28.03.1949
Sameinað þing: 55. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (1389)

42. mál, fjárlög 1949

Sigurður Kristjánsson [Frh.]:

Herra forseti. Ég hafði ekki lokið ræðu minni, þegar ég talaði síðast, en áður en ég lauk máli mínu þá, færði nokkra golu af suðaustri. Þá lagði storm af Krýsuvík. Það var nokkuð vikið að mér í sambandi við þær yfirlýsingar, sem ég gaf um skoðun mína á þessari svo nefndu Krýsuvíkurleið. Vil ég nú leitast við að sanna það, sem ég þá hélt fram.

Ummæli þau, sem ég hafði í frammi og hæstv. samgmrh. tók svo mjög nærri sér, voru þau, að Krýsuvíkurleiðin væri síður en svo snjólausa leiðin, en það hefði verið því að þakka, að jarðýtur héldu leiðinni opinni, að hún varð ekki ófær. Nú byggi ég upplýsingar mínar á þeim forsendum, sem skýrslur vegamálastjórnarinnar segja til um. Í sjálfu sér er ekkert við því að segja, að skoðanir geti verið allskiptar um það, hver leiðin sé heppilegust, en það er ekki hægt að sniðganga staðreyndirnar. Vegurinn austur um Krýsuvík var tengdur saman 20. des. s.l., en daginn eftir var hann orðinn ófær bifreiðum, og hefur síðan verið unnið að því að moka af honum snjó af og til. Hins vegar var leiðin um Mosfellsheiði farin daglega til 19. jan. Ég hef því ekkert ofmælt af því, sem ég áður sagði. Frá þeim tíma hefur lítil tálmun verið að fara austur um Mosfellsheiði, að undanskildum smákafla í Almannagjá, og hefur vegurinn niður gjána teppzt tvisvar.

Börn á skólaskyldualdri sækja skóla sinn úr Þingvallasveit niður að Ljósafossi, og hefur það aðeins einu sinni komið fyrir, að skólabíllinn, sem flutti börnin til og frá, hafi teppzt í gjánni og hefur þó meiri snjór verið en vant er. Í dag er nú loks byrjað að vinna að því að ryðja þessum hindrunum úr vegi og opna leiðina. Bóndi nokkur í Þingvallasveit hafði tal af einum vegavinnumanninum, og hafði hann fullyrt, að snjórinn væri ekki meiri en það, að lokið yrði við að ryðja leiðina opna fyrir kvöldið. Leiðin austan vatnsins hefur alltaf verið fær bílum. Að vísu fer þetta nokkuð eftir því, hvernig snjór fellur, en þetta verður ekki vefengt. Hvað snertir Krýsuvíkurleiðina, þá er hún nú mjög umdeild, og hún mun alltaf verða það. Reynslan í vetur sýnir, að hún er snjóþung, þó að ekki þurfi svo alltaf að vera. Ástæðunni fyrir því, að henni hefur verið haldið opinni, eru margir kunnugir, en hún er sú, að þegar snjó byrjaði að leggja á veginn, þá atvikaðist það þannig, að verið hafði notuð jarðýta við vegalagninguna, og var hún því fyrir hendi til að fjarlægja snjóinn af veginum jafnóðum og hann tepptist. Var því eðlilegt, að hagnýttir yrðu þeir menn og tæki, sem þarna voru fyrir hendi til að opna leið austur. Varla hafa nú þeir menn, sem talið hafa þetta vera snjólausa leið, lokað augum sínum fyrir því, hve geysileg fyrirhöfn það hefur verið að halda leiðinni opinni. Það væri mikið í lagt að halda þessari leið opinni, þótt ekki væri nema fyrir þær sakir, hve hún er löng. Frá Reykjavík að Selfossi um Krýsuvík eru 102 km. Það er mér upp gefið af vegamálaskrifstofunni, og verður það ekki vefengt. Um Mosfellsheiði og austur með Þingvallavatni um Ljósafoss að Selfossi eru 93 km., en yfir Hellisheiði að Selfossi eru 64 km. Það er á allan hátt hagstæðara að hafa leiðina sem stytzta. Flutningsgjald fyrir akstur er miðað við hvern ekinn km. Fargjöld með áætlunarbifreiðum eru reiknuð 24.4 aurar á hvern km. Vörubifreiðar taka fyrir hvert tonn af flutningi 64 aura á hvern km. Hverjir 10 km. kosta því kr. 2.44 fyrir fólk og 6.40 fyrir hverja smálest af flutningi. Þessu verður ekki á móti mælt, að lengri leiðin verður dýrari, þótt ekki verði í það horft, ef aðrar leiðir teppast. Eftir þeirri reynslu, sem fengizt hefur í vetur, er ég sannfærður um það, að styttri leiðirnar eru bæði öruggari og betri. Ég er sannfærður um það, að Krýsuvíkurleiðin er ekki framtíðarleiðin né öruggasta leiðin. Framtíðarleiðin mun verða um hin svonefndu Þrengsli, og var það einnig rannsakað af n. þeirri, sem gerði till. um, hvar hinn væntanlegi steinsteypti vegur ætti að liggja yfir heiðina, þegar lagður yrði. Kom enginn skoðanamunur fram um það, að Þrengslaleiðin væri sú rétta. Ég er víss um, að Krýsuvíkurleiðin verður ekki farin, þegar leiðin um Þrengslin verður opnuð og vegurinn um Mosfellsheiði verður til vara. Hér hefur því nokkuð miklu verið til kostað. Ég ámæli mönnum ekki fyrir það að hafa áhuga fyrir kjördæmum sínum í sambandi við vegalagningar, og ekki heldur hæstv. samgmrh., en ég er undrandi yfir því, að jafnpraktískur maður og hv. 1. þm. Rang. skuli hanga við Krýsuvíkurleiðina. Með því vinnur hann gegn hagsmunum kjördæmis síns. Þessi vegur er þegar búinn að kosta ríkissjóð 600–700 þús. kr. aðeins vegna breytinga á honum, frá því hann var fyrst lagður, en sjálfur hefur hann kostað um 4.650 millj. kr., og er hann þá með breytingakostnaði kominn yfir 5 millj. kr. samtals. Þetta mikla fé hefur verið dregið frá vegarlagningum á öðrum stöðum á landinu. Er því ekki að furða, þótt gagnrýni komi fram varðandi þennan veg. Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta nú.

