13.05.1949
Efri deild: 105. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

23. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram í framsöguræðu sinni, varð ekki samkomulag í n. um afgreiðslu þessa máls. Þeir hv. 1. þm. NM., hv. þm. Seyðf., hv. 3. landsk. og hv. 4. landsk. hafa nú gefið út sérstakt nál. á þskj. 632, þar sem þeir leggja til, að frv. verði samþ. með nokkrum breytingum. Ég gat ekki fylgt þeim að málum og gaf út sérstakt nál. á þskj. 658. — Þessu máli var vísað til heilbr.- og félmn. í nóvember s.l. og var tekið fyrir á svo að segja hverjum fundi framan af, en öll meðferð hv. form. á málinu var þannig, að líkast var, að hann vildi ekki, að það næði fram að ganga. Það kom strax í ljós á fyrsta fundi n., að meiri hl. hafði áhuga á málinu, en taldi, að ekki væri hægt að samþ. það óbreytt. Það var því lögð í það mikil vinna, bæði af mér og hv. 3. landsk., að gera þær breyt., er til bóta máttu verða. Ekki var um neinn verulegan ágreining að ræða milli aðila, en hv. form. gerði alls engar tilraunir til að jafna hann og reyndi meira að segja að leggjast á málið, er sjáanlegt var, að þrír hv. nm. mundu sameinast um eitt álit. (BBen: Hver var þessi skemmdarvargur?) Það var hv. form. n., þm. N-M., og gerði hann þetta meira að segja eftir skipun frá hæstv. menntmrh. Eftir töluverðan tíma afhenti hann svo hv. þm. Seyðf. málið til að reyna að ná samkomulagi. Það var svo ekki fyrr en ég hafði lagt mjög fast og eindregið að hv. form., að hann tók málið fyrir á ný, og þá einnig eftir skipun frá hæstv. ráðh. Það er því alveg augljóst, að hæstv. ráðh. ætlaðist aldrei til, að málið næði fram að ganga, enda ekki borið fram til að lækna mein þessara drykkjusjúklinga, heldur til að draga blæju yfir það hneyksli hæstv. ráðh. að leggja niður hælið í Kaldaðarnesi, sem byrjað var að starfrækja. Það dettur heldur engum í hug, að hið nýja drykkjumannahæll á Úlfarsá, sem ætlað er fyrir 9 menn, verði að nokkru verulegu gagni. Það, að ætlazt er til, að þar verði stofnsett drykkjumannahæli, er líka aðeins gert til að breiða yfir annað hneyksli, þ.e.a.s. hin heimildarlausu kaup á Úlfarsá. Þessu hefur sem sé verið komið þannig fyrir, að ein stjórnardeildin er látin kaupa þessa jörð og önnur látin stofna þar drykkjumannahæli. Mér þótti rétt að láta þetta koma hér fram í umr. til að sýna, hvernig öll meðferð hæstv. ráðh. á þessum málum hefur verið. Það segir síg sjálft, að ef hæstv. ráðh. hefði haft áhuga fyrir þessu máli og viljað fá frv. fram, þá hefði hann getað það miklu fyrr, meira að segja í nóvemberlok, þrátt fyrir það að ég væri honum ekki sammála og eitthvað stæði á mínu nál. En ég hygg og veit, að það sé einmitt ástæðan fyrir þessum drætti, að þann áhuga vantaði hjá hæstv. ráðh.

Hv. frsm. meiri hl. gat þess, að rangt væri að blanda Kaldaðarnesmálinu inn í þessar umr. En ég sé ekki, hvernig á að ræða þetta mál öðruvísi en að gera það, um svo skyld mál er þar að ræða. Hv. frsm. veit, að búið var að stofna drykkjumannahæli í Kaldaðarnesi, mjög sæmilegt í alla staði, og þótt nú verði byggt annað mun dýrara á Úlfarsá, þá verða því aldrei sköpuð jafngóð skilyrði til starfrækslu og hinu fyrra. Það er því augljóst, að ekki er hægt að ræða þetta mál öðruvísi en að fara inn á hitt einnig, sérstaklega þegar upplýst er í nál. meiri hl. allshn. á þskj. 653, að það er fyrir beinar aðgerðir hæstv. menntmrh., að málin eru svona komin. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Síðari hluta vetrar 1947 hófust samningaumleitanir við alþingismann Jörund Brynjólfsson, sem hafði lífstíðarábúð á Skálholti, um, að hann vegna þarfa hins fyrirhugaða skóla sleppti ábúðinni að öllu eða verulegu leyti. Jörundur tjáði sig fúsan að beygja sig fyrir þeim vilja, sem fram hefur komið, bæði á Alþingi og í héraði, að láta jörðina af hendi til skólans. En hann fór, eins og eðlilegt var, fram á það að fá fullar bætur fyrir eignir sínar á staðnum og ábúðarréttinn í því formi að fá annað jarðnæði í héraðinu, sem ríkið hefði yfir að ráða og hann gæti sætt sig við, svo og nokkurn stuðning vegna búferlaflutnings, auk annarra minni háttar atriða. Nú var ekki um margar jarðir að ræða austur þar, er ríkið hefur umráð yfir. Þó átti ríkið þar annað gamalt höfuðból, Kaldaðarnes í Flóa, sem hafði verið litt setið undanfarin ár og ekki var í ábúð að öðru leyti en því, að drykkjumannahæli hafði verið léð afnot af jörðinni um fjögurra ára skeið.“ Byrjunin á málinu er þá sem sagt sú, eins og þarna segir, að hv. 1. þm. Árn. fær augastað á Kaldaðarnesi og knýr það fram með aðstoð síns flokksráðherra, að drykkjumannahælið er lagt niður, til þess að hann geti komizt á jörðina. Svo er sagt. að þetta komi málinu ekkert við. Síðan segir áfram: „Tjáði nú Jörundur Brynjólfsson atvmrn., að þar sem hann sæi sig knúðan til að flytja frá Skálholti, þá væru þær jarðir í Árnessýslu, er hann gæti sætt sig við, allar í fastri ábúð, aðrar en Kaldaðarnes.“ Hér er ljóst, að skipulagt er af hæstv. ráðh. að leggja niður hælið í Kaldaðarnesi til þess að koma flokksmanni sínum á jörðina. „Út af þessu leitaði atvmrn. til menntmrn., sem hafði umráð Kaldaðarness, um, að Jörundur Brynjólfsson fengi ábúð jarðarinnar í stað ábúðar sinnar í Skálholti.“ Það er svo sem ekki faríð í grafgötur með þetta, ráðuneyti hæstv. atvmrh. fer fram á það við hæstv. menntmrh., að hann afhendi Jörundi þetta hæli, sem bundnar voru þær vonir við, að það mundi verða til þess að lækna mein þessara aumingja, og ekki stendur á hæstv. menntmrh. Síðan segir áfram í nál.: „Rétt þykir að minnast á í þessu sambandi, hvers vegna sú ákvörðun var tekin að hætta rekstri drykkjumannahælisins í Kaldaðarnesi. Þó að húsakynni væru þar fyrir 16–17 vistmenn, höfðu þeir aldrei orðið svo margir, miðað við ársdvöl. Samkvæmt því hefur tala þeirra orðið sem hér segir: Árið 1944 um 8 ársmenn.“ En það er einmitt það ár, þegar verið er að koma hælinu á fót. Þá eru 1946 6 vistmenn og 1947 eru þeir aðeins 4. Ég verð að segja, að ef þetta á að vera mynd af því, hve mikil nauðsyn er á að byggja hæli fyrir þessa sjúklinga, þá sé ég ekki, að þörf sé á húsi upp á 9 millj. kr. En sé það hins vegar svo, að ekki hafi allir komizt á hælið, sem þurftu, þá er þar um að ræða vítavert stjórnleysi, sem þarf að rannsaka og eigi láta koma fyrir aftur.

