17.05.1949
Efri deild: 112. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í B-deild Alþingistíðinda. (1294)

180. mál, fiskiðjuver í Reykjavík

Björn Ólafsson. Herra forseti. Ég ætla ekki að svara fyrirspurn þeirri, er hv. 1. landsk. beindi til hæstv. fjmrh. Það gerir hæstv. ráðh. vafalaust sjálfur. Mér þykir ekki líklegt, að nokkur bjóði í þetta fyrirtæki. (HV:

Ef það fæst fyrir nógu lágt verð.) Það getur verið, en þó geta fyrirtæki verið þannig, að ekki borgi sig að eiga þau, jafnvel þótt þau fáist gefin, nefnilega ef rekstur þeirra ber sig ekki.

Hv. 6. landsk. (StgrA) vil ég segja það við víkjandi því, sem hann var að tala um, að einhver ætlaði sér að krækja í fyrirtækið, að ég álít, að eina ráðið til þess að reka þetta fyrirtæki sé að fá það í hendur einhverjum duglegum einstaklingi, sem hefur áhuga fyrir þessum atvinnurekstri. Að mínu áliti getur ríkissjóður aldrei rekið fyrirtækið með hagnaði, og ef hægt er að losna við það fyrir sæmilegt verð, þá tel ég langréttast að selja það, því að vissulega er mögulegt, að duglegur einstaklingur geti rekið það þannig, að bæði hann og þjóðin hafi hagnað af því. Það hefur sýnt sig, að sú aðferð er betri fyrir ríkið að taka þetta á þann hátt af einstaklingunum, en að vinna sér það sjálft inn með atvinnurekstrinum.

Ég vil aðeins minnast á 5. gr., þar sem segir, að ríkissjóður beri ekki ábyrgð á skuldum fiskiðjuversins, nema heimild sé veitt til þess af Alþ. Þetta er svipað og hjá síldarverksmiðjunum, en ég verð að segja það, að ef ríkið á og rekur fyrirtæki, þá er það hreinasta siðleysi að setja slíkt og þetta í lög. Hvað væri sagt um mig, ef ég stofnaði fyrirtaki, en tæki það fram, að ég borgaði ekki neinar skuldir, nema samið hafi verið um það fyrir fram? Ætli það yrði ekki talið siðleysi? Hér stendur, að fyrirtækið sé sjálfseignarfyrirtæki, eða vakir fyrir ríkissjóði, að hann sé lánardrottinn og fyrirtækið eigi ekki eyri nema það, sem ríkið lánar? En það stendur ekkert, að ríkissjóður ætli að gefa þetta fé. En ef nú þetta er raunin, þá er það aldeilis hróplegt siðleysi að hafa 5. gr. þannig. (GJ: Það gæti líka verið tilfellið, að fiskimálasjóður standi í ábyrgð og væri að reyna að koma henni af sér.) Það er svo sem vel líklegt, en hinu verður samt ekki neitað, að fiskimálasjóður er ekki nema ein deild úr ríkissjóði, og því verður hann að taka af honum skellinn. Ég er alveg sammála hv. þm. Barð. um það, að úr því að sjóðurinn er látinn reisa þetta fyrirtæki, þá skuli hann einnig halda áfram rekstri þess eða þá gefast upp að öðrum kosti og geri þá jafnframt till. til ríkisstj. um ráðstafanir í sambandi við það. En ég skil ekki, að það sé neitt auðveldara að skaffa fé núna en áður, þó að þessi lög verði samþ., því að mér hefur skilizt, að ríkið líti á þetta fyrirtæki sem sitt eigið, en ég get ekki skilið, að fiskimálasjóður geti rekið það neitt betur eftir en áður.