Ég vík nú að, þar sem síðast var frá horfið, að brtt. mínum á þskj. 481. Þær eru nú allnýstárlegar. Þær fela allar í sér lækkun á fjárlagafrv. Ég endurtek það, sem ég hef áður sagt um þessar brtt. til lækkunar, að þær fela í sér lækkun á þeim hlutum, sem ég hefði verið meðmæltur að hækka framlag til frekar en lækka, ef nóg fé væri til. En ég hef flutt þessar brtt. af því, að hér er verið með fjárlagafrv., sem er, ofvaxið gjaldgetu ríkissjóðs. Undanfarin tvö ár hef ég mótmælt fjárlagafrv. af sömu ástæðu. Með hverju árinu sem líður aukast útgjöld ríkisins, og skuldasöfnun er að færast í aukana. Fyrst er upp urinn afgangur fyrri ára, en síðan verður skuldasöfnun innanlands. En með hvaða fé á að borga þær skuldir, ef svona verður haldið áfram sem undanfarin 3 ár. Ef greiðsluhalli á fjárlögum heldur áfram, hefst skuldasöfnunin erlendis. Þá erum við komin í sama fenið aftur, sem tókst að rífa okkur upp úr á árunum 1942–46. Þá færast hörmungarnar aftur yfir atvinnu- og framkvæmdalíf okkar. En þjóðin vill vera laus við slíkt. Hæstv. fjmrh. gat þess í ræðu sinni, að ríkissjóður ætti mikið fé vangoldið til sveitarfélaga, eða um 29 millj. samkv. skýrslu fjmrh. Meiri hlutinn af þessum greiðslum er kominn inn á greiðsluhalla tveggja næstsíðast liðinna ára, en sumt er ekki komið inn á reikninginn enn og nokkuð á við um yfirstandandi ár. En það hörmulegasta við þessar greiðslur er það, að það er mjög lítil von til þess, að þær verði greiddar nema þá að litlu leyti. Þau sveitarfélög, sem hér er um að ræða, hafa þanizt út og farið út í meiri framkvæmdir en þau geta staðið undir. Þetta hafa þau gert af of mikilli bjartsýni og með ábyrgð ríkisins að baki sér. Nú er svo komið, að ríkið þarf að greiða þarna 29 millj. kr. vegna þessa. En það er ekki það versta, heldur er það sá hugsunarháttur, sem við þetta skapast hjá sveitarfélögunum, sem sé sá að þenjast út á öllum sviðum, allt á ábyrgð ríkisins. Menn mega ekki láta eins og þeir viti ekki, hvað þetta er háskalegt. Ég held þess vegna, að ríkið eigi ekki aðeins að draga úr útgjöldunum, sem ekki verður alveg sársaukalaust, heldur eigi einnig að varast það að vera að ganga í ábyrgð fyrir sveitarfélög og fyrirtæki, að ég nú tali ekki um einstaklinga, því þó að allt gangi vel, meðan vel árar, þá verður þetta til þess að eitra hugsunarhátt manna fyrir utan bein útgjöld ríkisins, ef það hallar eitthvað undanfæti. Það er ekki hægt að neita því, að hv. þm. hafa samdóma stefnt í mikinn háska fjármálum ríkisins, með útþenslupólitík í fjármálunum, og daglega heyrum við talað, um þessa hluti, og blöðin eru full af áróðri um þetta, þar sem hver maðurinn kennir öðrum um, en sannleikurinn er sá, að við erum allir samsekir í útþenslunni. Og ef nú hv. þm, eru allir sammála um það, að við höfum færzt of mikið í fang, þá er ekki um annað að gera, en að snúa aftur. Við verðum að rifa seglin. Við verðum að hætta að samþykkja og gera löggjafir, sem skapa aukin útgjöld, og við verðum að færa fjárlögin saman.

