17.05.1949
Efri deild: 112. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (1292)

180. mál, fiskiðjuver í Reykjavík

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af orðum hæstv. ráðh., er hann sagði, að nauðsynlegt væri að setja löggjöf um þetta, vil ég segja nokkur orð. Ég hygg, að hæstv. ráðh. viti, að þetta fyrirtæki er stofnað samkv. vissum l., nefnilega samkv. l. frá 1934 um fiskimálanefnd. Þar eru ákvæði um það, að fiskimálanefnd skuli styðja einstaklinga og bæjarfélög til þess að reisa fiskiðjuver og kaupa togara, og ef þessir aðilar geri ekki nógu mikið að þessu, þá er fiskimálanefnd heimilt að verja fé úr fiskimálasjóði til þessara framkvæmda. Það var vefengt árið 1945, að heimild væri fyrir því að verja fé fiskimálasjóðs þannig, en bæði þáv. sjútvmrh. og sjálf fiskimálanefnd töldu, að þessi heimild væri fyrir hendi. Ef svo er, þarf hér engin lög, heldur reglugerð, og þá hlýtur sá aðili, sem stofnaði fyrirtækið, einnig að mega selja það. Nú er það svo, að fiskimálanefnd hefur verið lögð niður, en í stað hennar er kominn fiskimálasjóður, sem tók við öllum eignum, skuldum, skuldbindingum og sem sagt öllum kvöðum fiskimálan. Þar hefur aðeins verið breytt um nafn, og meira að segja er starfsfólkið flest það sama.

En hverjir ákváðu þá þetta? Það voru fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkunum. Frá Sjálfstfl. var Þorleifur Jónsson, ágætur maður, frá Framsfl. Pálmi Loftsson, forstjóri Skipaútgerðar ríkisins, maður, sem hefur verið trúað fyrir fleiri millj. kr. mjög eftirlitslítið og hlýtur því að njóta mjög mikils trausts og á það sjálfsagt fyllilega skilið. Frá Alþfl. var Jón Axel Pétursson, framkvæmdastjóri bæjarútgerðar Reykjavíkur, maður, sem hefur verið trúað fyrir geysistóru fyrirtæki, og að síðustu frá Sósfl. Lúðvík Jósefsson, alþm. og framkvæmdastjóri bæjarútgerðar Neskaupstaðar. Þetta eru allt hinir ágætustu menn og engin flón, og það er víst, að ef nefndin hefði mótmælt þessum aðgerðum, þá hefði ráðh. ekki getað varið fénu á þennan hátt. Ég vil taka það fram, að ég er ekki að ásaka þessa menn. Þeir hafa haft trú á þessu máli og kannske verið of bjartsýnir og ekki búizt við, að stofnkostnaður yrði svo mikill sem raun ber vitni um. En ég tel eigi nauðsynlegt, að ríkissjóður taki á sig ábyrgðina af þeim aðilum, sem hana eiga að bera. Ef þessi lög verða samþ., þá er ríkið búið að taka að sér fyrirtækið ásamt öllum þeim skuldbindingum, sem því tilheyra. Í 1. gr. frv. er sagt, að ríkið reki fiskvinnslustöð í Rvík, en í 5. gr. frv. er sagt, að ríkissjóður beri ekki ábyrgð á skuldum fyrirtækisins, nema heimild sé veitt til þess af Alþingi. Þessar greinar stangast því allillilega á, og vitanlega er það alveg ótækt, að í hvert sinn, sem þarf að taka lán, þurfi að sækja um ábyrgð til Alþingis.

Þá vil ég benda á, að í 3. gr. er gert ráð fyrir, að ríkið ábyrgist 1,2 millj. kr. til þess að fullgera fiskiðjuverið, og svo er síðar í sömu gr. gert ráð fyrir 500 þús. kr. ábyrgð, en mér hefur heyrzt á hæstv. ráðh., að nú væri búið að knýja allar dyr, þar sem von væri á, að lán væru fáanleg.

Ég get því ekki fallizt á þessi lög og tel alveg óverjandi að setja slík lög án þess að vísa málinu til n., en það tel ég, að ekki hafi verið unnt, þar sem þingfundir voru næstum allan daginn í gær og n. fékk engan tíma til að athuga málið. Ég get sagt hæstv. ráðh. það, að ef hann hefði látið útbýta þessu 4. apríl í Ed., eins og í Nd., þá skyldi nál. vera komið fyrir löngu. En Nd. hefur haldið málinu hjá sér allan þennan tíma, og það bendir til þess, að ekki hafi verið samkomulag um málið, enda þótt nál. væri svo gefið út. Ég tel alveg óverjandi að samþ. þessi lög og binda ríkissjóði þessa bagga og leysa þannig þá menn, sem hlut eiga að máli, undan réttmætri ábyrgð.

Ég er ekki heldur fylgjandi þeirri till. að fella niður 10. gr. frv., en ég teldi eðlilegast að vísa málinu frá með rökstuddri dagskrá.