04.04.1949
Sameinað þing: 62. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í B-deild Alþingistíðinda. (1412)

42. mál, fjárlög 1949

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég á hér nokkrar brtt. á þskj. 497 og vildi gera stuttlega grein fyrir þeim. Fyrst vil ég víkja að þeim till., sem varða hagsmunamál kjördæmis míns.

Varðandi vegamálin hef ég lagt til, að framlag Ólafsvíkurvegar hækki úr 100 þús. kr. í 150 þús. kr. Þessi vegur er nú mjög ófullkominn, en leiðin fjölfarin og þýðingarmikil, og vænti ég þess, að hv. þm. sjái nauðsyn þess að bæta hér úr og samþ. þessa brtt. — 2. brtt. er þess efnis að hækka framlagið til Fróðárhrepps- og Eyrarsveitarvegar úr 40 þús. kr. í 80 þús. kr. Hér er um að ræða langan veg frá Stykkishólmsvegi til Ólafsvíkurvegar,sem er að mestu ógerður, og veitir vissulega ekki af þeirri upphæð, sem ég fer fram á, en 40 þús. kr. eru þarna eins og dropi í hafinu. — 3. till. er svo þess efnis að hækka framlag til Skógarstrandarvegar úr 50 þús. kr. í 100 þús. kr. Þarna er svo til vegalaust, og bæði til Helgafellssveitar, Stykkishólms og Dala, og er brýnasta nauðsyn að bæta hér sem fyrst úr. Varðandi kjördæmi mitt ber ég að öðru leyti fram þá brtt., að framlag til hafnargerðar í Stykkishólmi verði hækkað úr 80 þús. kr. í 150 þús. kr. Þarna eru ágæt hafnarskilyrði, en bryggjan sem fyrir er, svo slæm, að liggur við hruni, og þarf hér að bæta úr hið bráðasta.

Auk þessara till. á ég nokkrar aðrar, og er þá fyrst við 12. gr., um rekstrarhalla fæðingardeildar Landsspítalans. Frv. gerir ráð fyrir, að rekstrarhallinn verði samtals 774 þús. kr., en eins og kunnugt er, á Reykjavíkurbær að greiða 2/3 þess halla. Nú hefur fjvn. áætlað þennan halla og tekið í sínar till. 459 þús. kr., og er því 1. brtt. mín á þskj. 497 bein afleiðing af till. fjvn., sem sé að hlutur Reykjavíkurbæjar lækki úr 516 þús. kr. í 306 þús. kr. Þá er næsta brtt. mín sú, að tekinn verði inn nýr liður, til sjúkrahúsbygginga í Reykjavík að upphæð 1.300.000 kr. Þetta snertir afar aðkallandi vandamál, sem bæði heilbrigðisstjórnin og bæjaryfirvöldin hafa mikið rætt undanfarið. Hafa þær viðræður leitt til þeirrar einróma niðurstöðu, að óumflýjanleg nauðsyn sé á því að byggja ný sjúkrahús og heilsugæzlustöðvar hér í Reykjavík. Einnig hefur Læknafélagið sent frá sér áskorun sama efnis. Gert er ráð fyrir, að kostnaðurinn við þessar byggingar greiðist úr ríkissjóði að 2/5 og úr bæjarsjóði að 3/5 hlutum. Til þess að viðunandi lausn fáist, þá er það álit fróðra manna, að afla þurfi 30 millj. kr. Ef menn nú hugsa sér að dreifa þeirri fjáröflun t.d. á næstu 6 ár, þá er það till. mín, að bæjarsjóður leggi árlega fram 2 millj. kr. og ríkissjóður 11/3 millj. kr., en Tryggingastofnun ríkisins láni það, sem á vantar, eða 10 millj. kr. Bæjarstjórn Reykjavíkur hefur þegar fallizt á þessar till. og veitt 2 millj. kr. í þessu skyni. Tryggingastofnunin hefur og gefið fyrirheit um aðstoð. Ég leyfi mér því að fara fram á 11/3 millj. kr. framlag úr ríkissjóði í þessu skyni.

Næsta brtt. er varðandi hafnargerð í Reykjavík. Nú hefur það verið svo, að Reykjavíkurhöfn hefur ekki fengið styrk á fjárl. áður eins og aðrar hafnir, nema aðeins fyrstu árin, þar sem hún var talin hafa sérstöðu með tekjuöflun, og voru lengi vel sérstök hafnarlög fyrir Reykjavík. En árið 1946 kemur Reykjavíkurhöfn undir hin almennu hafnarlög og segir þar í 2. gr.: „Ríkissjóður greiðir 2/5 af kostnaði við hafnargerð eftirtalinna staða, sbr. þó 1. mgr., 1. gr., og er ríkisstj. jafnframt heimilt að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs lán til greiðslu á 3/5 af kostnaði við hafnargerðina, miðað við þá áætlun, sem ráðuneytið samþykkir.“ Síðan eru taldar þessar hafnir, og meðal þeirra er Reykjavík. (GJ: Vill ekki þm. lesa áfram.) Ég skal lesa öll l., ef hv. þm. vill. Þetta er byggt á því, að hafnarsjóður hefur ekki getað staðið undir útgjöldunum. Hafnarstjórnin í Reykjavík taldi, að til þess þyrfti að hækka hafnargjöldin og samþ. breyt. á þeim, en hún hefur ekki verið staðfest. Reykjavíkurhöfn hefur til skamms tíma getað fengið lán til framkvæmdanna, en nú eru þær leiðir lokaðar, svo að það er viðbúið, að framkvæmdir strandi, ef hún nýtur ekki sömu hlunninda og aðrar hafnir. Það er vert að minnast þess, að höfnin í Reykjavík er ekki bara höfn fyrir Reykjavík, heldur fyrir allt landið um leið. Togarar frá öllu landinu leita þangað, og hinar miklu framkvæmdir í austurhluta hafnarinnar eru ekki bara ætlaðar fyrir Reykjavík, heldur líka fyrir togara utan af landi. Ég skal taka það fram, að í þessu felst ekki ádeila á hv. fjvn., því að hafnarstj. í Reykjavík hefur ekki viljað senda beiðni til fjvn. og n. því ekki synjað. En ég vildi koma þessu máli inn í þingið, svo að hv. þm. gætu gert það upp við sig, hvort Reykjavík ætti að búa við skarðan hlut í þessum efnum. Ef svo er, þá var ástæðulaust að setja Reykjavík í almenn hafnarlög.

