28.03.1949
Sameinað þing: 55. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (1390)

42. mál, fjárlög 1949

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram örfáar brtt., sem ekki miða til neinnar verulegrar hækkunar á útgjöldum ríkisins, svo að ég vona, að þær fái áfram nokkra náð fyrir augum hv. 5. þm. Reykv.

Fyrsta till. er á þskj. 481, sem er brtt. við 20. gr. til bygginga á jörðum ríkisins. Þar er farið fram á, að af þeirri upphæð fari 25 þús. kr. til byggingar útihúsa á Staðarfelli. Eins og vitað er, þá er þarna starfandi húsmæðraskóli. Á síðasta þingi veitti hv. fjvn. 25 þús. kr. af þessum lið á fjárlögum 1948 til þessara hluta, þ.e.a.s. til útihúsbygginga á Staðarfelli. Var þá gert ráð fyrir, að á næsta og næstnæsta fjárhagsári yrði einnig varið 25 þús. í hvort skipti til þessara bygginga. Ég taldi því sjálfsagt, að fjvn. yrði við þessu, enda er það sjálfsagt í rauninni, því að þetta er jörð, sem ríkissjóður á, og ekki síður þar sem þarna er starfandi skóli og mjólkursala. En þetta fór á annan veg en óskað var. Fjvn. felldi till., en leggur til á sama tíma, að 70 þús. kr. verði veittar til fjósbygginga á Hvanneyri og Hólum, hvors um sig. Hélt ég þó, að ærinn skildingur hefði farið til fjósbygginga á Hvanneyri áður, og væri þangað nóg komið.

Það getur verið, að sama sé, hvort þessi till. verður felld eða ekki felld, þar sem greiðsla fer fram eftir sem áður, þar sem stjórnin er bundin við það, sem atvmrh. hefur lofað. En hitt er formlegra að hafa þetta á fjárl. Þess vegna vænti ég, þar sem þetta er ekki sérstök greiðsla, heldur hluti af megingreiðslu, og vona, að þm. sjái sanngirni í því að greiða henni atkv. Ég vil taka það fram, að í trausti þess ádráttar, sem bóndinn fékk, þá er hann búinn að byggja og verður sjálfur að sjá um þessa skuld, ef þetta fé bregzt.

Þá ætla ég að minnast hér ögn á aðra brtt. Hún er um 3 þús. kr. framlag til bændanna á Brunná í Saurbæ til framræslu og fyrirhleðslu í Brunná. Þannig er málum háttað, að í fyrra ruddist þessi á fram, sem liggur þarna um skriður, hún komst undir jarðveginn, inn í skriðurnar, en kemur nú upp í gegnum tún og jafnvel á bæjarhúsunum sjálfum. Hefur hún valdið miklum usla þarna, þar á meðal á þjóðveginum. Ég legg nú til og vil óska þess, að samtök vegamálastjóra og bænda með aðstoð ríkisins geti komið í veg fyrir þetta, því að ekki eru bændurnir í Saurbænum eins sælir og bændurnir fyrir austan, í Rangárvallasýslu, sem með atfylgi tveggja hv. fjvn.-manna þaðan fá á sjötta hundrað þús. kr. til fyrirhleðslu. Og þó að það hafi ekki fengið náð fyrir augum fjvn., þá vona ég samt, að þeir sjái sig um hönd og verði með þessari till., þegar þar að kemur, og unni Dalasýslu, sem svarar 1/2% af upphæð, er Rangárvallasýsla fær í þeirri grein.

