01.04.1949
Sameinað þing: 61. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (1402)

42. mál, fjárlög 1949

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Þegar núverandi hæstv. ríkisstj. kom til valda, þá gerði hún það, sem eðlilegt var, að hver stjórn geri á þeim tímamótum, að hún lýsti því yfir við þjóðina, hvers vænta mætti. Hún samþykkti allýtarlega stefnuskrá og birti hana, svo sem vera bar, öllum landslýð. Þessari stefnuskrá var m.a. birt í Alþýðublaðinu 6. febr. 1947. Að sjálfsögðu er það svo, að hver ríkisstj. hlýtur að áskilja sér nokkurn tíma til þess að framkvæma sína stefnuskrá. Og vissulega er það einmitt svo, að í hvert skipti, sem fjárlög eru samin, þá ætti í þeim að mega finna vitnisburð um þá áfanga, sem ríkisstj. ætlar að ná í það og það skiptið. Og í samræmi við þessa skoðun hlýt ég að lesa það fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir. Og satt að segja virðist mér lítið bóla á því, að hæstv. ríkisstj. sé með þessu frv. að reyna að ná einhverjum áfanga, sem boðaður er í þeirri stefnuskrá, sem birt var 6. febr. 1947 í Alþýðublaðinu. Með leyfi hæstv. forseta vil ég mega tilfæra hér nokkur orð úr þessari stefnuskrá. Þar segir svo: „Ríkisstj. telur, að á meðan hinar miklu framkvæmdir í íslenzku atvinnulífi standa yfir, þurfi að samræma framkvæmdir einstaklinga og almannavalds, svo að þær verði gerðar eftir fyrir fram saminni áætlun, þar sem einkum sé lögð áherzla á“, — og svo kemur áttundi liðurinn þannig: „Að húsnæðisskorti og heilsuspillandi íbúðum, hvar sem er á landinu, verði útrýmt með byggingu hagkvæmra íbúðarhúsa.“ — Það er ekki grunnt tekið í árinni, það á að útrýma húsnæðisskorti og heilsuspillandi íbúðum, hvar sem er á landinu.

Nú væri ástæða til að ætla, að einmitt á þessu sviði stæði hæstv. ríkisstj. á næsta góðum grundvelli, því að svo vill nú til, að fyrir frumkvæði fráfarandi ríkisstj. hefur verið sett ný löggjöf um húsnæðismálin í landinu, löggjöf um opinbera aðstoð við byggingu íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum, l. frá 7. maí 1946. Í þeim lögum var safnað saman öllum eldri ákvæðum varðandi byggingu verkamannabústaða og starfsemi byggingarsamvinnufélaga, og ákvæðin um þetta hvort tveggja voru bætt að verulegu leyti. Loks var algert nýmæli í lögunum, nýmæli, sem stefndi að því að fela sveitarfélögum, þar með kaupstöðum og kauptúnum, að útrýma heilsuspillandi húsnæði eftir fyrir fram gerðri áætlun, og var til þess ætlazt, að þetta verk yrði unnið á fjórum árum. Þetta var III. kafli hinnar mjög svo merku löggjafar. Og þar var í 31. gr. gert ráð fyrir því, að ríkið lánaði til slíkra bygginga 75% af byggingarkostnaðinum til 50 ára með 3% vöxtum. Enn fremur, að ríkið legði fram 10% af kostnaði vaxtalaust lán til 50 ára og afborgunarlaust skyldi það vera fyrstu 15 árin. Og enn fremur, að ef byggingarfélög ákvæðu að afskrifa þau 15%, sem þau áttu sjálf að leggja fram í þessu skyni, þá var ríkisstj. heimilt að fella niður þetta 10% lán, sem sé að gera það að framlagi ríkisins. — Hér var vissulega ekki smátt stigið. Raunar benti ég á það, þegar lög þessi voru