05.11.1948
Sameinað þing: 14. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (1364)

42. mál, fjárlög 1949

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Í febrúar 1947 var mynduð ný ríkisstjórn á Íslandi. Í málefnasamningi, sem þjóðinni var birtur, lýsti hún þeim verkefnum, er hún ætlaði að framkvæma, og voru helztu atriðin þessi:

1. Stöðva hækkun dýrtíðar og framleiðslukostnaðar og lækka dýrtíðina.

2. Byggja verksmiðjur og iðjuver til þess að vinna sem bezt úr öllum framleiðsluvörum til lands og sjávar.

3. Tryggja öllum réttlátar tekjur fyrir vinnu sína, en koma í veg fyrir óeðlileg sérréttindi og spákaupmennsku.

4. Koma fastri skipun á fjárfestinguna og draga þannig úr verðbólgu.

5. Breyta innflutningsverzluninni í það horf, að verzlunarkostnaður verði sem minnstur.

6. Setja á stofn sérstaka innkaupastofnun ríkisins er annist innkaup til ríkisstofnana (vita, hafna, vega- og brúargerða, verksmiðja, opinberra bygginga, sjúkrahúsa, skóla o.fl.).

7. Útrýma húsnæðisleysi og heilsuspillandi íbúðum hvar sem er á landinu.

Þannig voru nú þau loforð. Og það var fleira, sem átti að gera. Nú var setztur að völdum sá flokkurinn, sem mest hafði deilt á fyrrverandi stjórn fyrir óhófseyðslu og skipulagsleysi.

Sýknt og heilagt hefur Tíminn stagazt á 1300 millj., sem fyrrverandi stjórn hefði eytt. Í leiðara blaðsins 13. okt. s.l. stendur m.a.:

„Eins og fyrr segir, hafði fyrrverandi stjórn 1300 millj. kr. til ráðstöfunar. Af því fór aðeins 1/4 til framfara og nýsköpunar, hitt allt í eyðslu og óhóf“.

Hér er sannarlega ekki verið að skera utan af meiningunni. Hér er sagt fullum stöfum, að allt, sem þjóðin notaði í tvö ár til að kaupa fyrir matvörur, kaffi, sykur, fatnað, skótau, búsáhöld o.m.fl., í stuttu máli allt, sem hún þurfti til að lifa á þennan tíma, hafi verið eyðsla og óhóf. Nú skyldi tekið fyrir eyðsluna og óhófið bæði hjá þjóðinni og í rekstri hins opinbera. Nú skyldi komið lagi á fjármálastjórn ríkisins og atvinnuvegunum tryggðir afkomumöguleikar í samræmi við það.

Út úr fjárlagafrumvarpi því, sem hér liggur fyrir, má mjög lesa efndir þessara loforða. Og þá eru það aðallega þrír þættir, sem þar koma til greina. Í fyrsta lagi; á hvern hátt tekur ríkið þær skattatekjur, sem það þarf á að halda og þegnarnir verða að greiða. Í öðru lagi; hve mikið af þessum tekjum fer í beinan embættis- kostnað ríkiskerfisins og hvernig er það hlutfall samanborið við fyrri tíma. Í þriðja lagi; hvernig er séð fyrir aðstoð hins opinbera við atvinnuvegi þjóðarinnar, til verklegra framkvæmda og menningarmála. Skal nú hverju þessara atriða gerð nokkur skil.

