05.11.1948
Sameinað þing: 14. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (1360)

42. mál, fjárlög 1949

Helgi Jónasson:

Herra forseti. Alþingi er nú búið að hafa setu í tæpan mánuð og nú fyrst fer 1. umr. fjárl. fram. Einhvern tíma hefði það þótt óeðlilega langur dráttur á því, að fjárlagafrv. kæmi fyrir augu hv. þm., en um það skal ekki sakazt, ég býst við að hv. ráðh. hafi sínar afsakanir í því efni. Ég þykist vita, að það hafi ekki verið létt verk að undirbúa frv., svo að vel færi, ástandið í fjármálum og atvinnumálum þjóðarinnar er þannig, enda ber frv. það með sér á ýmsan hátt.

Enn þá hækka fjárl. allverulega frá því í ár. Í frv. er gert ráð fyrir 20 millj. kr. hækkun frá fjárl. yfirstandandi árs, og ef að venju lætur, munu þau ekki lækka í meðförum Alþingis. Enn þá er þjóðinni íþyngt með nýjum sköttum. Í frv. er áætluð 15 millj. kr. hækkun á söluskatti. Til þess verður að fá eina lagaheimild enn þá. Auk þess er gert ráð fyrir auknum tollum í trausti þess, að meira verði flutt inn á næsta ári af tollavörum, eins og vefnaðarvöru, en verður á þessu ári.

Það má með sönnu segja, að þetta komi engum á óvart, sem fylgzt hefur með og gert sér grein fyrir, hvert stefndi í fjármála- og atvinnulífi þjóðarinnar undanfarin ár. Það var vitað mál, að afleiðing af þeirri stefnu hlaut að verða síhækkandi fjárlög, hraðvaxandi hækkun á rekstrarútgjöldum ríkisins ásamt vaxandi álögum á þegna þjóðfélagsins, samfara minnkandi getu ríkisins til nauðsynlegra verklegra umbóta og aðstoðar í þágu atvinnuveganna. Allt þetta kemur berlega í ljós við athugun á fjárlagafrv., sem hér er til umræðu: Fjárl. hækka, eins og ég hef áður sagt, um 20 millj. kr., og rekstrarútgjöld ríkisins hækka um margar milljónir. Nýir skattar eru áætlaðir 15 millj. kr., og framlög til verklegra framkvæmda og önnur aðstoð við atvinnuvegina áætluð mörgum millj., jafnvel milljóna tugum lægri en í yfirstandandi fjárlögum. Við vitum þó, áð atvinnuvegirnir standa að ýmsu leyti höllum fæti, að minnsta kosti mikill hluti bátaútvegsins á í miklum þrengingum og hefur farið fram á stóraukna aðstoð ríkisins, ef ekki á allt að stöðvast á komandi vertíð.

Ég áfellist ekki hæstv. ráðh., þó að svona hafi farið með undirbúning fjárlagafrv. Ég veit, að hann hefur gert það eins vel úr garði og honum var unnt, enda þótt ég sé honum mjög ósammála um ýmis ákvæði frv., og mun ég víkja að því síðar. Nei, sökin liggur í stjórnarstefnu undanfarinna ára og hvernig Alþ. og ríkisstj. hefur haldið á þessum málum hin síðari ár, og þar á náttúrlega hæstv. ráðh. sinn þátt í, ásamt mörgum öðrum.

Við fyrstu sýn lítur fjárlagafrv. sæmilega út, þar er gert ráð fyrir 27 millj. kr. rekstrarafgangi og greiðsluhalli á sjóðsyfirliti mjög óverulegur, en við nánari athugun kemur brátt í ljós, að þar virðist vanta stóra útgjaldaliði, sem eins og sakir standa virðist óhjákvæmilegt að taka tillit til og að öllu óbreyttu inna af hendi háar fjárhæðir á næsta fjárlagaári. Í þessa árs fjárl. er 55 millj. kr. varið í þessu skyni til dýrtíðarráðstafana, til niðurgreiðslu á vörum innanlands og í útflutningsbætur á bátafiski. Í frv. er í þessu skyni gert ráð fyrir 33 millj. kr. til niðurgreiðslu á vörum innanlands og 6 millj. kr. til styrktar bátaútveginum frá síðustu síldarvertíð. Ekkert bendir til þess, að unnt verði að hafa þessa upphæð lægri en á yfirstandandi ári. Það er vitað, að bátaútvegurinn telur sig þurfa að fá mun hærra ábyrgðarverð en áður og auk þess þarf hann, eins og áður segir, á allverulegri hjálp að halda, ef útgerðin á ekki að stöðvast. Það er því sýnt, að þessi áætlaða upphæð er allt of lág, nema ríkisstj. og Alþ. ætli annaðhvort að draga úr niðurgreiðslum að miklum mun og hætta að ábyrgjast bátafiskinn — það er vissulega leið fyrir sig, en allmikilli röskun mundi hún valda að minnsta kosti fyrst um sinn í atvinnulífi þjóðarinnar — eða að öðrum kosti niðurfærslu dýrtíðarinnar, um aðrar leiðir virðist ekki vera að ræða.

