megi áfrýja til áfengislæknis, og skal hann láta fara fram rannsókn á sjúklingnum að nýju. Ef til þess kemur, að sjúklingurinn vill ekki sætta sig við úrskurð áfengislæknisins, getur hann áfrýjað máli sínu til þriggja manna nefndar, sem er nokkurs konar hæstiréttur í málinu, og er sú nefnd skipuð einum lækni með sérþekkingu á drykkjusýki, einum sálfræðingi og einum dómara og skal hann jafnframt vera formaður nefndarinnar. Mér virðist þetta vera allt of margbrotið og það hljóti að taka langan tíma að komast að fastri niðurstöðu. Hins vegar skil ég, ef þetta er gert til þess, að sjúklingurinn geti leitað réttar síns, ef þörf gerist, og að þetta á að tryggja frelsi hans.

Þá er lagt til í 5. brtt., að ríkið greiði allan kostnað, en þó er á þessu sú undantekning, að þeir, sem eru látnir lausir strax að rannsókn lokinni, skuli greiða sjálfir fyrir sig. Mér finnst aftur á móti, að ef nokkrir ættu að sleppa við að greiða fyrir sig, þá séu það þeir menn, sem þannig er ástatt um.

Í 7. brtt. er talað um, að vistheimili fyrir þessa áfengisöryrkja skuli byggð á stað, þar sem hægt sé með góðu móti að reka fjölbreytta framleiðslu. Ég álít, að rétt sé að láta viðkomandi sérfræðinga velja hælinu stað, og þetta er því frekar reglugerðaratriði, sem kemur síðar til greina. Ég get þó vel fallizt á það hjá dr. Helga Tómassyni, að heppilegasti staðurinn sé nálægt Reykjavík. Það er vitað, að mestur hluti þessara ógæfusömu sjúklinga er héðan úr Reykjavík, og svo mun verða framvegis, en auk þess þykir mér trúlegt, að ekki verði unnt að fá sérlærða menn í þessum málum annars staðar, en hér í Reykjavík. Ég vil þó taka það fram, að þetta er aðeins mín persónulega skoðun, og því gæti vel komið til mála að hafa dvalarheimilin einhvers staðar annars staðar, en þetta er bara ekki lagasetningaratriði.

Í 10. brtt. vill hv. minni hl. slá fastri vinnuskyldu, en bætir þó við, að ef vistmaður vinni meira en 18 klukkustundir á viku, þá skuli honum greidd full laun, miðuð við venjuleg verkamannalaun. Nú sæti það sízt á mér að vera andvígur því, að sumir fullvinnandi menn sætu ekki auðum höndum og að þeir, sem vinna meira en lágmarksvinnu, fái laun fyrir það, sem þeir vinna fram yfir, en ég tel þó vafasamt að ákveða þetta með lögum. Þetta er eitt af þeim atriðum, sem við, meiri hl. n., töldum, að mundi ekki vera til þess fallið að greiða fyrir málinu, og ég er enn þeirrar skoðunar. Hins vegar veit ég, að allar þessar till. hv. þm. Barð. eru bornar fram af góðum hug til málsins, og mér er kunnugt um, að hann hefur mikinn áhuga fyrir þessu máli.

Að síðustu vil ég svo segja það, að þótt ég telji okkar brtt. til bóta, þá tel ég sjálft frv. líka til mikilla bóta, og ég mundi því greiða frv. atkvæði, jafnvel þótt brtt. okkar yrðu felldar. Ég tel það skyldu Alþingis að samþ. þetta frv., en ég óttast, að þótt brtt. hv. þm. Barð. yrðu samþ., þá yrði það aðeins á pappírnum og ríkissjóði yrði bundinn þar of þungur baggi eins og fjárhag hans er háttað.