Nú er það vitað og upplýst í þessu máli, að meginorsök vandræðanna voru afskipti Helga Tómassonar og landlæknis, auk þess sem slitið var allt samband milli sjúklinganna og þeirra aðila, sem mesta fórnfýsi og áhuga höfðu sýnt, og vandamálin afhent aðilum, sem þóttust hafa vit á þeim og vilja til að leysa þau, en allt tór í handaskolum hjá. Það þurfti ekki langan tíma til að sjá, hvernig allt ætlaði hjá þeim að fara, og átti þá auðvitað að skipta um stjórn á hælinu hið fyrsta. Nú skilst mér, að till. frá meiri hl. n. gangi í þá átt að forðast það, að þessir menn stjórni þessum málum í framtíðinni. Ég er ekkert að lá þeim það, því að ég legg á það megináherzlu, að þeir menn verði ekki látnir stjórna þessum málum, sem hafa sýnt, að þeir gereyðileggja málið til óheilla fyrir þessa vesalinga og stórkostlegs tjóns fyrir ríkissjóð. Og þarna virðist mér, að hv. meðnm. mínir séu mér sammála. Þeir forðast að nefna Klepp í sambandi við þetta mál, og það hefur komið greinilega fram, bæði í framsöguræðu og í umr. í n., að það mætti ekki á einn eða annan hátt tengja þessa starfsemi við Klepp í framtíðinni vegna þess, sem skeð hafði áður. En þegar þetta er viðurkennt, þá hlýtur líka hitt að verða viðurkennt, að hér hefur verið stigið víxlspor. Það hefði átt að taka stjórn hælisins af þessum mönnum og setja starfsemina undir nýja menn og hafa hælið áfram á þeim stað, sem það var á áður, nema það hefði verið sannað, að staðurinn væri óheppilegur. En ég hef hvorki séð né heyrt, að hv. meðnm. mínir hafi gert tilraun til þess að halda því fram. Að vísu gat hv. 3. landsk. þm. um það, að hann teldi, að það væri ekki óeðlilegt, að gistihælið væri nálægt Reykjavík. En þetta er aðeins bergmál af skoðun þess manns, sem þessi hv. þm. er fjötraður við í hugsun og athöfnum. Landlæknir hefur haldið því fast fram, að þetta verði að vera svona, og hann getur ekki hugsað sér þá niðurlægingu, sem hann yrði fyrir, ef hv. meiri hl. n. hefði fallizt á mína skoðun á málinu. Það merkilega er, að hv. 3. landsk. þm. skiptir um skoðun í málinu, eftir að hann er búinn að tala við landlækni á fundum hjá n., og sjálfsagt oft þar fyrir utan. Og hann fellur að mörgu leyti frá sínum till. og breytir þeim, eins og landlæknir og hæstv. ráðh. óska eftir, að þeim sé breytt. Hann er kominn á allt aðra skoðun síðustu dagana en hann hafði í upphafi, ýmist fyrir áhrif frá landlækni og kannske eftir beiðni frá ráðh., sem hefur þá bent hv. þm. á, að hér væru nú töluverðar andstæður, annars vegar framkoma hans í sambandi við þetta mál í Sþ., — þar sem hann flutti einhverja þá fáránlegustu ræðu, sem flutt hefur verið á Alþ., og leigði nokkra menn til þess að klappa fyrir sér á svölunum, — og hins vegar þær till., sem hann er að gefa út í þessu máli. Það er þess vegna engin furða, þó að hv. 3. landsk. þm. biðji um það í upphafi, að fyrir alla muni sé Kaldaðarnesmálinu ekki blandað í þetta mál. Ég ætla ekki að rifja upp sögu hv. þm. í þessu máli, en það er í fyrsta skipti, sem hann biður sér vægðar síðan hann kom á Alþ. (HV: Það er líka misskilningur.) Hv. þm. segir á þá leið: Fyrir alla muni takið þann bikar frá mér að ræða um Kaldaðarnesmálið í sambandi við afgreiðslu þessa frv. — Já, ég hef bent á það, að þessi skýrsla sýni, að það hefur ekki verið vöntun á hæli, sem um hefur verið að ræða, ekki á húsakynnum eða stað fyrir hæli, til þess að koma málinu í það horf, sem nú er hugsað að koma því í, heldur hefur verið vöntun á hæfni manna til þess að stjórna og vöntun á hæfni ráðh. til þess að stjórna þessum málum eins og honum bar að gera. Honum hlaut að vera ljóst, að ekki var hægt að láta málið ganga eins og hér hefur verið gert, svo að á tímabili voru vistmennirnir aðeins 1 eða 2 og jafnvel stundum enginn. Ég verð að segja það, að það þarf ákaflega mikil persónuheilindi til þess af ráðh., sem hefur látið fara þannig stjórn á hæli ríkisins, að hann hefur látið það tæmast af sjúklingum, sem síðan eru látnir liggja hér nótt og dag, ýmist í kjallaranum hjá lögreglunni, á götunni eða niður við höfn, — ekki færri en 40 menn, — þjóðinni til smánar og þeim sjálfum til armæðu, að hann skuli svo gefa þessa stofnun og leggja svo til sama árið, að byrjað verði á 9 millj. kr. byggingu, til þess svo sjálfsagt að láta fara alveg eins með þann rekstur. Ég er undrandi yfir því, að hv. 3. landsk. þm. skuli hafa látið blekkja sig í þessu máli, sem ég veit, að honum er hjartfólgið og hann vill koma á réttan rekspöl. Ég er undrandi yfir því, að hann skuli ekki nota samúð sína með þessum vesalingum til þess að knýja fram réttlátari og skynsamlegri úrbót á þessum málum en hann fer hér fram á. Hér er sagt, að kostnaður við heimilishaldið yfir þennan tíma hafi numið á 6. hundrað þús. kr. Vill nú hv. 3. landsk. þm., sem er frsm. málsins hér, og hv. meiri hl. n. sameiginlega bera ábyrgð á því, að hið nýja hæli, sem á nú að setja á stofn og kosta á allt að 9 millj. kr., verði stofnsett undir stjórn þessara sömu manna og kostnaðurinn við það komi til með að verða eins mikill og við hitt hælið? Hvaða tryggingu hafa menn fyrir því, að hægt sé að halda sjúklingum á þessu nýja hæli, nema því aðeins að reglugerð hælisins sé allt önnur en var, þegar Kaldaðarneshælið var rekið? Og hversu miklu skynsamlegra var að breyta reglugerð Kaldaðarnesshælisins og starfsaðferðum þar og láta það hæli standa, spara með því 9 millj. kr. og lækka kostnaðinn við það hæll niður í það, sem eðlilegt var. Það er sannarlega ekkert það í till. hv. meiri hl. n., sem getur fyrirbyggt það, að svona hneyksli geti komið fyrir aftur. Að vísu reynir hv. meiri hl. að fyrirbyggja það, að Helgi Tómasson og landlæknir komi nálægt þessu starfi, en það er sannarlega ekki fyrirbyggt með till., eins og þær eru, því að þótt þær yrðu samþ., þá er það enn á valdi ráðh., að skipa þá menn til að hafa yfirstjórn yfir þessu nýja hæli, sem hugsað er að byggja. Hvernig getur nú hæstv. menntmrh., eftir að hafa fengið svona skýrslu, komið til Alþ. án þess að roðna og beðið um 9 millj. kr. til þess að byggja hæli undir slíkri stjórn og með slíkum árangri, sem þarna varð? Svo er sagt hér síðar, í nál., með leyfi hæstv. forseta: „Hins vegar mun árangurinn af hælisvistinni fyrir sjúklingana hvað lækningu áhrærir ekki hafa orðið mikill, og læknir hælisins taldi það ekki vel í sveit sett, þar sem eftirlitslæknirinn, sem búsettur var í Reykjavík, þyrfti að hafa nákvæmt eftirlit með sjúklingunum.“ Hér er það gefið upp sem aðalástæðan fyrir því, hvernig þetta mál er komið, að lækninum á Kleppi, en hann hafði eftirlit með hælinu, — þótti of langt að fara frá Reykjavík til Kaldaðarness til að líta eftir mönnunum. Það er sannleikurinn í málinu, og það er aðalástæðan fyrir þessum sorglega árangri, að menntmrh. setur ekki sérstakan lækni yfir þessa menn. Sá læknir hefði að vísu kostað ríkissjóð a.m.k. 30 þús. kr. í laun yfir árið og það hefði kannske orðið að byggja yfir hann í framtíðinni, en hann hefði kannske sparað ríkissjóði mikið fé á rekstri hælisins. Ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að benda á þann rekstur, sem átt hefur sér stað í sambandi við Reykjalund. Þar var settur læknir með fullum launum á sínum tíma, og þótti mörgum þá það vera mikil ofrausn. Þá var talið, að héraðslæknirinn á Álafossi gæti haft umsjón með öllu á Reykjalundi. Ég vil nú spyrja: Hver hefði orðið árangurinn í dag af starfinu í Reykjalundi, ef héraðslæknirinn hefði átt að gegna því, eins og Helgi Tómasson eftirlitsstarfinu í Kaldaðarnesi? Ætli árangurinn hefði ekki orðið eitthvað svipaður? En einmitt fyrir það, að þessi læknir er skipaður að Reykjalundi, hefur orðið sá prýðilegi árangur af því starfi, og vegna þess, að sá læknir hefur gert það að lífsstarfi sínu að bjarga því, sem bjargað verður. Og þetta hefði læknirinn þurft að gera, sem tók að sér sjúklingana í Kaldaðarnesi. Hv. n. mun komast að raun um það, að verði þeim málum ekki skipað þannig í framtíðinni, að sá læknir, sem á að hafa yfirumsjón og eftirlit með hæli fyrir drykkjusjúka menn, vilji gera það að lífsstarfi sínu, þá næst enginn árangur af þessu verki. Ef sú leið hefði verið farin í upphafi, þá var enginn staður heppilegri en Kaldaðarnes, enda var það viðurkennt af Alfred Gíslasyni lækni, stórtemplar og þáverandi heilbr.- og félmrh., Finni Jónssyni. Hann lýsti því yfir, eftir að leitað hafði verið að stað fyrir hælið um Borgarfjarðarsýslu og Snæfellsnes og austur um sýslur, að enginn staður væri til að áliti þessara manna, sem gæti komið eins vel til greina og Kaldaðarnes. Það hefur aðeins einn maður reynt að hrekja þetta, dr. Helgi Tómasson, og það var eingöngu byggt á þeim rökum, að hann hefði ekki haft tíma til þess að stunda mennina frá sínu starfi á Kleppi, og enn fremur, að hann teldi, að vistheimilið ætti að vera nálægt Reykjavík eða á þeim stað, þar sem hann gæti haft daglegt eftirlit með sjúklingunum. Ég skal á engan hátt mótmæla því, enda byggi ég mínar till. á þeim grundvelli, að það sé alveg nauðsynlegt að skipta þessu hæll í tvær deildir, vistheimili og heimili til langdvalar, lækningahæli, en ég mótmæli því algerlega, að það sé ekki bæði rétt og sjálfsagt að hafa þessar stofnanir sameiginlegar, og það var nægilegt landrými í Kaldaðarnesi til þess að hafa báðar þessar stofnanir þar, og svo mátti hafa einn lækni yfir báðum þessum stofnunum. Það er alveg áreiðanlegt, að ég er ekki einn um þá skoðun, að eina vonin til þess, að þessi tilraun geti tekizt, að lækna þessa menn á þann hátt, sem hér er ætlazt til, er sú, að þeir finni það sjálfir, að þeir séu þátttakendur í einhverri uppbyggingu, og það gátu þeir miklu betur fundið í sambandi við þá starfrækslu, sem hægt var að hafa í Kaldaðarnesi, heldur en þó að þeir væru einangraðir hér einhvers staðar nálægt Reykjavík. Það var ekkert því til fyrirstöðu, að þessir menn hefðu getað skapað sér og sínum fjölskyldum góð lífsskilyrði í sambandi við Kaldaðarneshælið, eins og sjúklingarnir í Reykjalundi hafa skapað sér og sínum fjölskyldum sæmilega afkomu. Og sú litla reynsla, sem fékkst af Kaldaðarnesinu, áður en starfrækslan kom í hendur menntmrh., sem lét þetta, líklega af ásettu ráði, fara í hundana, benti til þess, að mjög miklar vonir væru bundnar við hælið þar, m.a. í sambandi við iðnað, sem þar væri hægt að reka. Svo segir hér í nál., með leyfi hæstv. forseta: „Þar sem ástæður allar voru eins og hér er lýst, taldi heilbrmrn. réttara að flytja starfrækslu þessa burt af jörðinni, áður en í hana væri sökkt meiri fjármunum en orðið var, en bjarga þeim verðmætum úr henni, sem kostur væri á, til þess að koma sams konar starfsemi upp á öðrum stað, sem hentugri þætti að dómi sérfróðra manna.“ Nú var búinn að ganga dómur sérfróðra manna um, að annar staður væri ekki hentugri til. Þetta er alveg röng lýsing. Hér er ekki að tala um, að menntmrn. þætti heppilegt að flytja þessa starfsemi burt, hún hefur verið lögð niður og ekki tekin upp aftur. Eða vill hv. 3. landsk. þm. halda því fram, að þessi starfræksla hafi verið flutt? Vill hann benda á, hvar hún fari fram? Og vill hann benda á, hvernig þessum verðmætum hefur verið bjargað? Nei, verðmætin voru orðin að engu, starfrækslan lögð niður og sjúklingarnir reknir út á götuna og í kjallarann á hverju kvöldi. Svo segir hv. 3. landsk. þm., að þetta komi málinu ekkert við. Það er einkennilegur hugsanagangur. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Hafa sérfróðir menn ákveðið stað, annan en Úlfarsá, og er Úlfarsá betri en Kaldaðarnes? Eða er þetta mál enn þá óathugað? Það er sannleikurinn í málinu. Það eru pólitískir loddarar, sem hafa ákveðið þetta svona, en ekki sérfræðingar í taugasjúkdómum eða ofdrykkjusýki. Ég skal ekki segja um það, hvort hægt er að hafa áhrif á það, að sá staður verði ekki valinn, en það er ekki þeim mönnum að þakka, sem hér eru að verki. Nú væri ákaflega fróðlegt að fá að heyra það frá hv. 3. landsk. þm., sem sjálfsagt hefur rætt þetta mjög við landlækni og alla aðila sem frsm. meiri hl., hvaða ráðstafanir eru hugsaðar um það, hvar hælið eigi að vera, hvernig þetta er allt hugsað og hvaða menn eiga að ráða yfir þessum hælum, hvaða sérfræðingar hafa gert till. um þessi efni og hverjar þær eru. Þetta kemur kannske málinu ekkert við, þó að eigi að samþ. hér 9 millj. kr. hæli. Enn segir í nál.: „Menntmrn. samþ. því þessa ráðstöfun með bréfi, dags. 28. ágúst 1947, og segir þar m.a.: Eftir viðtöku bréfs landbrn., dags. 18. apríl þ. á., þar sem spurzt er fyrir um, hvort þetta ráðun. sjái sér ekki fært að flytja drykkjumannahælið burt frá Kaldaðarnesi, þar sem landbrn. hefur augastað á þeirri jörð til annarra nota.“ Þarna getið þið séð. Það er landbrn., sem spyrst fyrir um það, hvort ekki sé fært að flytja í burtu sjúklingana og hælið frá Kaldaðarnesi. Það er sannarlega ekki menntmrn., sem hefur átt upptökin í því að finna annan heppilegri stað. Það er landbrn., sem spyrst fyrir um það, og til hvers? Til þess að geta ráðstafað eigninni, eins og ég hef þegar lýst. Landbrn. hafði augastað á þessari jörð til annarra nota. Til hvaða nota? Hv. 3. landsk. þm. er kunnugt um það. Og svo heldur hann því fram, að þetta komi ekki málinu við. Svo les ég áfram: „tekur ráðuneytið fram, að það hafi ekki tök á því að flytja drykkjumannahælið frá Kaldaðarnesi eins og sakir standa, en hins vegar hefur þetta ráðun. ekkert á móti því, að landbrn. ráðstafi jörðinni ásamt því, sem henni fylgir, til búskapar, enda fái drykkjumannahælið að vera áfram fyrst um sinn, unz aðrar ráðstafanir verði gerðar.“ Þarna hafið þið alla söguna. Sagan er þá þessi: Það er tekin upp barátta fyrir einn hv. þm. Framsfl. til þess að láta hann eignast jörðina, sem ríkið hefur lagt 2 millj. kr. í fyrir aumustu vesalingana í landinu til að reyna að bjarga þeim. Og það tekst að leggja hælið niður, láta ríkið verða fyrir milljónatjóni, koma vesalingunum út á gaddinn aftur og jörðinni í eigu þingmannsins. Þetta er það, sem hefur skeð. Og allt er þetta skipulagt fyrir fram, en ekki af menntmrh., heldur er honum fyrirskipað af landbrn. að hlíta þessu. Það er dagskipun, kannske frá Framsfl., og hæstv. menntmrh. beygir sig undir hana viljugur eða nauðugur. Svona hefur verið farið með þetta mál, og svo segir hv. 3. landsk. þm., að það sé hreinasta hneyksli að draga. Kaldaðarnesmálið inn í þessar umr. Svo kemur hér, með leyfi hæstv. forseta: „Að fengnu þessu samþykki menntmrn. var Jörundi Brynjólfssyni byggt Kaldaðarnes,“ o.s.frv. Þá getur maður séð, hvort menntmrh. hefði ekki getað fyrirbyggt þetta hneyksli, ef hann hefði metið meira hag og líðan vesalinganna en þm. Ég skal nú ekki fara frekar út í þetta atriði, vegna þess að allar upplýsingar í þessu merkilega áliti staðfesta að fullu og öllu allt, sem ég hef sagt fyrr og síðar um þetta mál. Jafnvel hver króna og hver eyrir staðfestir það, sem ég hef sagt, en þennan þátt var sjálfsagt að rekja hér í sambandi við frv., eins og það liggur fyrir.