sett 1946, að þar vantaði að nokkru leyti grundvöllinn. Það var sem sé hvergi í lögunum gerð æskileg grein fyrir því, hvernig skyldi afla fjár til byggingarframkvæmdanna. Ég taldi þá, að það yrði að lögbinda, að fjárframlag fengist til þess að byggja, einkum verkamannabústaði, og fjárframlag fengist einnig til þess að byggja hús á grundvelli þeim, er samvinnufélögin hafa lagt. Þessu var svarað hér á Alþ. eitthvað á þá lund, að það væri fjarstæða að ætla að skylda Landsbankann eða einhverjar fjármálastofnanir til þess að greiða svo og svo mikið fé, og svo væri allt í lagi. Þetta mál er ekki svo einfalt, að með þessu sé því fullsvarað. Hitt er ekki heldur hægt, að framkvæma þjóðarbúskap eftir áætlun á einu eða öðru sviði, nema sú áætlun taki til allrar fjárhagsstarfsemi þjóðarinnar. Það er nú þegar orðið ljóst flestum, ef ekki öllum, að til þess að hægt sé að koma einhverri áætlun í framkvæmd í þjóðfélaginu, þá verður að semja heildaráætlun og leggja fyrir heildarfyrirmæli um það, hvernig erlendum gjaldeyri skuli varið, hvernig hann skuli skiptast á milli þessara og hinna innflutningsgreina. Alveg sama máli gegnir að sjálfsögðu um hið innlenda fjármagn. Það verður engin áætlun framkvæmd, hvorki um byggingar íbúðarhúsa né annað, nema löggjafinn setji um það einhverjar reglur, hvernig bankarnir skipti því fjármagni, sem þeir hafa með höndum á hverjum tíma, á milli starfsgreina í þjóðfélaginu. Sem sé, sú áætlun um byggingar eða aðrar fjárfrekar framkvæmdir, sem ekki er byggð á þessum grundvelli, er byggð á sandi.

Nú skyldi maður ætla, í fullu samræmi við það, sem ég hef lesið úr stefnuskrá hæstv. ríkisstj. núverandi, að hennar fyrsta verk hefði verið að tryggja grundvöll undir löggjöf um byggingu íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum, nefnilega tryggja hann þannig að tryggja fé til framkvæmdanna. En hæstv. ríkisstj. hafði annað að hugsa. Þann 24. marz 1948 voru afgr. á Alþ. lög um bráðabirgðabreyt. nokkurra laga o.fl. Þar var fyrsta ákvæðið, að framkvæmd III. kafla laganna um opinbera aðstoð við íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum skyldi frestað. ríkissjóðurinn var þá leystur undan þeirri skyldu að lána fé til slíkra framkvæmda og til að leggja fram fé til slíkra framkvæmda, nema sérstök heimild kæmi til í fjárlögum hverju sinni. Jafnframt voru byggingafélög leyst undan þeirri skyldu að hafa áætlun um útrýmingu heilsuspillandi húsnæði á fjórum árum. Sem sé, framkvæmd laganna var frestað. — Nú kynni einhver að ætla, að þessi frestunarframkvæmd hefði verið byggð á því, að sýnt hefði þótt, að þörfin fyrir útrýmingu heilsuspillandi íbúða væri þverrandi. En staðreyndirnar tala allt öðru, máli. Ég hef nýlega fengið í hendur skýrslu um húsnæði og byggingastarfsemi í Reykjavík 1928–47, sem er samin af hagfræðingi Reykjavíkurbæjar. Þessari skýrslu var útbýtt til bæjarfulltrúanna í Reykjavík í nóvember 1948. Þar er m.a. í þessari mjög fróðlegu skýrslu frá því skýrt, að 1946 hafi verið skoðaðar allar kjallaraíbúðir í Reykjavík. — Það eru til lög í þessu landi, ég held frá 1928, sem banna kjallaraíbúðir.