Þess ber þá að minnast, að fyrsta ráðstöfun núverandi ríkisstj. í baráttunni við dýrtíðina var að hækka vöruverð í landinu um allt að 50 millj. með nýjum tollum. Allir muna bægslaganginn í Framsókn út af veltuskattinum 1945, sem lagður var á verzlunarfyrirtækin, og var honum sérstaklega fundið það til foráttu, að hann væri lagður á kaupfélögin. En á s.l. ári tók hæstv. ríkisstj. þessa tekjuöflunarleið upp aftur, og nú var ekki látið sitja við 12 millj. eins og 1945. Hann var hækkaður upp í 17 millj. og nú lagður beint á vöruna, beint á fólkið. Auðvitað var reynt að klína yfir þetta með því að breyta um nafn. Nú heitir hann söluskattur. Og í þessu frv. er hann ekki áætlaður 17 millj. Nei, hann er hækkaður um helming og á nú að nema 34 millj. M.ö.o., hann er nærri þrefaldaður frá 1945. Og hann er lagður á kaupfélagsmennina, en ekki kaupfélögin sjálf. En góðir Framsóknarkjósendur eiga að vera ánægðir í þeirri góðu trú, að það sé þó ólíkt betra fyrir einstaklinginn að greiða sjálfur 340 kr. í söluskatt en að láta kaupfélagið sitt borga 120 kr. í veltuskatt. Hér er því gengið lengra en fyrr í því að leggja byrðarnar á allan almenning með því að hækka vöruverðið með tollum, en slíkt veldur ekki lækkun á dýrtíðinni, heldur hækkun, hvernig sem reynt er að fela hana með falsaðri vísitölu.

Þá er vert að athuga, hvernig staðið er við loforðin um sparnað í rekstri ríkisins. 10. gr. fjárlagafrv., sem hefur inni að halda greiðslur allar til ríkisstj., þ.e. ráðuneytin og utanríkisþjónustan, var 3 millj. og 699 þús. árið 1946, en er nú áætlað 5 millj. 449 þús. Þ.e., þessi kostnaður hefur hækkað um þriðjung í tíð núv. ríkisstjórnar.

A-liður 11. gr., þ.e. dómgæzla og lögreglustjórn var 7 millj. 800 þús. 1946, en er áætlað 1949 að verða 11 millj. 559 þús., hefur sömuleiðis hækkað um þriðjung. Öll sú grein, sem hefur inni að halda þessa fjóra flokka: Dómgæzlu og lögreglustjórn, opinbert eftirlit, kostnað við innheimtu tolla og skatta og sameiginlegan kostnað við embættisrekstur, var á fjárlögum 1946 12 millj. 616 þús., en er nú áætluð 1949 ekki minna en 19 millj. og 300 þús. Það skyldi þó aldrei hafa gleymzt að spara 600 þús. krónurnar, sem talað var um í fyrra, að nú ætti að fara að spara með því að leggja niður einhverjar óþarfanefndir.

Allra gleggsta dæmið um útþenslu og þar með fjáreyðslu í embættiskerfi ríkisins er þó fjárhagsráð og undirdeildir þess, viðskiptanefnd, verðlagseftirlitið og skömmtunarskrifstofan. Samkvæmt nýjustu upplýsingum hefur kostnaðurinn við fjárhagsráð og þessar deildir þess orðið 1 millj. 619 þús. kr. á fyrra helmingi þessa árs, sem þýðir á fjórðu milljón allt árið. Með þessum stofnunum mun eiga að vinna tvennt: koma skipulagi á fjárfestinguna og draga úr verðbólgu, eins og lofað var í stjórnarsamningnum. Þetta hefur tekizt að því leyti, að flestar framkvæmdir standa meira og minna fastar, en verðbólgan vex. Enn fremur munu þessar stofnanir eiga að koma í veg fyrir þá eyðslu og óhóf, sem um var rætt í áðurnefndum leiðara Tímans, þar sem talið er, að allt, sem þjóðin eyddi utan þess, sem fór í nýbyggingu, hafi verið óþarfi. Ekki verður annað sagt, en að þessi tilgangur hafi náðst að verulegu leyti. Honum er náð með því í fyrsta lagi að hafa skömmtun á ýmsum vörum, svo sem kaffi og sykri, svo litla, að alls ekki nægi fyrir venjulegum þörfum, og í öðru lagi er honum náð með því að hafa alls ekki á boðstólum margar helztu nauðsynjavörur, eins og t.d. nauðsynlegustu vefnaðarvörur, sokka, vinnuföt og margt fleira mætti telja. En það þarf engan að undra, þótt umfangsmiklar og dýrar stofnanir þurfi til þess að skipuleggja málefni þjóðarinnar á þennan hátt.