Eitt af því, sem er merkilegt í meðferð þessa máls, eftir að það kemur í heilbr.- og félmn. undir stjórn hv. 1. þm. N-M., sem hefur dansað eftir pípu hæstv. ráðh. í þessu máli, — er það, að aðeins á einn fund eru til kallaðir tveir menn til viðræðna um málið, dr. Helgi Tómasson og landlæknir, sem báðir voru skemmdarvargarnir í þessu máli. Og engir menn aðrir hafa verið kvaddir til viðtals né leitað álits annarra manna. Það var ekki verið að leita álits þeirra manna, sem hafa fórnað bæði tíma og fé til þess að bjarga þessum vesalingum, og ekki þeirra, sem höfðu byggt upp þessa stofnun og komið henni í það horf, sem hún var í, áður en þessi ráðh. tók við til þess að leggja hana niður. Þessir menn létu sér ekki detta í hug menn úr stórstúku Íslands eða þá menn, sem höfðu með þessi mál að gera undanfarin ár. Þeir máttu heldur ekki koma nærri málinu. Dr. Helgi Tómasson og landlæknir voru kallaðir til þess að segja sitt álit um þessi mál, og ég geri ráð fyrir, að hv. frsm. hafi átt miklar viðræður við þá menn utan funda. Hv. 3. landsk. þm. hefur látið einhvern hafa áhrif á sig í þá átt að gerbreyta sínum till. Þrátt fyrir öll þau mistök, sem hafa orðið í þessu máli í sambandi við hælið í Kaldaðarnesi, er ég sammála hv. frsm. um það, ef hann hefur átt við það í sinni ræðu, að það beri að vinna að því að endurbæta málið fyrir framtíðina. Þá er líka fyrst og fremst að varast voðann, sem varð þessu máli að fjörtjóni, og það er það, sem ég vil gera. En þetta vill hv. meiri hl. ekki gera. Hann vill ekki læra af reynslunni og varast þann voða, sem enn er á leið þessa máls, og þar greinir okkur á. Þess vegna gat ég ekki á neinn hátt fylgt meiri hl. n. og skal nú skýra það, hvað ég tel meginatriði í þessu efni. Og í 2. og 3. gr. er það meginhugsunin, að það skuli farið með þessa menn á fyrsta stigi eins og lögbrjóta og glæpamenn, og því er ég mótfallinn. Ég tel það mikinn kjarna þessa máls, að það sé meginskilyrðið fyrir því, að það sé hægt að bæta úr þessum vandræðum, sem að steðja í þessum efnum, að það sé horfið frá þessari reglu og frá meðferð mannanna á þennan veg, að hér sé farið með þessa menn sem slíka. Mér var alveg ljóst, að hv. 3. landsk. var mér sammála um þetta atriði í n. Og mér er líka ljóst, að hv. 4. landsk. var mér líka sammála um þetta atriði. Hins vegar lýsti hann því yfir síðar, að jafnvel þótt þessu fengist ekki breytt í frv. nú, vildi hann heldur vera með frv. með þeim breyt., sem þó væri hægt að gera á því með till. meiri hl. n., heldur en að málið gengi ekki fram, því að hann taldi víst, að mínar till. mundu mæta svo mikilli andúð, að frv. næði ekki fram að ganga með þeim samþ. við það. Og þær mættu andúð hæstv. menntmrh., sem lýsti yfir, að hann vildi ekki taka við frv., ef þær brtt. yrðu samþ. Og þá getur maður séð, hve mikil er alvara hans í málinu. Hann vill þá alls ekki láta byrja á því, eftir því sem hv. form. n. tjáði, að skoða þessa menn á fyrsta stigi sem sjúklinga, en ekki sem glæpamenn. Það á fyrst af öllu að brennimerkja þá menn sem glæpamenn, í stað þess að fara með þá sem sjúklinga, veikja viðnámsþrótt þessara manna. — Ég hef nokkuð kynnzt þessum málum. Og ég get ekki annað en sagt hér frá tveimur atvikum í sambandi við starf lögreglunnar hér í Reykjavík gagnvart þessum mönnum á fyrsta stigi. Það voru þrjár stúlkur, sem voru í samleið úr boði kl. 3 að nóttu, sem stöðvuðu bíl sinn við Austurvöll fyrir framan Morgunblaðið til þess að fá sér blað, áður en þær færu heim, er að þeim kemur lögregluþjónn og 16 ára drukkinn piltur á fyrsta stigi, vel búinn frá ágætu heimili. Lögregluþjónninn þrífur upp hurðina á bílnum hjá stúlkunum og krefst þess að fá að taka bílinn til þess að flytja þennan drukkna mann — þennan glæpamann, sem sumir virðast vilja kalla — í kjallarann. Þær svöruðu hógværar, að þetta væri þeirra eigin bíll. Lögregluþjónninn sýndi sitt vald og sagði: Ég hef vald til þess að taka hvert ökutæki, sem er, til þess að flytja slíka afbrotamenn í kjallarann. Og hann tók bílinn, til þess að flytja þennan unga mann beina leið inn í kjallarann, sem grátbað um það í áheyrn þessara kvenna, að hann yrði fluttur heim til sín. Vill nú hæstv. ráðh. telja, að þessi meðferð sé rétt? Manninum var sparkað inn í kjallarann. Rifin var af honum svo að segja hver spjör og svo sparkað inn og honum haldið þar alla nóttina. Telja þessir menn, að þetta sé leiðin til þess, að sá árangur náist, sem hér á að ná með því að kasta um það bil 9 millj. kr. í þetta hæli, sem hér er talað um? Ég segi: Þessa meðferð á fyrst að laga. Ef mínar till. hefðu verið samþ. og komizt í lög, þá hefði verið farið fyrst með þennan ungling, sem ég gat um, ekki í kjallarann og ekki undir þessari meðferð, heldur beint á sjúkrahús. (HV: Hver hefði átt að annast þann flutning?) En það stendur í minni till., að bannað sé að misþyrma slíkum mönnum. Og ég sé ekki, hvaða rétt nokkur lögregluþjónn hefur til þess að misþyrma slíkum sjúkling frekar en ef hann væri t.d. flogaveikur eða veikur á annan hátt. En það skeður hér daglega, því miður, að lögregluþjónarnir fara þannig með þessa menn, og það á að staðfesta með þessum lögum. Þeir eiga að fá að halda áfram að fara svona með þá. Því er ég á móti. — Ég vil nefna hitt dæmið. Tveir átján ára piltar sátu hér á kaffihúsi kl.: 11 að kvöldi og höfðu aldrei smakkað vín á ævi sinni. Þar sat einnig drukkinn maður. Hringt var eftir lögreglunni til að taka drukkna manninn. Hún kom, en lét sér ekki nægja það, heldur var að því komin að taka hina piltana líka, sem aldrei höfðu vín smakkað. Og það var af heppni fyrir þessa ódrukknu tvo pilta, að annar betri lögregluþjónn kom þar, svo að þeir fengu ekki sams konar meðferð og sá maður, sem ég var að lýsa hér áðan. Það er þetta, sem ég vil láta fyrirbyggja, að geti komið fyrir. Ég tel það grundvallaratriði, að á fyrsta stigi sé farið með þessa menn sem sjúklinga, þeim sé sýnd öll meðlíðun, en ekki sé byrjað á því að stimpla þá sem glæpamenn. Þessir menn hafa ekki fengið neinn dóm, og ég skil ekki, hvernig það er þolað í þessari höfuðborg, hvernig farið er með þessa menn, eins og farið er með þá nótt eftir nótt. Það er smán á höfuðborginni, að haldið er við annarri eins svínastíu eins og þessum kjallara. Hitt er kannske ekki minni smán, hvernig meðferðin er á þessum mönnum, sem þar eru látnir inn. Og sú meðferð var þar á einum manni, að hann kaus heldur að koma ekki út lifandi en að láta þá meðferð endurtaka sig. — Ég legg því til vegna þess ágreinings, sem er á milli mín og. annarra hv. nm. um meðferð þessara manna á fyrsta stigi, að 1. gr. sé orðuð þannig:

