04.04.1949
Sameinað þing: 62. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (1413)

42. mál, fjárlög 1949

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég er hér ásamt hv. þm. N-Ísf. flutningsmaður að nokkrum brtt. á þskj. 488. Hv. þm. N-Ísf. hefur þegar mælt fyrir þessum brtt. og skal ég því vera stuttorður.

Undir V. lið á þessu þskj. er brtt. frá okkur um tillag til tveggja brúa, það er á Selá í Nauteyrarhreppi og Múlaá í Ísafirði. Einu sinni áður, eða 1947, hefur Alþingi veitt fé til þessara framkvæmda við Selá, og nam það 50–60 þús. kr. Vegamálastjóri áætlar, að þetta muni kosta um 300–400 þús. kr., og er því ekki hægt að ætlast til, að það fé verði veitt í einu lagi, en hins vegar harma ég það, að ekki er veitt fé til þessara brúargerða frá ári til árs. Nú er kominn vegur út Langaströnd og kemur væntanlega í sumar út að Selá, og þá hefði brúin á Selá raunverulega þurft að vera tilbúin, þótt úr því geti því miður ekki orðið. Þótt fjvn. vildi nú verða við þeirri ósk okkar að leggja fram 100 þús. kr., þá er það ekki nema helmingur alls þess fjár, sem áætlað er, að þurfi, og eru þá þar taldar með þær 50–60 þús. kr., sem Alþingi hefur áður veitt. — Á veginum frá Arngerðareyri til Ögurs eru margar ár. Við höfum þó aðeins farið fram á 50 þús. kr. til brúargerðar á Múlaá í Ísafirði. Þegar þessi brú, sem mun kosta um 60 þús. kr., er komin, þá er kominn þarna slarkfær vegur, og vona ég því, að fjvn. sjái sér það fært að verða við þessari bón, en þó vil ég geta þess, að ég legg meira kapp á fjárveitinguna til Selárbrúarinnar, því að sú brú er blátt áfram höfuðnauðsyn.

Þá er hér till. um hækkun til Hnífsdalsbryggju. Hv. fjvn. leggur til, að veittar verði 40 þús. kr. í þessu skyni á fjárl. þessa árs. Í fyrra voru veittar 50 þús. kr., þannig að ef nú fengjust 100 þús. kr., eins og við hv. þm. N-Ísf. förum fram á, þá væri fenginn helmingur þess fjár, sem áætlað er, að bryggjan muni kosta, því að áætlað er, að hún muni kosta um 300 þús. kr. Ætlunin er að hefja framkvæmdir á næsta sumri, en ef ekki fæst nema 40 þús. kr. styrkur frá ríkissjóði, verður að fresta þeim eða reyna að fá lán, sem vissulega er vonlítið.

Þá er hér 3. till. okkar, og fjallar hún um það að greiða Pétri Jónatanssyni bónda í Engidal skaðabætur vegna langvarandi sóttkvíar. Alþingi veitti nágranna hans skaðabætur af þessum orsökum, en þá var mér ekki kunnugt, að þessi maður hefði orðið fyrir sams konar tjóni. Hér er um bláfátækan, barnmargan mann að ræða, sem er verr staddur en nágranni hans, sem bæturnar fékk, og vona ég því, að Alþingi sjái sér fært að veita honum þennan smástyrk. — Þá er hér b-liður sömu till., sem fjallar um það að verja allt að 50 þús. kr. til bjargráðaráðstafana í Grunnavíkur- og Sléttuhreppum. Hv. Alþingi veitti nokkurt fé í þessu skyni í fyrra, og kom það að góðu gagni og var til mikilla bóta. Samkvæmt samþykkt Alþingis var skipuð nefnd til þess að athuga, hvað helzt væri hægt að gera fyrir þetta fólk, sem þarna býr. Nefndin gerði síðan till. og sendi þær til félmrn., og vil ég nú með leyfi hæstv. forseta lesa örstuttan kafla úr nál. Þar segir svo meðal annars:

