17.05.1949
Efri deild: 112. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í B-deild Alþingistíðinda. (1298)

180. mál, fiskiðjuver í Reykjavík

Gísli Jónsson:

Það er aðeins út af því, sem hæstv. ráðh. sagði, að ég vil benda á, að ef þetta frv. verður ekki samþ., hefur hann möguleika til að láta fiskimálasjóð nota allt það fé, sem hann fær árlega inn frá ríkissjóði, til þess að standa undir þessari starfrækslu og setja til hliðar aðra starfrækslu, sem stjórn sjóðsins hefði talið, að væri ekki eins aðkallandi og að byggja og starfrækja þetta fyrirtæki. Þar mun hann hafa um 2 millj. og þarf ekki að íþyngja ríkissjóði um ný framlög. En ef þetta er samþ., þá er hann búinn að taka það beint frá stjórn sjóðsins, sem þá getur notað það fé til annarrar starfrækslu eða til að byggja annað fiskiðjuver. Þess vegna sýnist mér eðlilegra að fella frv. en að samþ. það. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram, að sé þetta frv. samþ., þá er tekin af fiskimálasjóði sú kvöð, sem hvílir á honum, að standa undir og reka þessa stofnun, sem hann hefur heimild í l. til að taka að sér og getur ætlað nokkrar tekjur í fiskimálasjóð til. Ég veit ekki, hvers vegna hæstv. ráðh. vill taka af honum þessa kvöð, þegar ríkissjóður er ekki fær um að standa undir því. Vill hæstv. ráðh. styrkja fiskimálasjóð frekar en með l., þá er það annað atriði, en þá átti það að vera í fjárl.