„Menn þá, konur sem karla, sem ölvaðir eru. á almannafæri, á samkomustöðum eða á heimilum og raska ró manna, gera árásir á aðra eða valda óspektum með drykkjulátum, skal flytja í sjúkrahús, sem hefur tök á að veita slíkum sjúklingum viðtöku. Það er borgaraleg skylda að aðstoða við slíka flutninga.“

Nú hefur hv. frsm. haldið fram, að þessi fyrirmæli séu svo víðtæk, að það væri ekki undir nokkrum kringumstæðum hægt að uppfylla þetta ákvæði, það mundi til þess þurfa að byggja fjölda sjúkrahúsa. Svo gæti til borið, að heilar skipshafnir gætu verið fullar og þurft að taka úr umferð. En ég er til viðtals við hv. meiri hl. n., hvar eigi að takmarka þetta; hvort það eigi að orða þetta þannig „og raska ró manna og gera tjón“ í staðinn fyrir, að í brtt. er aðeins „og raska ró manna“. En ég vil ekki breyta því, að þessir menn séu skoðaðir sem sjúklingar, en ekki farið með þá sem glæpamenn.

2. brtt. mín er við 2. gr., um, að greinin orðist svo: „Ölvuðum mönnum, sem sæta meðferð samkv. 1. gr., skal hjúkra eins og hverjum öðrum sjúklingum, þar til af þeim er runnið. Varðar það sektum, nema þyngri refsing liggi við, að misþyrma þeim á einn eða annan hátt.“ — Nú vildi hv. frsm. mjög misskilja þá gr. og spurði, hvers vegna ætti að setja slíkt í lög, að það ætti ekki að misþyrma þessum mönnum, og hvort sjúklingum væri nokkurn tíma misþyrmt. Veit ekki hv. þm. það; að það er meiningin með þessu, að þeim mönnum, sem hér er um að ræða, á ekki að misþyrma á þann hátt sem þeim er misþyrmt daglega?.

Og það ætti að varða fangelsi, að þeir menn, sem taka að sér að verða lögregluþjónar, taki og að sér dómarastarf og böðulsstarf, því að það er ekki nóg með það, að þessir menn í lögregluþjónsstarfi taki að sér að dæma þessa ógæfusömu menn, þeir taka líka að sér að hegna þeim.

