10.05.1949
Sameinað þing: 71. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (1469)

42. mál, fjárlög 1949

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Eins og nál. á þskj. 461 ber með sér, þá var rekstrarhalli á fjárl. 222.707 kr., miðað við, að allar till. frá fjvn. hefðu verið samþ. og allar aðrar till. verið felldar. Greiðsluhalli var samkvæmt sjóðsyfirliti 28.058.295 kr. N. gerði þó ráð fyrir, að þessar niðurstöður mundu breytast nokkuð við 2. umr., einkum á þessum liðum: Hækkun til flóabátanna samkv. till. frá samgmn. um 578 þús. kr. og ýmsar aðrar hækkanir um 111 þús. kr., eða alls um 689 þús. kr. Hafði n. ekki ástæðu til að ætla, að aðrar verulegar breyt. yrðu gerðar á frv. En aftur komu fram við umr. töluverðar brtt. frá einstökum þm., eins og venja er til, og gerðir n. voru einnig nokkuð gagnrýndar í umr. á ýmsan hátt, en ekkert kom fram í þessum umr., sem gæfi tilefni til að ætla, að stórkostlegar breyt. yrðu gerðar á frv. við 2. umr. N. bjóst við, að frv. kæmi nokkurn veginn út á þann hátt, sem ég hef þegar greint. N. hafði lagt til, að ýmsir útgjaldaliðir yrðu færðir niður um nálega 6 millj. kr., og þótt ekki fengizt um þetta beint samkomulag við ríkisstj., þá var henni vel kunnugt um þetta, og það kom ekkert það fram í umr., sem gæfi tilefni til að halda, að ríkisstj. sætti sig ekki við þá ráðstöfun í meginatriðum, þótt vitað væri, að henni var sárt um einstaka smærri liði, sem litlu máli skiptu fyrir afgreiðslu fjárl. Þess skal þó getíð, að hæstv. fjmrh. varaði mjög við hækkun útgjalda til vega, hafna, brúa, síma og annarra verklegra framkvæmda, meðan hæstv. samgmrh. og hæstv. menntmrh. töldu, að þessi framlög mætti ekki skerða frá því, sem n. gerði till. um. Eins og kunnugt er, leið nokkur tími frá því umr. lauk og þar til atkvgr. fór fram, og einmitt á þessu tímabili kemur fyrst í ljós, að ríkisstj. getur ekki unað við till. n. og gerir kröfur til þess, að allt að því helmingur þeirra verði tekinn aftur til 3. umr. Ég gat ekki sem form. n. fallizt á slíka starfshætti, og var þetta síðar notað sem gagnrýni á störf n. og ríkisstj., bæði hér á Alþ. og í blöðum, m.a. af sumum stjórnarblöðunum, sem styðja ríkisstj. Ég hygg þó, að allir aðilar viðurkenni nú, að afstaða n. í þessu máli hafi verið rétt og meiri vandræði hefðu af hlotizt, ef sú óvenjulega leið hefði verið farin að geyma afgreiðsluna þangað til við 3. umr. Þessi ágreiningur kann að hafa valdið nokkru um það, að óvenjulega margar till. voru felldar fyrir n., en þó hygg ég, að hitt hafi ráðið meiru, að þrátt fyrir allt hafi þm. ekki enn þá verið búnir að átta sig á því, að nauðsynlegt væri að draga verulega úr útgjöldum ríkisins á öllum sviðum, og jafnvel ríkisstj. var þar engin undantekning, nema vera skyldi hæstv. fjmrh., sem ávalt varaði við því að hækka verulega útgjaldahliðina. Enda fór það svo, að felldar voru sparnaðartill. n. að upphæð 1.550.000 kr., og átti ríkisstj. jafnvel meginþáttinn í þeirri afgreiðslu. Hins vegar voru samþ. till. frá n. um 41/2 millj. kr. til sparnaðar á útgjöldum ríkisins. Þegar hér var komið, var rekstrarhalli á frv. 2.462.040 kr. og greiðsluhallinn 30.547.628 kr., en auk þess var heimilað á 22. gr. að verja allt að 6 millj. kr. til ýmissa útgjalda, þar af var lántaka heimiluð 1 millj. kr. Þannig leit þá fjárlfrv. út eftir 2. umr., en einn mánuður er liðinn síðan sú umr. fór fram hér á Alþ. og síðan Alþ. gekk þannig frá frv. gegn till. fjvn. í einstökum atriðum, eins og ég hef þegar bent á. Síðan hafa farið fram ýmsar umr. við ríkisstj. með þeim árangri, að hún óskaði eftir því, að fjvn. flytti margar brtt. við frv. nú við þessa umr., sumar þó til verulegrar hækkunar á útgjöldum. Hefur n. orðið við þessari beiðni ríkisstj., þótt hún hins vegar, og einstakir nm., hafi gert það með fyrirvara í einstaka tilfellum. Brtt. 663 eru allar fluttar af n. sameiginlega, þótt ágreiningur sé um einstaka liði, og er því fyrir þeim meiri hl. í n. Brtt. 686 eru frá meiri hl. n., en stjórnarandstaðan er þar á móti. Skal ég þá gera nokkra grein fyrir einstökum till. á þskj. 663 og 686.

