01.04.1949
Sameinað þing: 61. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (1404)

42. mál, fjárlög 1949

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég hef gamla reynslu af því, að það er vandasamt að vera í fjvn. og hún fær oft aðkast, ekki aðeins sú núverandi, heldur einnig áður, meðan ég átti þar sæti. Ég held, að þótt fjvn. vildi gera sitt bezta, tækist henni ekki fremur en guði almáttugum að gera öllum til hæfis. Það hefur margt verið borið á n. og af næstsíðasta ræðumanni var sagt, að hjá henni ríkti fullkomið stefnuleysi í fjárl. Ég hefði óskað, að fastari stefnu hefði kennt í till. n. og róttækar hefði verið tekið á málunum, en hjá henni gætir samt stefnu, en ekki stefnuleysis. Og það er vandasamt hlutverk, sem n. hefur, að reyna að halda svo á málum ríkissjóðs, að ekki verði siglt út í gjaldþrot, og sinna um leið þörfinni um fjárframlag víðsvegar um land. Þetta finnst mér stefna, en játa, að hún hefði mátt koma skýrar og greinilegar fram. Ég skal ekki segja nema takist, áður en lýkur, að láta tekjur og gjöld standast á, en að því ber að vinna. En þó að það takist ekki, ætti ekki að verða hætta á, að til gjaldþrota komi þegar á fyrsta ári. En ég vil taka undir með hæstv. fjmrh., að sízta leiðin til að verja gjaldþroti er að samþ. allar till. hv. þm. Og ég get ekki skilið, að það bjargi að hækka útgjöldin, nema það fé sé þá lagt í arðbær fyrirtæki sem gefa mikið í aðra hönd. Það hefur verið borið á hv. n., að kjósendur hv. nm. sætu við betri kjör en aðrir þegnar. Ég skal ekki leggja dóm á það, en skal taka það fram, að slíkur áburður er engin ný bóla.

Yfirleitt finnst okkur þm. Eyf., að svo sanngjarnlega væri gengið frá till. n. og svo sanngjarnlega miðlað, að við ákváðum í fyrstu að gera engar brtt. við fjárl., og vorum sammála um, að þm., sem styddu hæstv. ríkisstj., bæri að koma fram með sem minnst af slíku. En þegar samt sem áður rigndi niður till. í þinginu og það frá stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj., kom okkur saman um að sýna, að okkar hérað hefði líka þörf fyrir fjárframlög, en við erum reiðubúnir að taka till. aftur, ef aðrir hv. þm. taka einnig sínar till. til baka. Ég mun svo ekki hafa lengri formála, en drepa Iítillega á till. Fyrsta till. í tölulið II. á þskj. 497 er um að hækka framlag til Svarfaðardalsvegar um 40 þús. kr., úr 60 þús. í 100 þús. Það stendur svo á um þennan veg, að tveir kaflar eru óbyggðir með öllu, og aðeins farið þar eftir ruddum götum. Nú var byrjað í fyrra fyrir fé, sem þá var lagt til á fjárl., að gera veg á neðri kaflanum, og býst ég við, að þær 60 þús. kr., sem nú eru ætlaðar á fjárl., muni hrökkva til að fullgera þann kafla, en innar í dalnum, á svo kölluðu Urðaengi, er 5 km kafli ólagður, og hefur hann verið hinn versti þröskuldur fyrir inn-Svarfdæli, og koma þeir ekki mjólk á markaðinn í langan tíma á veturna, en mjólkurframleiðsla er höfuðatvinnuvegur Svarfdæla sem annarra Eyfirðinga. Ef veitt væri 100 þús. kr., mætti ljúka við veginn niðri í dalnum og hefja vinnu við hinn hlutann. 2. till. undir sama lið er svipuð. Það er að hækka framlag til Hörgárdalsvegar um 10 þús. kr., úr 25 þús. í 35 þús. Það er ekki mikið hægt að gera fyrir 10 þús. kr., og hefði framlagið þurft að hækka meira, en við létum þetta nægja. Eins og stendur er Skriðuhreppur klofinn í tvennt vegna vegaleysis, og ef menn fara á fundi í þinghúsi hreppsins, þurfa þeir fyrst að fara í tvo aðra hreppa og langa vegu. Þetta skerðir mjög félagslíf og veldur ýmsum óþægindum, t.d. geta hreppsbúar ekki sameinazt um bíl til mjólkurflutninga, en verða að slá sér saman við tvo næstu hreppa, Arnarneshrepp og Öxnadalshrepp. — Þá er farið fram á hækkun til tveggja hafna, Dalvíkur og Hríseyjar. Lagt er til, að framlag til hafnarinnar á Dalvík hækki úr 50 þús. kr. í 100 þús. Ég skal geta þess, að ég get ekki beinlínis fært rök fyrir því, að framlagið eigi endilega að vera 100 þús. kr. Nú, eins er um næstu till., þar sem við förum fram á, að framlag verði hækkað úr 30 þús. í 60 þús. kr. Þar er varla byrjað á verki og verður heldur ekki sagt um, hvað það kostar. Fjvn. er kunnugt um, að það er sízt vanþörf á þessari hækkun, ef fjárhagur ríkisins leyfir, en leyfi hann það ekki, verðum við að beygja okkur fyrir því.

