28.03.1949
Sameinað þing: 55. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (1391)

42. mál, fjárlög 1949

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. Dal. var ekki alveg eins góður við sum stórskáldin eins og ég hefði getað búizt við af þeim merka manni, og það því fremur, sem þessi hv. þm. heiðrar þá dauðu á þann hátt, sem beztur er, með sínum mikla bókakosti.

Ég hef flutt hér tvær litlar brtt. Vil ég fyrst víkja nokkrum orðum að þeirri till., sem lýtur að því að reisa minnismerki um Jón Arason í Skálholti. Það er öllum kunnugt, að það líður nú að því mikla afmæli um dauða Jóns Arasonar. Það hefur nokkuð verið um það hugsað, að Jóni Arasyni yrði reistur minnisvarði, en þar hefur staðið á ýmsu, og er ekki alveg víst, að svo verði, m.a. sökum skorts á byggingarefni. Það getur vel farið svo, að þessi afmælishátíð verði dálítið fátæklegri en ætti að vera, til að hún yrði í samræmi við líf Jóns Arasonar. Það er öllum kunnugt, að síðan biskupsstóllinn var lagður niður í Skálholti, hefur þjóðfélagið ekkert gert fyrir Skálholt nema það, sem gert hefur verið í sambandi við von um nýjan skóla þar. 1907 réð Þórhallur biskup til þess, að góðir gestir væru ekki látnir koma að Skálholti, og 1947 réð Sigurður Nordal því, að gestir á Snorrahátíðina fóru ekki að Skálholti. Ég álít, að þessir menn hafi ráðið vel, vegna þess að það er ákaflega mikið ósamræmi í sögulegri frægð Skálholtsstaðar og vanrækslu þeirri, sem fram kemur hjá þjóðfélaginu gagnvart þessum stað fram að þessu. Þar hafa búið myndarbændur og ræktað jörðina, en það er ekki nóg. Einar Jónsson myndhöggvari hefur fyrir nokkru gert minnismerki um Jón Arason. Minnismerki þetta er altari, sverð og höggstokkur. Ég mun ekki lýsa því, enda fátæklegt að lýsa listaverkum með orðum, en það er mál manna, að ef þetta minnismerki verður reist, væri það að sínu leyti sambærilegt við t.d. kvæði Matthíasar Jochumssonar um Jón Arason. Þetta minnismerki getur aldrei notið sín nema í Skálholti, og ef það væri reist þar nú, væri það fyrsta tilraunin til þess að gera eitthvað á þessu forna biskupssetri, sem væri í samræmi við það, að ríkið hefur nú lagt mjög mikið fé fram til þess að reisa staðinn við.

Það mætti spyrja um, hvað kosta mundi að reisa minnismerkið, en um það get ég ekki sagt. Það er ekki hægt að fara fram á það við listamanninn, að hann geri áætlanir um kostnað verksins, meðan ekkert er ákveðið um framkvæmd þess. Ég vil taka það fram, að þetta minnismerki mundi verða tiltölulega kostnaðarlítið í erlendum gjaldeyri, þar sem líklega allt nema sverðið mundi verða úr höggnu grjóti, en hvaða steintegund það yrði, veit ég ekki um. Ég þóttist vita, að verkið mundi kosta meira en 15 þús. kr., en tók tölu, sem gæti verið nóg til að byrja með. Vafalaust yrði það helmingi hærri upphæð, sem þyrfti til þess að ljúka verkinu.

Ég kem þá að hinu atriðinu, sem hv. þm. Dal. vék að í spaugi, en það er að gera grafhellur á leiði þriggja stórskálda. Ég get hugsað mér, að sumum hv. þm. og öðrum, sem hér eru inni, þyki furðulegt að heyra það, að ég hef á þessu ári átt tal við tvo unga og greinda menn hér í Reykjavík, sem báðir höfðu gengið í skóla og tekið próf, en annar þessara manna, sem er frá góðu heimili í Reykjavík, hafði aldrei heyrt Hannesar Hafstein getið, hvorki sem skálds né stjórnmálamanns, og hinn ungi maðurinn hafði aldrei heyrt nefndan Bjarna frá Vogi. Ég er ekki að segja það, að nauðsynlegt sé, að allir viti einmitt um þessa tvo menn. En ég veit, að hv. þm. skilja það, að þegar það kemur þráfaldlega fyrir, að unga kynslóðin er eins og alveg slitin frá öllu fyrra lífi þjóðarinnar, þá er það ekki æskilegt. Ég held, að það sé fullkomlega ástæða til þess að tengja saman æsku landsins og liðinn tíma. Ég hygg, að ástæðan til þess, að svona er komið, sé sú, að ákaflega mikið af æsku landsins gengur skóla úr skóla og lærir margar kennslubækur, en hefur ekki tíma til þess að fylgjast með lífinu í landinu þar fyrir utan. Ég hygg, að það sé háskalegt fyrir framtíð, ef ekki er úr þessu bætt.

