16.05.1949
Neðri deild: 111. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (1239)

23. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Jón Pálmason:

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér til 1. umr. í nóv. s.l., gerði ég grein fyrir afstöðu minni, og taldi ég mér ekki fært að fylgja frv. Meðal annars nefndi ég þá ástæðu fyrir afstöðu minni, hvernig ríkisstj. fór með Kaldaðarnes, sem þá hafði verið varið til 900 þús. kr.

Þegar málið var svo til 2. og 3. umr., var ég ekki staddur í bænum. Nú eru liðnir nokkrir mánuðir síðan, og frv. hefur legið í Ed. Ég álít satt að segja, að það kæmi ekki aftur fram hér, og það því fremur sem búið er að afgr. fjárl. og ekki eru nema 4 mánuðir til næsta Alþingis. Í frv. er farið fram á, að ríkissjóður leggi fram 11/2 millj. kr. á ári, og virðist það vera allmikið framlag eftir það, sem á undan er gengið í þessum málum.

Ég skal svo ekki vekja upp það, sem deilt hefur verið um Kaldaðarnes. Ég býst ekki við, að það mál verði afgr. nú, þar sem það er enn í nefnd og ágreiningur um það í nefndinni. En ég skil ekki, hvernig Alþingi ætlar sér núna í lok þingsins og eftir að fjárl. hafa verið afgr. að samþykkja þá ný framlög. Ég vil því bera fram rökstudda dagskrártill. og æski þess, að hún komi til atkv. að þessari umr. lokinni. Hún er svo hljóðandi:

„Þar sem í gildi eru lög um heilsuhæli fyrir drykkjumenn, nr. 108 30. des. 1943; þar sem greitt var úr ríkissjóði kr. 867.442.85 á árunum 1945–46 til byggingar drykkjumannahælis í Kaldaðarnesi samkv. nefndum lögum; þar sem ríkisstj. hefur án samþykktar Alþingis afsalað þessu hæli til einstaklings fyrir lítið verð, og þar sem nú er búið að ákveða afgreiðslu fjárlaga fyrir 1949, þá getur þd. eigi samþykkt margra milljóna króna framlög úr ríkissjóði til stofnunar annarra drykkjumannahæla og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“