24.03.1949
Sameinað þing: 53. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

42. mál, fjárlög 1949

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Dagskrá þessa fundar er dagsett 24. marz, og er þá verið að byrja á 2. umr. um fjárl. fyrir yfirstandandi ár. Ég veit ekki betur, en að ákveðið sé í stjskr., að fjárl. skuli afgr. fyrir áramót, og svo mun venjulega hafa verið á Alþingi þar til þrjú s.l. ár. Að vísu var undantekning frá þessu 1943, vegna þess að þá var raunverulega engin stjórn mynduð, og voru fjárl. ekki afgr. fyrir áramót það ár. 1944 og 1945 voru fjárl. afgr. fyrir áramót, en 1946–47 var stjórnarkreppa, og urðu fjárl. þá ekki afgr. fyrr en eftir áramót, en í tíð núv. stj. er búið að gera að fastri venju eða sama sem búið að lögfesta, að fjárl. skuli ekki afgr. fyrir þann tíma, sem á að vera, og að landinu skuli stjórnað fjárlagalaust verulegan hluta af hverju ári. Ég minnist þess, að í fyrsta skipti, sem ég leit inn hér á Alþingi, 1932, kom ég á áheyrendapalla og hlustaði á orðaskipti tveggja þm., þar sem annar sagði, að ef ekki tækist að afgr. fjárl. fyrir ákveðinn tíma, hefði stj., sem þá sat, átt að samþ. brbl. Annar þm. tók hann á þessum orðum og lét hann gera grein fyrir því, hvort hann meinti, að stj. hefði látið sér detta í hug að stjórna fjárlagalaust. Þetta leiddi til þess, að þáv. forsrh., sem studdur var af þeim þm., sem sagði, að stj. hefði borið að samþ. brbl., sá sig neyddan til þess að gefa þá yfirlýsingu, að þessi þm. talaði ekki fyrir munn stj., heldur á eigin ábyrgð. Hver maður, sem þarna hlustaði, skildi, að þessi orðaskipti sýndu, að hneykslanlegt þótti á þeim árum, að landið væri fjárlagalaust nokkurn tíma, en nú er svo komið, að þetta hefur ekki aðeins orðið að fastri reglu, heldur verið svo að segja lögfest tvö undanfarin ár með því að fresta samkomudeginum svo langt fram á haustið, að enginn vegur er að afgr. fjárl. fyrir byrjun þess árs, sem þau eiga að gilda fyrir. — Í sambandi við þetta hafa fallið ýmis orð frá stuðningsmönnum stjórnarflokkanna, t.d. form. Framsfl., sem sagði, að engu öðru landi í veröldinni mundi vera stjórnað fjárlagalaust, en allir þessir flokkar eru jafnsekir um þetta ástand. — Ég get ekki látið hjá líða að minnast á þetta, þar sem allt útlit er fyrir, að liðinn verði fjórðungur, ef ekki þriðjungur af þessu ári, þegar fjárl. verða endanlega afgreidd.

Þessu frv., sem hér liggur fyrir, var útbýtt 1. nóv. s.l. og var þá 42. mál þingsins, í stað þess að það á að vera fyrsta mál þ. að réttu lagi. Þessi vinnubrögð, sem nú eru orðin að fastri venju, hafa þau áhrif á þjóðarbúskapinn, að við slíkt verður ekki unað. — En í sambandi við það vil ég líka minnast á annað atriði, annað lagabrot, sem framið er hér, og það er brot á l. um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit, frá 1947. Í þeim lögum er skýrt tekið fram, að fjárhagsráð skuli hafa samið innflutningsáætlun fyrir byrjun þess árs, sem hún á að gilda fyrir, og er tilætlunin, að sú áætlun ásamt útflutningsáætlun og fjárfestingaráætlun liggi fyrir, þegar fjárl. eru afgr., svo að taka megi tillit til þeirra við afgreiðslu fjárl. Þessi lög hafa líka verið brotin, þannig að nú fyrst fyrir fáum dögum var þessari áætlun útbýtt hér á Alþingi. Afleiðing þessa er sú, að áætlanir fjárl. stangast við þær niðurstöður, sem þessar áætlanir eiga að gefa, þegar til kemur. T.d. vita allir, að tekjur ríkissjóðs af innflutningi til landsins eru mjög miklar, og þegar þær eru áætlaðar án þess, að nokkur gögn liggi fyrir um þann innflutning frá fjárhagsráði, liggur í augum uppi, að engin vissa er fyrir því, að tekjuáætlun fjárl. standist í sambandi við þá áætlun, sem fjárhagsráð á að gera fyrir þann tíma.