Þá er V. liður á sama þskj., um 47 þús. kr. hækkun til lendingarbóta í Grímsey, og er miðað við það, sem vitamálaskrifstofan gefur upp. Við leyfðum okkur að fara fram á þá upphæð hér, sem þörf er á, af því að okkur kom til hugar, að til þeirra, sem stríða við óblíð lífskjör norður í Íshafi, kynni að verða litið í meiri náð en ella mundi.

Þá er VII. liður, það er styrkur, 10 þús. kr., til Fjórðungssambands Norðurlands, og er það nýr liður. Ég þarf varla að lýsa þessu sambandi. Það er samband sveitarfélaga á Norðurlandi, annað tilsvarandi samband er á Austurlandi, og ég hygg, að eitthvað í þá átt sé á Vesturlandi. (HV: Það er verið að undirbúa stofnun þess.) Þessi sambönd taka til meðferðar ýmis mál, sem fjórðungana varða, og gætu undirbúið, að fjórðungarnir fengju meira vald í sínum málum, eða ef fylkjaskipulagið væri tekið upp. Slíkur félagsskapur þarf nokkurt fé. Segja má, að sveitarfélögin ættu sjálf að kosta starfsemina, en það má þá segja um margt fleira, sem styrks nýtur á fjárlögum. Skal ég svo ekki fjölyrða frekar um það.

Þá er lítil brtt. frá mér, IX. liður á sama þskj., um, að eftirlaun Guðmundar Ólafssonar fyrrverandi pósts séu hækkuð upp í hæstu eftirlaun fyrrverandi pósta, og munar nú lítið um þetta. Ég veit, að eftirlaunum pósta er raðað eftir þjónustualdri og að hann hefur t.d. ekki sama þjónustualdur og Sigurjón Sumarliðason og Jón frá Galtarholti, en ég miða við það, að Guðmundur fái nú sömu eftirlaun og þeir. Þó að hann hafi ekki eins langan þjónustutíma sem póstur, þá hefur hann verið svo lengi í póstferðum, því að hann var í fylgd með Sigurjóni um fjölda ára. Í öðru lagi fer ég fram á þetta sökum þess, að Guðmundur Ólafsson lenti í alveg sérstökum hrakningum í einni póstferð og beið þar af heilsutjón, en er þó ekki öryrki, og veit ég t.d., að hæstv. forseta þingsins er um það kunnugt, og finnst mér, að taka mætti tillit til þess, er Guðmund hrakti með lestina undan ofsaveðri inn á öræfi.

Það eru þá ekki fleiri brtt., sem ég er riðinn við. En verði samþykkt eitthvað af brtt. fram yfir það, sem fjvn. leggur til, þá mæli ég með brtt. frá hv. þm. Ak., III. lið á þskj. 481, um 210 þús. kr. framlag til brúar á Glerá gegn 1/3 framlags frá Akureyrarbæ. Mér finnst tæplega, að ríkið hafi efni á því að kasta frá sér því framlagi Akureyrarbæjar, sem í boði er nú því að samkvæmt áætlun vegamálastjóra á að gera veginn þannig, að þessarar brúar er þörf.

Þær tillögur, sem við þm. Eyf. flytjum, nema samtals 170 þús. kr. eða rúmlega það. Út af afgreiðslu fjárlaganna skal ég geta þess, að ég mun fyrir mitt leyti samþykkja lækkunartillögur, sem svarar því, að munurinn verði yfir 300 þús. kr. í lækkunarátt, það eru tillögur hv. 5. þm. Reykv. Og eins mun ég greiða atkv. með öllum till. hv. fjvn., þannig að ef ég ætti einn að afgreiða fjárlögin og tæki mínar till. með, mundi tekjuhalli ekki aukast af þeim sökum.