En þær voru nú skoðaðar, og þær reyndust vera 1.884 talsins. Skoðunarmennirnir flokkuðu þessar íbúðir eftir gæðum. Flokkunin reyndist þannig, að góðar töldust 13.4%, sæmilegar 36.5%. M.ö.o. þær, sem fá einkunnina sæmilegar eða betri, eru 49.9%. Einkunnina lélegar fá 37.7% og einkunnina mjög lélegar 7.9% og óhæfar 4.5%. Eða með einkunnina lélegar og þaðan af verri eru 50.1% þessara 1.884 kjallaraíbúða. En það þýðir, að lélegar, mjög lélegar eða óhæfar kjallaraíbúðir í Reykjavík voru árið 1946 944. — Ég fullyrði, að á þessu ástandi hefur ekki orðið breyt. til batnaðar. Jafnvel þótt Reykjavíkurbær hafi leitazt við að tæma eitthvað af þessum verstu íbúðum og það meira að segja með því skilyrði, að þeim yrði lokað, þá hefur þetta ekki verið haldið. Þrátt fyrir þessi skilyrði hafa þessar íbúðir verið notaðar áfram, einnig þær lökustu. Ég hygg, að það megi slá því föstu, að milli 900 og 1.000 kjallaraíbúðir séu notaðar í Reykjavík, sem verði að teljast lélegar, mjög lélegar eða óhæfar, sem sé íbúðir, sem ekki er æskilegt, að fólk búi í, og auk þess eru þær flestar heilsuspillandi og litt hæfar til þess að ala upp í þeim hina komandi kynslóð.

Þá var 1946 og 1947 látin fara fram rannsókn á herskálaíbúðum í Reykjavík. Og samkvæmt manntali 1947 bjuggu í þeim árið 1947 2.114 Reykvíkingar, þar af 836 börn. Nú þarf enginn að velta því fyrir sér, að þessar íbúðir eru allar slæmar. Það er að vísu greint frá því í skýrslu hagfræðingsins, að nokkrar, örfáar herskálabyggingar megi teljast góðar. En það er jafnvíst, að herskálabyggingar, sem gátu talizt góðar 1946, þegar skoðunin á þeim fór fram, þær eru flestar ekki góðar 1949, heldur lélegar eða óhæfar, því að járnið, sem á þeim er, ryðgar eða eyðist og rýrnar þannig með hverjum deginum sem líður. Ég tel því, að árið 1947 hafi 2.114 Reykvíkingar búið í óhæfu eða lítt hæfu bráðabirgðahúsnæði. Á þessu hefur engin stórbreyting orðið síðan. Ef gert er ráð fyrir, að 944 kjallaraíbúðir séu notaðar í Reykjavík, sem eru lélegar, mjög lélegar eða óhæfar, og þar séu að meðaltali 4 manna fjölskyldur, sem sjálfsagt er of lágt reiknað, því að yfirleitt er það svo, að í lélegustu íbúðunum búa stærstu fjölskyldurnar, — en ef við reiknum með 4 manna fjölskyldum í hverri þessara íbúða, þá væri þetta 3.776 manns. Og að við bættum þeim, sem reikna má með, að búi í lélegum íbúðum, þar sem herskálarnir eru, eru það þá 5.890 manns, sem búa í lélegum eða mjög lélegum eða óhæfum íbúðum í Reykjavík árið 1949. — Nú vil ég taka það fram, að það er langt frá því, að þessi athugun á kjallaraíbúðum og herskálaíbúðum sé tæmandi, þegar á að gefa skýrslu um það, hve margir Reykvíkingar búi við heilsuspillandi eða alls ófullnægjandi eða lélegt húsnæði. Það er sem sé alkunn staðreynd, að í bæjarlandinu og í bænum sjálfum býr mikill fjöldi manna í ákaflega lélegum skúrbyggingum. Þær hafa ekki verið rannsakaðar, og það er ekki vitað, hve margt fólk býr í slíkum íbúðum. Og það eru til ekki fáar íbúðir í þessum bæ á hanabjálkum og háaloftum, sem vegna þrengsla og slæmra ástæðna eru tvímælalaust heilsuspillandi og sízt betri en kjallaraíbúðirnar. Þegar alls þessa er gætt, þá er ekki fast að kveðið, þótt áætlað sé, að yfir 6 þús. Reykvíkingar búi í mjög ófullnægjandi húsnæði, sem þörf væri á að útrýma og meiningin hefur verið að útrýma, þ.e. meiningin með þeirri löggjöf, sem sett var árið 1946, um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum.