Nú veit ég, að mörgum verður á að spyrja, hvort hvergi sé þá um sparnað að ræða í þessu frv. Jú, víst er það. Framlög til verklegra framkvæmda eru lækkuð að stórum mun. Til nýrra akvega eru aðeins ætlaðar 3 millj. kr. í staðinn fyrir 6 millj. 700 þús. á síðustu fjárlögum. Til nýrra brúa 2 millj. í stað 2 millj. og 700 þús. áður. Til bygginga barnaskóla er skorið niður um 11/2 millj., úr 3,5 niður í 2. Framlag til bygginga gagnfræða- og héraðsskóla er lækkað úr 2 millj. niður í 1 millj. og 400 þús. og til nýrra húsmæðraskóla lækkað um helming. Er þó alveg vitað, að til framkvæmda á hinni nýju skólalöggjöf þarf mun hærri framlög en þetta, meðan verið er að byggja hin nauðsynlegustu skólahús. Þetta nægir til að sýna fram á, að í frv. er ríkjandi sú stefna, að vöxturinn í embættiskerfi ríkisins er örari en nokkru sinni fyrr, á sama tíma sem dregið er úr framlögum til verklegra framkvæmda og menningarmála. Þessi stefna, ef fylgt verður, hlýtur að hefna sín síðar meir.

Gjaldeyrisskortur er sífellt viðkvæðið, þegar um er rætt eitthvað, sem aflaga fer í verzlunar- og viðskiptamálum, og það er þægilegt að hafa slíkt tjald að skjótast bak við, þegar verja þarf það ástand, sem í þeim ríkir. Það er þægilegt að temja sér aðeins eitt svar við öllu. Af því að fyrrv. stjórn var búin að eyða öllum gjaldeyrinum, verður nú að vanta jafnvel sængurföt og vinnuföt, nota bene þó nema það, sem fæst á svörtum markaði og þá náttúrlega á margföldu verði.

En það er fróðlegt að fletta upp bæði í skýrslu Landsbankans og hagtíðindum til frekari glöggvunar á þessum málum. Skýrsla Landsbankans upplýsir það, að þegar andvirði innfluttra skipa er dregið frá heildarinnflutningi áranna 1946 og 1947, þá verður vöruinnflutningurinn 1947 430 millj. og aðeins 412 millj. 1946, eða 18 millj. hærri síðara árið. Og síðustu hagtíðindi upplýsa það, að gjaldeyristekjur á 8 fyrstu mánuðum þessa árs eru 260 millj. kr. Til samanburðar skal þess getíð, að á sömu mánuðum í fyrra námu þær aðeins 160 millj. Sé þetta nú borið saman við árið 1946, sem var toppár í innflutningi og alltaf hefur verið vitnað í sem óhófs- og eyðsluár af þeim, sem talið hafa sér skylt að níða á allan hátt þá, sem þá fóru með völd, þá sést það, að á árinu 1947, sem er fyrra valdaár núverandi ríkisstj., er um 18 millj. kr. meiri gjaldeyriseyðslu að ræða, þótt frá sé dreginn skipainnflutningur bæði árin. Enn fremur sést, að á 1/3 hlutum yfirstandandi árs er búið að flytja inn vörur fyrir nærri 230 millj. kr. að frádregnum skipum. Þannig hlýtur mörgum að verða á að spyrja, að fengnum þessum upplýsingum, hvernig á því standi, að hér þrátt fyrir allan þennan vöruinnflutning auk framleiðsluteknanna, 430 millj. kr. á síðasta ári og 230 millj. til ágústloka yfirstandandi árs, þá skuli tímum saman vanta hreinlætisvörur, vefnaðarvörureitir, sem búið er að útfylla, skuli felldir úr gildi áður en nokkuð fæst út á þá, og því í raun og veru ekki reynast neitt annað en falskar ávísanir. Nauðsynlegustu búsáhöld og vinnufatnaður ófáanlegt tímum saman.

