11.05.1949
Neðri deild: 106. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (1324)

203. mál, skemmtanaskattur og Þjóðleikhús

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Það er stór bót að þeim brtt., sem komu frá n. og liggja hér fyrir á þskj. 680. Ég vil þakka hv. n. fyrir það að koma með þessar brtt., að leggja til að félagsheimilasjóður fái 40% af skemmtanaskattinum, en ég er ekki fyllilega ánægður með það. Ég tel, að ekki megi skerða félagsheimilasjóð svona mikið, og þess vegna hef ég hugsað mér að flytja brtt. við frv., sem ég vil leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 1. tölulið. a. Í stað „40%“ í b-lið komi: 45%. b. Í stað „25%“ í c-lið komi: 20%.“

Ég tel, að það hafi verið óforsvaranlegt að skerða félagsheimilasjóð. Mér finnst mjög hryggilegt, að það skuli hafa verið lagt til hér, eftir að sú félagsstarfsemi er komin í gang og hefur byggt vonir sínar á honum. Og þó að ég vilji á engan hátt draga úr þýðingu þess að koma þjóðleikhúsinu upp til þess að forðast skemmdir á því, sem þar er hálfgert, þá er engin leið með þeim rökum einum að mæla á móti þeirri mjög merku félagsstarfsemi, sem á sér stað úti um landið og byggir að verulegu leyti á þeim styrkvonum og lánsmöguleikum, sem félagsheimilasjóður veitir. Því er ekki að neita, að það hefur verið haldið skrýtilega á þessu máli. 1947, þegar ákveðið er að stofna félagsheimilasjóð, er upplýst, að ef þjóðleikhúsið fái skemmtanaskattinn 1947, muni verða hægt að ljúka við bygginguna. Og ekki nóg með það. Þá átti líka að vera hægt að ljúka við lóðina í kringum húsið, en til þess hlýtur allmikil fjárhæð að fara. Svo líður og bíður, og nú í vor, þegar verið er að athuga þetta, kemur í ljós, að það vantar 4,2 millj. kr. til þess að fullgera þetta verk. Af því eru 300 þús. í byggingarsjóði hjá þjóðleikhúsinu, og rekstrarframlagið 1948 er 800 þús., sem nú er leitað heimildar til að nota í byggingarkostnað, en átti að fara í rekstrarsjóð. Til viðbótar eru svo þær 3 millj. kr., sem talið er að þurfi enn þá til að fullgera verkið. Nú veit ég ekki, hversu glögg áætlun þetta er, sem þarna er um að ræða. En fyrst hæstv. ráðh. gat látið frá sér fara svona tölur 1947, sem hafa reynzt svona rangar, hvaða sönnun höfum við fyrir því nú, að þetta séu réttar tölur? Ég hef tekið fram hér áður, að þegar ég greiddi atkv. 1947 með því, að félagsheimilasjóður fengi 50%, þá gerði ég það ekki vegna þess, að ég teldi, að þjóðleikhúsinu væri lokið. Ég hef alltaf talið eðlilegt, að hluti af þessum skatti færi til félagsheimilasjóðs, og ég tel það alveg eins óeðlilegt og ranglátt að taka þetta nú aftur frá félagsheimilasjóði og setja það í þjóðleikhúsið. Eins og nú er komið, þá hefur ríkisstj. margfalt meiri möguleika til að afla láns til að ljúka við leikhúsið en þau mjög svo fátæku samtök hingað og þangað um land, sem hafa ráðizt í að byggja sér félagsheimili í trausti þess, að þau ættu kost á að fá lán úr þessum sjóði. Og þeir, sem leggja mikla áherzlu á, að mikil verðmæti glatist, ef ekki er lokið við þjóðleikhúsið, ættu að hafa það hugfast, að það eru líka mikil verðmæti, sem glatast, ef taka á þetta fé úr félagsheimilasjóði, vegna þess að þeir aðilar hafa enga möguleika til að fá fé, en stj. getur fengið lán til að greiða þennan kostnað til að ljúka húsinu, þegar hún hefur eins öruggan tekjustofn til að standa undir því láni og hún hefur, einkum ef þetta frv. verður að l. í einhverri mynd.

Ég vil þess vegna leggja fram þessa till. til að tryggja það enn betur, að félagsheimilasjóður fái tryggingu fyrir því, að hann geti að mestu leyti haldið áfram óskertri starfsemi sinni.