Ef við lítum að öðru leyti á það, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur tekizt að koma á samræmingu á milli framkvæmda einstaklinga og framkvæmda almannavaldsins hvað snertir útrýmingu hins slæma húsnæðis, þá er niðurstaðan þessi: Bæjarfélög hafa verið stöðvuð í sínum framkvæmdum, með því að fresta framkvæmd þeirra laga, sem ég hef áður getið. En það er ekki nóg með það. Það var áreiðanlega tilgangur og andi laganna frá 1946 að færa íbúðarhúsabyggingar sem mest í hendur þriggja aðila, bæjarfélaganna, byggingarfélaga verkamanna og byggingarsamvinnufélaga. Og það var rétt stefnt. En hver er reyndin? Reyndin er sú, að síðustu ár má heita, að byggingaframkvæmdir verkamannafélaganna hafi stöðvazt með öllu. Hér í Reykjavík voru veitt fjárfestingarleyfi á s.l. ári til þess að byggja 36 íbúðir á vegum Byggingafélags verkamanna. Þetta leyfi var ekki notað, ekki af því, að viljaskortur hafi valdið því hjá því félagi, sem í hlut átti, heldur af því, að fé fékkst ekki. Sem sé, bankavaldið stöðvaði þessar framkvæmdir, af því að ríkisvaldinu hafði láðst að skipuleggja þannig á fjármálasviðinu, að það væri tryggt, að það fé, sem færi til íbúðarhúsabygginga, færi í fyrsta lagi til bygginga eins og verkamannabústaða, sem eru upp byggðar, hvað löggjöf um þær og annað fyrirkomulag snertir, á mjög heilbrigðum grundvelli. Í öðru lagi þori ég að fullyrða, að af sömu ástæðum hefur mjög dregið úr framkvæmdum byggingarsamvinnufélaganna, þótt ekki hafi það verið í nærri eins stórum stíl eins og um verkamannabústaðina. Samræmingin á þessu sviði virðist mér því hafa verið slík, að einkaframtakið hafi fengið veruleg forréttindi í byggingarmálum, bæjarfélög hafi verið stöðvuð í þessum málum, verkamannabústaðir nær stöðvaðir og dregið verulega úr framkvæmdum byggingarsamvinnufélaganna. Einkaframtakið hefur hins vegar komizt bezt af í þessu efni, því að það mun sýna sig, að það hefur fjármagn til umráða til þess að nota sér flest þau leyfi, sem fjárhagsráð hefur gefið til þess að byggja íbúðarhús. — Þetta er dálítið táknræn skipulagning, þegar litið er til þess, að það er ríkisstj. Alþfl., sem að þessu stendur.

