11.05.1949
Neðri deild: 106. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (1322)

203. mál, skemmtanaskattur og Þjóðleikhús

Pétur Ottesen:

Ég gat þess við 1. umr. þessa máls, að mig undraði það stórlega, að nú skuli vera fitjað upp á breyt. við l. um skemmtanaskatt frá því, sem breytt var fyrir ekki lengri tíma, en tveimur árum síðan, eða á þinginu 1947, og því meira undrar mig það ístöðuleysi, sem fram hefur komið hjá n. þeirri, sem málið hafði til meðferðar. Í stað þess, sem ég taldi sjálfsagt, að n. mundi gera, að standa á móti þessum breyt., þá hefur hún gengið inn á allmiklar breyt., þó að hún gangi ekki eins langt og felst í frv. sjálfu, sem flutt var af ríkisstj. og menntmrh. hefur hér aðallega haft orð fyrir. Það er ekki einasta, að n. hafi gert þetta, heldur hefur einn nm., frsm. n., lýst því yfir, að hann vilji ganga enn lengra, þar sem hann hefur lýst fylgi sínu við till. menntmrh., sem gengur lengra en till. n. fela í sér.

Því hefur verið haldið fram af menntmrh. og 6. þm. Reykv. (SigfS), að orsökin fyrir því, að þetta frv. er hér fram komið, sé sú, að byggingarkostnaður við þjóðleikhúsið hafi sýnt sig að vera miklu hærri, en ráð var fyrir gert 1947, þegar l. var breytt. Það má vel vera, að þessar upplýsingar séu réttar, en það verður að athuga það, að það var álitið, að þjóðleikhúsið mætti sjá af þessu fé, og ég ætla, að það hafi verið sú ástæða, sem þá réð, að réttara væri að láta menn úti um hinar dreifðu byggðir landsins njóta þess til þess að geta skapað sér skilyrði til að koma upp félagsheimilum og skemmtanalífi, sem þeir áttu erfitt með, meðan allur skatturinn rann til Rvíkur. Þetta var grundvöllurinn að þeim breyt., sem gerðar voru á l. 1947. Þess vegna er ekki hægt að fóðra þetta frv. með því, að byggingarkostnaðurinn hafi breytzt svo mikið frá því 1947. Hér var aðeins um réttlátt og sanngjarnt mál að ræða, sem engin breyt. hefur orðið á síðan 1947. Réttur félagsheimilasjóðs eða þeirra, sem halda uppi skemmtanalífinu úti um landið, er alveg jafnríkur og hann var fyrir tveimur árum. Þess vegna er hér um undanlátssemi að ræða, sem ekki er byggð á réttlæti, heldur frávik frá réttu og sanngjörnu máli. Út frá þessu sjónarmiði ber að marka afstöðuna til þessa frv., og hef ég þegar gert það fyrir mitt leyti, þar sem ég hef lýst mig því andvígan. Það eru hvorki meira né minna en 97 umsóknir, sem liggja fyrir nú um fé til að koma upp félagsheimilum úti um byggðir landsins, og 39 slíkar byggingar eru nú í smíðum. Hvaða sanngirni er í því, þegar þetta mál stendur þannig, að fara nú að skerða hlut þeirra manna, sem eru að berjast fyrir þessu við lítil efni og erfiðar kringumstæður, með því að taka af þeim þetta fé, sem þeim hefur verið veitt til stuðnings, og leggja það í þjóðleikhús hér í Rvík? Hvernig er þessum félagsheimilum yfirleitt komið upp úti um landið? Þeim er að mjög miklu leyti komið upp með þegnskaparvinnu. Heilar sveitir og héruð bindast samtökum og leggja fram svo og svo mikla vinnu til þess að koma þeim upp, og þessi vinna er í mörgum tilfellum verulegur hluti af kostnaði við bygginguna. Þarna er mikill áhugi, ekki einasta í orði, heldur sem fram kemur á borði. Ég ætla; að það sé liðið á annan tug ára síðan hafin var bygging þjóðleikhússins, sem á vitanlega að verða til þess að leysa þörf skemmtanalífsins hér í Rvík, eins og félagsheimilin úti um landið eiga að leysa skemmtanalífsþörfina þar. Ef þetta mál hefði nú verið tekið slíkum tökum hér í Rvík og gert hefur verið í sambandi við félagsheimilin úti um landið, þá væri fyrir löngu síðan búið að ljúka þessari byggingu, því að sannleikurinn er sá, að þeir, sem eiga að nota þjóðleikhúsið, hafa hvorki hreyft hönd né fót til að koma því áfram, en bára heimtað fé af öðrum. Ég furða mig á því, að þeir menn, sem eru í n., menn, sem ættu að hafa vit á, hver þörf er fyrir þetta fé úti um landið og þekkja þá erfiðleika, sem þar eru fyrir hendi á að hrinda slíkum verkum í framkvæmd, skuli taka þá afstöðu til þessa máls, sem raun ber vitni um samkv. nál. og till. menntmn. í málinu. Það leiðir af sjálfu sér, að þetta skemmir að verulegu leyti, hvað sem verður ofan á aðstöðu manna úti um landið til þess að halda áfram miklum hluta þeirra bygginga, sem byrjað er á, og líka aðstöðuna til að leggja í nýjar framkvæmdir, alveg eins og þetta fé, sem taka á frá félagsheimilasjóði, vitanlega stuðlar að því, að hægt verði að beita meiri orku við að koma upp þjóðleikhúsinu hér. Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að þeir almennu erfiðleikar, sem nú eru með slíkar byggingar, séu ekki til þess að setja þá fyrir sig, hvað það snertir að ljúka þjóðleikhúsinu, frekar en þá erfiðleika, sem verða þess valdandi, að ekki er hægt að ljúka sams konar byggingum með jafnmiklum hraða úti um landið og standa í vegi fyrir því, að hægt sé að byrja á nýjum byggingum þar. Ég fyrir mitt leyti mun því greiða atkv. á móti þessu frv. og tel stefnt í alveg öfuga átt með því, auk þess, sem það verður að telja það hrein brigðmæli, sem ekki er að mínum dómi nokkur grundvöllur fyrir að svipta þessa aðila þeim stuðningi, sem þeim er ákveðinn í l. frá 1947, sem gert er í verulegum mæli, hvað sem ofan á verður, þó að í mismunandi stórum stíl sé.