Það litla sem almenningur fær af vefnaðarvöru, ef hún fæst með höppum og glöppum, er hann neyddur til að kaupa tilbúið, sem þýðir margfalda álagningu og þar með aukna dýrtíð.

Það er ekkert, sem getur hindrað það, að viðskiptin innanlands gangi fyrir sér á þann hátt, að heildverzlunin selji smásala vefnaðarvörustranga með 5% álagningu, smásalinn selji saumastofu strangann með 25% álagningu, saumastofan selji fatnaðinn til heildsala og heildsalinn aftur til smásala. Meðan þetta gerist, getur húsmóðir engan metra fengið til að sauma föt úr sjálf, hversu gjarna sem hún vill spara sér bæði vinnulaun og verzlunarálagningu. En í málefnasamningi hæstv. ríkisstj. stendur fallegt ákvæði, það, að vinna að því, að verzlunarkostnaður verði sem minnstur.

Þá er það vitað, að einmitt í skjóli þessa ástands þrífst svartur markaður og hvers konar ólöglegt brask í algleymingi. Framsfl. er víst með þessu að lagfæra ófremdarástandið, sem hann taldi vera á þessum málum á tíma fyrrv. stjórnar, og leggur þó ljós fyrir sú staðreynd, að aldrei hefur verið kreppt að kaupfélögunum hvað innflutningsleyfi snertir eins og nú.

Það var líka ákveðið í stjórnarsamningnum, að þau fyrirtæki skyldu sitja fyrir innflutningi, sem sönnuðu það, að þau gætu selt vörur sínar ódýrast. Engum manni dettur í hug að halda því fram,að reynt hafi verið að fylgja þessu ákvæði: Að innflutningnum sitja nokkrir af vildarvinum hæstv. innflutningsyfirvalda, með algerða einokunaraðstöðu. Svo heldur Sjálfstfl. út mörgum blöðum, þar sem frjálsri verzlun og framtaki einstaklingsins er sungið lof og dýrð, en er að drepa hvort tveggja niður að hætti amerískra auðhringa, þar sem hinir fésterkustu fá einokunarvöld í skjóli fjármagnsins og hlutdrægra gjaldeyrisyfirvalda og allur fjöldinn verður þeim háður.

Gjaldeyrisskortur er svarið við öllum umkvörtunum, þrátt fyrir 430 millj. kr. vöruinnflutning í fyrra og 230 til ágústloka í ár. Innflutningsyfirvöldin þverneita, að nokkrum gjaldeyri sé eytt fyrir bifreiðar. Slíkar syndir finnast aðeins á syndaregistri fyrrv. stjórnarvalda. Á sama tíma birtir einn af þingmönnum stjórnarfl. í þingskjali þær upplýsingar hagstofunnar, að á þrem fyrstu ársfjórðungum yfirstandandi árs hafi verið fluttar inn 190 fólksbifreiðar fyrir 2 millj. 395 þús. kr. og 79 vörubifreiðar fyrir 1 millj. 550 þús. kr. Samtals hátt á fjórðu millj. kr. En innkaupaheimild almenns borgara fyrir nauðsynlegum vefnaðarvörum er úr gildi felld, áður en hann fær nokkuð út á hana. Hann verður að láta sér nægja snuðtúttuna.