Fyrsta brtt. á þskj. 663 er við 11. gr. A. 9., til landhelgisgæzlu, hækkun um 500 þús. kr. Eins og áður er sagt, kom fram ósk frá ríkisstj. um að bera þessa brtt. fram. Telur ríkisstj., að þessi liður þurfi að hækka sérstaklega vegna ágengni frá útlendingum á yfirstandandi ári.

Till. nr. 2 er brtt. frá n. um, að kostnaður við húsaleigueftirlit lækki um 30 þús. kr. Þessi till. er ekki flutt samkvæmt ósk ríkisstj., og ég geri m.a. ráð fyrir, að hæstv. fjmrh. lýsi yfir, að hann sé andvígur till. Fjvn. bar fram till. við þessa gr. við 2. umr. og óskaði þá eftir, að þessi upphæð væri lækkuð um 130 þús., en sú till. var felld. Nú hefur n. tekið till. aftur upp, eins og sést á þskj., og lagt til, að þetta lækki um 30 þús. kr., þ.e.a.s. kostnaður við húsaleigunefndir, eins og það er talið í frv. sjálfu, á bls. 18, að í stað 65 þús. kr. komi 35 þús. kr. Væntir fjvn. þess, að þessi till. verði samþ., og skal ég þá upplýsa, að þrátt fyrir þessa lækkun er samt sem áður um 50 þús. kr. hærra framlag til þessarar stofnunar en var í fjárl. 1948.

Þá leggur n. sameiginlega til í 3. till. við 12. gr., heilsuverndarstöðvar, að fyrir 100 þús. kr. komi 150 þús. kr. N. fékk mjög nákvæmar upplýsingar frá Sigurði Sigurðssyni berklayfirlækni, þar sem hann taldi, að ef þessi hækkun fengizt ekki á framlaginu til heilsuverndarstöðva, þá stöðvaðist allverulega það merkilega starf, sem hefði verið hafið í baráttunni gegn hinum hvíta dauða, og n. var sammála um, að ekki væri rétt að draga úr þeirri baráttu, og leggur því til, að þessi till. verði samþ. Þessi till. er ekki heldur komin fram frá ríkisstj., og veit n. því ekki, hvernig hún tekur þeirri till.; en þó hefur þetta verið rætt við hæstv. fjmrh.

Fjórða brtt. er samkvæmt ósk frá ríkisstj., þ.e., að viðhald vega verði hækkað úr 9 millj. upp í 11 millj. Ég þarf ekki að fara mikið út í þetta atriði, hæstv. samgmrh. skýrði það við 2. umr., og ríkisstj. hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að ekki sé unnt að fullnægja þörfinni í vegaviðhaldinu, nema því aðeins að þessi liður sé hækkaður um 2 millj. kr. í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að geta þess, að önnur till. kom frá ríkisstj., þar sem farið var fram á að hækka framlag í 13. gr. til Krýsuvíkurvegar um 200 þús. kr. og jafnframt að lækka framlag til Öxnadalsheiðarvegar, nr. 68. í 13 gr., um 100 þús. kr. Fjvn. gat ekki orðið við ósk ríkisstj. Þegar skipt var vegafénu, þá var það margrætt, hve mikið skyldi lagt: Öxnadalsheiðarveg, og mikill meiri hl. nm. var þeirrar skoðunar, að lágmark, sem hægt væri að áætla þeim vegi í ár, væri 400 þús. kr., enda var það till. vegamálastjóra, jafnvel þótt ekki væri lagt til veganna meira en 3 millj. kr. N. var einnig ljóst. að hæstv. samgmrh. óskaði mjög eftir því, að þessi upphæð væri ekki lækkuð, þótt hins vegar ríkisstj. hafi ekki komið sér saman um að gera um það till., en n. gat ekki fallizt á, að upphæðin yrði skorin niður úr því, sem er í fjárlfrv. nú. Hún gat heldur ekki fallizt á að taka upp til Krýsuvíkurvegar 200 þús. kr. á 13. gr., en leggur til, að það verði tekið upp í 22. gr. sem heimild, og skal ég ræða þetta nánar þegar þar að kemur.