Ég býst við því að ef margir eiga eftir að tala hér fyrir till. sínum, þá verði það samtals langt mál, og þess vegna kannske ekki vert að lengja það, en ég ætla þó að minnast hér á nokkur atriði í sambandi við 15. gr., en sú grein bendir ekki á gífurlegt bókmenntavit. Virðist fjvn. hafa lítinn bókmenntasmekk, og mun bókmenntagróður hennar vera nokkurs konar Ódáðahraun og rit Jóns Dúasonar vera þeirra andlegu Hvannalindir. Kannske er þar þó hið kunna rit, Frekjan, eins og gresjutoppur innan um. Með afnámi veitingar til útgáfu hæstaréttardóma er stigið stórt spor aftur á bak. Það er ekki hægt að hækka verð þessara dóma svo mikið, að það geti staðið undir kostnaðinum af útgáfunni. Hæstaréttardómarnir verða, eins og stjórnartíðindin, að fá að fara út meðal almennings, eins og þeir hafa gert, því að í þeim getur almenningur séð réttarpraxísinn. Þá er hér á landi eitt félag, sem heitir Vísindafélagið, en það nafn hefur sennilega ekki látið vel í eyrum fjvn., enda kippir n. nú burt 3 þús. kr. styrk til þess félags. Þetta félag hefur nú verið starfandi um langt skeið, og eru helztu vísindamenn okkar í því félagi. Það hefur verið stutt af þeim og hefur mjög beitt sér fyrir útgáfu ýmissa bókmenntalegra og vísindalegra rita á útlend mál. Nú er það t.d. með 3 bækur í prentun. Það er síðasti hlutinn af fuglalýsingu Timmermans, þá er það eyktamarkasöfnun, og auk þess er verið að prenta vísindarit um síðasta Heklugos, og er það eftir hina beztu jarðfræðinga og náttúrufræðinga okkar. Það verður gefið út á ensku og mundi því verða til þess að draga erlendan gjaldeyri inn í landið, þar sem það yrði selt út um allan hinn menntaða heim, en hvort fjvn. hefur hrosið hugur við gjaldeyrisöfluninni, það veit ég ekki. En fjvn. ætlar 15 þús. kr. til annars félags, en það félag vinnur langmest erlendis að sínum málum, og það hefur marga sjóði og digra á bak við sig úti í Danmörku. Þetta félag fékk styrk á þeim forsendum, að það væri að gefa út jarðabækur Árna Magnússonar, en nú er því verki bara lokið, svo að mér sýnist því, að það ætti að draga úr styrk til þess félags og láta heldur Vísindafélagið hérna njóta góðs af því. Auk þess mundi þarna sparast gjaldeyrir, því að félagið í Kaupmannahöfn fékk og fær þennan styrk í erlendum gjaldeyri. Þetta er ekki af því, að ég sé á móti því félagi og vilji því ekki vel, heldur er þetta af því, að rétt er að láta það félagið, sem heima situr, njóta styrksins og sitja fyrir honum. Þetta hef ég bent n. á, en hún hefur ekki viljað sinna því.

Ég vil nú aðeins minnast á styrki til skálda og listamanna. Úr því að það á að halda áfram að veita þessum mönnum styrk, þá er ekki hægt að skera þennan styrk niður, eða það er að minnsta kosti mjög erfitt að gera það. En nú á að skera þennan styrk niður um 25 þús. kr., og hefur hv. þm. S-Þ. lagt tvær greftrunarhellur, nei, ekki tvær, heldur þrjár greftrunarhellur á þennan sjóð. En ég sé ekki annað ráð en það, að ef það á að skera þennan styrk niður, þá verði að taka einn flokk alveg úr, t.d. leikarana, og skera þann styrk alveg niður, ef það á að lækka styrkinn frá því, sem hann var á síðasta ári.

Þá kem ég snöggvast að 18. gr. Um þá gr. er eiginlega svo mikið að segja, að ég verð að fara þar mjög fljótt yfir sögu. Þetta hefur verið þannig undanfarið, að fyrir kemur, að þeir, sem hættir eru störfum, fá raunverulega hærri laun en þeir höfðu meðan þeir inntu störfin af höndum. Þetta viðurkenndi hv. form. fjvn. í ræðu sinni og sagði, að hann vildi, að bót yrði á þessu ráðin. Get ég verið honum þakklátur fyrir það. Það er hans von og vísa að vilja bæta um það, sem aflaga fer. En mér virðist sannast að segja, þegar svo koma brtt. frá hv. fjvn., þá sé ekki bætt gráu ofan á svart, heldur svörtu ofan á grátt, þar sem þeir ganga heldur lengra í sínum till. en aðrir þm. og hæstv. stjórn. Ég ætla ekki að gera þetta að umræðuefni. Það er vandræðaverk og óviðkunnanlegt að ræða hér um einstaklinga. Ég tek undir það með formanni fjvn., að þetta ólag megi ekki haldast lengur, en í þetta eina skipti, ef ekki er hægt að ráða bót á því nú. Þó að hér sé ekki um stórar upphæðir að ræða, þá gerir margt, þótt lítið sé, eitt stórt, ef svona er haldið áfram.

