11.05.1949
Neðri deild: 106. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (1320)

203. mál, skemmtanaskattur og Þjóðleikhús

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Út af till. hv. menntmn. vildi ég segja nokkur orð. Ég ætla þá fyrst að minnast örlítið á það, sem hv. síðasti ræðumaður kom inn á. Það má koma hér skýrt fram, að það kom eins og reiðarslag yfir okkur í menntmrn., þegar við fengum að vita, hve mikið fé vantaði til að fullgera húsið. Við höfum haldið uppi um það þrálátum fyrirspurnum og höfðum enga ástæðu til að óttast, að okkur hefði ekki verið allt rétt sagt. Það var svo ekki fyrr en skipaður hafði verið þjóðleikhússtjóri, að hið sanna kom í ljós. Mér þótti þá rétt, að varið skyldi til byggingarinnar rekstrarsjóðnum 1948 og þeirri litlu upphæð, sem eftir var í byggingarsjóði, en þá vantaði samt um 3 millj. kr. Þá var það, sem ég gerði þá till., er í frv. greinir, að þjóðleikhúsið fengi 35% af skemmtanaskattinum, með það fyrir augum, að það yrði fullgert í lok þessa árs, ef ekki stæði á efni til framkvæmda. Ég hef rætt um það við n., að hún ætlaði byggingunni eins mikið af skattinum og frekast væri unnt, en hef nú orðið fyrir miklum vonbrigðum, því að ég hélt, að hv. n. mundi taka meira til greina þá kreppu, sem byggingarmálin almennt eru í, og bjóst við, að n. mundi ætla byggingunni að minnsta kosti 30% af skattinum, en ekki aðeins 25%, eins og nú hefur komið í ljós. Ég verð að segja, að allt er í óvissu um, hvort hægt verður að ljúka byggingunni í ár, ef till. n. verður samþ., því að lánsmöguleikar eru mjög litlir, nema þá helzt bráðabirgðalán til afar stutts tíma. Mér finnst það mjög miður farið, að byggingarsjóður fái ekki nema 25%, því að ég álít, að þjóðleikhúsið eigi fyrsta réttinn á skemmtanaskattinum. Fyrir utan þetta leggur n. til, að félagsheimilasjóðurinn sé aðeins skertur í 40% og rekstrarsjóður þjóðleikhússins fái 25%. Ég vil nú ekki bera ábyrgð á svo mikilli skerðingu á rekstrarsjóðnum og hef því lagt fram brtt. á þskj. 693 um, að hann skuli fá 30%, en félagsheimilasjóður 35%. Ég vildi helzt ekki skerða félagsheimilasjóð nema sem allra minnst, en finnst þó, að þjóðleikhúsið eigi að ganga fyrir: Eftir minni till. fær félagsheimilasjóður 35% af skattinum, og er það eitthvað yfir 800 þús. á ári, en til samanburðar má geta þess, að í fyrra fékk hann eitthvað um eina millj. kr. Það er og ekki líklegt, að hægt verði að fara öllu hraðar í byggingu félagsheimila, en þessar 800 þús. segja til um, enda hefur stjórn sjóðsins lýst sig samþykka frv. eins og það liggur fyrir, og vafalaust mundi hún ekki síður hafa á móti því, að framlagið verði hækkað upp í 35%, eins og gert er í minni till.

Ég vil svo alvarlega skora á hv. þm.samþ. miðlunartill. mína og vil benda á, að það getur haft alvarlegan drátt á byggingu þjóðleikhússins í för með sér, ef till. n. verður samþ. óbreytt. Mér finnst það nú raunar vera að bæta gráu ofan á svart að skerða rekstrarsjóðinn líka, eins og hv. n. leggur til, en skal ekki hafa um það fleiri orð. Að síðustu vil ég svo ítreka áskorun mína til hv. þm., um leið og ég bendi þeim á, hve alvarlegar afleiðingar það getur haft að skerða framlagið til þjóðleikhússins jafnmikið og hv. n. hefur lagt til.