En ég dvel ekki öllu lengur við það, sem liðið er. Hitt liggur fyrir, að snúa sér að því, sem fram undan er. Það er á þessu ári hægt að bæta úr um nokkur þau glöp, sem búið er að fremja, því að l. um bráðabirgðabreyt. nokkurra laga o.fl. frá því í marz 1948 eru þannig gerð, að III. kafla laga um opinbera aðstoð við íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kaup- túnum er þar að vísu frestað, en þannig, að þessi III. kafli greindra laga getur komið og skal koma til framkvæmda jafnskjótt og fé er veitt til þeirra framkvæmda á fjárlögum hverju sinni, sem þessi kafli er um. Mér hefur því þótt full ástæða til að bera fram brtt: um þetta, og á þskj. 481, XVI berum við hv. þm. Siglf. fram brtt. um, að samþ. verði á fjárl., að til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis samkvæmt HI. kafla laga nr. 44 1946 verði varið tveim millj. kr. en til vara einni millj. kr. Ég vil taka það skýrt fram, að þessi upphæð, sem þarna er lagt til að setja inn á fjárlög, er ætluð til að greiða þau 10%, sem ríkinu ber að leggja fram sem vaxtalaust lán til 50 ára og afborgunarlaust í 15 ár og ríkinu er heimilað að leggja fram sem framlag, ef bæjarfélögin afskrifa sín 15%. Þetta mundi þýða það, ef tvær millj. kr. væru lagðar þannig fram af ríkinu, að þá ætti að vera hægt að leggja fram alls 20 millj. kr. til útrýmingar heilsuspillandi íbúða, en ef lægri talan er höfð, þá 10 millj. kr. Þetta er engin ofrausn, þegar litið er á þær staðreyndir, sem ég hef getið hér um áður, því að ég ætla, að þess sé alls ekki að vænta, að hægt sé að reisa ódýrari íbúðir, svo að sæmilegar séu, en fyrir 100 þús. kr. Þetta þýðir þá í fyrra tilfellinu 200 íbúðir, en í síðara tilfellinu 100 íbúðir. Þetta er ekki nein ofrausn, sem hér er farið fram á, þegar ég hef sýnt fram á, hvernig ástandið er í þessum efnum hér í Reykjavík. Og ég hygg, að ástandið í þessum efnum í öðrum kaupstöðum og kauptúnum á landinu — þó að ég geti ekki fært um það tölur — sé ekki betra. Ég ætla, að þar sé þörfin í þessum efnum einnig mjög brýn. Enn fremur verð ég að segja, að ég ætla, að ekki sé vanþörf á því, að eitthvað sé lagt fram í fjárlögum til þess að framkvæma aðra liði stefnuskrár hæstv. ríkisstj. hvað húsnæðismálin snertir, því að stefnuskráin nær ekki aðeins til kaupstaðanna og kauptúnanna; heldur var ætlun hæstv. ríkisstj. að útrýma heilsuspillandi húsnæði hvar sem er á landinu; Og þó að ég hafi ekki lagt fram sérstaka brtt. um það, hygg ég, að þörf væri á að ætla nokkurt fé til sveitanna líka í þessu skyni, og væri þeirra hlutverk að bera fram till. um það, sem þar eru kunnugri, en ég og eru fulltrúar þess fólks, sem þar býr.

Ég býst við, að ef þessi brtt. næði samþykki Alþ., þá væri rétt og sjálfsagt á síðara stigi málsins að koma fram með till. um að heimila ríkisstj. lántöku í þessu skyni, til þess að standá straum af þeim 75%, sem hún á að lána til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði til 50 ára með 3% vöxtum. Skal ég svo ekki fjölyrða meir um þessa brtt. En afdrif þessarar brtt. skera vissulega úr um það, hvort hæstv. ríkisstj. er horfin frá því stefnuskráratriði að útrýma óhollu og heilsuspillandi húsnæði, eða hvort hún vill enn halda við þetta stefnuskráratriði og gera nú átak til þess að framkvæma það.

