17.05.1949
Efri deild: 112. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (1293)

180. mál, fiskiðjuver í Reykjavík

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég var einn af þeim, sem við 1. umr. málsins var mótfallinn því, að málið færi til n. þar sem hún gæti ekki skilað nál., en vitað var, að n. mundi klofna um málið og því þurfa að koma fram 2 nál., en um það sé ég ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum, þar sem stefnan, sem fram kemur í frv., er mjög ljós. Ég tek undir það með hæstv. fjmrh., að nauðsynlegt sé að setja um þetta lög eða reglugerð. Annars er í frv. engin breyting á núverandi ástandi, nema hvað ríkissjóður með l. tekur á sig ábyrgð á lánum fyrir fyrirtækið. Þetta hygg ég, að sé nauðsynlegt, því að það er langt frá því, að búið sé að ganga frá fyrirtækinu eins og því var upphaflega ætlað að vera, enda sýnir þessi ábyrgðarheimild það. Ég lít hins vegar svo á, að heimildin til þess að reisa fiskiðjuverið hafi verið mjög veik eða engin. Mér er einnig ljóst, að mörg mistök hafa átt sér stað í byggingu þessa fyrirtækis, eins og svo víða annars staðar átti sér stað í stjórnartíð þess ráðh. En það þýðir ekki að sakast um orðinn hlut.

Eins og sjá má á 2. gr., er þessu fiskiðjuveri ætlað meira hlutverk en venjuleg framleiðslustarfsemi. Það á einnig að fást við ýmsar tilraunir á vegum atvinnudeildar háskólans og fiskimálastjóra. Ég tel það mjög eðlilegt, að ríkið hafi forgöngu á þessu sviði, þar sem vitað er, að einstaklingar eru tregir til þess að leggja í slíkar vafasamar tilraunir. Það hefur verið talað um það hér, að verið væri að leggja nýjar byrðar á ríkissjóð, en ég sé það ekki, þar sem fiskimálasjóður er ein af stofnunum ríkisins og það kemur því niður á ríkissjóði, ef hann getur ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Ég hef ekkert við byggingu frv. að athuga, en ég tel ótilhlýðilegt, að í sama frv. skuli vera heimild til þess að selja þetta fyrirtæki og því fráleitara, þegar tekið er tillit til þess, að það á að hafa forgöngu með allar nýjungar og hafa með höndum tilraunastarfsemi.

Ég vil nú spyrja hæstv. ráðh., hvort hann viti um einhvern, sem óski eftir að fá þetta fyrirtæki og þá fyrir hvaða verð. (BÓ: Það vill enginn kaupa það. — HV: Ætli það séu ekki frekar fleiri en einn, sem hafa augastað á því?) Ég tek undir það, að það muni vera margir, sem renna vonaraugum til þessa fyrirtækis, enda tel ég það eðlilegt, því að þarna er um mörg ný tæki og vélar að ræða.

Ég skal svo ekki fara um þetta mörgum orðum. Ég mun greiða atkv. með frv., nema 10. gr., sem ég tel, að ekki eigi hér heima. Ég tel alls ekki sannað, að fyrirtækið geti ekki borið sig, þar sem það er ekki fullgert, og tel ég því, að beri að fullgera það hið bráðasta, og þá fyrst má sjá, hvort það getur ekki borið sig. — Ég fjölyrði þetta svo ekki meir, en tel rétt, að fyrirtækið sé í l., og ef ég man rétt, þá minnir mig, að hv. þm. Barð. væri fylgjandi því í fjvn., að lagaheimild væri nauðsynleg, enda hygg ég, að það, hversu erfiðlega gengur með fjárveitingu til fyrirtækisins, sé mikið af því, að þar er um engan ábyrgan aðila að ræða.