Byggja verksmiðjur og iðjuver til þess að vinna sem bezt úr öllum framleiðsluvörum til lands og sjávar, stendur í málefnasamningi hæstv. ríkisstj. Hvernig hefur svo þetta verið framkvæmt? Þegar stjórnin tók við, var, að tilhlutun fyrrv. atvmrh., langt komið byggingu stærðar fiskiðjuvers hér í Reykjavík, fullkomnustu verksmiðju af slíkri gerð hér á landi. Hér er um að ræða fyrirtæki, sem skapað gæti mjög mikinn gjaldeyri, ef það fengi að starfa með fullum krafti, en byggingu þess hefur ekki verið lokið og ekki heldur notuð sú afkastageta, sem þegar er fyrir hendi, því að það hefur ekki einu sinni verið veittur gjaldeyrir til kaupa á efni í niðursuðudósir nema að mjög óverulegu leyti, þótt vitað sé, að sá gjaldeyrir kæmi margfaldur aftur, þar sem varan er auðseljanleg við ágætu verði. Það er ekki þörf að fara um þetta mörgum orðum, því að jafnvel sjálf stjórnarblöðin hafa neyðzt til að birta upplýsingar frá forstjóra stofnunarinnar um þetta mál. En hér er enn eitt dæmi um það, hve vel er reynt að sjá fyrir gjaldeyristekjum þjóðarinnar.

Annað dæmi má nefna. Þegar fyrrv. stjórn fór frá völdum, var að tilhlutan þáverandi atvmrh. búið að undirbúa byggingu lýsisherzluverksmiðju, m.a. með því að kaupa inn allar aðalvélar, þær sem langan afgreiðslufrest þurftu. Þetta fyrirtæki hefði mátt vera búið að byggja, ef viljann hefði ekki vantað. Nú er þessi verksmiðja komin á óskalista ríkisstj., þann er sendur var til Parísar, og kvað eiga að byggjast síðar meir fyrir Marshallgjafafé, ef Bandaríkjastjórn vill þóknast að gefa okkur peningana.

Það sama má segja um þær ákvarðanir sem búið var að gera um byggingu síldarniðursuðuverksmiðju og tunnuverksmiðja.

Þá er ekki síður vert að minna á það ákvæði stjórnarsamningsins að setja á stofn innkaupastofnun ríkisins til þess að kaupa inn vörur fyrir ríkisstofnanir, til vita-, hafna-, vega- og brúargerða, verksmiðja, opinberra bygginga, sjúkrahúsa, skóla o. fl. Ekki vantaði það, að lög voru sett um þetta strax á fyrra helmingi ársins 1947. En hvað hefur svo gerzt síðan? Viðskmrh: Alþfl. framkvæmir lögin ekki, vegna þess að heildsalarnir í Sjálfstfl. berjast á móti því. Líklega hefði Sjálfstfl. ekki haldizt uppi slík ráðsmennska, vegna hinna augljósu hagsmuna heildsalanna er stangast við anda og framkvæmd laganna. Þá hefði almenningur séð í gegnum hlutina betur. Það er þægilegt fyrir klíkurnar 1 Sjálfstfl., sem mest græða á núverandi ástandi í verzlunarmálunum, að láta Alþfl. hafa framkvæmdina á hlutum, sem þeir mundu tæplega þora að gera sjálfir. Dæmið um innkaupastofnun ríkisins ber vitni um það. En Framsókn horfir á hlutina og telur víst, að verið sé að breyta innflutningsverzluninni í það horf, að verzlunarkostnaður verði sem minnstur.

