17.05.1949
Efri deild: 112. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (1295)

180. mál, fiskiðjuver í Reykjavík

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að gera hér ofur litla grein fyrir atkvæði mínu, en ég geri ráð fyrir, að ég greiði atkv. með því að fella 10. gr.

Það hefur komið í ljós, að fiskimálan. hefur ráðið því, að þetta hús var byggt. Það er þó í rauninni ekki svo, heldur var það ákveðið af ríkisstj., sem þá sat við völd. Um það atriði hef ég átt tal við einn mann, sem þá sat í fiskimálanefnd fyrir Framsfl., enda gat n. ekki tekið þá ákvörðun, og var líka sú ákvörðun brátt tekin að láta sérstaka n. sjá um byggingu hússins. Ég segi ekkert um það, að öll ríkisstj. hafi tekið þessa ákvörðun, en einhvers staðar er sagt, að „enga mikilsverða ráðstöfun megi gera, nema ráðherrafundur geri ráð fyrir því.“ En ég skal ekki ræða um það, hvort það hefur verið gert í þetta skipti, af því að ég er ekki svo kunnugur vinnubrögðum fyrrv. ríkisstj., en mér finnst það að minnsta kosti líklegt, að ekki hafi verið gengið fram hjá því ákvæði, þar sem um jafnmikilsverða ráðstöfun er að ræða. Skal ég svo ekki ræða meira um þetta, enda yrði það of langt mál, ef fara ætti að rekja vinnubrögð fyrrv. ríkisstj. hér í sambandi við þetta. En eitt er undarlegt. Eftir að fyrrv. ríkisstj. er búin að taka ákvörðun um að byggja frystihús eða fiskiðjuver, eins og það heitir víst, að hún skuli þá ekki geta annast rekstur þess. Ég tel það alveg augljóst mál, að eftir að ríkið er búið að leggja í þann kostnað að koma þessu fyrirtæki upp, þá geti Alþ. varla hringlað svo með þetta mál, að fyrir tveimur árum sé kastað út 8 millj. kr. og núna ákveðið að selja það, ef einhver kaupandi fæst. Þetta eru nú vinnubrögð, að kasta út 7–8 millj. kr. og ætla að fara að selja fyrirtækið áður en það er fullgert og áður en nokkur reynsla er fengin fyrir því. Ég skal ekkert um það segja, hvernig afstaða mín verður síðar, en mér finnst, að ríkið eigi að byggja upp þær deildir, sem arðvænlegastar eru. Það verður að minnsta kosti að pússa húsið svolítið að utan, áður en farið er að bjóða í það, því að það stendur þarna eins og illa gerður hlutur, þegar farið er að hugsa um að selja. En hvað sem einstaklingsrekstri eða ríkisrekstri liður, þá finnst mér, að ríkið eigi að ljúka við það sem fyrst að fullgera fyrirtækið. Og það er alveg rétt, að ef einhverjum er heimilt að byggja fyrirtæki, þá er þeim hinum sama auðvitað líka heimilt að reka það. Það var tekin um það ákvörðun, þegar ákveðið var að byggja, og það er ekki verið að taka neina aðalákvörðun um það nú. Ég vil hins vegar ekki draga nýja ákvörðun af því, sem hv. þm. sagði, að úr því að ríkið telji sig hafa heimild til þess að byggja, hafi það einnig heimild til þess að selja, því að ég álít, að jafnvel þó að það hafi heimild til þess að byggja, hafi það enga heimild til að selja, heldur beri því að reka fyrirtækið, og þess vegna er ekki heimildarinnar þörf á þessu stigi málsins, þó að það sé hins vegar rétt hjá hv. fjmrh., að það sé ekki gott að reka fyrirtækið án þess að hafa l. um það.