Í minni 3. brtt. legg ég til, að 3. gr. orðist þannig: „Læknir sá, sem hefur yfirumsjón með áfengissjúklingum samkv. 8. gr., skal svo fljótt sem verða má rannsaka heilsufar manna, sem sæta meðferð samkv.1. gr. Strax að lokinni rannsókn skal hann úrskurða: a. Hvort sjúklingi skuli leyfð brottför úr sjúkrahúsinu þegar í stað.“ — Maðurinn hefur verið tekinn sem sjúklingur í sjúkrahúsið til þess að vera settur undir rannsókn, og það er eðlilegt, að það skuli verða að úrskurða, hvort það, sem að honum gengur, er krónískur sjúkdómur, eða hann hefur orðið ölóður, án þess honum geri það frekar til. — „b. Hvort sjúklingi skuli haldið í sjúkrahúsinu og framkvæmdar á honum tilraunir, er verki gegn áfengislöngun, og hve lengi sú tilraun skuli gerð.“ — Ég veit ekki, hvað hv. 3. landsk. þm. sér á móti þessu. — Já, hæstv. ráðh. getur hlegið að þessu. Hans þáttur gagnvart þeim mönnum, sem þessi lög eiga að vera fyrir, er hinn svívirðilegasti sorgarleikur, sem leikinn hefur verið á Íslandi. (Menntmrh.: Ég var nú að hlæja að öðru. Er hv. þm. orðinn svona viðkvæmur?) Hann ætti frekar að roðna undir þessum umr. (Menntmrh.: Það ætti að framkvæma lækningartilraunir á hv. þm.) Velkomið. Því að sá hæstv. ráðh., sem leikið hefur þennan svívirðilega sorgarleik gegn þessum mönnum, er sannarlega eitthvað sjúkur á sálinni, að hann skuli geta hlegið að þessu. — Þriðji stafl., c-liður 3. brtt., er svo: „Hvort sjúklingur skuli fluttur á lækningahæli fyrir drykkjusjúka menn, á vistarheimili drykkjusjúkra manna eða á geðveikrahæli.“ — Þetta á að rannsaka strax á fyrsta stigi. Það mundi verða farið þannig með manninn, ef þetta væri sjúklingur. Ef maðurinn lægi t.d. á götunni, vegna þess að hann hefði fengið krampa, og gæti ekki verið sjálfbjarga, mundi hann vera fluttur á sjúkrahús til þess að rannsaka, hvað að honum gengi og hvort ætti að setja hann sérstaklega á sjúkrahús. En það er ekki nokkur leið að fá þessa skýrgreiningu viðurkennda af hv. 3. landsk. þm. Og þar í liggur meinið. Þrátt fyrir það að hann hafði djúpa samúð með þessum mönnum, vil] hann ekki falla frá því, að farið sé með þessa menn á fyrsta stigi eins og þá menn, sem bornir eru sökum, og brennimerkja þá sem slíka. Og þar skilur ákaflega mikið á milli okkar. — Síðan segir í 3. brtt. minni: „Verði því eigi við komið, að áfengislæknir rannsaki sjúklinginn og úrskurði ástand hans, skal þetta gert af yfirlækni þess sjúkrahúss, sem sjúklingurinn var fluttur á.“ — Það gæti vel komið til mála, að þetta kæmi fyrir þar, sem enginn áfengislæknir væri fyrir hendi, og þá ætti ekki að vera vandi fyrir hvaða lækni sem er að úrskurða slíkt. — „Þeim úrskurði má þó áfrýja til áfengislæknis, sem þá framkvæmir á ný rannsókn og fellir úrskurð um sjúklinginn að henni lokinni samkv. ákvæðum þessarar greinar.“ — Þetta var eitt af því, sem hv. frsm. meiri hl. n. taldi svo þunglamalegt og eiginlega alveg óframkvæmanlegt. En finnst þá hv. frsm. meiri hl. n., að rétta meðferðin á þessum málum sé, að einhver einn læknir megi úrskurða þetta, án þess að viðkomandi aðili hafi áfrýjunarrétt? Ef um smitandi sjúkdóm væri að ræða, — og hér er um smitandi sjúkdóm að ræða, — þá veit ég ekki annað en að hægt sé að úrskurða t.d. berklasjúklinga á hæli og holdsveikissjúklinga. En ef sjúklingur gæti sannað, að slík smitandi veiki væri ekki að honum, gæti hann komizt hjá því að vera þar svo og svo langan tíma. En heldur en þetta, sem ég legg til í þessu efni, vill hæstv. menntmrh. enn láta vera á þessum drykkjusjúku mönnum og mönnum, sem ölvaðir gerast, þann stimpil, að þeir séu glæpamenn, og þeir séu brennimerktir af þjóðfélaginu, og láta fara með þá eins og viðkomandi lögregluþjónum sýnist. Og þar á ég ekki samleið með honum.

Ég legg til, að 4. gr. orðist svo: „Aðili, sem ekki vill hlíta úrskurði læknis, sem felldur er samkv. 3. gr., getur áfrýjað honum til nefndar samkv. 2. málsgr. þessarar greinar, og verður þeim úrskurði ekki áfrýjað. Hins vegar getur aðili krafizt rannsóknar á ný, ef veruleg breyting verður á heilsufari hans.“ — Þetta eru réttindi, sem ég vil tryggja þeim manni, sem farið er með á þennan hátt, sem hér er gert ráð fyrir, og ég tel sjálfsagt að tryggja og sjálfsagt, að maðurinn hafi fullan rétt til að notfæra sér, ef hann telur, að honum hafi verið misboðið. — „Ráðherra skipar 3 manna nefnd til þess að dæma um úrskurði, sem áfrýjað hefur verið samkv. ákvæðum 1. mgr. þessarar greinar. Skal nefndin skipuð einum lækni með sérþekkingu á drykkjusýki, einum sálfræðingi og einum dómara, og er hann formaður nefndarinnar.“ — Á þennan hátt tel ég, að það sé fullkomlega öruggt, að slíkur sjúklingur sé ekki beittur neinu ranglæti. — „Nefndin getur, ef nauðsynlegt er, leitað álits fleiri lækna, áður en hún fellir endanlegan úrskurð. Aðila skal heimilt að koma við vörn, áður en slíkur úrskurður er endanlega felldur. Eigi má draga lengur en 14 daga að fella úrskurð, sem skotið hefur verið þannig til nefndarinnar.“ — Það er m.a. ekki lítið atriði, hvort dæma má hér, eins og hugsað er eftir þessu frv. að gera, mann á geðveikrahæll. 4. gr. frv. er nú þannig, að það er ætlazt til þess, að sveitarfélög komi upp sjúkrahúsum til fullnægingar ákvæðum 1.–3. greinar. Og enda þótt til þess sé ætlaður ríkisstyrkur, þá á eftir frv. að fara um framkvæmd í sambandi við þau sjúkrahús samkv. ákvæðum laga um sjúkrahús frá 1933 og breyt. á þeim lögum. Ég gat heldur ekki fallizt á þetta ákvæði. Og það einkennilega í málinu er það, að hv. frsm. gat heldur ekki fallizt á þetta ákvæði í byrjun umræðnanna á fundinum í n. Hann áleit það þá vera fjarstæðu, að sveitarfélög ættu að bera nokkurn kostnað af þessu. Hann áleit þá rétt, að ríkið eitt ætti að sjá um þetta, sem hefur gróðann af áfengissölunni í landinu, nema hér í Reykjavík. En nú vill hann allt í einu fallast á, að sveitarfélögin, sem enga sök eiga á þessu ástandi, sem er í áfengismálunum, taki að sér að byggja helminginn af þessum sjúkrahúsum. (HV: Móttökustöðvarnar.) En hvers vegna eiga þau að bera kostnað við móttökustöðvarnar? Ég veit ekki betur en þessi hv. þm. síðast í nótt héldi langan fyrirlestur um það, hve þung byrði hvíldi á bæjunum þarna, ef þeir yrðu látnir bera kostnað af þessu. Vill hann nú láta leggja þessa byrði á viðkomandi sveitarfélag til þess að koma upp sérstökum sjúkrastöðvum í sambandi við þessa menn, sem hann telur, að hafi verið eyðilagðir af áfengisnautn, sem ríkið hefur tekjur af með sölu áfengisins? Hvers vegna lét hann hæstv. ráðh. kúga sig til þess að ganga inn á þetta? (HV: Hæstv. ráðh. hefur ekkert kúgað mig í þessu efni.) Einhver hefur orðið til þess. En hv. 3. landsk. á ekki létt með að láta sannfærast. Ef hann á að breyta um skoðun, þá þarf að kúga hann. Hann hefur aldrei breytt um skoðun í þingmáli nema með kúgun. (HV: Er það svo auðvelt?) Það hlýtur að hafa verið ákaflega sterkt afl, sem til þess hefur þurft að kúga þennan hv. þm. einmitt af þessari braut, sem ég gat um.

Ég legg til, að 5. gr., sem í frv. er, standi óbreytt, á meðan þeim lögum er ekki breytt. Ákvæði 1.–3. gr. raska ekki ákvæðum laga um viðurlög við ölvunarbrotum. Og það er eðlilegt, að ég legg þetta til, þegar ég legg til breyt. á hinum þremur fyrstu greinum frv. Og þegar 4. gr. orðast á þann hátt, sem ég hef lýst í minni till., þá fellur þessi 4. gr. niður, sem er í frv., ef mínar brtt. eru samþykktar. Þess vegna geri ég till. um, að 6. gr. orðist um og að þar séu tekin upp meginatriði 4. gr., og 6. gr. orðist þannig: „Kostnað af meðferð ölvaðra manna samkv. ákvæðum 1.–3. gr. skal greiða úr ríkissjóði.“ Ég tel þetta sjálfsagt ákvæði. Og ég skil ekki, hvernig nokkrum manni dettur annað í hug. Það er vitað, að allar tekjurnar af áfengissölunni hefur ríkissjóður, en öll óþægindin hafa sveitarfélögin haft. Og það er sannarlega nægilega þungur skattur lagður á sveitarfélögin í þessu efni, að með áfengissölu sé verið að eyðileggja svo og svo mörg mannslíf og svo og svo mikið vinnuafl frá þeim, þó að þeim sé ekki gert að skyldu að setja upp móttökustöðvar eða sjúkrahús vegna þessara manna, eftir að búið er að eyðileggja þá á því að greiða þennan þokkalega skatt á þennan hátt í ríkissjóðinn. — „Þó skulu þeir, sem sleppt er úr sjúkrahúsi þegar að lokinni rannsókn, sbr. 1. tölulið 3. gr., greiða að fullu allan kostnað við flutning, sjúkravist og rannsókn.“ — Þetta þótti hv. frsm. meiri hl. n. hreinasta hneyksli, að ef það kæmi í ljós, að maður, sem tekinn er drukkinn á götunni eða hefur haft óspektir vegna ölvunar í frammi eða á annan hátt gerzt sekur um að valda truflunum vegna drykkjuskapar, svo að með hann hafi fyrir það verið farið á sjúkrahús, að hann skuli þá eiga að greiða kostnaðinn af þessu, sem hér um ræðir. (HV: Ef hann er tekinn að ófyrirsynju.) Nei. Hann er tekinn af því, að hann hefur í frammi eitthvað, sem menn eru teknir fyrir alveg eins ódrukknir. En ef úrskurðað er af lækni, að ekkert sé að þessum manni, nema hann hafi drukkið áfengi, engin drykkjusýki og engin tilhneiging til drykkjusýki, hver ætti þá að borga þennan kostnað annar en viðkomandi maður sjálfur? Mér þykir landlæknirinn hafa ruglað heila hv. frsm. einkennilega, ef hv. frsm. getur ekki skilið þetta atriði, svo ljóst sem það þó er. Ákvæði 6. gr., er varða kostnaðinn í þessum efnum, eru tekin upp í minni brtt., og þarf því sú gr. ekki að standa þeirra vegna. — Í brtt. hv. meiri hl. n. er gert ráð fyrir nokkrum breyt. á 4. gr. frv., sem sé að hún verði þannig: „Sveitarfélög, sem koma upp sjúkrahúsum eða sjúkrahúsdeildum til fullnægingar ákvæðum 1.–3. gr., njóta til þess ríkisstyrks samkv. ákvæðum laga nr. 30 19. júní 1933, um sjúkrahús o. fl.“ — Þetta er ekki mikil breyt. Í frv. er ákveðið, að ríkissjóður greiði helminginn, samkv. því, sem áður var, 3/5 í sveitum, en helming í bæjum, svo að ég sé ekki, að þessi breyt. sé svo mikil, að það skipti nokkru máli, hvort hún er samþ. svona.

