04.04.1949
Sameinað þing: 62. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1063 í B-deild Alþingistíðinda. (1417)

42. mál, fjárlög 1949

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég vil út af till. fjvn. minnast nokkrum orðum á brtt. n. í sambandi við flugmál. Ég tel, að margar till. fjvn. til lækkunar á ýmsum rekstrarútgjöldum séu mjög eðlilegur sparnaður. Það segir sig sjálft, að það verður að setja einhverjar hömlur við því, að öll ríkisapparöt geti þanizt út endalaust. Það verður að segja það við ríkisstofnanir, að þær verði að geta gert sér einhverja fjárhæð að góðu og miða sína starfsemi við það, en margar ríkisstofnanir hafa gengið allt of langt í því að þenja út skrifstofubáknið, fjölga fólki, því að margir forstjórar ríkisstofnana vilja fjölga fólki, til að starfið sé eins glæsilega af hendi leyst og þeir vilja vera láta. Þess vegna þenjast skrifstofubáknin út. Sérstaklega er ákaflega mikið um skýrslugerð, sem útheimtir mikinn vinnukraft, en ég held, að mætti missa sig að einhverju leyti. En það eru nokkur atriði í sambandi við flugmálin, sem ég vil minnast á, þar sem ég tel till. fjvn. vafasamar. Það er fyrst lækkunartill. í sambandi við slökkviliðið á Reykjavíkurflugvelli. Ég held, að það sé búið að lækka þennan lið svo mikið, að það sé ekki hægt að færa hann lengra niður, og jafnvel komið of langt. Það er dýrt að hafa slökkvilið, því að það er ekki tiltækt til annarra starfa, en það þykir ómissandi á hverjum flugvelli nú á tímum, og það hefur tekizt svo giftusamlega á vellinum, síðan Íslendingar tóku við honum, að það hefur aldrei kviknað í flugvél. En það er engu að síður nauðsynlegt að hafa vel út búið slökkvilið á hverjum flugvelli, því að ef íkveikja verður, þá er gífurleg hætta á ferðinni, ef kannske eru 20–30 farþegar í flugvél. Ef þá er ekki valið slökkvilið reiðubúið, þá er líf og heilsa allra farþega í bráðri hættu, af því að þetta ber svo skyndilega að. Ég held því, að það sé dálítið hættulegt að ganga langt í að rýra slökkviliðið. Ég held, að kostnaðurinn hafi verið kominn niður í það minnsta, sem hægt var að komast af með. Ég dreg í efa, að það sé hægt að spara á þessum lið.

N. hefur gert fleiri lækkunartill. í sambandi við flugmálin. Hún leggur til að fækka um einn skrifstofumann á Keflavíkurflugvelli. Mér skilst, að Íslendingar hafi þar starfandi á launum þrjá menn. N. virðist gera þar ráð fyrir, að megi lækka um laun eins manns. Ég hygg, sérstaklega þegar litið er á útgjöld vegna vallarins í Keflavík annars vegar, sem eru samkvæmt þessu frv. 104 þús., og hins vegar tekjurnar, 1.2 millj. kr., sem er varlega áætlað og mætti sennilega hækka, þá sé hér gengið dálítið langt, því að það lítur út fyrir, að þetta sé greiðsla til okkar Íslendinga fyrir að skipta okkur ekki af vellinum.

Þá er gert ráð fyrir að fækka um einn mann hjá flugmálastj. og einn hjá flugvallarstj. Ég býst við, að hv. fjvn. hafi einhverjar heimildir fyrir þessu og hafi rætt það við flugráð. En ég er hræddur um, að þarna sé svo fáliðað, að hæpið sé, að hægt sé að fækka þar nokkuð. Eins má segja um birgðavörzluna. Ég held, að þarna sé aðeins einn maður, og þá er hæpin ráðstöfun, ef svo stórt fyrirtæki á enga birgðavörzlu að hafa. Ég held, að það sé enginn sparnaður að því, vegna þess að það verður að vera fyrir hendi allmikið af alls konar varningi, sem er verulega verðmætur, og ef enginn er ábyrgur fyrir því, þá getur ýmislegt farið þar forgörðum. Mér fyndist réttara að athuga, hvort ekki mætti ætla birgðaverðinum eitthvert annað starf með.

Þá er lagt til að lækka liðinn, sem heitir annar kostnaður. Þetta er áætlunarupphæð, og þó að slíkir liðir séu lækkaðir, þá vilja þeir samt komast upp í sína upphæð. Þó getur verið, að þessi niðurskurður sé til ábendingar þessum mönnum að gæta meiri sparnaðar, og getur verið, að það hafi sitt að segja.

