16.05.1949
Neðri deild: 111. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

23. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það er nú orðið langt síðan þetta frv. fór til Ed., og þar fékk málið þá meðferð, að breyting var gerð á 4. gr. frv. Áður voru ákvæðin þannig, að þau sveitarfélög, sem vilja koma sér upp slíku sjúkrahæli, ættu að fá framlag úr ríkissjóði eins og veitt er til fangahúsbygginga, en Ed. breytti þessu þannig, að nú verður framlagið jafnhátt og veitt er til sjúkrahúsbygginga. Nú er það svo, að brýn nauðsyn er á, að þetta mál verði afgreitt á þessu þingi, svo að hægt sé að hefja einhverjar framkvæmdir bráðlega, og vil ég því skora á hv. þd.samþ. þetta frv., en þó vil ég bera hér fram eina brtt. á þskj. 772. Þeim, sem fara með fjármálin fyrir ríkissjóð, finnst, að hann hafi nóg á sinni könnu, þótt ekki sé bætt á hann allt til síðustu stundar þingsins, en þó hefur hæstv. fjmrh. lofað að styðja þetta mál, ef framlögin verði lækkuð og komi ekki á fjárlög þessa árs. En ég vil benda á það, að þegar löggjöfin hefur á annað borð verið sett, þá er alltaf opin leið til að hefjast handa um fjáröflun, og þá fyrst kemur í ljós, hversu mikil fjárþörfin er. Ég mælist því til, að hv. þd. samþykki brtt. og síðan frv.