Önnur slæm afleiðing fyrir þjóðarbúskapinn í sambandi við þetta er sú, að þær áætlanir, sem gerðar eru um verklegar framkvæmdir í sambandi við fjárl., eru svo seint tilbúnar, að margar stofnanir, sem eiga að undirbúa þessar áætlanir, vita ekki fyrr en komið er langt fram á árið, hve mikið fé þeim er ætlað til þessara framkvæmda, t.d. vegamála, hafnarmála, o.fl. Af þessu leiðir, að ekki er hægt að undirbúa þessar framkvæmdir svo snemma sem gera þyrfti, sem aftur verður þess valdandi að þær verða síðbúnar, og getur farið svo, að beinlínis verði tjón af því. Frsm. meiri hl. gat þess réttilega í gær í framsöguræðu sinni, að legið hafa fyrir fjvn. kvartanir frá ýmsum aðilum, sem hafa fengið unnar vissar opinberar framkvæmdir af hálfu stjórnarvaldanna, og minntist á hafnargerðir í því sambandi, en í þeim efnum hafa orðið mistök í framkvæmdum, vegna þess að þær hafa ekki verið unnar á heppilegum tíma. Þetta er annað atriði, sem er mjög athyglisvert í sambandi við það, hve ill er sú venja, sem skapazt hefur, að draga afgreiðslu fjárl. langt fram á árið, eins og hér er gert.

Allir vita, að ástæðan til þessara vinnubragða er fyrst og fremst ósamkomulag innan ríkisstj. og þeirra flokka, sem að henni standa. Má benda á ummæli blaðanna. Þau rífast hvert ofan í annað og blað hvers flokks ber hina flokkana og ráðh. þeirra hinum herfilegustu sökum. Skal ég ekki lesa það hér, þess þarf ekki, en þetta sýnir, að það er ósamkomulagið á þessu heimili, sem er orsök þeirra vinnubragða, sem ég hef verið að lýsa og allir raunar kannast við.

Þá vil ég leyfa mér næst að minnast á nokkur atriði í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir og lagt var fyrir ríkisstj. 1. nóv. og vísað til fjvn. 5. nóv., þegar 6 vikur voru eftir til að afgr. það samkv. reglum og lögum.

Tvo aðalþætti vil ég benda á í þessu frv. með tilliti til fjárl. s.l. ára. Annars vegar hin stórhækkuðu framlög til embættismanna- og starfsmannakerfis ríkisins og hins vegar lækkun til verklegra framkvæmda til þess að vega nokkuð á móti þeirri hækkun. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um útþensluna í embættiskerfi ríkisins, vegna þess að frsm. meiri hl. lýsti því í gær, þar sem gert er ráð fyrir, að í þessum efnum verði um að ræða um 20 millj. kr. hækkun frá fjárl. s.l. árs. Þetta er rétt. En þegar gætt er betur að og farið lengra aftur í tímann, sést, að 10. og 11. gr. frv., sem náttúrlega eru aðalliðirnir í embættiskostnaði ríkisins, hafa hækkað um fullkomlega 1/2 millj. frá því, sem áætlað var í fjárl. 1946. Það er þess vegna ekki svo, að maður geti ekki út af fyrir sig skilið þá tilraun, sem verið er að gera til þess að draga úr heildarhækkun frv. með því að draga úr fjárframlögum til verklegra framkvæmda, þó að fjvn. hafi ekki orðið sammála um að fara þá leið. En hvað snertir lækkun til verklegra framkvæmda, get ég bent á nokkrar tölur, þar sem um lækkun er að ræða á frv. frá fjárl. s.l. árs. Framlag til nýrra akvega er lækkað um 3 millj. 770 þús., til nýrra brúa um 795 þús., til byggingar nýrra barnaskóla um 11/2 millj., til nýrra gagnfræðaskóla um 600 þús., til húsmæðraskóla um 800 þús., til sjúkrahúsbygginga sömuleiðis lækkað og til nýrra raforkuframkvæmda, auk hins lögboðna framlags til raforkusjóðs, lækkað um rúman helming. — Ég skal taka fram, að yfirleitt var ekki ágreiningur um það í n. að hækka verulega suma af þessum liðum, t.d. vega- og brúaféð, en meiri hl. vildi ekki fallast á að hækka framlag til nýrra skólabygginga eins og var á fjárl. síðasta árs.