En það er einn liður í útgjöldunum til flugmála, sem ég held, að mætti lækka. Það er kostnaður landssímans vegna flugþjónustunnar, 2.648 þús. alþjóðatillag 2.184.600 kr. Útgjöldin eru því 463.400 kr. Mér skilst, að þetta sé 20% álag, sem síminn leggur á, sem full ástæða væri til að lækka. Þetta eru ekki útgjöld til flugmála og þá óeðlilegt og ekki rétt, að landssíminn fái þetta álag, þar sem hér er um opinbera þjónustu að ræða. Sennilega mætti einnig hækka eitthvað tekjurnar, sérstaklega af Keflavíkurflugvellinum.

Ég flyt á þskj. 488 nokkrar brtt. við fjárlfrv. varðandi kjördæmi mitt, í fyrsta lagi að veita 300 þús. kr. til byggingar sjúkrahúss á Siglufirði og til vara 200 þús. Ég hef nýlega í sambandi við annað mál, frv. til l. um sjúkrahús, gert ýtarlega grein fyrir nauðsyn sjúkrahúss á Siglufirði, hvað það sé mikið nauðsynjamál og eitt allra þýðingarmesta mál Siglufjarðarkaupstaðar og ekki einu sinni Siglfirðinga, heldur einnig mikils fjölda karla og kvenna, sem til Siglufjarðar sækir, bæði landmenn og sjómenn um síldveiðitímann. Þetta gerir það að verkum, að sjúkrahús á Siglufirði þarf að vera stærra en það, sem eingöngu væri miðað við bæ, sem hefur ekki nema 3000 íbúa. Þess vegna hef ég leyft mér að flytja þessa brtt. og vænti, að hún mæti skilningi hv. þm.

Þá er till. í sambandi við vegamál. Það er till. um það, að framlag til Siglufjarðarskarðsvegar sé hækkað úr 20 þús. kr. í 100 þús. Eins og allir vita, sem hafa farið um þennan veg s.l. sumar, þá er langt frá, að vegagerðinni sé lokið. Á einum eða tveimur stöðum þarf allmikið að laga veginn, ef hann á ekki bókstaflega að vera lífshættulegur, sérstaklega rétt fyrir ofan Hraun, fyrir ofan svonefnda Heljartröð. Þar er rétt horn í snarbrattri brekku utan í snarbrattri hlíð. Ef eitthvað bílar þar, þá er lífsháski. Þar er hægt að laga veginn, og kostar það ekki sérstaklega mikið með þeim stórvirku tækjum, jarðýtum, sem nú er farið að nota. Enn fremur er nauðsynlegt að ljúka við veginn upp í skarðinu, því að enn þá er hann erfiður bifreiðum, svo stórgrýttur sem hann er, og er erfitt að komast þar leiðar sinnar nema skemma bifreiðarnar, og er lítill sparnaður að því.

Í frv. er gert ráð fyrir 100 þús. kr. framlagi til Siglufjarðarhafnar, og er það nokkru lægra en vitamálastjóri gerði ráð fyrir. Mér skilst, að hann hafi gert ráð fyrir 180 þús. kr., en fjvn. lækkaði þá upphæð mikið. Bærinn hefur verið í miklum hafnarframkvæmdum og er kominn langt á leið með einn þáttinn og vill leggja höfuðáherzlu á, að þessar hafnarframkvæmdir komist það langt, að hægt sé að hagnýta það, sem búið er að festa fé í. Þess vegna er bænum nauðsynlegt að fá meira framlag en það, sem fjvn. leggur til, enda var það svo, að þegar hætt var við þær framkvæmdir, sem gerðar voru í sumar, þá voru þær svo hálfkaraðar, að mikil hætta var á ferðum, að allmikill hluti af þessu verki skemmdist. Það var svo mikil hætta á tíma, að bæjarstjórnin réðst í það, þó að hafnarsjóður hefði enga peninga tiltæka, að setja menn í að hlaða grjóti þar, sem mest var hætta á, að græfist frá því, sem gert hafði verið, til að fyrirbyggja skaða. Telja menn, að tekizt hafi að forða þarna frá tjóni. Þess vegna flyt ég þessa hækkunartill. Þessi mannvirki eru á svokölluðum Leirum, þar sem gert er ráð fyrir að byggja breiðan garð frá vestara landinu austur í fjörðinn sem næst svipaðan veg út í fjörðinn og eyrin er breið. Við þann garð á að byggja bryggju og koma upp söltunarplássi. Eitt af því, sem mest aðkallandi er nú, er uppmokstur, það þarf að dæla inn fyrir garðinn, svo að þar geti orðið fylling. Þetta er mikið nauðsynjamál fyrir Siglufjörð. Þess vegna vona ég, að þessari till. verði tekið með velvild af hv. þm.