Síðan er aðalágreiningurinn, fyrst og fremst milli mín og meiri hl. n. og svo milli hv. n. og hæstv. ráðh., um 8. gr. Þar leggur hv. meiri hl. n. til, að yfirumsjón með gæzlu drykkjusjúkra manna þeim til umönnunar og lækningar samkv. ákvæðum þessara laga hafi sérfræðingur í taugasjúkdómum, er heilbrmrh. skipar, og skuli hann taka laun samkv. V. launaflokki launalaga. — „Sérfræðingur þessi er hér eftir í lögum þessum nefndur yfirlæknir; segir í brtt. n. Og svo áfram: „Svo fljótt sem verða má, skal ríkið reisa og reka gæzluvistarhæli fyrir drykkjusjúka menn, er fyrst og fremst sé miðað við þarfir þeirra sjúklinga, sem ætla má, að eigi sér sæmilegar batahorfur.“ — Nú verð ég að spyrja: Er það nú svo augljóst, að á fyrsta stigi sé hægt að ákveða um það, hverjir slíkir sjúklingar eigi sér sæmilegar batahorfur, þannig að augljóst sé, á hvort hælið þeir eigi að fara? En ég tel eðlilegt, að þessar tvær greinar séu undir sömu stjórn, þannig að auðvelt sé á hverjum tíma að færa sjúklingana á milli þessara deilda eftir því, hvernig heilsa þeirra er á hverjum tíma. Síðan stendur í brtt. n.: „Á sama hátt skal ríkið reisa og reka dvalarhæli fyrir drykkjusjúka menn, er fyrst og fremst sé miðað við þarfir þeirra sjúklinga, sem ætla má, að þarfnist vistar og umönnunar í slíku hæli í langan tíma. Eftir athugun yfirlæknis skal áfengissjúklingum, að svo miklu leyti sem við verður komið, ráðstafað í gæzluvist á þeim hælum, sem fyrir hendi eru, og skipt á hælin eftir því, hvers eðlis drykkjusýki þeirra er og hversu þeir eiga saman.“ — Finnst ekki hv. frsm. meiri hl. n., að þó að þetta væri samþ., eins og hann leggur til, að það væri miklu eðlilegra í framkvæmd og ódýrara að hafa þessi hæli svo nátengd hvort öðru, að hægt væri auðveldlega að færa sjúklinga á milli þeirra? (HV: Hafa hve langt á milli?) T.d. að hafa það allt í Kaldaðarnesi. Kaldaðarnesjörðin öll er það stór, að þar væri hægt að hafa þetta allt, án þess að þar væri hvert hælið niðri í öðru. Hv. þm. vill kannske reikna, hve mörg gæzluvistarhæli eigi eða þurfi að byggja, ef ekki á að hafa fleiri en svo sem átta sjúklinga í hverju þeirra, eins og mér skilst, að sé meiningin, og taka ekki neinn inn í hælið í viðbót fyrr en sá síðasti af þessum átta er fulllæknaður og útskrifaður af hælinu. Mér skilst, að það þyrfti þá að reisa fimm slík hæli, ef þau vísindi dr. Helga Tómassonar eru rétt, að ekki megi undir neinum kringumstæðum taka inn mann á hælið eða fækka þeim þar, nema láta þá fara alla út í einu. Þetta er einkennileg „teóría“. Það má ekki taka fleiri en átta menn og þá á að taka inn samtímis, og enginn fær að fara fyrr en öllum er batnað. Meginskilyrðið er að taka átta menn, og þeir fá ekki að fara fyrr en hann er búinn að gera vísindalegar rannsóknir á þeim. Ef ekki er búið að lækna þá eftir 5–8 mánuði, hvað þá? Og á meðan bíða allir hinir í Hafnarstræti. Það getur hver láð mér sem vill, þó að ég gengi ekki inn á slíka „teóríu“. — „Á sama hátt ráðstafar yfirlæknir slíkum sjúklingum þeim til viðréttingar í gæzluvist á völdum einkaheimilum, eftir því sem á hverjum tíma telst henta“. Þetta er einhver fáránlegasta till. Að hugsa sér að ætla að ráðstafa þessum mönnum til vistar, taka af þeim allt vald eins og skepnum eða börnum, því að það er ekki farið með þá eins og sjúklinga, og síðan á að ráða ármenn eða árkonur eftir þörfum til þess að gæta þeirra. Og hvað ætli kostnaðurinn verði? Fyrst þarf að sjá fyrir nægilega mörgum átta manna heimilum, síðan á að dreifa sjúklingunum á einkaheimili og setja kannske ármann með hverjum. Ég held, að þeir, sem leggja slíkar till. fram, hljóti að sjá eitthvað „kalkað“. Ég skil ekki, hvernig þeir hafa hugsað sér, að takmarkinu verði náð á þennan hátt. „Yfirlæknir, eða aðrir læknar í umboði hans, skulu hafa á hendi lækniseftirlit með sjúklingum, sem ráðstafað hefur verið í gæziuvist samkv. ákvæðum þessarar greinar“. Segjum, að einum hafi verið ráðstafað í Grímsey. Það verður ekki lítill kostnaður, þegar læknir frá Akureyri eða Húsavík þarf að fara til að líta eftir honum. Eða segjum, að einum verði ráðstafað í Grunnavíkurhreppi, í kjördæmi hv. 3. landsk. Þar hefur ekki fengizt læknir í tvö héruð þó. nokkur undanfarin ár. Ef þangað yrði sendur sjúklingur og ármaður, þyrfti því sennilega að senda lækni frá Ísafirði til eftirlitsins. En það á kannske að ráðstafa sjúklingunum á einkaheimili í margbýlinu? Það verður ekkert smáræði, sem þetta kerfi kemur til að kosta, það er óhætt að fullyrða það. — „Sérstakt eftirlit skal haft með aðbúnaði, atlæti, líðan og framferði sjúklinga, sem ráðstafað hefur verið í gæsluvist á einkaheimilum, og ræður yfirlæknir til þess ármenn eða árkonur eftir þörfum“. Hvað skyldi þurfa að greiða slíkum ármanni í laun? Ætli það verði ekki um 20 þús. kr.? Hann kannske fengist til að gera eitthvað annað líka, en hann fæst ekki fyrir ekki neitt. Það eru ekki margir, sem leggja vilja á sig erfiði endurgjaldslaust. Það sá maður bezt í sambandi við endurbætur á póstferðunum, er menn vildu ekki sækja póstinn til næsta bæjar.