Það er annars ákaflega margt, sem komið hefur fram í þeim umr., sem haldnar eru um fjárl., sem eru mjög athyglisverðar. Ég hef fennt augum yfir hinar fjölmörgu brtt. hv. fjvn., sem er að finna á þskj. 450, 151 talsins. Og sagt er, að árangurinn af samþykkt þeirra allra mundi verða sá, að þær mundu lækka greiðsluhalla fjárlaganna um 6 millj. kr. Þetta mundi nú kannske einhverjum sýnast býsna álitlegt. Eigi að síður stendur sú staðreynd, sem hv. frsm. fjvn. hefur lýst, að þó að tekið sé tillit til þessara till. allra, þá virðist hallinn á sjóðsreikningi vera 25 millj. kr. Ég verð að segja það, að mér finnst þetta ömurleg niðurstaða af löngu starfi hv. n., löngu starfi hæstv. ríkisstj. og einnig því, sem hv. frsm. lýsti, að fjárl. hefðu að þessu sinni verið óvenjulega vel undirbúin af hendi fjmrh. Þrátt fyrir allan þennan ágæta undirbúning og þetta langa starf hv. fjvn. og þessar 151 brtt. frá hv. fjvn., þá er nú komið inn í þingið með fjárlagafrv. til 2. umr., þar sem greiðsluhallinn nemur um það bil 28 millj. kr. Það virðist vera alveg augljóst mál, að út úr þessu eru ekki til nema þrjár leiðir. Einhverja þeirra verður að fara, einhverja eina, tvær þeirra eða þær allar. Og leiðirnar eru í fyrsta lagi lánsheimildir og jafnframt möguleikar ríkisstj. til þess að fá lán, í öðru lagi hækkun tekna ríkisins, og í þriðja lagi, lækkun útgjaldanna — þetta þrennt allt í senn, eitt eða tvennt. Ég býst nú við, að hv. fjvn.. hafi verið að velta þessu fyrir sér. Hún virðist þó ekki hafa komizt að niðurstöðu. Og það, sem mér finnst ömurlegast, er það, að megin þorrinn af hinum 151 brtt. hv. fjvn. er nauðalítils virði. Það er engin stefna í þessum till. Það vottar í þeim hvergi fyrir neinni allsherjarlausn á þeim vanda, sem hv. fjvn. hefur átt að leysa. Langflestar brtt. n. eru þannig til komnar, að fjvn: hefur tekið sig til og endurskoðað það, sem fjmrn. er áður búið að reikna út um það, hver yrði kostnaður við, ýmsar embættisfærslur í landinu, og síðan hefur n komizt að þeirri niðurstöðu, að lækka mætti útgjöld ríkisins um nokkur þús. kr. hjá þessum og hinum embættismanni. Sízt er ég að lasta þetta eða að lasta það að reyna að gera þessar áætlanir sem allra réttastar og nákvæmastar. En staðreyndin er sú, að kostnaðurinn við þessi embætti verður greiddur samkvæmt reikningi. Og satt að segja efa ég ákaflega mikið, að útreikningar hv. fjvn. séu nokkuð réttari í þessum efnum, en útreikningar fjmrn. Ég veit það ekki. Mér finnst einhvern veginn, að hæstv. rn. hafi enn betri aðstöðu til þess að reikna þetta rétt, hver þessi kostnaður raunverulega verður. En ég held, að allir séu sammála um, að hér sé ekkert bjargráð um að ræða. Það er gott, að hv. fjvn. sýni þann vilja, að kostnaður við þessi embætti verði sem minnstur, og að hún vilji endurreikna þetta og komast að sem réttastri niðurstöðu um þessi efni. En í framkvæmdinni kemur þetta til með að breyta ákaflega litlu. Það er víst, að fjármálaástand ríkisins er í meira öngþveiti en að bætt verði úr því með slíkri aðferð.

