16.05.1949
Neðri deild: 110. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

180. mál, fiskiðjuver í Reykjavík

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég álít, að 10. gr. þessa frv. sé mjög varhugaverð, einnig þó að brtt. sú, er sjútvn. leggur til, verði samþ. Það er dálítið varhugaverð aðferð að heimila ríkisstj. að selja eignir sínar án þess að það sé nokkuð nánar til tekið, hverjum sé selt og fyrir hvaða verð. Og það eru ekki miklar takmarkanir á því, hverjum selja megi, því að það þarf ekki nema 3–4 fyrirtæki, og þá er komin heimild fyrir ríkisstj. til þess að selja fyrirtækið til þessa hrings, sem getur komið til með að hafa mikið vald yfir smábátaútvegsmönnum hér um slóðir. Mér finnst, að fiskiðjuverið eigi að komast í þá aðstöðu, eins og t.d. síldarverksmiðjurnar, að gengið sé út frá því, að það sé ekki selt. Það er álit margra, að ef Síldarverksmiðjur ríkisins væru ekki, þá mundu smábátaútvegsmenn ekki gera út, vegna þess að þá væru þeir svo háðir eigendum síldarverksmiðjanna. Þess vegna er það mjög varhugavert að setja þessa heimild í l. Við erum hér alltaf að semja l. um sölu þjóðjarða, sölu landspildna, og það þarf þá alltaf að fara í gegnum 6 umr. áður en það er gert, svo að þm. geta þar haft hönd í bagga með sölunni, en þá finnst mér ekki síður ástæða til þess að gera slíkt hið sama hér, þar sem hér er um að ræða stórfyrirtæki, sem hefur mikið vald í atvinnulífi þjóðarinnar. Ég álít því, að ef hæstv. ríkisstj. kærir sig um, að það sé lagt fyrir Alþ., hverjum eigi að selja, þá muni það ná fram að ganga, þegar þar að kemur. Ég legg því til, að 10. gr. sé felld burt, og mun bera fram till. um það. — Nei, það er reyndar ekki nauðsynlegt, þar sem 10. gr. verður borin sérstaklega undir atkv.