Þá er 5. brtt., sem er einnig komin frá ríkisstj., um að hækka framlag til Þjórsárbrúar úr 1.500.000 kr. upp í 1.900.000 kr. Er þessi ósk ríkisstj. byggð á því, að óhjákvæmilegt muni vera að verja þessari upphæð á árinu til þess að greiða það efni til brúarinnar, sem þegar er pantað og væntanlegt er, að komi sumpart á þessu ári, og til þess að bera þann kostnað, sem nauðsynlega verður að vera í sambandi við byggingu brúarinnar á þessu ári. Jafnframt lagði ríkisstj. til, að upphæðin 900 þús. kr., sem er á 22. gr. frv., verði felld niður, og taldi sig ekki mundu þurfa að nota þá heimild, ef þessi till. verður samþ. Fjvn. hefur fallizt á þessa till. og ber þetta því fram hér á þskj. 663.

Brtt. er við 13. gr. D., flugmál. Þar er öllum liðunum stillt upp að nýju, en útkoman verður sú, að hér er sparnaður rúmlega 395 þús. kr., og er það sama till. og sama upphæð og felld var fyrir fjvn. við 2. umr. Að vísu er tekinn hér með 100 þús. kr. meiri kostnaður en var í till. n., en það eru einnig teknar inn 100 þús. kr. meiri tekjur, tekjurnar eru hækkaðar um 100 þús. kr. frá því, sem n. áætlaði, en útkoman verður sú sama fyrir ríkissjóð eins og lagt var til í þeirri till., sem felld var við 2. umr. og ég hef áður lýst. Hafa þá fengizt þar aftur tæpar 400 þús. kr. af þeirri rúmlega 11/2 millj. kr., sem felld var fyrir n. við 2. umr. Fjvn. leggur að sjálfsögðu til, að þessi till. verði samþ. eins og hún liggur fyrir, og hefur hún komið þannig útbúin frá flugráði, sem einnig hefur fallizt á þessa till.

7. brtt. er komin sem ósk frá ríkisstj. að taka inn við 14. gr. B.XIII nýjan lið, til kennaranámskeiða, 10 þús. kr. Framlag til þessarar starfsemi var tekið út af frv. samkvæmt ósk fjvn. og var þá miklu hærra en nú. Hefur hæstv. menntmrh. óskað eftir, að mun lægri upphæð yrði tekin inn, ríkisstj. fallizt á það og fjvn. orðið við þeirri beiðni.

8. brtt. er við almenna veðurþjónustu. Er þar lagt til, að liðirnir i, j og k verði gerðir að einum lið og lækkaðir niður í 79.529 kr. Er þetta 55 þús. kr. lækkun, þar sem um er að ræða 30 þús. kr. lækkun á framlagi til jarðskjálftamælinga og 25 þús. kr. lækkun á stofnkostnaði verkstæðis. Þessar till. voru báðar felldar fyrir fjvn. við 2. umr. og því ekki hægt að taka þær þannig upp aftur, heldur varð að breyta liðunum á þennan hátt, og var það gert í samráði við viðkomandi ráðh. og forstjóra viðkomandi stofnunar, svo að um það ætti ekki að verða ágreiningur. Hafa þá komið aftur 55 þús. kr. af því, sem fellt var við 2. umr. fyrir fjvn.

9. brtt. er við 16. gr. A. 15 og er tekin upp eftir ósk hæstv. ríkisstj., um framlag til mjólkur- og smjörsamlaga 250 þús. kr. Þetta er samkv. lögum og hefur sennilega fallið niður af vangá, þegar frv. var samið í fyrstu. Samþykkti n. að sjálfsögðu að taka þennan lið inn og væntir þess, að hann verði samþ.

10. brtt. er við 16. gr. B. Nýr liður: Til haf- og fiskirannsókna 150 þús. kr. Til n. barst erindi frá fiskideildinni, þar sem mjög er lagt að n. að taka 300–350 þús. kr. til þessarar starfrækslu. Var rætt um þetta við ríkisstj. og gerð fyrirspurn um það, hvort fiskimálasjóður gæti ekki staðið undir þessum útgjöldum að einhverju leyti. Varð niðurstaðan sú, að ríkisstj. óskaði eftir, að 150 þús. yrðu teknar upp í þessu skyni, og hefur fjvn. fallizt á það.