Þetta er aðalstefnan, sem finna má í þessu frv., þegar það er borið saman við fjárl. fyrri ára, og enn meir áberandi verður þessi samanburður, þegar frv. eins og það er nú, með brtt. meiri hl., er borið saman við fjárl. fyrri ára og jafnvel ríkisreikninga fyrri ára. Ég get bent á sem dæmi, að ef brtt. meiri hl. fjvn. verða allar samþ., sem sennilega má gera ráð fyrir, verða heildarrekstrargjöld ríkisins 260 millj. kr. Og hvað lítið sem samþ. yrði af öðrum hækkunartill. og frv. í meðferð þingsins hækkað frá þessum till. n., kemst þessi upphæð upp í 270 millj. kr., eða m.ö.o. 100 millj. kr. hærri, en var á ríkisreikningnum 1946, en þá var ríkisreikningurinn um 170 millj. Nú vita náttúrlega allir þm., að það er rangt að gera samanburð á ríkisreikningi og fjárl., en þetta sýnir enn gleggra, hvert stefnir, og gerir enn ljósari þann samanburð, sem ég geri hér.

Úr því að ég er búinn að nefna þessar tölur, vil ég gera nokkra grein fyrir því, hvernig á þessari útgjaldahækkun stendur, og vil ég þá fyrst taka fram það, sem skylt er að taka fram í þessu sambandi, sem sé það, að nokkur hluti þessarar hækkunar stafar af þeirri framfaralöggjöf, sem sett var á árunum 1945–46. Vil ég þar til nefna tryggingalöggjöfina, lög um landnám og nýbyggðir í sveitum og nýju skólalöggjöfina að nokkru leyti. En þó að því hafi mjög verið haldið á lofti af núv. ríkisstj., að öll þessi löggjöf eigi aðalþáttinn í þessari hækkun, verður útgjaldahækkunin samkv. þessum lögum aldrei nema tæpar 30 millj. Þó að samanburðurinn sé gerður eins hagstæður og unnt er fyrir hæstv. ríkisstj., með því að bera saman fjárl. nú og ríkisreikninginn 1946, munar það alltaf um 70 millj. kr., sem rekstur ríkisins kostar meira nú en þá, þegar búið er að draga frá þau auknu útgjöld, sem stafa af þessari löggjöf. Þegar svo síðar kemur ríkisreikningurinn 1949, verður sú upphæð enn hærri.