Í 8. gr., eins og hún er nú, stendur: „Geðveikrahælið á Kleppi hefur með höndum yfirumsjón með gæzlu drykkjusjúkra manna þeim til umönnunar og lækningar samkvæmt ákvæðum laga þessara“. Nú vil ég spyrja hv. frsm. og hv. form. n.: Hvar er það fyrirbyggt í till. n., að menntmrh. skipi ekki yfirlækni geðveikrahælisins á Kleppi til þess að veita þessum málum forstöðu? Ef hann fullnægir þeim skilyrðum, sem sett eru, sé ég ekki betur en hægt sé að skipa hann. Og það er væntanlega ekki ætlunin, að yfirlæknir verði við hvert átta manna heimili. Í framkvæmd verður þetta þannig, að menntmrh. biður Helga Tómasson að vera yfirlæknir. Brtt. er bara til þess að gera málið aðgengilegra fyrir þá, sem ekki vilja að Helgi Tómasson komi hér nærri. — Svo stendur í 8. gr., eins og hún er nú: „Á kostnað ríkisins skal reisa og reka í sambandi við geðveikrahælið og í hæfilegri nálægð þess gæzluvistarhæli fyrir drykkjusjúka menn, er fyrst og fremst sé miðað við þarfir þeirra sjúklinga, sem ætla má, að eigi sér sæmilegar batahorfur“. Ég sé ekki, að mikill munur sé á þessu og till. n. Mér finnst eins hægt að samþ. 8. gr. eins og hún er hér. Að vísu er þar sagt: „Nú vilja sveitarfélög, eitt eða fleiri saman, reisa og reka á sinn kostnað gæzluvistarhæli fyrir drykkjusjúka menn, er fyrst og fremst sé miðað við þarfir þeirra sjúklinga, sem ætla má, að þarfnist vistar og umönnunar í slíku hæli í langan tíma...“ Þetta vill n. ekki hafa í l., og ég er því samþykkur, að sveitarsjóðir eiga ekki að bera neitt af þessum kostnaði. Hv. frsm. hefur fengið hæstv. ráðh. til að fallast á þetta. (HV: Nei.) Nú, mér skildist — (HV: Öðru nær. Bæði ráðh. og landlæknir eru á móti þessu.) Já, þeir hafa náttúrlega viljað hafa þetta enn vitlausara, ég get vel skilið það. En það má geta nærri, ef brtt. verður samþ. og ráðh. er henni andvígur, hvort hann ekki gjörbrýtur það að setja sérstakan lækni. Framsfl. og ráðh. hans hafa haft tök á því að leggja sinn sérstaka skilning í l., þar sem um meira frávik var að ræða en hér. Ef ráðh. er þessu ekki samþykkur, fer hann með það eins og honum sýnist, og hver er þá árangurinn af starfi meiri hl. n.? — Í 8. gr. stendur líka: „Eftir athugun sjúklinganna á geðveikrahælinu á Kleppi, að svo miklu leyti sem því verður við komið, — fyrst á að stimpla þá sem glæpamenn, síðan á að stimpla þá sem vitlausa, þar til búið er að koma sér saman um, hvað eigi að gera við þá. Þetta er áframhald af skemmdarstarfsemi ráðh. í þessu máli og tvímenninganna með honum — „skal þeim ráðstafað í gæzluvist á þeim hælum, sem fyrir hendi eru, og skipt á hælin eftir því, hvers eðlis drykkjusýki þeirra er og hversu þeir eiga saman. Á sama hátt ráðstafar geðveikrahælið sjúklingum þessum til viðréttingar í gæzluvist “— þetta er eins og í brtt., bara annað orðalag —„ á völdum einkaheimilum, eftir því, sem á hverjum tíma telst henta. Læknar geðveikrahælisins hafa á hendi lækniseftirlit með sjúklingum, sem ráðstafað hefur verið í gæzluvist samkvæmt ákvæðum þessarar greinar“. Svo eru tekin upp ákvæði um sérstakt eftirlit með þessum mönnum, og er sú grein óbreytt.

Ég mundi vilja fá það upplýst, ef byggja á gæzluvistarhælið hæfilega nálægt Kleppi, hvort sem 8. gr. verður samþ. óbreytt eða eins og meiri hl. vill, að hún verði, hvað er þá á móti því, að langdvalarheimilinu verði valinn staður í Kaldaðarnesi? Það er sagt, að ekki sé hægt að hafa þar gæzluvistarhæli, því að læknir sé ekki nógu nálægt og nauðsynlegt sé, að það sé nálægt Kleppi, og þess vegna hefur verið talað um Úlfarsá. En af hverju er ekki hægt að hafa langdvalarheimilið í Kaldaðarnesi? Hefur n. hugsað sér, að þessi yfirlæknir sé einnig yfirlæknir á langdvalarheimilinu? — Vill ekki hæstv. forseti biðja þessa hv. þm. að halda fund annars staðar. Vonandi er varaforseti Nd. (SB) kunnugur þingsiðum. — Ég vildi spyrja hv. 3. landsk., ef hann hefur hugsað sér, að sami yfirlæknir verði fyrir bæði hælin, hvort hann telji ekki þörf á því, að þau séu nærri hvort öðru. Ef svo er, fer þetta að nálgast það, sem ég vil; að bæði hælin verði í Kaldaðarnesi. Hv. 3. landsk. taldi, að dvalarhælið ætti að vera á „fögrum stað“. En hvernig er hægt að samrýma gæzluvistarhæli á Úlfarsá og fagran stað til langdvalar? Nú skildist mér, að það væri talið ómögulegt að hafa langdvalarhælið nálægt Reykjavík. Ég hef engan hitt, sem ekki telur útilokað að hafa það í þjóðbraut. Ég skora á hv. 3. landsk. að fá yfirlýsingu um það frá þeim, er völdu gæzluvistarhælinu stað, hvort langdvalarhælið megi vera í þjóðbraut. Jafnvel landlæknir og Helgi Tómasson hafa ætlað gæzluvistarhælinu stað á Úlfarsá, en ekki í margbýlinu. Útkoman verður því sú, hvort sem brtt. við 8. gr. verður samþ. eða gr. verður eins og hún er, að setja þarf sérstakan lækni yfir gæzluvistarhælið, þó að þar verði bara átta sjúklingar, og sérstakan yfir langdvalarhælið. Það er ekki að furða eftir reynsluna í Kaldaðarnesi.

Mín till. í málinu er þannig: „Ráðherra skipar sérstakan lækni, sem hefur yfirumsjón með öllum áfengissjúklingum og úrskurðar ástand þeirra; sbr. I. kafla. þessara laga. Hann skal einnig hafa yfirumsjón með lækningahælum og vistheimilum drykkjusjúkra manna. Skal læknir sá, sem skipaður er, hafa sérþekkingu á drykkjusýki og þeim lækningaaðferðum, sem vitað er, að notaðar eru með góðum árangri við slíka sjúklinga“. — Það er vitað, að Helgi Tómasson fordæmir þessar nýju aðferðir, ef marka á það, sem hann sagði í n., og að þeir, sem reynt hafa að koma upp slíkum tilraunum, hafa mætt andstöðu frá honum. — „Skal hann rækja starfið sem aðalstarf og taka laun samkvæmt V. flokki launalaganna“. — Með þessu er það tryggt, að hvorki Helgi Tómasson né landlæknir komi hér nærri, nema þá að þeir segi lausum þeim störfum, sem þeir gegna nú. Hins vegar er það ekki tryggt með till. á þskj. 629, að annar hvor þeirra eða báðir verði ekki valdir, enda þótt það sé viðurkennt af hv. 3. landsk., að það mundi verða til tjóns. — „Ráðherra skipar einnig, að fengnum tillögum áfengislæknis, lækna, hjúkrunarlið, forstjóra og annað starfslið, eftir því sem þörf er á, á hverjum tíma við þau lækningahæli og vistheimili, er ríkissjóður kann að reisa og reka, sbr. 9. gr. þessara laga“. Þetta hneykslaði hv. 3. landsk., en vill hann ekki athuga, hvernig löggjöfin er í dag. Þetta er næstum tekið orðrétt upp úr henni.

Síðan vil ég, að komi ný gr.: „Á kostnað ríkisins skal reisa og reka vistheimili fyrir drykkjusjúka menn. Skal staðurinn valinn sérstaklega með tilliti til þess, að unnt sé að reka þar fjölbreytta framleiðslu, svo að hverjum vistmanni gefist kostur á að starfa eftir því, sem heilsa hans og hæfileikar leyfa.“ Ég þori vel að leggja það undir dóm d., hvort ekki eru meiri líkur til þess að ná góðum árangri með þessum hætti en þeim, sem nú er gert ráð fyrir í 8. gr. Þessir menn eru ekki fullkomnir sjúklingar og því síður glæpamenn. „Í sambandi við vistheimilið eða sérstaklega, ef það þykir betur henta að dómi áfengislæknis; skal reisa og reka lækningahæli fyrir drykkjusjúka menn, sem vænta má, að bata geti fengið með sérlæknishjúkrun, og ekki talið, að megi dvelja á vistheimilum.“ Þetta er mín till., og hún er margrædd við meiri mannúðarlækni en Helga Tómasson og landlækni. Eftir reynslu tveggja síðustu ára í sambandi við drykkjusjúklinga hefur hann líka meira vit á þessum málum en hinir tveir báðir til samans.

Hv. meiri hl. telur, að það þurfi ekki að breyta 9. gr., en hún mælir svo fyrir, að taka skuli í gæzlu samkvæmt 8. gr. þá, er dæmdir eru til hælisvistar samkvæmt úrskurði undirréttar og hæstaréttar, og svo þá, „sem sækja sjálfir um að verða aðnjótandi slíkrar gæzlu eða lögráðamaður fyrir þeirra hönd, ef sjálfir eru ólögráða, eða dómsmrn. samkvæmt ákvæðum 7. gr., 6. b., í lögum nr. 95 5. júní 1947, um lögræði.“ Ég vil orða þetta þannig: „Á vistheimili samkv. 1. mgr. 9. gr. skal veita móttöku öllum þeim sjúklingum; sem úrskurðaðir eru þangað samkv. 3. tölul. 3. gr. þessara laga.“ — Meiri hl. vill taka þangað alla, er dæmdir eru til hælisvistar. — „Skulu þeir dvelja þar svo lengi sem áfengislæknir telur nauðsynlegt eða þeir sjálfir óska. Sjúklingur getur þó krafizt úrskurðar um heilsufar sitt og ástand, sbr. 4. gr. þessara laga.“ — Þar er sjúklingnum tryggður réttur til að áfrýja úrskurði læknis til sérstakrar nefndar. — „Á lækningahæli samkv. 2. mgr. 9. gr. skal veita móttöku öllum sjúklingum, sem úrskurðaðir eru þangað samkv. 3. tölul. 3. gr. þessara laga. Skulu þeir dvelja þar svo lengi sem áfengislæknir telur nauðsynlegt eða þeir sjálfir óska. Sjúklingur getur þó krafizt úrskurðar um heilsufar sitt og ástand, sbr. 4. gr. þessara laga.“ Í þessu felst meginmismunurinn.