Ég vil minnast á einn þátt í þessum umr., sem er athyglisverður og sýnir, að gera verður gagngera breytingu á rekstri ríkisins, og sýnir stjórnleysi og eftirlitsleysi. Það hefur komið fram í ræðum þeirra hv. þm. Barð., hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskmrh., að sá háttur sé á hafður, að póstur og sími innheimti mikið fyrir ríkið, geri aðeins upp einu sinni á ári, en láti féð ganga inn í sinn rekstur. Slíkt er fyrir neðan alla skynsemi í opinberum rekstri. Það er ekki aðeins, að þessi stofnun þurfi að greiða starfsmönnum laun og taki peningana til þess, en hún hefur einnig miklar framkvæmdir, svo sem byggingar og áætlunarferðir auk póst- og símaþjónustu. Og svo er það látið viðgangast, að þetta mikla fé sé hjá þeim allt árið, og hvað snertir eftirlit með því, þá hygg ég, að það sé lítið. Hæstv. fjmrh. hefur fundið, að hann hefur ekki eftirlit með þeim stofnunum, sem honum ber, og þess vegna hefur hann komið með frv. um ráðsmannsembættið, sem á að búa til eins konar yfirfjmrh. til að hafa eftirlit með öllum þessum stofnunum, en það á hæstv. ráðh. að hafa með höndum og er þetta því uppgjafaryfirlýsing. Hæstv. fjmrh. á því að hafa þræðina í sínum höndum og sjá um, að stofnunin greiði þetta fé jafnóðum til ríkissjóðs. En það var fleira, sem kom fram í umr. um þessa stofnun. Einn er sá sjóður, sem fer með orlofsfé verkamanna, og það er upplýst af form. fjvn., að hann hafi horfið inn í hinn sama sjóð og staðið undir rekstri áætlunarbifreiða og strætisvagna. Ég hef hlustað á varnir hæstv. ráðh., en það eru engar varnir, því að slíkt er algerlega ósæmilegt atferli. Stofnun, sem innheimtir 4% af launum og á að skila því aftur til launþega til sumarleyfa, geymir ekki féð í bönkum til að vaxta það, heldur lánar sjálfri sér það vaxtalaust. Ríkið er í ábyrgð fyrir rekstrinum og á að lána til hans, en slíkt ætti að vera hægt að reka hallalaust. Og er það ekki staðreynd, sem öllum er kunn, að 8 millj. kr. vantar til skólabygginga, sem ríkið skuldar sveitarfélögunum. Og þegar bændur koma til að greiða verkfærasjóði fyrir skurðgröfur og önnur stórvirk atvinnutæki og leggja fram ávísanir á ríkissjóð, er þeim sagt, að þær verði ekki teknar, þar sem ríkið skuldi þar svo mikið. En oftast nær hefur verkfærasjóður samt tekið við ávísunum, en látið þessa athugasemd fylgja. Hvaða sönnun er fyrir því, að orlofsféð verði greitt? Það er engin trygging fyrir því. Þetta getur allt slampazt, en er óafsakanleg braut, sem farið hefur verið inn á. Svo er eitt atriði enn þá varðandi þessa stofnun, þótt smærra sé. Það hefur komið fram, að 3 starfsmenn þessarar stofnunar hafa keypt herskála á Keflavíkurflugvellinum og Póstur og sími einnig og sér stofnunin einnig um flutning á eignum starfsmanna sinna, en nú er upplýst, að ekki sé greint sundur, hvað hver um sig rýfur, en sagt er, að póststjórnin sé skaðlaus af þessu. Slíkt getur verið, en það er engin sönnun fyrir því. Auk þess borga starfsmennirnir ekki fyrir flutninginn á sínum vörum nema með braggajárni. Þetta er óafsakanlegt, og engin furða, þó að menn varpi fram þeirri spurningu, hvort aðrir geti ekki gert slíkt hið sama og greitt fyrir heimflutninginn með hluta af braggajárninu. Þetta er hneyksli. Hæstv. viðskmrh. sagði, að hægt væri að láta fara fram réttarrannsókn á þessu, en slíkt er ekki fjmrn. að sjá um, heldur yfirmanns þessarar stofnunar, hæstv. viðskmrh. Það er margt fleira, sem ástæða er til að ræða í sambandi við fjárl. Heildarmynd þeirra er fullkomið stefnuleysi. Því var lýst yfir í sambandi við brtt., að ekki hefði náðst samkomulag innan n. og deilur væru á milli hv. form. n. og hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskmrh. Og allt virðist stefna til gjaldþrota, en hæstv. ríkisstj. virðist ekki fær um að móta neina stefnu í þessum málum og virðist hafa svikið stefnuskrá sína. Hæstv. ríkisstj. er því vanmegnug að stjórna landinu, enda bera umr. og fjárl. því glöggt vitni.