11. brtt. er aðeins leiðrétting á orðalagi, þannig að fyrir orðið „alþýðutrygginga“ kemur: almannatrygginga. Þótti sjálfsagt að gera þessa leiðréttingu, og hefur hún engin áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Þá er 12. brtt., sem er fram borin fyrir ósk hæstv. ríkisstj., um að greiðsla með börnum erlendra manna hækki úr 500 þús. upp í 750 þús. Er talið, að þessarar upphæðar þurfi með á þessu ári, en þess vænzt, að þessi upphæð fari lækkandi héðan af árlega. N. sá ekki ástæðu til annars en að verða við þessari beiðni.

Þá er 13. brtt., við 18. gr. frv. Sú till. er frá n. sameiginlega. Þar er lagt til, að eftirlaun Brynjólfs Þorlákssonar tónfræðings séu hækkuð úr 1950 kr. upp í 3 þús. kr. Hann var með allra fyrstu söng- og tónlistarkennurum hér á landi og hefur alla ævi starfað að mjög merkilegu máli og þroskað mjög tónlist Íslands á þeim tíma. Hann er nú 82 ára gamall, farinn að heilsu og hefur engan annan styrk en þær 1950 kr., sem hann hefur í eftirlaun á 18. gr. N. vill því leggja til, að þetta verði hækkað upp í 3 þús. kr., og telur það lágmark.

14. brtt. er við 20. gr., um að lækka framlag til flugvallagerða úr 1.550.000 í 1.250.000. Fjvn. bar fram till. um að lækka þessa upphæð um 550.000, en sú till. var felld. En nú hefur ríkisstj. óskað eftir, að till. yrði tekin upp aftur þannig, að hún lækkaði um 300 þús. kr., og hefur n. öll fallizt á það. Hafa þá einnig komið hér 300 þús. kr. vil viðbótar við það, sem fellt var við 2. umr.

1. brtt. á þskj. 686 er frá meiri hl. n. og flutt samkv. ósk frá ríkisstj., að lækka framlag til fávitahælis úr 400 þús. í 100 þús. Er mér skylt að geta þess, að n. var mjög treg að fallast á þessa till. En þegar upplýst var, að fyrir hendi munu vera um 800 þús. kr. frá Oddfellowreglunni og við þetta bætast 100 þús., og þegar enn fremur þess er gætt, að ekki er fyrir hendi fjárfestingarleyfi á þessu ári til þess að geta byrjað á byggingunni, lét n. til leiðast að verða við óskum ríkisstj., í von um, að þetta yrði bætt upp á næsta ári.

2. brtt. á þskj. 686 með undirliðum er einnig borin fram af meiri hl. n. Þar er þá fyrst lagt til í a-lið, að framlag til prestsseturshúsa hækki úr 300 þús. kr. í 700 þús., og í b-lið að inn séu teknir nýir liðir. Fyrst til útihúsa á prestssetrum 200 þús. og til byggingar farþegaskýlis 90 þús. Fjvn. bar fram brtt. við 2. umr. um að fella niður 100 þús. kr. framlag á 20. gr. til þess að byggja bráðabirgðatollskýli. Nú hefur verið tekinn hér upp 90 þús. kr. liður til þess að koma hér upp farþegaskýli vegna tolleftirlits, þannig að eftirlitið geti farið fram á hafnarbakkanum. Telur tollstjóri nauðsynlegt, að þessi breyting komist á, og hefur fjvn. fallizt á að taka upp þessa till. fyrir hæstv. ríkisstj. Till. um 400 þús. kr. framlag til byggingar sýslumannabústaða er tekin upp samkvæmt óskum frá hæstv. ríkisstj.

Þá eru hér nokkrar brtt. á þskj. 663, sem fjvn. flytur við 22. gr., og vil ég fara um þær nokkrum orðum.