Það liggur nú orðið ljóst fyrir, að nálega öll hin fögru loforð í stjórnarsamvinnunni hafa verið vanefnd, og það verkefni, sem stjórnin taldi sitt aðalmál, þ.e. að ráða niðurlögum dýrtíðarinnar, hefur svo gersamlega farið í handaskolum, að slíks munu fá dæmi. Að vísu voru samþ. á síðasta þingi lög um dýrtíðarráðstafanir, þar sem aðalákvæðið er að binda kauplagsvísitöluna í 300 stigum. Þannig á að fljóta á þeirri blekkingu, að vísvitandi fölsuð vísitala sé hinn rétti mælikvarði á dýrtíðina í landinu. Þetta kalla stjórnarblöðin stöðvun verðbólgunnar. Að vísu hefur tónninn í þeim tekið nokkrum breytingum upp á síðkastið, og virðist sem þau séu farin að efast um, að enn þá þýði að bera þessa fræðslu á borð fyrir almenning. Skal vikið að því síðar. Fjöldi fólks treysti því, þegar áðurnefndar ráðstafanir voru gerðar, að í kjölfarið mundu fylgja einhverjar raunhæfar ráðstafanir til lækkunar á vöruverði.

Launþegasamtökin hafa engar ráðstafanir gert til að svara þeim launalækkunum, sem þarna voru framkvæmdar. En hvað hefur svo almenningur fengið í staðinn? Meiri dýrtíð, hækkað verðlag, vöruþurrð og svartamarkaðsokur. Þetta eru afrekin í dýrtíðarmálunum, sem ríkisstjórnin taldi sitt aðalverkefni að leysa. Það getur því ekki talizt undarlegt, þótt flokkar og blöð hæstv. ríkisstj. séu farin að efast um trú almennings á því, að verið sé að leysa úr þessum málum.

Fram að þessu munu flestir hafa búizt við því, að nú yrði komið með nýjar till. í dýrtíðarmálunum, og ekki að ófyrirsynju. Þær framkvæmdir, sem enn þá hafa verið gerðar í þeim, hafa verið einhliða árásir á kjör og afkomu almennings í landinu, en öll loforðin um aðgerðir, sem gætu borið raunverulegan árangur, hafa verið svikin. Og ástæðan er sú, að slíkar ráðstafanir mundu koma við pyngju peningamannanna, sem fyrst og fremst kepptu að því að klambra núverandi ríkisstj. saman til þess að vernda sína hagsmuni. Þess vegna spyr hver maður, hvað muni nú koma næst, bæði til að lækka dýrtíðina og tryggja framleiðsluna og þar með framhaldandi gjaldeyrisöflun. Og í 19. gr. fjárlagafrv. eru tvær áætlaðar upphæðir vegna þessara hluta, þ.e. í fyrsta lagi til dýrtíðarráðstafana 33 millj. og til stuðnings bátaútveginum vegna veiðibrests á árinu 1948 6 millj. kr. Er vert að athuga þessi atriði nánar.