Í 10. gr. vill meiri hl. láta orðin „geðveikrahælis á Kleppi“ í annarri mgr. falla niður. Hann viðurkennir, að rangt sé að binda þetta saman, án þess þó að byggja fyrir það að fullu, að svo verði gert. Ég vil fella 10. gr. algerlega niður, en hún hljóðar svo: „Sá, sem tekinn hefur verið í gæzlu samkvæmt 1. tölul. 9. gr., skal hlíta gæzlunni svo lengi sem segir í 65. gr. laga nr. 19 12. febrúar 1940. Sá, sem tekinn hefur verið í gæzlu samkvæmt 2. töIul. 9. gr., skal hlíta gæzlunni svo lengi sem yfirlæknir geðveikrahælis á Kleppi ákveður,“ — þó að honum dytti í hug að úrskurða hann til æviloka — „þó aldrei lengur en sjúklingurinn samkvæmt umsókn er skuldbundinn til, nema samþykki hans eða lögráðamanns hans komi að nýju til.“ — Varðandi þá, er af sjálfsdáðum fara í gæzlu, er þessi mgr. óþörf, ef 8. brtt. mín verður samþ. — „Nú fer sá, sem tekinn hefur verið í gæzlu samkvæmt ákvæðum laga þessara, heimildarlaust af hæli eða heimili, þar sem hann er í gæzluvist, og er þá rétt að þröngva honum, eftir atvikum með lögregluvaldi, í gæzluna á ný og til að hlíta henni, unz lokið er gæzlutíma þeim, sem segir í 1. og 2. mgr. þessarar gr.“ Hér er ekki um frjálsa menn að ræða, heldur eru sjúklingarnir meðhöndlaðir sem fangar frá fyrsta til síðasta stigs.

Þá kemur meiri hl. einnig með þá brtt. við 11. gr., að orðin„geðveikrahælisins á Kleppi“ falli niður, en þar segir: „Gæzluvist fylgir vinnuskylda gæzluvistarmanns, eftir því sem yfirlæknir geðveikrahælisins á Kleppi segir fyrir um eða aðstoðarIæknar hans eða ármenn í hans umboði.“ Ég vil orða þetta þannig: „Áfengislæknir ákveður vinnuskyldu vistmanna og sjúklinga eftir því, sem hann telur heppilegast fyrir heilsu þeirra og líðan.“ — Um þetta er ekkert í 11. gr., eins og hún er nú, heldur eru sjúklingarnir skyldaðir til að vinna eftir geðþótta læknisins, þegar hann er búinn að ákveða, að þeir séu ekki vitlausir. —„Vinni vistmaður eða sjúklingur meira en 18 st. að meðaltali á viku, skulu honum greidd full laun, miðað við venjuleg verkamannalaun, fyrir hverja fulla vinnustund, sem fram yfir er.“ Þannig er þetta í Reykjalundi. Ef sjúklingarnir vinna fram yfir 18 st., fá þeir greidd laun fyrir það, sem umfram er. Ég efa ekki, að þegar hv. 3. landsk. athugar þetta, þá muni hann viðurkenna, að þessar till. eru heppilegri en þær, sem fluttar eru af hæstv. ráðh.

Við 12. gr. leggur meiri hl. til, að bætt verði „allt að tvö þúsund krónum“, en sú gr. er um sektarákvæði í sambandi við útvegun áfengis. Ég hef borið fram aðra brtt. við þessa gr., að í stað orðanna „í gæzlu“ í meginmgr. komi: á vistheimili eða á lækningahæli.

Víð 13. gr. gerir meiri hl. n. engar brtt., en hún er um greiðslu kostnaðar af meðferð drykkjusjúkra manna skv. ákvæðum 8–11. gr., að um hana fari á sama hátt og um greiðslur fyrir aðra sjúklinga í sjúkrahúsum ríkisins. Mér skilst, að þá sé hér um a.m.k. 1/5 hluta að ræða, sem á að greiðast af öðrum aðila en ríkinu. Og þá er ætlazt til skv. þessu ákvæði, að bæjar- og sveitarfélög greiði kostnaðinn. Mér skilst, að þetta verði útkoman. Ég hef viljað hafa ákvæðið á þá leið, að kostnaður af meðferð vistmanna og sjúklinga skv. 8.–11. gr. greiðist úr ríkissjóði. Mér er eigi ljóst, hvort hv. flm. hafi haldið, að það tryggði þetta, að kostnaðurinn ætti að greiðast af öðrum aðila. Ég hef skilið þetta svo, að sveitarsjóðir ættu að bera þann kostnað. En nú sé ég, að hv. flm. ætlast til, að sveitarsjóðir eða aðilarnir sjálfir greiði fimmta hluta kostnaðarins. Og get ég með engu móti fallizt á það.

Þá er það 14. gr., en við hana gerir meiri hl. n. heldur eigi neina brtt. En ég hef borið fram þá brtt., að ráðh. setji „nánari reglur um rekstur vistheimila og lækningahæla samkv. lögum þessum og annað, er snertir framkvæmd þeirra,“ m.ö.o. reglugerðarákvæði, og er það eðlilegt og í samræmi við aðrar breyt. á l. —Síðan legg ég til, að 15. gr. hljóði svo, en kaflaskipti og fyrirsögn falli niður, um sjóðstofnun: „Með lögum þessum eru úr gildi numin lög nr. 108 30. des. 1943, um heilsuhæli fyrir drykkjumenn, svo og ákvæði annarra laga, er kunna að koma í bága við ákvæði þessara laga.“ Meiri hl. n. leggur einnig til, að þessi kafli sé felldur niður, þ.e. að af ágóða áfengisverzlunarinnar á árunum 1949–55 skuli verja 11/2 millj. kr. „á hverju ári til að leggja í sjóð, gæzluvistarsjóð. Sjóðurinn hafi það hlutverk að standa undir kostnaði af framkvæmd laga þessara, eftir því sem heilbrigðisstjórnin ákveður, og þá fyrst og fremst af að reisa eða hjálpa til að reisa gæzluvistarhæli þau, sem um ræðir í 8. gr. laga þessara.“ Mér þykir rétt, að gr. falli niður. Það er alveg sama, þótt áfengisverzluninni sé sleppt, því að hún er ekki nema ein skúffan í ríkissjóðnum, sem rétt er, að beri þennan kostnað uppi, eins og háttar til um önnur sjúkrahús. Og mér er eigi kunnugt um, að nokkru sinni hafi verið neitað um fé til rekstrar sjúkrahúsa. Má segja, að neitað hafi verið um tillag til að reisa hús, en það hefur aldrei verið neitað um fé til rekstrar þeirra, og er því ekki ástæða til að hafa þetta í frv., enda þótt ætlazt sé til þess af meiri hl., sem segir svo: „Kostnaður við stofnun og rekstur hæla þeirra, sem um getur í 8. gr., skal greiddur af ágóða áfengisverzlunar ríkisins, að svo miklu leyti sem hann greiðist ekki af aðilum sjálfum, sbr. 13. gr.“ Ég skil ekki þessa hugsun, hvers vegna þarf að taka það fram í frv., að kostnaðinn skuli greiða af ágóða áfengisverzlunarinnar, þar sem hann fer þó allur í ríkissjóðinn. Það liggur þó snefill af hugsun hjá hæstv. ráðh., að tryggja skuli 11/2 millj. kr. til að leggja í sjóð. En það er hér engin hugsun að baki í brtt. meiri hl. n., bókstaflega engin.

Þetta eru þá þær brtt., sem ég legg til, að gerðar verði á frv. — Ég gat þess í byrjun, að hæstv. ráðh. hafi ekki ætlazt til að fá frv. samþ. á þessu þ. Skýrasta sönnun þess, að ég fari með rétt mál, er, að mér er ekki kunnugt um sem form. fjvn., að hann hafi óskað eftir, að neitt yrði tekið upp á fjárlög þessa árs í þessu skyni, eða bætt yrði við 11/2 millj. kr. á útgjaldalið áfengisverzlunarinnar í fjárl. En þá yrði óhjákvæmilegt að taka frá 11/2 millj. kr. eða telja hana til gjalda og þar með minnka tekjur ríkissjóðs um sömu upphæð. En þá verður hæstv. ráðh. að athuga að ætla tekjur á móti eða draga úr kostnaði, nema hæstv. ríkisstj. ætlist til, að ekki eigi að afgreiða fjárl. greiðsluhallalaus. Nú er búíð að ræða og skila öllum brtt. við fjárl. og 3. umr. er lokið, og ekki bólar á einni till. frá hæstv. ráðh. vegna þessa máls, og hann hefur ekki minnzt á það. Ég held, að ég hafi vakað yfir hverju orði, sem sagt hefur verið í Sþ., og ég minnist þess ekki, að hæstv. ráðh. hafi gert tilraun til að fá eina kr. til að láta þetta ná fram að ganga, hefur ekki hugsað til þess. Það sýnir langbezt, að hæstv. ráðh. ætlar ekki að láta frv. ná fram að ganga á þessu þ., og það, sem meira er, að hann hugsar ekki fyrir því að gera neitt fyrir þessa vesalinga á öllu árinu 1949, hugsar ekki fyrir einni kr. til að lækna þá. Það er endirinn á þeim sorgarþætti, sem hæstv. ráðh. hefur leikið í þessu máli, allt frá árinu 1947.

Ég hef lokið máli mínu að þessu sinni, en vænti þess, að hv. d. samþykki till. mínar, þegar til atkvgr. kemur.