Fyrsta brtt. er um að selja strandferðaskipið Súðina og verja söluverðinu sem hlutafé í félag, sem fyrirhugað er að stofna í sambandi við fiskveiðar við Grænland á þessu ári. Í þessu sambandi vil ég benda á, að gefin var heimild á síðustu fjárl. til þess að selja Súðina og nota andvirðið til þess að greiða upp í byggingarkostnað við nýtt varðskip. Nú hefur þessi heimild ekki verið notuð. Salan hefur ekki farið fram, og mér skilst, að lítið útlit sé fyrir, að salan geti farið fram út úr landinu, og að lítil eftirspurn sé eftir skipinu hér heima nema til þessarar starfrækslu. Fjvn. hafði ekki nein gögn í höndum í sambandi við þetta væntanlega hlutafélag. Þó mættu hjá n. tveir menn, sem ætla að verða þar meðlimir, og skýrðu þeir n. frá því, að þeir ætluðu að safna 250 þús. kr. hlutafé til þessarar starfrækslu frá öðrum en ríkissjóði og hugsuðu sér að kaupa Súðina af ríkissjóði fyrir 500 þús. kr., sem þá yrðu lagðar inn sem hlutafé. Fjvn. þykir raunar hér koma of lítið fé á móti og teldi æskilegt, að ekki kæmi minna fé en sem næmi söluverði Súðarinnar, þannig að aðrir aðilar tækju eins mikla áhættu í þessum efnum og ríkissjóður. Hún vildi hins vegar ekki setja fótinn fyrir þetta fyrirtæki og leggur því til, að ríkisstj. sé gefin þessi heimild.

Þá kemur nýr liður, sem gengur út á að heimila ríkisstj. að greiða Gunnari Kristni Guðmundssyni frá Stræti í Breiðdal fullar örorkubætur út af slysi, sem hann varð fyrir af völdum hernaðarsprengju. Fjvn. kynnti sér þetta atriði og getur ekki betur séð en að viðkomandi aðili eigi kröfur á að fá þessar bætur úr ríkissjóði samkv. fyrirmælum laga frá 1943, sem samþ. voru í sambandi við skemmdir af hernaðarvöldum á Íslandi. Þótti því ekki rétt að neita að taka þessa heimild upp á 22. gr., þar sem skyldan er raunverulega fyrir áður en till. er tekin upp og því ekki unnt að komast hjá að greiða þessa upphæð.

Þá kemur næst till. um að flytja tilraunastöðina á Hafursá til Skriðuklausturs, taka allt að 375 þús. kr. lán í sambandi við þessar framkvæmdir og selja jörðina Hafursá, eftir að þeir flutningar hafa farið fram, enda gangi söluverð jarðarinnar upp í lánið. Fjvn. kallaði til sín Pálma Einarsson landnámsstjóra til viðræðna um málið. Búnaðarþing hefur einnig haft það til meðferðar, og er engan veginn eindregið samkomulag um þetta atriði. Þó er það svo, að svo virðist sem meiri hluti þeirra aðila, sem um málið hafa fjallað, sé því sammála, að þetta sé reynt. En engum mun hafa dottið í hug, þegar tekið var á móti þessari gjöf, að byrja þyrfti á því að leggja fram 400 þús. kr. með henni. Þótti n. rétt að verða við þessari beiðni og væntir, að farið verði með málið þannig, að staðið sé við það fyrirheit, að þetta verði lokagreiðsla til þessarar stofnunar, enda tekið mjög skýrt fram í gögnunum, að með þessu sé ætlazt til að minnka rekstrarhalla stofnunarinnar og bæta hag hennar svo, að hún geti verið sjálfri sér nóg í framtíðinni.

Þriðja till. er um að taka allt að 1 millj. kr. lán til þess að byggja varðskip. Er það raunar aðeins formsatriði, þar til hægt sé að greiða upphæðina eins og samningar standa til.

Þá er till. um að heimila ríkisstj. að verja 200 þús. kr. til Krýsuvíkurvegar. Eins og ég gat um áður, vildi fjvn. ekki leggja til, að þetta yrði tekið inn á 13. gr., en vildi hins vegar verða við þeim tilmælum ríkisstj. að taka þetta upp sem heimild á 22. gr. Er það þá að sjálfsögðu á valdi ríkisstj. að greiða féð út, ef þess gerist þörf.

Þá er hér till. um að verja allt að 160 þús. kr. til Miðnesvegar. Er hún fram komin fyrir beiðni hæstv. ríkisstj., og hefur fjvn. fallizt á að taka hana upp. — Enn fremur er hér brtt. um að heimila ríkisstj. að kaupa íbúð handa rektor Menntaskólans í Reykjavík. Þessi heimild var á fjárl. 1948 og er tekin hér upp aftur samkvæmt ósk hæstv. ríkisstj. — 20. brtt. er um það, að heimild til þess að endurbyggja Þjórsárbrú, sem er á frv. nú, falli niður, en það er heimild um 900 þús. kr. framlag, eins og ég gat um áðan, þegar ég ræddi um hækkun á framlagi til Þjórsárbrúar á 13. gr. — 21. brtt. er um að heimila að greiða Jóni Guðmundssyni skrifstofustjóra biðlaun 1949. Hann hefur, eins og kunnugt er, verið skrifstofustjóri í stjórnarráðinu, en er nú veikur úti í Danmörku. Er búizt við, að hann nái fullri heilsu aftur, og hefur fjvn. fallizt á þessa till., þar sem ríkisstj. taldi það nauðsynlegt.