Og hvað er það þá, sem veldur því fyrst og fremst, að hér stefnir svo mikið í þessa átt? Það er í fyrsta lagi sú aukning á embættis- og starfsmannakerfinu, sem ég benti á áðan, að þær greinar, sem fela í sér þau útgjöld, hafa hækkað um 1/3. Í öðru lagi er hér um að ræða þann gífurlega vöxt dýrtíðarinnar, sem orðið hefur þessi tvö ár og búinn hefur verið til beinlínis með óréttlátri löggjöf, sem stjórnarflokkarnir hafa samþ. og standa allir að. Þegar þessi ríkisstj. var mynduð, var mikill fögnuður í blöðum stjórnarflokkanna. Ekki vantaði það. Því var heitið, að nú skyldi snúið frá þeirri stefnu, sem hafði verið fylgt áður, — og hvað sögðu blöðin um stefnubreytinguna? 20. júní 1946 segir Tíminn, að Framsfl. muni beita sér fyrir uppgjöri stórgróðans, koma verzlunarmálunum í betra horf o.s.frv., o.s.frv., og segir, að Framsfl. muni aldrei taka þátt í ríkisstjórn, sem ekki lækki dýrtíðina í landinu. Og eftir að ríkisstjórnin var mynduð, sagði Dagur, blað Framsfl. á Akureyri, um dýrtíðarráðstafanir stjórnarinnar: „Byrjað að vinda ofan af dýrtíðarhjólinu“ — og enn fremur sagði blaðið: „með þessum aðgerðum er alger stefnubreyting í dýrtíðarmálunum frá því, sem verið hefur. Dýrtíðin er í fyrsta sinn raunverulega lækkuð.“ Þessi ummæli áttu við dýrtíðarlögin, sem sett voru í árslok 1947. Hvað ætli almenningur segi um það, að með þeim hafi dýrtíðin verið raunverulega lækkuð? Og eftir áramótin segir Dagur enn: „Nú er runnið nýtt ár. Á þessum áramótum hefur ný stjórnarstefna rutt sér til rúms. Þar með hefur stefna Framsfl. fengið fulla viðurkenningu Sjálfstfl. og Alþfl.“ Svona er hægt að lesa hverja tilvitnunina á eftir annarri úr blöðum hæstv. ríkisstj. um ágæti aðgerðar hennar í dýrtíðarmálunum, og heimsblöðin birtu viðtöl við hæstv. forsrh., þar sem hann lýsir því yfir, að dýrtíðarvandamálið sé leyst. En hvað segja staðreyndirnar? Þær sýna, að fjárlögin eru orðin 70 milljónum króna hærri, en ríkisreikningurinn 1946, og svo getum við hugsað okkur, hvernig ríkisreikningur þessara ára verður. Hæstv. ríkisstj. lofaði að leysa dýrtíðarvandann, en hverjar hafa efndirnar orðið á því? Sett voru dýrtíðarlögin 1947, og hver voru aðalákvæði þeirra? Þau meðal annars, að vörumagnstollur var innheimtur með 200% álagi frá því, sem áður var, og verðtollur hækkaður um 65%, og auk þessara tolla var settur á söluskattur, sem var áætlaður 17 millj. kr. á ári, en reyndist raunar þó ekki nema 14 milljónir. Þetta voru efndirnar á loforðum ríkisstj. um að lækka dýrtíðina, loforðunum, sem stjórnarblöðin gumuðu af, að verið væri að efna og hæstv. forsrh. talaði um í útlöndum. En hæstv. ríkisstj. gerði meira, en hækka tolla og leggja á nýja skatta. Hæstv. ríkisstj. lokaði augunum fyrir afleiðingum gerða sinna, og í stað þess að athuga þær, þá ákveður hún, að vísitalan skuli vera 300 stig. Dýrtíðin skyldi ekki skráð hærri, hver svo sem hún raunverulega væri. Afleiðingin af þessu verður svo sú, að í stað þess, að niðurgreiðslurnar fari minnkandi, þá aukast þær nú svo, að nú þarf 70 millj. kr. í dýrtíðarsjóð, og gert er ráð fyrir 50 milljónum til niðurgreiðslu afurðaverðs í stað 16 milljóna árið 1946. Afleiðingin af dýrtíðarlögunum 1947 var því sú, að dýrtíðarhjólinu var enn snúið nokkra hringi til þess að reyna að fleyta þjóðarskútunni áfram. Ljóst var þó, að með þessum ráðstöfunum varð þjóðarskútunni ekki bjargað, því að í lok ársins 1948 er gripið til nýrra ráðstafana til þess að reyna að fleyta henni enn um skeið. Og hverjar voru þær ráðstafanir? Enn nýir skattar á skatta ofan. Söluskatturinn er hækkaður um 22 millj. kr. frá því, sem hann reyndist 1948 og aðrir skattar um 16 millj. kr., eða samtals um 38 milljónir í nýjum sköttum lagðar á þjóðina. Dýrtíðarhjólinu er aftur snúið nokkra hringi til þess að fleyta þjóðarskútunni þetta ár og dugir þó ekki til árið út. Það þarf enn fleiri snúninga, ef nægja á til áramóta.

Þá vil ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um afgreiðslu fjárlagafrv. í fjvn. Eins og ég tók fram áðan, þá var ekki ágreiningur milli meiri hl. og minni hl. um allmikið af brtt. þeim, sem meiri hl. flytur. Minni hl. var t.d. sammála um, að sparað væri í rekstrarkerfi ríkisins, og taldi, að í sumum atriðum hefði mátt ganga lengra í sparnaðarátt. Þá var heldur ekki ágreiningur um að hækka framlög til verklegra framkvæmda, eins og meiri hl. leggur til, en í sumum tilfellum vildum við í minni hl. ganga allmiklu lengra, t.d. hvað snertir framlög til skólabygginga. Þá viljum við alveg sérstaklega benda á, að stefna sú, sem hér hefur verið rætt um, að hækka dýrtíðina fyrir hver áramót, getur ekki leitt til annars en vandræða. Hvað snertir úrræði okkar sósíalista í dýrtíðarmálunum, þá leyfi ég mér að vísa til frv. þess, sem sósíalistar fluttu um þau efni á síðasta þingi. Þar er gerð grein fyrir till. okkar í dýrtíðarmálunum, og teljum við þær enn í fullu gildi.