Það var minnzt á það hér af hæstv. félmrh. og hv. þm. V-Ísf. (SB), að stjórn félagsheimilasjóðs hefði mælt með því, að réttur umbjóðenda þeirra yrði svo sterkur sem í frv. felst. Ég ætla, að þau ummæli hafi verið miðuð við frv., en ekki brtt. n. Ég vil nú spyrja um það: Í hvaða umboði gefur stj. þessa yfirlýsingu? Hefur hún, áður en hún gaf yfirlýsinguna, leitað umsagnar viðkomandi aðila úti á landsbyggðinni? Hafa þeir leyft þeim að gefa slíka yfirlýsingu? Ég er sannfærður um, að svo er ekki. Ég hygg, að þeir hafi gefið hana út á eigin hönd og í ákveðinni andstöðu við það, sem er vilji og krafa fólksins úti á landinu, að þess réttur sé í engu skertur. Þegar þetta mál .var til umræðu hér á Alþ. á árinu 1947, kom fram till., sem ég m.a. stóð að, um að réttur dreifbýlisins til fjárstyrks, til félagsheimilanna, yrði nokkru ríflegri, en í l. felst. Þó að sú till. næði ekki fram að ganga, hafði hún allmikið fylgi hér, og það sýnir bezt, hvernig litið var á þetta mál þá og hve fjarri það var þeim mönnum, sem þá áttu sæti á þingi, sem voru þeir sömu menn og nú sitja á þingi, að gefa nokkra tilslökun frá því, sem ofan á varð í l. Í þessari félagsheimilastjórn eiga sæti 5 menn, 4 þeirra munu búsettir hér í Rvík og 1 í Hafnarfirði. Í stjórn félagsheimilasjóðs er enginn fulltrúi, sem á heima utan þessara samvöxnu kaupstaða, enda hefði það sýnt sig greinilega, að ef einhver í stjórn þessa félags hefði átt heima utan þessa svæðis, þá hefði ekki komið sams konar yfirlýsing þeirri, sem talið er, að felist í bréfi þessarar stjórnar. Ég vil þess vegna vona, að þrátt fyrir þessa afstöðu n. verði það ekki ofan á, að gengið verði svo geipilega á rétt þeirra, sem eru að berjast við að halda uppi skemmtanalífinu utan Rvíkur, eins og lagt er til í þessu frv., heldur megi þeir halda þeim hluta, sem þeim er ætlaður og ákveðinn í gildandi l. um þetta efni. Ég fyrir mitt leyti get ekki álitið, að það sé neitt skaðlegra fyrir þjóðlíf Íslendinga og háttu manna hér, þó að einhver bið kunni að verða á því, að lokið sé við þjóðleikhúsið í Rvík, heldur en dráttur, sem leiðir af erfiðum kringumstæðum á því að koma upp félagsheimilum úti á landi. Ég held, að straumurinn til Rvíkur sé alveg nógu ör og hraður, þó að ekki sé verið áð gera ráðstafanir á Alþ. til þess að bæta þar á, en það er verið að gera ráðstafanir í þá átt, ef á að klekkja á félagsheimilastarfseminni eða draga verulega úr henni úti um landið til þess að geta flýtt fyrir því, að hér sé lokið við þjóðleikhúsið í Rvík. Þar er verulega stefnt í öfuga átt, ekki einasta fyrir heill og velferð dreifbýlisins eða landsmanna utan Rvíkur, heldur er það engan veginn hollt eða affarasælt fyrir Rvík, að ýtt sé undir þann straum, því að vel getur svo farið, þó að missir þessa fólks sé tilfinnanlegastur fyrir þá, sem eftir eru í sveitunum, að slíkur straumur geti líka orðið þungbær fyrir þá menn, sem hér búa, og hann er engan veginn farsæll fyrir landið í heild eða íslenzku þjóðina.