Hvað bátaútveginn snertir, þá er alkunnugt, hvernig hag hans er komið eftir þrjár lélegar síldarvertíðir, og þó sérstaklega hina síðustu. Liggur í augum uppi, að bráðan bug verður að vinda að þessari aðstoð, ef þjóðin á ekki að bíða stórtjón af. Nú er einmitt vonazt eftir, að síldin komi í Hvalfjörð hvern daginn sem líður, og allmikið verið í það lagt að taka á móti henni. Hins vegar er það vitað, að mikill hluti bátaflotans getur ekki farið á veiðar að nýju, nema greitt sé úr erfiðustu fjárhagsörðugleikum á einhvern hátt, enda mun það vera tilgangurinn með þessu 6 millj. kr. framlagi, sem frv. gerir ráð fyrir. Hins vegar liggur það ljóst fyrir, að raunhæfar aðgerðir í þessu máli má ekki draga þangað til fjárlög eru samþykkt. Ef dæma skal eftir venju síðustu ára, má búast við, að samþykkt fjárlaga dragist nokkuð fram á næsta ár, e.t.v. fram í febrúarlok. Dragist að leysa vandkvæði bátaflotans þangað til, verður vetrarsíldveiðin lítil sem engin, þótt síldin komi upp í landsteina eins og verið hefur 2 síðastl. ár. Tap þjóðarinnar í minni framleiðslu mundi þá nema tugum eða hundruðum millj. króna í erlendum gjaldeyri og verða óbætanlegt. Nú má það vel vera, að hæstv. ríkisstj. telji sig ekki hafa heimild til að leggja fram þetta fé án samþykkis Alþingis. Skal það út af fyrir sig ekki vefengt. En þeirrar heimildar verður að afla svo fljótt sem unnt er og hefði auk þess mátt vera búið. Nokkrum sinnum hefur það komið fyrir, þegar miklu máli hefur þótt skipta, að lög hafa verið afgreidd á einum sólarhring. Þetta er hægt enn þá. Ef ríkisstj. ekki sér aðra leið færa en að afla sér heimildar þ., þá ber henni skylda til að leggja frv. þess efnis fyrir þingið þegar í stað, og þinginu ber skylda til að afgreiða málið fljótt, Þannig mætti hafa málið leyst að örfáum dögum liðnum, ef vilji er fyrir hendi og nægileg samvinna milli þings og stjórnar. Verði þetta ekki gert, getur það bakað þjóðinni óbætanlegt tjón. Sú fjárupphæð, sem til þessa yrði heimiluð, yrði síðan eðlilega samþykkt á fjárlögum á sínum tíma, þegar þau verða afgreidd. Að vísu skal það tekið fram, að mér skildist á hæstv. ráðh., að hann mundi einmitt hugsa sér svipaða leið og þessa. Það tel ég út af fyrir sig ágætt, en vil hins vegar benda á, að ef hún var fyrirhuguð, þegar séð var, hvernig afkoma bátaflotans mundi verða, þá hefði verið ástæða til að leggja slíka tillögu fyrir í byrjun þings. Mér er satt að segja ekki skiljanlegt, hvers vegna er beðið svona lengi, úr því að tilgangurinn virðist vera að fara þessa leið.

Þá vil ég koma að hinum aðalliðnum á 19. gr., sem er 33 millj. til dýrtíðarráðstafana. Er það 22 millj. lægra en á fjárl. þessa árs, þar sem upphæðin var 55 millj. kr. Var þar um að ræða hvort tveggja, niðurgreiðslur og uppbætur samkvæmt fiskábyrgðarlögunum. Er tekið fram í athugasemdum við frv., að hin áætlaða upphæð muni ekki hrökkva til þessa hvors tveggja, ef því skuli halda í sama horfi og áður. Er hér ótvírætt gefið í skyn, að fyrirhugaðar séu ráðstafanir til breytinga, þótt ekki sé sagt, hverjar þær verði. Hins vegar er það vitað mál, að innan vébanda, þar sem um þessi mál er fjallað, hefur í fullri alvöru verið rædd sú leið, að hætta að taka fé til verðuppbóta á bátafiskinn með framlagi úr ríkissjóði, en taka í þess stað upp þá aðferð að nota þann gjaldeyri, sem fæst fyrir bátafiskinn, til þess að kaupa fyrir sérstakar vörutegundir, er síðar verði seldar dýrara en vera þyrfti, og nota það fé, sem með þeirri verðhækkun fæst, til uppbóta á fiskverðið. Verði þetta ofan á, verður skapað hér raunverulega tvöfalt gengi í innanlandsviðskiptum. Auðvitað mundi þess gætt að láta þessar vörur ekki ganga inn í vísitöluna. Þetta þýðir, ef framkvæmt verður, nýja og aukna fölsun á vísitölunni, hækkandi verð á þeim vörum, er hér um ræðir, þar sem verðhækkunin mundi verka eins og tollur, nýjar árásir á launa- og lífskjör almennings, raunverulega hækkun á dýrtíðinni. Því verður ekki neitað, að áætlunartalan á frv. — til dýrtíðarráðstafana — bendir mjög í þá átt, að þessa leið eigi að fara. Sú upphæð samsvarar nokkuð því, sem áður hefur farið til beinna niðurgreiðslna, og vantar þá einmitt þá upphæð, sem rætt hefur verið um að afla á fyrrgreindan hátt.