Þá hefur meiri hl. fjvn. tekið hér upp till. um að taka 3.300.000 kr. lán til að greiða tap það, er síldarverksmiðjur ríkisins urðu fyrir við vinnslu Hvalfjarðarsíldar veturinn 194748. Þetta er samkv. ósk frá ríkisstj. Hefur erindi um það legið hjá fjvn. frá því snemma í vetur. N. vildi ekki taka till. upp þá, hvorki beint á rekstrargjöld né á heimildargrein, og hafa verið um það mismunandi skoðanir í n., hvort ekki væri rétt og skylt að láta síldarverksmiðjurnar sjálfar bera þennan halla og taka hann af hrásíldarverðinu á sínum tíma. En meiri hl. n. hefur samt fallizt á að verða við ósk ríkisstj. og taka þetta upp á heimildargrein. — C-liðurinn er till. um að heimila ríkisstj. að taka 1.500.000 kr. lán til þess að byggja stöðvarhús fyrir radiostarfrækslu á Rjúpnahæð. Þetta er í sambandi við flugþjónustuna, og hefur n. orðið sammála um að fallast á að verða við þeirri beiðni ríkisstj. að taka þetta upp. — D-liðurinn er um að taka tveggja milljóna króna lán til kaupa á sérleyfisbifreiðum. Vil ég í þessu sambandi leyfa mér að vísa til þeirra umræðna, sem farið hafa fram milli mín og hæstv. samgmrh., þar sem hann sagðist verða að leita lánsheimildar til þess að endurgreiða póstsjóði það fé, sem notað hefði verið í sambandi við þessa starfrækslu, og hafði fjvn. fullan skilning á því, eftir að hafa hreyft gagnrýni á ríkisstj. fyrir að hafa tekið fé til þessarar starfrækslu, án þess að fyrir því væri heimild, að rétt væri og skylt að taka upp heimild fyrir ríkisstj. á 22. gr. til að taka lán til kaupa á slíkum bifreiðum. Og þótt tekið sé þannig til orða, að þetta sé lán, er það skilningur fjvn., að þetta fé sé notað til þess að endurgreiða póstsjóði, en ekki til kaupa á nýjum bifreiðum. — Þá er það e-liðurinn, sem er síðasta brtt., um að verja allt að 140 þús. kr. til viðgerðar á skemmdum á hafnarmannvirkjum á Bakkafirði. Eins og ég drap á við 2. umr. hafa komið kröfur frá þó nokkrum hafnarsjóðum á landinu, þar sem talið er, að ríkissjóði beri skylda til að greiða þær skemmdir, sem þar hafa orðið á mannvirkjum og talið er að þeirra dómi, að stafi af skökkum útreikningum eða einhvers konar mistökum hjá vitamálastjóra. Fjvn. leggur engan dóm á þetta mál: En þetta er eitt af þeim atriðum, sem hér um ræðir, og fyrir liggur raunverulega viðurkenning frá vitamálaskrifstofunni um það, að sú stofnun eigi að verulegu leyti sök á þessu óhappi. Það er talið, að þessar skemmdir muni baka viðkomandi aðilum tjón, er nemi 280 þús. kr., og hefur hér aðeins verið tekinn upp helmingurinn og lagt til, að greiddar yrðu 140 þús. kr.

