11.05.1949
Neðri deild: 106. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í B-deild Alþingistíðinda. (1323)

203. mál, skemmtanaskattur og Þjóðleikhús

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja hér nokkur orð um þetta mál, sem hefur verið mikið rætt.

1947, þegar l. um skemmtanaskatt voru sett, var farið að skipta upp skemmtanaskattinum áður en vitað var, hvort hægt yrði að byggja upp það, sem hann fyrst var ætlaður til. Skemmtanaskatturinn var upphaflega lagður á til þess að byggja þjóðleikhús, og var, eins og alltaf þegar um slíkt er að ræða, mikið af honum greitt af borgurum hér í Rvík. Hv. þm. Borgf. (PO) sagði, að ef Reykvíkingar hefðu lagt eins mikið á sig til að koma upp þjóðleikhúsinu og fólkið úti um landið gerði við félagsheimilin, væri betur farið. Ég er ekki viss um, að sveitamennirnir hafi gert meira í þessum efnum. Og það, sem kom í ljós, einmitt þegar frv. um þetta efni kom fram hér á Alþ., var það, að menn töldu, að þjóðleikhúsið mundi komast upp á tilætluðum tíma, en að sjálfsagt væri að ráðstafa skattinum eftir að því væri lokið: Það var meginefnið í öllum ræðum, sem þá voru fluttar um þetta mál. Fyrir mitt leyti — en ég er Reykvíkingur og í verkalýðsfélagi hér fannst mér síður en svo, að víðsýni væri sýnd, þegar málið var rætt, af þeim, sem áttu að taka við þessu. Þá kom fram till. um það, að ef verkalýðsfélög í kaupstöðum gætu átt samleið með félagsheimilunum, þá fengju þau hærri styrki, þar sem skatturinn kemur eingöngu niður á félögum í kaupstöðum. Það var útilokað. Ég er algerlega á móti því, sem hv. þm. Borgf. hélt fram, að taka eigi félagsheimilin fram yfir það að ljúka byggingu þjóðleikhússins, og mun fylgja till. hæstv. menntmrh. Þjóðleikhúsið er búið að vera í smíðum frá 1927, en frá 1932 til 1941 fór ekkert af skattinum í þjóðleikhúsið, og þá datt engum manni félagsheimilin í hug. Einu tekjulindirnar, sem félagsskapur hér í Rvík, t.d. verkalýðsfélögin og góðtemplarareglan, höfðu hér, var skemmtanaskatturinn, og allar skemmtanir, sem voru haldnar í hinum almennu samkomuhúsum, voru þá á vegum þessa félagsskapar. Þegar skemmtanaskatturinn er settur á, breytist þetta. Þá hætta félögin að halda þessar skemmtanir og gróðinn fer til þjóðleikhússins. Skemmtanaskatturinn hefur frá fyrstu tíð gert það að verkum, að flest öll félög hér hafa ekki komið upp yfir sig húsi.

Svo er önnur hlið á þessu máli. Leiklistin hefur verið óskabarn þessa bæjar, og þegar að því kemur að byggja yfir þetta óskabarn Rvíkur og landsins, kemur í ljós, að búið er að ráðstafa því fé til annarra hluta, sem átti að byggja fyrir, áður en húsið er komið upp. Í öðru lagi eru starfsmöguleikar leikaranna, sem eru búnir að þjálfa sig og mennta árum saman við erfiðan kost, stórkostlega rýrðir. Margir leikarar hafa lagt á sig langt nám og eru með tímanum orðnir úrvalslistamenn, en ef bygging þjóðleikhússins dregst, kemur þetta fólk sumt e.t.v. aldrei til að leika í því. Í öðrum greinum búa menn sig undir próf og hljóta stöður, en hér verður um margra ára úrval að ræða.

Viðvíkjandi þeim skilningi, sem leikhús og leikhúsmál hafa átt að mæta hér á Alþ., má benda á, að Leikfélag Reykjavíkur hefur haft 30 þús. kr. styrk frá ríkinu í 4 til 5 ár og auk þess 30 þús. kr. styrk frá Reykjavíkurbæ. En hvað skeður svo? Síðastliðið ár borgaði Leikfélag Reykjavíkur 54 þús. kr. í skemmtanaskatt. M.ö.o., það, sem Reykjavíkurbær lagði Leikfélaginu til, tók ríkið líka. Svo er verið að tala um það hér, hvað Alþ. búi vel að þessu óskabarni. Ég get ekki verið hrifinn af því, hvernig er að þessum málum búið. Mér finnst það vera það minnsta, sem þeir geta gert, sem fluttu frv. um félagsheimilasjóð, — en ég tel hann ekki eftir, þó að verkalýðsfélögin fengju ekki að vera með, — að þeir gangi inn á, að þjóðleikhúsið verði fullgert eftir allt. — Ég mun greiða atkv. með till. hæstv. menntmrh.