Ég mun nú lítillega minnast á hinar einstöku greinar frv. Um tekjuáætlunina er það að segja frá mínum bæjardyrum séð, að hún mun vera áætluð til hins ýtrasta og ekki má mikið út af bregða til þess, að þær tekjur, sem þar er gert ráð fyrir, komi til skila á næsta ári, enda þótt Alþ. samþykki hækkun söluskattsins. Það er því sýnt, að Alþ. geti ekki nú, eins og svo oft áður, gripið til þess úrræðis, þegar í harðbakkann slær, að hækka tekjuáætlunina. Nú virðist boginn vera spenntur svo hátt, að ekki er með neinu móti hægt að gera sér vonir um meira fé, nema nýir tekjustofnar komi til, og má búast við, að þeir verði vandfundnir.

Við athugun á gjaldabálki frv. kemur í ljós, eins og ég gat um áður, stórkostleg hækkun á rekstrarútgjöldum ríkisins. Nægir í því sambandi að nefna framlög til stjórnarráðsins og utanríkisþjónustunnar. Til þessara aðila er gert ráð fyrir tæpri millj. kr. hækkun á næsta ári.

Til dómgæzlu og lögreglustjórnar nemur hækkunin rúmri milljón, og til innheimtu skatta og tekna er gert ráð fyrir tæpri millj. kr. hækkun frá því, sem er á þessa árs fjárl. Svona mætti lengi telja, en ekki er tími til að tína meira fram að þessu sinni.

Vextir af lánum ríkissjóðs eru áætlaðir rúmar 7 millj. kr., og er það rúmlega 2 millj. kr. hækkun frá því, sem nú er. Auk þess eru áætlaðar 4 millj. kr. til greiðslu vaxta og afborgana af lánum, sem ríkissjóður er í ábyrgð fyrir, en eru nú í vanskilum. Þessar tölur þurfa engra skýringa við, þær tala sínu máli.

Á s.l. vetri skipaði ríkisstj. svokallaða sparnaðarnefnd. Í henni eiga sæti nokkrir skrifstofustjórar í stjórnarráðinu og ríkisbókari. Auk þeirra tóku á s.l. vori tveir alþm. sæti í n. þeim til aðstoðar. N. þessi á að athuga allan rekstur ríkisins og stofnana þess og gera rökstuddar tillögur til ríkisstj. um sparnað í ríkisrekstrinum eins og nafnið bendir til. Það skal fúslega játað, að þetta er erfitt verk, seinunnið og vandasamt, enda hefur verið furðu hljótt um n. þessa, og víst er um það, að ekki ber fjárlagafrv. það með sér, að n. þessari hafi orðið mikið ágengt í starfi sínu fram að þessu. N. sú mun starfa enn þá, og vonandi getur hún, þegar farið verður að vinna að afgreiðslu fjárl., gefið fjvn. ýmsar upplýsingar og bent á úrræði til sparnaðar á rekstri þjóðarbúsins, og er þess að vænta, að góð samvinna takist með n. og hv. fjvn.

Það er kunnugt, eins og ríkisbáknið er orðið umfangsmikið og útþenslan gífurleg á öllum sviðum, að það er ókleift fyrir fjvn. og Alþ. að fylgjast með þeirri þróun og dæma um, hvort í þessari eða hinni starfsgreininni er um óeðlilega útþenslu að ræða. 1938 var sá háttur upp tekinn af þáv. fjmrh. að láta prenta með fjárlagafrv. skrá yfir alla starfsmenn hinna einstöku stjórnardeilda og ríkisstofnana, þar sem tilgreint var starf og launaupphæð hvers starfsmanns fyrir sig. Þetta var ágæt og nauðsynleg regla, sem hjálpaði til að skapa visst aðhald um fjölgun starfsmanna, þá gat fjvn. og Alþ. fylgzt með þróun þessara mála og borið saman starfsmannaskrá frá ári til árs. En þetta fyrirkomulag var aðeins viðhaft í 3 ár og fellt niður, er Eysteinn Jónsson lét af störfum fjmrh. Síðan hefur reynzt mjög erfitt og oftast ókleift að fá fullt yfirlit yfir starfsmannahald ríkisins og launakjör þess, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fjvn. Ég get ekki skilið þá þrákelkni og andstöðu fjmrn. að verða við þessari sjálfsögðu kröfu Alþ., og ég sé ekki annað ráð, ef ekki fæst úr þessu bætt, en að fjvn. beinlínis neiti að vinna að afgreiðslu fjárl. fyrr en fyrir liggur nákvæm starfsmannaskrá fyrir síðustu 2–3 ár, þar sem fram er tekið laun, auka- og eftirvinna hvers einasta starfsmanns ríkisins og stofnana þess, svo að fjvn. og Alþ. fái fullt yfirlit yfir þessi mál og geti fylgzt með því, hvort fylgt sé ákvæðum launalaga. Með þessu frv. fylgir skrá yfir alla þá, sem eftirlaun taka samkv. 18. gr. fjárl., glögg og greinargóð, en það er ekki nóg, að það verði. Það þarf að koma skrá yfir alla hina, sem taka laun samkv. öðrum greinum frv.

Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir stórfelldri lækkun til verklegra framkvæmda. Til nýrra akvega nemur lækkunin tæpum 4 millj. kr., í frv. er gert ráð fyrir 3 millj. kr. í þessu skyni. Til notendasíma í sveitum nemur lækkunin millj., til brúargerða er gert ráð fyrir 750 þús. kr. lækkun og til bygginga skólahúsa nemur lækkunin í frv. 21/2 millj., og til raforkuframkvæmda er gert ráð fyrir 1 millj. kr. lækkun, úr 2 millj. í 1 millj. Þetta er samtals tæpar 9 millj. kr., sem í þessum liðum er gert ráð fyrir, að sparað verði á næsta ári miðað við fjárveitingar yfirstandandi árs. Auk þess er um allverulegar lækkanir að ræða á öðrum liðum, sem hér verður ekki talið upp.

Ég get vel fallizt á það með hæstv. ráðh., að nauðsynlegt sé fyrir okkur að horfast í augu við þá staðreynd, að lækka verði eitthvað framlög til verklegra framkvæmda sökum fjárhagsörðugleika ríkissjóðsins, en ég er þess fullviss, að við megum ekki, ef við ættum að komast aftur úr kútnum, grafa undan atvinnuvegum vorum, hvorki til lands né sjávar. Það er lífsnauðsyn okkar nú að hlynna að þeim eftir föngum, allt annað verður að þoka til hliðar. Allt er undir því komið, að atvinnuvegirnir eflist frá því, sem nú er. Það verður því að spara á öðrum sviðum. Ég veit það, að nú verðum við mjög að draga úr byggingaframkvæmdum þess opinbera, þótt bráðnauðsynlegar séu.

Vegirnir eru sannarlega lífæðar framleiðslunnar í sveitum landsins, og bættar samgöngur eru frumskilyrði þess, að hægt sé að reka landbúnað, eins og nú er komið framleiðsluháttum. Vegirnir eru jafnnauðsynlegir fyrir bóndann og hafnargerðir og lendingarbætur fyrir útvegsmanninn. — Nú á seinni árum eru hafin feikna átök í ræktun í sveitum landsins, virkar vélar vinna dag og nótt að þurrkun og ræktun landsins, og vonir standa til, að þessar umbætur geti haldið áfram og aukizt stórlega með auknum vélakosti. Allar þessar miklu framkvæmdir byggjast á því, að unnið verði af ríkisins hálfu kappsamlega að bættum samgöngum og aukinni vegagerð í sveitum landsins. Mig setti hljóðan, er ég sá í fjárlagafrv., að hæstv. ráðh. leggur til, að framlög til nýrra þjóðvega verði lækkuð um meira en helming frá því, sem veitt var á þessu ári í því skyni, og í aths. hæstv. ráðh. við þessa fjárveitingu segir, að þær 3 millj. kr., sem áætlað er að verja til nýrra vega, skuli eingöngu nota til aðalvega á langleiðum, en ekkert af því skuli renna til nýrra vega í dreifbýlinu. Hæstv. ráðh. telur það hið mesta óráð að verja nokkru fé til smávegagerða víðsvegar um landið eins og hann orðaði það í aths. Er það virkilega meining hæstv. ráðh., að hætt skuli við að leggja og endurbæta vegi um dreifbýlið? Hæstv. ráðh. segir, að með því sparist mikið fé. Það er nú svo. Er það sennilegt, að þessi litla þjóð með fjárlög að upphæð 241 millj. kr., sem telur sig geta veitt sér þann munað að verja til rekstrar ríkisbáknsins yfir 100 millj. kr., sem telur sig hafa efni á því að hafa sendiherra og rándýr sendiráð í svo að segja öðru hverju landi álfunnar, veitir sér þann lúxus að senda stórhópa af fólki til alls konar íþrótta- og söngmóta og alls konar funda og ráðstefna víðs vegar um heim, sumpart fyrir ríkisfé eða styrk af ríkinu, — er það sennilegt, að hjá henni sé aðalúrræðið, sem bent er á, að skera sundur lífæð elzta, virðulegasta og öruggasta atvinnuvegar landsins. Ef landbúnaðinum blæðir út, þá er ég hræddur um, að fleira fari á eftir í þessu þjóðfélagi. Hér er ekki unnt að slaka á klónni, við verðum að herða sóknina til styrktar atvinnuvegunum með því eins og að undanförnu að veita fé til vegagerða, brúarsmíða, hafnarbóta, rafmagns o.fl.

Ég er sammála hæstv. ráðh. í því, að nauðsynlegt og skylt er af Alþ. að afgreiða fjárl. rekstrarhallalaus. En það er auðsætt, að á frv. verður að gera mikla breytingu og tilfærslur frá því, sem nú er, og vonandi tekst Alþ. það, svo að viðunandi megi teljast.