28.03.1949
Sameinað þing: 55. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (1398)

42. mál, fjárlög 1949

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mér hafa sýnzt svo þungar klyfjar á henni Skjónu og hef því ekki verið með því að flytja brtt. Hins vegar eru tvö atriði í nál. minni hl., sem gera það að verkum, að ég bið um orðið. — Fyrra atriðið er í sambandi við það, sem n. gat ekkert vitað um, þar sem hún ræðir um viðtækjaverzlunina og útvarpið og hefur eftir sparnaðarnefnd, að hún hafi lagt til að skilja þetta að. Meiri hl. var með þessu, en minni hl. á móti, og eru það fleiri atriði, sem frá sparnaðarnefnd komu, sem þannig er ástatt um. En síðasti fundurinn, sem átti að halda, þegar gera átti þetta upp, hefur ekki verið haldinn, þannig að það lítur svo út sem nefndin hafi verið þarna samstæð, en 2 af 6 nm. voru þarna á móti. Þetta vildi ég láta koma fram, til þess að við, sem vorum í minni hl., við Magnús Björnsson, værum ekki taldir þar með meiri hl.

Hitt atriðið er í sambandi við ummæli meiri hl. fjvn. á bls. 10–11 í nál., þar sem talað er um mat á húsaleigu opinberra embættismanna og farið allhörðum orðum um ríkisskattanefnd fyrir það, að hún hafi ekki metið þetta nægilega hátt. Nú má að sjálfsögðu alltaf deila um það, hvað sé nægilega hátt mat á húsaleigu, sem t.d. ríki og bæir leggja til embættismönnum. Ég skal ekkert um það segja, hvort okkur hefur tekizt að meta þetta rétt. En hitt vil ég fullyrða, að við höfum sett í það geysimikið samræmi, sem metið hefur verið af yfirskattanefnd, en það hefur komið svo misjafnt í okkar hendur, að sama húsnæði hefur verið metið allt að tólf sinnum hærra á einum stað en öðrum, og okkar starfssvið hefur verið að samræma þetta. Sums staðar hefur munurinn verið svo mikill, að t.d. ágæt íbúð, sem kennari hafði, var metin mun minna kennaranum til tekna yfir árið en íbúð, sem símstöð hafði, er hafði eina litla kompu, sem menn töluðu í svona tilfellum höfum við reynt að koma á samræmi, og víðast hvar hefur matið verið hærra, þegar það fór frá okkur en það var, þegar það kom til okkar. Það eru aðeins undantekningar, þar sem það hefur lækkað. Ég er þess vegna ekki viss um, að eins mikið ósamræmi sé í þessu og fjvn. vill láta líta út á bls. 10–11 í nál. sínu.

Það var þetta, sem gaf mér tilefni til að standa upp, og einungis þetta.