Það hefur nú þegar verið varið mörgum millj. kr. til þess að prýða Bessastaði og gera þá að myndarlegu heimili forsetans, en gröf Gríms Thomsens hefur verið vanrækt. Það hefur ekki verið hugsað um það, að þarna hvílir eitt bezta skáld landsins, sem lifað hefur. Á gröfinni er gamall og lágur legsteinn. Það er sýnilegt, að þarna hefur verið hugsað um framtíðina, en það hefur ekki verið hugsað um það, að framtíðin heiðri þá gröf, sem þarna er einna frægust.

Þegar kemur norður í Skagafjörð, í Miklabæjarkirkjugarð, þar sem Bólu-Hjálmar er grafinn, hefur ekki tekizt betur til en svo, að gröf hans hefur eiginlega týnzt. Það var ekkert gert til þess að minna á hana, en á síðustu árum tók sig til mjög merkur fræðimaður í Skagafirði og staðsetti gröfina og setti merki á hana. Þá var veitt heimild til þess að setja minnismerki á gröfina, en sú heimild var ekki notuð. Mér datt í hug að lesa, með leyfi hæstv. forseta, vísu, sem Bólu-Hjálmar gerði um sína væntanlegu gröf. Hann byrjaði sitt kvæði svona, eins og hann hefur líklega hugsað sér, að væri grafið á legstein á gröf hans, ef hann yrði nokkur:

„Hér er grafið hjábarn veraldar

eitt, sem þunginn ævidaga þjáði,

augnablikið taldi hvert á láði

heim að ná til hvílu þessarar.

Það er Hjálmar heitinn arfi Jóns,

sem hér eirir andláts bundinn fjötrum“.

Og svo fer tónninn að verða nokkuð beiskari. Það er auðséð, að Bólu-Hjálmar hefur litið á gröfina sem takmarkið, og hann virðist hafa talið hvert augnablik, þar til hann kæmist þangað. Það er ekki til mikils mælzt, þó að farið sé fram á það, að gengið verði þannig frá gröf þessa skálds, sem þjóðin hafði ekki ástæður til þess að hugsa um, meðan það lifði, að hún týnist ekki aftur. Skáldið virðist einnig sjálft hafa lagt mikið upp úr því, að hinn endanlegi verustaður hans týndist ekki.

Um Bjarna Thorarensen, fyrsta merka skáldið í nýjum sið á Íslandi, hefur einnig verið mjög hljótt að þessu leyti. Það er meira að segja ekki alveg vissa fyrir því, að sú gröf í Möðruvallakirkjugarði, sem álitin er vera hans legstaður, sé sú rétta. Það er álitið, að grafa þurfi niður að kistunni til þess að leita að silfurskildi, sem á að vera á henni, til þess að fá vitneskju um þetta. Þessi till. mín stefnir í þá átt, þó að lítil sé, að vita, hvort hæstv. Alþ. sé sammála þeim aldaranda, sem nú er að slíta nokkurn veginn bandið við fortíðina. Þetta gera menn ekki að öðru leyti. Ég hef séð það, að bókaútgáfufyrirtæki hér hefur gefið út ljóðmæli Jónasar Hallgrímssonar fjórum sinnum. Það lítur út fyrir, að þjóðin kaupi þessar bækur. Þess vegna held ég, að menn þurfi ekki eingöngu að líta á hina stóru bókaskápa, eins og t.d. hjá hv. þm. Dal., heldur er það svo, að þjóðin heldur upp á skáldin og þeirra bækur og hefur áhuga fyrir þeirra ævisögum, þ.e.a.s. þeir menn, sem nokkuð fylgjast með. Nú er það svo, að sá liður á fjárl., sem ætlaður er til skálda og listamanna, er að tiltölu hærri á okkar fjárl. en hjá öðrum þjóðum, og ég vil fullyrða það, að þau skáld, sem koma til greina við úthlutun þess fjár, eru ekki skáld, sem á nokkurn hátt eru sambærileg við nokkurn af þessum þremur mönnum, sem um getur í till. minni. Það er mála sannast, að þau skáldalaun, sem nú eru veitt, eru tilheyrandi fornum tíma. Þau voru virðingarverð tilraun til að styrkja skáldin, þegar erfitt var að hafa peninga upp úr skáldskap. Nú fá sumir rithöfundar okkar um 50–60 þús. kr. fyrir eina bók frá bókaútgefendum. Það er ágætt, að þeir fá fé fyrir sína vinnu. En ég verð að segja það, að það eru mikil missmíði á því, ef ekki er hægt að skilja á prýðilegan hátt við helztu stórskáldin okkar, vegna þess að endilega þurfi að veita svo miklu meira fé til okkar skálda, sem nú lifa og sum eru þýðingarmikil, en þó mikill meiri hluti þýðingarlaus. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta, vegna þess að þessar till. eru fram komnar til þess að fá úr því skorið, hvort það er bara yngri kynslóðin, sem ekki kann faðirvorið eða þekkir nöfnin á helztu mönnum sögunnar.