Ég skal þá í sambandi við hafnarmálin að öðru leyti leyfa mér að geta þess, að þegar hafnarfénu var skipt á sínum tíma af fjvn., lágu fyrir upplýsingar frá vitamálaskrifstofunni um það, hve mikið af því fé, sem ríkissjóður ætti vangreitt, væri geymt fyrir hverja höfn og hve mikið væri áætlað að framkvæma árið 1949. Þá lágu einnig fyrir fjvn. óskir um sérstök framlög í sambandi við þær skemmdir, sem ég hef þegar rætt um, og vænti ég, að tekið yrði tillit til þess, þegar úthlutað væri fé til hafnarmála fyrir hvert hérað. Eftir að fjvn. hafði úthlutað fénu á þann hátt, sem hún þá taldi eðlilegast, þótt að sjálfsögðu megi alltaf gagnrýna þær gerðir, var upplýst fyrir n., að ýmsar þær tölur, sem hún hafði fengið upplýsingar um frá vitamálaskrifstofunni, voru ekki ábyggilegar. Meðal annars var gefið upp, að Akureyri ætti 130.500 í geymslufé. Síðar upplýstist, að Akureyri mundi eiga stórkostlega fjárhæð vangreidda úr ríkissjóði í sambandi við framkvæmdir sínar. Það var einmitt þess vegna, að fjvn. lagði ekki til, að greitt yrði annað eða meira til hafnarmála á Akureyri en gert er í till. hennar og samþ. hefur verið á frv., þ.e, 100 þús. kr. — Þá var einnig upplýst, að Hafnarfjörður ætti inni 180 þús. kr. og ætlaði sér að vinna fyrir 180 þús. á þessu ári. Síðar hefur samgmrh, upplýst, að þessar tölur séu ekki réttar, Hafnarfjörður eigi miklu hærri upphæð vangreidda úr ríkissjóði. En hvorki frá samgmrh. persónulega né öðrum aðilum komu til n. aðrar upplýsingar, og þess vegna var það, að n. ákvað aðeins 150 þús. til þessarar hafnar. Patreksfjörður á 900 þús. kr. hjá ríkissjóði, og þar er fyrirhugað að láta. vinna fyrir um 1 millj. kr. Það var því ætlað af n., að þar bæri að hafa hæsta fjárframlag, eða 300 þús. Þetta hefur mjög verið gagnrýnt, bæði af hæstv. ráðh. og hv. þm., en ég hygg, ef þeir rannsaka þau gögn, sem eru hjá n., þá muni þeir komast að raun um, að fjvn. hefur ekki beitt neinni ósanngirni, a.m.k. ekki vitandi vits. Við 2. umr. komu fram margar brtt. um hækkun til hafnarbóta. N. hefur ekki séð sér fært að taka þetta upp í sínar till við 3. umr. og hæstv. ríkisstj. engar kröfur eða óskir gert um það, en það hefur verið rætt milli mín og ríkisstj. að reyna að bæta úr þeirri misskiptingu, sem talið er, að hafi orðið á hafnarfénu, og til að bæta úr því tjóni, sem sums staðar hefur orðið og talið er, að hafi stafað af stjórn hafnarmálanna. Fjvn. vildi ekki taka að sér að skipta fénu, en lætur það á vald hæstv. samgmrh., og hefur hann nú gefið skýrslu um það, og sést þar, að Akranes hefur verið hæst með 1.450.000, en átti inni 470 þús. frá síðustu áramótum. Næst kemur Njarðvík o.s.frv., og er ekki víst, hvort ríkisstj. hefur heimild í l. til að verja þessu fé til landshafnar. Það kunna að vera mismunandi skoðanir á þessu, en í fyrsta lagi veit ég ekki, hve mikið fé er veitt, en þó höfnin falli undir l. um hafnarbótasjóð, þá getur hún ekki tekið meira en það, sem er vangreitt af ríkisframlaginu, en það er áætlað um 4 millj., en allur kostnaðurinn mun vera um 10 millj., en ríkið er búið að greiða helminginn af þeim kostnaði, og ætti því helmingur framkvæmdanna þegar að vera gerður, en ég efa, að ríkisstj. hafi heimild að verja fé úr hafnarbótasjóði, nema fá til þess sérstaka heimild, og fékk hún fjvn. til að taka upp 300 þús. kr. heimild til landshafnarinnar, því að ég og ýmsir aðrir voru þeirrar skoðunar, að ekki væri hægt að taka fé úr hafnarbótasjóði til þessa. Fjvn. tók upp við 2. umr. 1.200 þús. kr. framlag til sjóðsins, sem ekki var á frv., og skilst mér því, að hafnarbótasjóður fái 1 millj. kr. til útlána á þessu ári. Ég skal ekki segja, hvort þetta er alveg rétt, en það mun vera nærri sanni. Sjóðurinn má lána út þar til eftir stendur 1/3 af stofnfénu. Hæstv. ráðh. hefur því um 1 millj. til að jafna niður, og þó að fjvn. úthluti ekki fénu, þá vænti ég þess, að gætt verði fullrar sanngirni í úthlutuninni til að mæta þeim þörfum, sem nú eru fyrir það, og fyrst að bæta það tjón, sem orðið hefur, svo að ekki verði meiri skemmdir, og síðan lána til þeirra, sem mest eiga inni hjá ríkissjóði og verða að fá fé til að forðast stórkostlegt tjón, t.d. Patreksfjörður, sem á 900 þús. hjá ríkissjóði og er nú að láta vinna fyrir um 1 millj., og þó að hann fái nú 300 þús., þá er það ekkert upp í þá skuld, sem ógreidd er af ríkinu. Ég vil benda á það, að af 10 millj. úr sjóðnum hefur Patreksfjörður aðeins fengið 85 þús. kr. áður. Þær hafnir, sem mest hafa kvartað um skemmdir til hafnarbótasjóðs, eru Bakkafjörður og Ólafsfjörður. Það má deila um, hvort vitamálastjóri og hafnastj. hefðu getað komið í veg fyrir þessar skemmdir. Þá hafa Sauðárkrókur og Hofsós orðið fyrir áföllum, og er verki ekki enn lokið þar, og sama má segja um Blönduós. Á Skagaströnd er svo ástatt, að hætta er á, að dýrmætt ker skemmist, ef því verður ekki komið á réttan stað á þessu ári. Ég veit, að þörfin fyrir framlag til hafnarbóta er fyrir hendi alls staðar um land í framtíðinni, og ég veit, að hæstv. ráðh. er þetta ljóst. Ég skal ekki fara lengra út í þessa sálma, en taldi rétt að láta þetta koma fram í sambandi við hafnarmálin.

