16.05.1949
Efri deild: 110. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

203. mál, skemmtanaskattur og Þjóðleikhús

Frsm. (Björn Kristjánsson):

Herra forseti. N. ræddi þetta mál á fundi sínum á laugardagsmorgun og leggur til, að það verði samþ. óbreytt, en þó áskilja nm. sér rétt til að bera fram brtt. og fylgja öðrum brtt., sem fram kunna að koma.

Ég geri ráð fyrir, að hv. dm. hafi kynnt sér þetta frv. og athugað það, að með því er mikið lækkað það tillag, sem samkv. l. um skemmtanaskatt og þjóðleikhús frá 1947 átti að renna í rekstrarsjóð þjóðleikhússins, ef að l. verður. Þetta var gert til þess að fá fé til að ljúka við að koma upp þjóðleikhúsinu, og við vitum allir, hvernig það hefur gengið. Það er eitthvað yfir 20 ár síðan þau l. voru sett, og enn í dag er þjóðleikhúsið ekki tekið til starfa. Ég ætla ekki að rekja ástæðurnar fyrir því, hvernig þetta hefur gengið, en þær framkvæmdir, sem gera þurfti eftir stríðið, voru miklar og fjárfrekar, svoleiðis að ég hygg, að eins og nú horfir, þá muni vera útlit fyrir, að húsið muni kosta með þeirri viðbót, sem eftir er að leggja í það, um 13 millj. kr. Það mun hafa verið fyrir jól, sem fyrirspurn kom fram á Alþ. um það, hvað liði þjóðleikhúsinu og hvað mikið mundu kosta umbætur, sem verið væri að gera og eftir væri að gera. Og eftir upplýsingum hæstv. menntmrh. og eftir skýrslu frá þjóðleikhúsnefnd, virtist ekki vera svo mikið eftir að kosta til við húsið umfram það, sem allir vissu. En nú hefur farið fram ný athugun á þessu máli, og hefur reynzt miklu meira eftir af kostnaði en þá var vitað um. Ég held, að samkvæmt nýjustu áætlun muni vera talið, að um 3 millj. kr. vanti til þess að fullgera húsið og kaupa allan útbúnað, sem þarf, þó að frá sé dregið það fé, sem ekki kom inn í þjóðleikhússjóðinn, sem sé skemmtanaskatturinn á árinu 1948 og einhverjar eftirstöðvar, um 400 þús. kr., sem n. hefur til umráða. Þegar þetta er athugað, kemur í ljós, að það er ekki vel ástatt með fjárhag leikhússins og það mundi þurfa að bæta miklu við það fé, sem enn er fyrir hendi. Til þess að bæta úr þessu, hefur verið ákveðið með flutningi þessa frv., að 25% skemmtanaskattsins skuli renna í þjóðleikhússjóð. Ég veit ekki, hvað miklar tekjuvonir muni verða við þetta fyrir sjóðinn, en vitað er, að það muni þurfa nokkur ár til þess að borga byggingarkostnaðinn með þessu framlagi, þó að það komi. Hins vegar hefur verið dregið frá tekjum, sem áttu að renna í rekstrarsjóð þjóðleikhússins, og í rauninni er það sama að segja um það, að útlit mun vera fyrir, að þær tekjur, sem þeim sjóði eru ætlaðar með þessu frv., muni verða allt of litlar. Málið stendur þá þannig, að það litur út fyrir, að það muni þurfa um 5 ára tillag í byggingarsjóðinn, sem gert var ráð fyrir, að ekki þyrfti áður, og jafnframt, að líkur eru til, að rekstrarsjóðurinn hrökkvi hvergi nærri til þess að standa undir þeim kostnaði, sem hlýtur að verða við rekstur þjóðleikhússins. Til þess að ekki þyrfti að taka eins mikið af því fé sem á að renna í rekstrarsjóðinn, var lækkað lítils háttar það tillag, sem á að renna í félagsheimilasjóð frá því, sem stóð í l. Mig minnir, að það væri 45%, og er þá dregið af því 5%, og sannast að segja veitti ekki af því, að sá sjóður hefði haldið tekjum sínum. En hins vegar hefði ég, þó að ég hafi áhuga á þeim sjóði, fyrir mitt leyti getað fallizt á, að dregið yrði t.d. 5% af þeim sjóði frá því, sem nú er í frv. En um þetta mun ekki vera samkomulag, og þeir, sem mestan áhuga hafa fyrir að fá sem mest í félagsheimilasjóð, munu ekki geta sætt sig við, að framlagið verði minna, og leggur n. þess vegna til, að þetta verði samþ. eins og nú er í frv.