„Norðan Skorarheiðar eru 3 jarðir byggðar: Furufjörður, þar sem 4 fjölskyldur búa. Önnur jörðin er Bolungavík, en þar búa 2 fjölskyldur. Á 3. jörðinni, Reykjarfirði, býr ein stór fjölskylda, og er þar margt af ungu fólki til heimilis (sonurinn er nú að byggja). Allar eru þessar jarðir landkosta- og hlunnindajarðir, og hafa búendur bjargast þar vel. Hins vegar eru samgöngur og aðflutningar hinir örðugustu, og má undur þykja, að þeir erfiðleikar skuli ekki hafa þegar flæmt búendur þarna á burt. Eðlilegasta leið til samgangna og aðflutninga fyrir þessa búendur hreppsins er yfir Skorarheiði í Hrafnsfjarðarbotni og þaðan með bát til útsveitarinnar og Ísafjarðar. Til þess að gera þessa leið auðvelda þarf að koma bílvegur yfir Skorarheiði og bryggja í innanverðum Hrafnsfirði. Þar er aðdýpi mikið, og mundi ódýrt að koma þarna upp bryggju, sem skip þau, er í framtíðinni yrðu höfð til flutninga og póstferða um Djúp og Jökulfirði, gætu lagzt að. Yrði unnt að koma þessum umbótum á í aðflutnings- og samgöngumálum búenda norðan Skorarheiðar, mega teljast miklar líkur til, að byggð héldist þar í framtíðinni.“

Sem sagt, það er akvegurinn, sem aðallega liggur á, að verði lagður þarna, og til að bæta úr brýnustu nauðsyninni mundu 50 þús. kr. verða hartnær nóg. Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þessa till., en ég vil aðeins minna Alþingi á, að á þessum 3 jörðum búa hvorki meira né minna en 7 fjölskyldur, sem er allt saman dugnaðarfólk og á sannarlega skilið, að því sé veitt aðstoð til að bæta þannig lífsskilyrði sín.

Þá er og í 3. lið sömu till. farið fram á, að veittar séu 30 þús. kr. til kaupa á snjóbíl til að gera mögulegar samgöngur að Djúpinu yfir vetrarmánuðina, og vona ég, að allir skilji þá nauðsyn.

Þá flyt ég hér till. ásamt hv. 2. landsk. þess efnis, að Kvenréttindafélagi Íslands verði veittar 15 þús. kr. til að senda fulltrúa á þing kvenna, sem halda á í Amsterdam á sumri komandi. Kvenréttindafélagið fékk styrk vegna landsmóts, er halda átti, en nú verður ekkert úr því móti, og langar því félagskonur til þess að senda fulltrúa á þetta alþjóðaþing í Amsterdam. Það eru nú svo margar ráðstefnurnar, sem karlmenn sækja, að mér finnst, að sparnaðurinn sé farinn að ganga of langt, ef ekki er hægt að veita kvenfólkinu styrk til þess að sækja þessa einu ráðstefnu.

Þá flyt ég hér 2 brtt. á þskj. 494. Önnur þeirra, sú, sem er undir X, er á þá leið, að veittar verði 10 þús. kr. til gagnfræðaskólans á Ísafirði til þess að halda þar uppi kennslu samsvarandi kennslu í 1. bekk menntaskólanna. Í gagnfræðaskólanum á Ísafirði eru nú á 3. hundrað nemendur og 90 nemendur í 3. bekk og 22 nemendur í bóknámsdeild, sem ætla að ganga undir miðskólapróf. Ef þeir standast það, þá er hér um að ræða heilan bekk, sem vildi halda áfram námi, og er farið fram á 40 þús. kr. vegna þeirrar kennslu. En búast má við, að kostnaðurinn yrði meiri. Þó mundu Ísfirðingar sjá um þá fjárhæð. Til vara er farið fram á, að Alþ. veiti 30 þús. kr., ef hitt er talið of mikið, og þá tækju Ísfirðingar á sig 10 þús. kr. í viðbót. Ég vil vænta þess, að þetta þyki eigi of freklegt. Hitt yrði fremur blóðtaka, ef senda ætti 20 nemendur brott úr bæjarfélaginu, ef þar yrði þá á annað borð kostur húsrúms og annars.

Þá er það XIII. liður, og er hann varðandi byggingarsjóðina. Hv. fjvn. hefur ætlað kr. 1.200.000 til byggingarsjóðs kaupstaða og kauptúna, en það er lægri upphæð en í l. er greint. Hæstv. fjmrh. lætur svo um mælt í fjárlagafrv.: „Samkv. 3. gr. laga nr. 44/1946 skal ríkissjóður árlega leggja fram til byggingarsjóðs kaupstaða og kauptúna kr. 1.500.000.00. “ M.ö.o., hér er farið niður fyrir lögbundna upphæð, og það er óverjandi. Verður að halda við lögbundna upphæð, og væri þó þörf hennar hærri, því að þörfin er brýn. Það er nú upplýst, að á 3. millj. kr. hefur verið varið til bústaðabygginga fyrir sýslumenn og bæjarfógeta, og er ekki úr vegi að verja helmingi þeirrar fjárhæðar til að bæta lakasta húsnæðið.