Þá vil ég gera grein fyrir þeim till., sem hér liggja fyrir, og vil gera grein fyrir, hvernig niðurstöðurnar yrðu, ef þær væru allar samþ., en aðrar till. felldar. Hækkun á rekstrargjöldum á 11.–18. gr. yrði 3.613.150 kr., en til lækkunar 425.000 kr., svo að hækkun yrði alls 3.188.150 kr. á rekstrarreikningi. Hækkun á 20. gr. yrði 1.090.000 kr., en lækkun 600 þús. Alls 490 þús. kr. hækkun. Eftir þessu verður rekstrarhalli 2.462.040 kr., en hækkun á rekstrarhalla, séu till. samþ., 3.188.150, eða rekstrarhalli alls 5.650.190 kr. Greiðsluhalli samkv. frv. er nú 30.547.628. Þá er aukinn rekstrarhalli á 11.–18. gr. 3.188.150 kr. og á 20. gr. 490 þús. Samtals 3.6881.50 kr. Greiðsluhalli verður því nú 34.235.778. Loks er niðurstaðan á 22. gr.: Heimild samkv. frv. 6 millj. kr. Viðbót samkv. till. á þskj. 663 er 7.727.000 kr. og lækkun 900 þús., eða hækkun alls 6.827.000, svo að 22. gr. er nú með heimild til útgjalda, sem nemur 12.827.000 kr. Raunverulegur greiðsluhalli er því 47.0620.00 kr., en raunverulegur rekstrarhalli 11.302.190 kr. Hér við bætast útgjöld samkv. nýjum l. og þál., en hve mikið það verður, er mér ókunnugt um með öllu, m.a. ókunnugt um, hvaða afgreiðslu hlutatryggingasjóðurinn fær, en þar verða sennilega a.m.k. 3 millj. til viðbótar, a.m.k. ef till. mínar verða felldar við 3. umr. eða í Nd.

Eins og ég tók fram, þá hefur n. flutt þessar till. samkv. tilmælum ríkisstj., sem tjáði n., að samkomulag væri um till. og jafnframt samkomulag um að standa gegn till. frá öðrum. Með þessum fyrirvara ber n. þessar till. fram, en er ekki bundin við þær, ef ríkisstj. ber fram eða styður aðrar hækkunartill., og hefði ekki borið till. fram að öðrum kosti. Þetta er myndin af fjárl., eins og þau eru nú við 3. umr. Ég sé, að nú hefur verið útbýtt till. einstakra þm., en ég hef ekki haft tækifæri til að athuga, hvort þær horfa til hækkunar eða lækkunar, en þótti rétt að láta koma fram hina réttu mynd af fjárlfrv., áður en brtt. koma til atkv. Svörum til einstakra hv. þm. og þá einkum til hæstv. samgmrh. vil ég ekki blanda inn í þessa framsögu. Það kann að vera, að ég fái tækifæri til að svara því síðar, og kann að vera, að ég fái það ekki. Það fer allt eftir því, hvernig umr. fara.