16.05.1949
Efri deild: 110. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (1342)

203. mál, skemmtanaskattur og Þjóðleikhús

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mér þykir þetta mál allkyndugt og langar í því sambandi að vita, hvað ríkisstj. gerir, þegar svona mál koma fram. Í byggingarnefnd þjóðleikhússins eru 3 menn: Jónas Jónsson alþm., Hörður Bjarnason og Ingimar Jónsson. Þessir menn eiga að sjá um byggingu þjóðleikhússins, og svo hefur húsameistari ríkisins yfirumsjón með byggingu og teikningum. Þegar það liggur fyrir á þinginu 1947 að fara að taka nokkurn hluta skemmtanaskattsins til að láta hann renna til félagsheimila að nokkru leyti, þá upplýsir þessi 3 manna byggingarn. að vel athuguðu máli, að það sé óhætt að taka þjóðleikhússjóðinn, því að leikhúsið sé komið svo áleiðis. Nú er langt síðan og mikið verið unnið síðan. En rétt fyrir jól upplýsist, eftir fyrirspurn í Sþ., að nóg fé sé til til að klára þjóðleikhúsið, en svo þegar farið er að rannsaka málið, eftir að Guðlaugur Rósinkranz kemur að því eftir áramót, þá upplýsist, að það vantar tæpar 4 millj. kr. til þess að hægt sé að klára leikhúsið. Hvað gerir ríkisstj. við svona n.? Lætur hún hana halda áfram? Hví rekur hún hana ekki frá sínu starfi? Hvers konar stjórn er þetta hjá húsameistara ríkisins, að gefa þessar upplýsingar? Á hverju byggjast þessar upplýsingar? Hefur ríkisstj. rannsakað, hvað þessi þjóðleikhúsn. gerir? Þetta eru vinnubrögð, sem eru langt fyrir neðan allar hellur hjá opinberum starfsmönnum og ekki er hægt að þola.

Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða málið. Það er meira en nauðsynlegt að finna sjóðnum tekjur. Mér hefur verið sagt, að það hafi verið unnið að því síðustu árin að brjóta niður annað árið það, sem byggt er upp hitt árið. Ég veit ekki, hvort það er satt, en að gefa svo rangar skýrslur eins og gert var fyrir áramót, það finnst mér vera svo fráleitt af einni ríkisstj. að þola af opinberum starfsmönnum, að ég vil láta tafarlaust reka þá og láta þá ekki koma nærri slíkum störfum eftirleiðis.

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson): Þegar skemmtanaskattinum var skipt 1947, lágu fyrir nokkrar áætlanir frá þjóðleikhúsnefnd um ráðgerðar tekjur til áramóta 1947. Þá var gerð ný áætlun og gert ráð fyrir 4.600.000 kr., og var reiknað með að taka nokkuð af rekstrartillaginu 1948 inn í byggingarkostnaðinn. Fyrir jól í vetur hafði ég samband við form. þjóðleikhúsn. um það, hvernig háttað væri um kostnaðinn og peningamálin, og gaf hann upp 22. des., að það mundi vera svo, að peningar væru til rúmlega til að ljúka húsinu, en reikningum skilaði hann ekki og sagði, að húsameistari ætti að sjá um reikningshald. Svo þegar þjóðleikhússtjóri tók við starfi sínu, óskaði ég eftir, að hann rannsakaði, hvað eftir væri og hvað gengið hefði alls í þetta, og hann gerði það. Kom þá í ljós, að það vantaði 3 millj. kr., til þess að hægt væri að ljúka þessu eins og n. hafði gert ráðstafanir um, þó að teknar væru inn í þetta 800 þús.kr.rekstrartekjur fyrir 1948. Hefur komið löng grg. um það, hvernig standi á þessum gífurlega mismun. Form. ber fyrir sig húsameistaraskrifstofuna og teiknistofu þá, sem hafi gert undirbúningsáætlanirnar o.s.frv. Sumt af þessum ástæðum eru frambærilegar, eins og það, að kaupgjald og tollar hafi hækkað, en stórfelldasti munurinn þar fram yfir eru sennilega illa samdar áætlanir. Óvæntur kostnaður hefur líka komið inn í þetta. T.d. kom það í ljós, þegar átti að fara að ganga frá raflögnum, að ekki var hægt að nota ljósaleiðslur, sem settar höfðu verið í húsið fyrir 10–20 árum. Síðan hefur komið nýtt prinsip í að lýsa svona byggingar. og verður því að gera þetta öðruvísi, og það þýðir, að það þarf að höggva fyrir nýjum ljósaleiðslum. Þetta er t.d. talsvert atriði, og ýmislegt kom annað til. En það kemur í ljós, að byggingarn. hefur ekki fylgzt með málinu eins og skyldi, um það þarf ekki að deila. Ég hef nú gert nokkrar ráðstafanir til að koma betra lagi á þetta. Í fyrsta lagi fól ég þjóðleikhússtjóra að fara enn yfir allt hjá form. byggingarn. og rannsaka, hvort nokkuð hafi fallið niður. Það hefur verið farið yfir allar áætlanir um húsið til að bera það saman. Í öðru lagi hafa verið gerðar ráðstafanir til, að húsameistari léti hafa betra eftirlit með vinnu við húsið og til þess ráðinn sérstakur maður að hafa þar alla stjórn á hendi. Í þriðja lagi hefur verið gengið frá því, að engar meiri háttar ákvarðanir séu teknar úr þessu af byggingarn. öðruvísi en í samráði við þjóðleikhússtjóra, og mun hann fylgjast með um þetta mál það sem eftir er. Hins vegar er n. ekki sett frá enn þá, og það er nokkur vafi, hvort það er til bóta að gera það, eins og þetta mál horfir við.