01.04.1949
Sameinað þing: 61. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (1407)

42. mál, fjárlög 1949

Jón Gíslason:

Ég á nú aðeins eina brtt. af öllum þessum brtt., og er hún á þskj. 418, við 16. gr. frv. Það er nýr liður, að upphæð 150 þús. kr., til sandgræðslu í Meðallandi. Það er langt síðan sandfokið fór að herja þessa sveit, sem var mjög blómleg, og með þeim afleiðingum, að henni hefur hnignað mjög mikið. Fyrst hér á árunum höfðu menn engin ráð við sandfoki, en nú hefur verið hafin virk barátta gegn því og reynslan sýnir, að sú barátta hefur borið góðan árangur. Það mun hafa verið um 1920, er sandfokið herjaði hvað ákafast jörðina Hnausa, að girt var þar sandgræðslugirðing og sáð í landið. Árangurinn varð sá, að nú er þetta allt gróið land, og sést þar varla sandblettur, og meira að segja hefur farið fram mikill heyskapur á þessu landi núna hin síðari ár. Sandgræðslan lá svo niðri í nokkurn tíma, enda var þá ekki bráð hætta á ferðum, en rétt fyrir 1940 hófst aftur mikið sandfok og þá að norðan og eyddust þá tvær jarðir, Feðgar og Leiðvöllur. Fyrir 4 árum var svo girt þarna girðing, sem er um 45 km löng og kostaði hátt á annað hundrað þús. kr. Þarna hefur ekki verið unnið verulega að sáningu, en samt er sandfokið hætt og landið farið að gróa. Þetta sýnir, hve mikið er hægt að gera í þessum málum með ótrúlega litlu fé, ef góður vilji er fyrir hendi. Ég hef sjálfur fengizt dálitið við sandgræðslu og hef séð, að oftast mun vera nægilegt að girða landið og verja það ágangi. Þegar girðing þessi var gerð, var áætlun sandgræðslustjóra að girða úr Kúðafljóti í Eldvatn. Af þeim framkvæmdum varð ekki þá. Girðing þessi þarf að vera um 30–40 km löng, en girðingin er aðeins á eina hlið, og við það sparast nokkuð. Þetta fé, sem ég fer fram á, er ætlað til þessarar girðingar, og ef þessi girðing verður gerð, er sveitin orðin örugg. Þarna liggja nú 14 býli í hættu og eru þau flestöll eign ríkissjóðs. Á býlum þessum er mjög mikið verðmæti, bæði í fasteignum og lausafé, og fyrir þessa sveit er búið að leggja töluvert í kostnað eins og fyrir aðrar sveitir landsins. Tvær stórar brýr liggja að sveitinni, önnur á Eldvatni og hin á Ásavatni, auk nokkurra minni brúa. En nú í vetur kom upp enn nýtt atriði, sem setti hinar svonefndu Steinsmýrarjarðir í hættu. Þannig var mál með vexti, að sett hafði verið stífla í afrennslisskurð, er rennur í Eldvatn, svo að vatnið lónaði upp og aðeins vatnaði yfir sandana og forðaði þeim frá foki. En nú í vetur bilaði þessi flóðgátt. Ég hef talað um þetta við Búnaðarfélagið, en það telur sig ekki hafa fé til þess að endurbyggja stífluna. Þessar jarðir eru tvær, og er vel byggt á báðum, og á annarri eru sérstaklega vandaðar byggingar, og væri það mikill skaði, ef þessar jarðir legðust í eyði. Ef féð, sem ég fer fram á yrði veitt, mætti koma því svo fyrir, að einhverju af því fé mætti verja til þessara framkvæmda. Hins vegar hafa komið fram uppástungur um það, hvort það mundi ekki borga sig að taka Meðallendinga upp og flytja þá í burtu. Ef slíkt yrði framkvæmt, þyrfti að flytja fólk af 14 býlum. En í sambandi við þessa hugmynd vildi ég benda á eitt atriði. Það hefur ekki verið óalgengt hin síðari ár, að 1-3 skip hafi farið þarna upp í sandana árlega. Ef þarna væri ekki byggð, þá yrði engri björgun við komið á þessum slóðum. Er hætt við, að svo færi sem menn muna, er danski báturinn strandaði á Skeiðarársandi, en þar varð engri björgun við komið, fyrr en komið var langt fram á vor. Mér sýnist, að hyggilegast væri að taka málið þeim tökum að tryggja sandgræðsluna á þessum slóðum. Ég vil leyfa mér að minna á það, að ríkissjóður á mikið girðingarefni liggjandi og allsendis ónotað í Skaftafellssýslu. Þar sem svo hagar til, þá væri það nokkur sparnaður að hagnýta þetta efni í sandgræðslugirðingu þarna heldur en að flytja efnið norður eða vestur á land í mæðiveikigirðingu. Ef svo væri gert, er hætta á, að nauðsynlegt efni væri tvíflutt, en slíkt mundi valda óþarfa fjárútlátum.

Ég skal ekki tefja þessar umr. með því að orðlengja frekar um þetta. Ég leyfi mér að vænta þess, að hv. þm. taki vel þessari brtt. minni, sem ég hef hér flutt.