10.05.1949
Sameinað þing: 71. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í B-deild Alþingistíðinda. (1470)

42. mál, fjárlög 1949

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Ég vil þakka hv. fjvn. fyrir störf hennar varðandi seinni hluta af afgreiðslu fjárlfrv. Það er rétt hjá hv. form. n., að meiri hlutinn af brtt. á þskj. 663 frá fjvn. eru till., sem ríkisstj. hafði komið sér saman um, að þyrftu að koma inn í frv. Hv. frsm. skýrði ástæðurnar fyrir þeim, svo að ég skal ekki orðlengja frekar um það. Það er rétt, að það skilorð var lagt til grundvallar að öðrum ástæðum óbreyttum, að ekki yrði tekið við öðrum till. til hækkunar við umr. en þeim, sem eru á þskj. fjvn. Það varð samkomulag um þetta innan ríkisstj. og í samvinnu við hv. fjvn., enda sannast sagna, að útgjöldin á frv. eru nógu há eins og er og ekki ábætandi, nema einhver knýjandi nauðsyn beri til. Hv. frsm. gat þess, að rekstrarhalli mundi aukast um 3.188.150 kr., ef þessar till. væru samþ. og að niðurstaðan yrði að samþ. þessum till. sú, að greiðsluhalli nemi 34.235.778 kr. Samt sem áður taldi hv. frsm., að hinn raunverulegi halli væri meiri, og vitnaði í því sambandi sérstaklega í heimildir í 22. gr. Mér virðist fljótt á litið, að þær heimildir gefi ekki tilefni til að segja, að greiðsluhalli þess vegna vaxi um 11–12 millj., en hér eru að vísu nokkrar heimildir um, að verja megi, en mestmegnis eru í 22. gr. heimildir til lántöku, og um 22. gr. er að öðru leyti að segja, að hún kemur ekki í fyrri röð en þær gr. fjárl., þar sem útgjöld eru beinlínis ákveðin. Þær heimildir má því aðeins nota, að fært þyki, og hvað viðvíkur beinu útgjöldunum, þá aðeins að lán fáist, en þó að ég sleppi 22. gr., þá er hér um geigvænlegar tölur að ræða. Og um 22. gr. vil ég segja það, að ég tel litla von til, að hægt verði að framkvæma heimildirnar eftir henni. Greiðsluhallann, sem hér er um að ræða, verður að reyna að jafna, og eins og kunnugt er liggur hér fyrir frv. um að auka tekjur af benzínsölu, að vísu nær það ekki langt, en það er þó spor í rétta átt. Þá liggur fyrir önnur till., um takmörkun á kjötniðurgreiðslu, og vona ég, að þessi mál fái greiðan framgang.

Þá er verið að auka álagninguna hjá einkasölunum, sem hefur í för með sér auknar tekjur fyrir ríkissjóð til að standa á móti auknum útgjöldum ríkissjóðs. — Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta, enda hefur hæstv. forseti lýst því yfir, að fundi bæri að fresta til kl. 3 af öðrum ástæðum. Mér virðist, að full ástæða sé til fyrir hv. þm. að athuga, hve langt er komið með útgjöld á fjárlfrv. og þeim till., sem hér liggja fyrir, og sjá nauðsyn þess að stinga hér við fæti og ekki síður að afla þeirra tekna, sem þarf til að jafna þann halla, sem er á frv., og verð að telja það nauðsynlegt, til að hægt verði að framkvæma það, sem þar er gert ráð fyrir.