17.05.1949
Efri deild: 112. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

180. mál, fiskiðjuver í Reykjavík

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég hafði skrifað hér brtt., sem er nákvæmlega samhljóða brtt. hv. 3. landsk. (HV), svo að ég get sparað mér að leggja hana fram. En þar sem ég hafði kvatt mér hljóðs, vildi ég segja nokkur orð um málið.

Mér virðist, að það hafi komið fram hjá flestum, sem hafa tekið til máls hér í d. fyrir utan hv. 3. landsk., að fiskiðjuverið sé vandræðafyrirtæki, sem hljóti að verða svo mikill baggi á ríkissjóði, að nú verði að hlaupa til og gera allt, sem hægt er til þess að losa hann við þetta. Það kemur glögglega fram hjá þessum mönnum, að þótt frv. feli í sér, að ætlazt er til, að ríkissjóður reki fyrirtækið, þá felst á bak við sá tilgangur þeirra að fá því framgengt, að fyrirtækið verði selt. Þetta kom mjög greinilega fram í ræðum hv. sjútvmrh., hv. þm. Barð. (GJ) og hv. 1. þm. Reykv. (BÓ). Ég er á annarri skoðun. Ég álít, að leggja beri áherzlu á að reka þetta fyrirtæki og koma upp fleiri slíkum fyrirtækjum á þeim stöðum, þar sem góð aðstaða er til slíks rekstrar. Okkur vantar einmitt aðstöðu til þess að skapa okkur aukin útflutningsverðmæti sjávarafurða, og það gerum við helzt með því að nýta aflann sem bezt. Það ætti því að leggja alúð við þetta fyrirtæki frá ríkisins hálfu, þannig að það geti orðið til fyrirmyndar, og þá fullyrði ég, að það mun skila góðum arði. Það er hægt að minna á það, að starfsemi þessa fyrirtækis hefur verið torvelduð af ýmsum aðilum, t.d. af peningastofnununum, og ríkissjóður hefur ekki hirt um að láta það fá nægilegt stofnfé né rekstrarfé. Það hefur þó sýnt sig, að af þeirri starfsemi þess, sem starfrækt var, varð hagnaður, en það er ósköp eðlilegt, að sú starfsemi, sem ekki var hægt að reka sökum skorts á efni til framleiðslunnar, skilaði ekki hagnaði. En ef sómasamlega væri búið að fyrirtækinu, þá fullyrði ég, að það mundi skila hagnaði, og því er ég mótfallinn 10. gr. frv., þar sem heimilað er, að fyrirtækið verði selt.

Þá vil ég vekja athygli á því, að það er undarlegt, að einmitt þessir menn, sem eru að tala um, hversu fyrirtækið sé óarðvænlegt og óheppilegt, vilja koma söluheimildinni inn í frv. Hverjum á að selja? Það skyldi þó aldrei vera, að þeir ætluðu að selja þetta fyrirtæki einhverjum mönnum, sem hafa mikla peninga og telja fyrirtækið ekki svo mjög óarðvænlegt? Það skyldi þó ekki vera, að þeir viti um einhverja menn, sem gætu haft hagnað af svona fyrirtæki? Mér dettur í hug, að þetta sé tilgangurinn, enda er ég líka þeirrar skoðunar, að fyrirtækið sé arðvænlegt, og þess vegna vil ég ekki, að það verði selt, heldur vil ég láta ríkissjóð reka það eins og á að reka það, þannig, að það skili bæði arði og verði sú lyftistöng fyrir útveginn, sem til var ætlazt í upphafi.