Skal ég nú koma að hinum einstöku brtt. okkar í minni hl. á þskj. 468. Er það þá fyrst, að við leggjum til, að framlag til talstöðva í báta og skip hækki úr 150 þús. kr. í 300 þús. kr., og enn fremur, að framlag til loftskeytastöðva í skip hækki úr 100 þús. í 200 þús. kr. Eins og hv. frsm. n. tók fram, var fast sótt af póst- og símamálastjórninni að fá þessa liði hækkaða, enda auðvelt að rökstyðja slíkar hækkunartill., þar sem öruggi báta og skipa er í veði. Þá er brtt. við 12. gr. um, að framlag til læknisbústaða og sjúkrahúsa hækki úr 500 þús. kr. upp í eina milljón. Síðastliðið ár var fjárveitingin til þessara stofnana utan Reykjavíkur 800 þús. kr., sem var tvímælalaust of lágt. Hér í Reykjavík er þörfin á nýju sjúkrahúsi ákaflega brýn, og því leggjum við til, að til bygginga þess verði veitt 1 millj. kr. sem nýr liður. Enn fremur leggjum við til, að framlag til barnaskólabygginga hækki úr 2 millj. í 3 millj. og 500 þús. kr., og mun ekki af veita, því að það sést af gögnum þeim, sem n. hefur haft undir höndum, að ríkið skuldar nú 8 millj. kr. til þessara framkvæmda. Þá leggjum við til, að framlagið til íþróttasjóðs verði sama og í fyrra, en lækki ekki um 200 þús. kr., eins og ætlazt er til í frv. Þá viljum við enn fremur leggja til þá breyt. við 15. gr., að styrkur til skálda og listamanna hækki úr 175 þús. kr. í 250 þús. kr. Meiri hl. vildi lækka þessa upphæð, en það teljum við óeðlilegt. Þá leggjum við enn til, að framlag til kaupa á skurðgröfum hækki úr 100 þús. kr. í 500 þús. kr., en til vara í 300 þús. kr. Það er nú eitt brýnasta nauðsynjamál landbúnaðarins að fá stórvirkar vinnuvélar, en það mál hefur að nokkru verið leyst undanfarið og haft stórkostlega þýðingu, en samt er það svo, að skorturinn á stórvirkum vélum er tilfinnanlegur enn, og t.d. eru það 6–7 sýslur, sem enga skurðgröfu hafa fengið hingað til, og ef þessi upphæð verður ekki hækkuð frá því, sem nú er, þá er hætt við, að stöðvun verði á þessari mikilvægu vinnu, því að þeim skurðgröfum, sem nú eru til, verður tæplega haldið við til langframa. Ég vil benda á, að undanfarin ár hefur þessi upphæð verið miklu hærri. Teljum við það hina óheppilegustu þróun, þegar framlög til nauðsynlegra atvinnutækja eru þannig stórlækkuð um leið og kostnaðurinn við embættis- og rekstrarkerfi ríkisins hækkar að mun. Áð lokum leggjum við til, að við 19. gr. komi sú breyt., að stuðningur við bátaútveginn verði hækkaður úr 6 millj. kr. upp í 10 millj. kr. Með tilliti til þess, að leysa þarf stór veð af bátunum, dugir ekki minni upphæð til að koma bátaflotanum úr verstu kröggunum, og veitir sannarlega ekki af því, að hann starfi, þegar togararnir liggja bundnir í höfn. Fleiri brtt. höfum við í minni hl. ekki gert. Ég vil taka það fram, að ef eitthvað af þessum till. okkar verður samþ., þá erum við reiðubúnir til þess að útvega ríkissjóði tekjur á móti og það með aðgerðum, sem ekki þurfa að hækka dýrtíðina í landinu. Ég gat um það, að í frv. Sósfl. væri bent á leiðir til áð afla ríkissjóði tekna og lækka um leið dýrtíðina raunverulega. Þær eru enn í gildi, og Sósfl. er reiðubúinn að standa við þær og benda jafnframt á nýjar leiðir, ef von er um stefnubreytingu í þessum málum, sem ekki virðist þó líklegt eftir orðum og athöfnum hv. stjórnarflokka að dæma.