Þær árásir, sem þetta frv. boðar á kjör almennings, eru þá þessar:

Verðhækkun á þeim vörum, sem keyptar eru fyrir andvirði bátafisksins, ekki minna en 22 millj. kr. Hækkun söluskattsins 17 millj. Samtals allt að 40 millj. Þetta á að koma í viðbót við það, sem áður hefur verið gert, með tollunum og stýfingu vísitölunnar.

Þessar nýju álögur, sem frv. boðar, nema þá að meðaltali 1.500–1.600 kr. á hverja fimm manna fjölskyldu. Auðvitað eru þetta dýrtíðarráðstafanir, þ.e. ráðstafanir til að hækka dýrtíðina.

Þannig horfir nú með málefni þjóðarinnar í höndum þeirra flokka, sem tóku höndum saman til að leysa þessi mál:

En eins og ég sagði áðan, þá er nú farið að bera á þeim tón í blöðum þeirra, að svo virðist sem þeir séu farnir að efast um traust almennings á sér og sínum aðgerðum. Þannig eru Morgunbl. og Tíminn nú farin að della hástöfum út af því, að hvor kennir öðrum um, að ekkert hafi verið gert í dýrtíðarmálunum. Þannig segir Morgunblaðið í leiðara núna nýlega:

„Framsóknarmenn deildu mjög á stjórn Ólafs Thors fyrir vanmátt hennar í viðnámi gegn verðbólgunni. Það er þess vegna fróðlegt að athuga, hvort ekki liggi fyrir tillögur frá þeim nú, er þeir eru komnir í ríkisstj., um lausn þessa vandamáls. En kirkja fyrirfinnst engin. Það eru engar tillögur komnar frá framsóknarmönnum um það, hvernig eigi að sigrast á verðbólgunni.“

Og Tíminn svarar með nýjum leiðara með fyrirsögninni „Brotin á stjórnarsáttmálanum“, þar sem hann viðurkennir svikin, en kennir auðvitað samstarfsflokkunum um allt saman.

Er hægt að hugsa sér öllu meiri viðurkenningu á því, að stjórnin og flokkar hennar hafa gersamlega gefizt upp við að vinna það, sem þeir þóttust ætla að vinna og lofuðu þjóðinni. Það, sem þess vegna einkennir framkomu þeirra nú, er hræðsla, hræðsla við dóm þjóðarinnar og hræðsla hvers við annan. Þeir vita það, að skv. stjórnarskránni ber að hafa kosningar 4. hvert ár, og nú er ekki nema tæpl. hálft annað ár, þangað til þær eiga að fara fram að eðlilegum hætti. Þess vegna eru þeir farnir að hugsa um að hlaupast undan ábyrgðinni. Þrátt fyrir öll fögru loforðin og samþykktirnar hafa þeir aldrei komið auga á eða ætlað sér að fara aðrar leiðir, en beinar árásir á almenning í landinu. Þeir eru að ræða eina enn þá, hræddir við að leggja í hana og vega það og meta, hvort þeir eigi að leggja í hana eða gefast upp og hlaupast frá öllum vandanum. Þeim þykir sem kosningarnar séu helzt til nærri til þess að gera það, sem þá langar til, og búa sig því jafnframt undir brotthlaup. Þess vegna er ekki ráð, nema í tíma sé tekið, að reyna að velta sökum hver á annan. Þess vegna er það, að nú eru blöðin látin hnakkrífast dag eftir dag eins og um fullan fjandskap væri að ræða. En vitanlega er slíkt þýðingarlaust. Almenningur skilur fullvel, að sökin er hér ekki eins, heldur allra. Og hvor leiðin sem tekin verður, þá geta þeir aldrei hlaupið frá þeim verkum; sem þegar hafa verið unnin, aldrei klórað yfir þær staðreyndir, sem þjóðin þreifar á daglega.