Þá var það brtt. við 14. gr. varðandi skólabyggingafé. Það mál varðar hæstv. menntmrh., og hefði því verið æskilegt, að hann hefði verið viðstaddur, en þó svo sé ekki, mun ég ræða það nokkuð. Till. er á þá leið, að því fé, sem veitt er til skólabygginga, skuli varið til þeirra skóla, sem nú eru í smíðum, og að því sé skipt milli þeirra í hlutfalli við íbúatölu hvers fræðsluhéraðs. Með þessu er ætlunin, að megináherzlan verði lögð á það að ljúka þeim skólum, sem nú eru í smíðum, þó að aðkallandi sé að byrja á nýjum. Þá er það skipting skólafjárins. Það hefur verið svo, að fjvn. hefur ekki skipt þessu fé, heldur menntmrh. Nú er mér kunnugt, að komið hefur til mála innan fjvn., hvort n. sjálf eða Alþ. ættu ekki að skipta þessu fé eins og vegafé, brúafé, hafnafé, lendingarbótafé, símafé o.s.frv. Hér er um töluverðar fúlgur að ræða og allmikið vald falið ráðh. Það er mikið vandaverk að skipta þessu fé milli héraðanna. Þarfirnar eru miklar, og 1948 var framlagið lægra en 1947. En ekki verður hjá því komizt að sætta sig við það, þar sem ríkið hefur ekki bolmagn til þess að veita meira fé. Hins vegar verður ekki við það unað, að þessu fé sé ranglátlega skipt. Þó að þörfin sé viða mikil, ætla ég, að fullyrða megi, að hún sé sízt minni í Reykjavík en annars staðar vegna fólksaukningarinnar og aðstreymisins til bæjarins. En Reykjavík hefur verið afskipt síðustu árin og sérstaklega á síðasta ári. Árið 1947 var veitt til barnaskólanna 4.5 millj. kr., og af því féllu 900 þús. í hlut Reykjavíkur, eða 20%. Í Reykjavík býr þó 1/3 landsmanna, og meiri ástæða er til þess að koma þar upp skólum, þar sem bærinn er í örum vexti, en annars staðar, þar sem fólkinu fækkar, nema skólarnir séu þá byggðir í þeirri von, að fólkinu fjölgi við að sjá þá. — Þá voru á árinu 1947 veittar 4.250.000 kr. til gagnfræða- og héraðsskóla, þar af fékk Reykjavík 700 þús., eða 16–17%. En þó að þetta hafi litið þannig út 1947, keyrði um þverbak á síðasta ári. Þá voru veittar 2.275.000 kr. til barnaskóla, af því fékk Reykjavík 130 þús. kr., eða 5–6%. Til gagnfræða- og héraðsskóla voru veittar 1.3 millj. kr., af því fékk Reykjavík ekki einn eyri, þó að hér sé í smíðum stærsti gagnfræðaskóli landsins. Um áramótin 1947–48 höfðu bæði ríki og bær greitt framlög sín, en á síðasta ári þurfti bærinn að greiða 750 þús. kr. fyrir ríkið. Á þessu ári er vonað að skólinn geti tekið til starfa, en sú von er lítil, ef ríkið leggur ekkert fram. Af þessum ástæðum hef ég lagt fram brtt. á þskj. 497 um heildarlínur, er skipting skólabyggingafjárins fari eftir. Að sjálfsögðu er ég til umræðu um aðrar leiðir, t.d. ef fjvn. vildi gera till. í málinu. Líka gæti komið til mála, að ráðh. gerði grein fyrir því, hvernig hann ætlaði sér að skipta fénu. Við hitt verður ekki unað, að honum sé fengið þetta fé í hendur, án þess að nokkuð sé um það vitað, hvernig því verður skipt.

Loks er það brtt. um, að ríkisstj. verði heimilað að ábyrgjast fyrir h.f. Skipanaust vegna dráttarbrauta og skipasmíðastöðvar 3 millj. kr. Á síðasta þingi var lögð fram þáltill. varðandi þetta mál, en náði ekki fram að ganga. Síðan hefur málið verið á döfinni. Fyrirtækið var stofnað 1944 til þess að byggja dráttarbrautir og bæta aðstöðuna til skipasmíða. Nýbyggingarráð tók félaginu vel og veitti því þá fyrirgreiðslu, sem það gat, en þegar til kom hafði stofnlánadeildin ekki bolmagn til að veita félaginu aðstoð,og þess vegna hefur málið dregizt úr hófi. Síðan á síðasta þingi hafa verið gerðar mjög ýtarlegar rannsóknir og málið lengi legið hjá stj. til athugunar en ekki fengið afgreiðslu. Ég hef því talið nauðsyn að koma fram með þessa till. í von um, að hún mætti verða til þess, að hafizt yrði handa um framkvæmdir sem fyrst. Ef hægt er að byrja á verkinu á þessu sumri, er gert ráð fyrir því, að því verði lokið 5–6 mánuðum eftir að efni er komið.

Fleiri eru ekki þær till., sem ég þarf að reifa.