Ég hef verið að athuga það að gamni mínu, hvernig þessu er nú háttað á þessu þingi, hvort menn muni nú vera komnir að þeirri niðurstöðu, að rétt sé að hætta þessari stefnu og snúa við. Í þessu sambandi tók ég saman til fróðleiks þau frv., sem borin hafa verið fram á þessu þingi og fela í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð: Þessi fjárhæð nemur 263 millj: kr., en ég vil reyndar taka það fram, að að sönnu er þar dýrtíðarsjóður með 74 millj. kr., sem áður var á fjárl., en á fjárl. eru komnar að minnsta kosti 50 milljónir af þessum 74. En samt er þessi hugsunarháttur, sem á bak við þetta liggur, ægilegur, og það er óhugsandi annað, en að hann leiði til slysa fyrir ríkið og leiði af sér skuldir og áþján fyrir þjóðina út á við, ef þm. athuga ekki sinn gang í tíma og snúa við, áður en lengra er komið.

Ég veit, að það er freistandi fyrir þm. að fylgja því, sem kallað er framfarir og það gr gott til þess að afla sér fylgis kjósenda. En eftir syndina kemur dómurinn, og þá er ekki uppreisnar von. Það er því athugandi, hvort ekki er réttara að snúa við í tíma. Flest þessi frv., sem ég gat um, eru yfirleitt mjög æskileg mál og álitleg, en sum lítið rannsökuð, og of lítil trygging fyrir því, að uppfylltar yrðu þær vonir, sem við þau eru tengdar.

Ég er ekki að lýsa þessu í ámælisskyni við hv. þm., síður en svo. Ég finn, að það er mannlegt að vera djarfur, og það er mannlegt að hlynna að þeim greinum, sem maður hefur áhuga á, en því verður að fylgja forsjá. Og ef við athugum það, að hér höfum við í þessu landi barizt fyrir því að þurfa ekki að líða sult og nekt og þess vegna ekki getað leyft okkur ýmsar framkvæmdir á öðrum sviðum, þá er það ofur eðlilegt, að hér vanti ýmislegt, sem við gerum okkur vonir um að bæta, ýmislegt, sem forsómað hefur verið undanfarnar aldir, þá getur engum dottið í hug, að þetta sé hægt að gera í einum spretti. Við vitum, að hér hefur vantað hafnir, við vitum, að hér vantar vita, við vitum, að mikið vantar á, að vegakerfi landsins sé fullkomið. Við vitum, að mikið vantar á skólabyggingar, o.s.frv. En við vitum líka, að fólk getur ekki látið sér detta í hug, að 100 þúsund manna þjóð geti gert þetta allt á örstuttum tíma, þó að hún leggi fram alla sína hæfileika og alla starfskrafta, og fólk hlýtur að sjá það og skilja, að það er bæði skynsamlegra og hæfilegra að bíða eftir framkvæmdum, sem eru öruggar, heldur en að hlaupa út í allar framkvæmdir í einu og bíða við það skipbrot að lokum.

Ég sagði hérna í fyrri hluta ræðu minnar, að íslenzka þjóðin hefði lifað af mikilli sparsemi og sjálfsafneitun — með því að neita sér um ýmsa hluti, sem aðrar þjóðir, sem betur væru stæðar, hefðu getað veitt sér, og að það bæri ekki vott um menningu þjóðarinnar og þroska, ef Íslendingar geta ekki skilið, að iðjusemi og hófsemi er undirstaðan að þeim gæðum, sem við sækjumst eftir. Það er ekkert óeðlilegt við það, að þjóð, sem hefur haft mótlæti í uppeldinu og orðið að neita sér um ýmsa hluti, sem aðrar þjóðir hafa getað veitt sér, það er þá ekkert undarlegt við það, að ef hún fær allt í einu snöggt meðlæti, að henni fipist um stund og við misstígum okkur — það er ofur eðlilegt. Þó að ég segi þetta, þá er ég ekki að ámæla, hvorki Alþingi, sveitarfélögum né einstaklingum. En ég segi það, að þó að þetta sé eðlilegt, þá er það mjög óheppilegt. Ef það er rétt, að fólk sé of kröfuhart og hafi ekki framsýni, hver á þá að byrja á því að draga úr kröfunum og sýna framsýni, ef það er ekki Alþingi? Ef Alþingi sendir frá sér fjárl. með greiðsluhalla ár eftir ár, hvernig er þá hægt að ætlast til þess, að fólkið breyti um hugsunarhátt?

Ég vil alvarlega brýna það fyrir hv. þm., að þegar ég legg hér fram þessar brtt., þá tel ég það ekki ámælislaust, að þeir þm., sem mest ámæla sveitarfélögunum fyrir að sýna ekki hyggindi, séu þeim andvígir. Ég er ekki að segja, að þetta sé nein ógnun við þm. En það sér hver maður, að ef þingið leiðir þjóðina út í fen erlendrar skuldaáþjánar, þá er þingið ámælisvert.