Ég á eina brtt. við 18. gr., sem ég sló fram, frekar af því, að um réttlætismál er að ræða, heldur en þetta muni ríkissjóð svo miklu. Ljósmæður hafa stundum orðið að fá styrk úr ríkissjóði, áður en þær hafa komizt á ellilaun ljósmæðra, en það hefur alltaf verið venja, að ljósmæður hafa færzt af 18. gr. um leið og þær hafa komizt á ellilaun hjá Tryggingastofnun ríkisins. Nú geri ég brtt., sem snertir eina ljósmóður. Í sambandi við þessa till. mína kom hv. 2. þm. N-M. til mín með dálitlum hissugheitum og kvaðst ætla, að mér skildist, að reka þetta ranglæti ofan í mig aftur. Ég vil þá segja það, að sé eitthvað sérstakt að þessari ljósmóður, ef hún er t.d. fötluð, en ekki orðin svo gömul, að hún fái styrk þess vegna, þá á hún að geta fengið örorkustyrk. Þannig getur hún fengið bætur, ef hún þarf meira en aðrar ljósmæður.

Ég held, að hæstv. forseti sé að verða óþolinmóður við mig, og skal ég stytta mál mitt. Ég verð þó aðeins að koma að því, sem sumir kalla „afrek samábyrgðarinnar“, sem eru útgjöld, sem fara til alls konar mannvirkja á landinu. Víst er um það, að þessir menn í fjvn. eru reyndir menn flestir og á heimsins sævi vel syndir allir. Svo að ég nefni dæmi, þá er foringi þessarar samkundu gamall og slyngur vélamaður og kaupsýslumaður, og tveir eða fleiri kaupfélagsstjórar eru þar, og einn er þar enn, sem hefur lengi fengizt við hrossakaup, bæði fyrir sig og aðra, að því er hin ágæta bók, Hver er maðurinn?, segir. Ég skal nú aðeins stikla á stóru til þess að sýna, hvernig þeim hefur farizt, háttvirtum, við okkur hina dátana hér inni. Það var ákveðið af þeim háu herrum að mæla með því, að byggðar yrðu 5 nýjar brýr á landinu, og af þeim lenda 4 í kjördæmum hv. fjvnm., en líklega af einhverjum óhöppum slampast sú 5. norður í Ólafsfjörð og á að staðsetjast þar. Ég var búinn að minnast á það áður, hvernig þetta væri með fyrirhleðslur fyrir vötn og þess háttar. Ég sé, að ein lítil eyja er búin að hafa það lengi styrk til ræktunar, að ég held, að hið ræktaða land, ef vel væri unnið fyrir framlagt vegafé til eyjarinnar, hljóti að vera horfið og í staðinn komnir tómir vegir. Um það, hvernig skipt er að öðru leyti, mun ég ekki tala mikið, en allir geta séð, hvernig skipt er, þegar um hafnargerðir og lendingabætur er að ræða. Sporin þekkjast. Ég hef komið fram með örlitla brtt. um umorðun á lið og litla hækkun til Vesturlandsvegar, en þeim veg er sjálfsagt að hraða eins og mögulegt er. Þykist ég vita, að Vestfirðingar allir muni kunna mér þakkir fyrir. Ég óska þess eindregið, að sú brtt. nái samþykki Alþ. Ég fer nú að stytta lesturinn, því að ég vil ekki ybbast mikið upp á hv. fjvn. og þá háu herra, sem í henni eru, því að skrifað stendur: heiðra skaltu föður þinn og móður. Sumir hafa það öðruvísi.