12.05.1949
Sameinað þing: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (1472)

42. mál, fjárlög 1949

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vildi segja nokkur orð, til þess að gera grein fyrir því, hvers vegna brtt. frá fjvn. komu hér fram á tveimur þskj., í fyrsta lagi á þskj. 663, sem er frá fjvn. allri, og svo á þskj. 686, sem er frá meiri hl, fjvn. Eins og reyndar hv. frsm. fjvn. mun hafa tekið fram í sinni framsöguræðu, þá er náttúrlega meiri hluti fyrir öllum þessum till. í n. En viðvíkjandi brtt. á þskj. 663 þá gerðum við ég og hv. 2. þm. SM. ekki sérstakan ágreining um neinar þeirra. Hins vegar er það að segja um brtt., sem hér eru fluttar á þskj. 686, að við teljum okkur ekki fært að gerast flm. að þeim.

Þegar litið er á þetta fjárlagafrv., eins og það liggur fyrir, sér maður, að ýmsar framkvæmdir hafa verið lækkaðar verulega frá því, sem var síðast á fjárlögum, og það þrátt fyrir það að ekki sé því að neita, að til sumra þeirra framkvæmda hefði þurft að hafa eins mikið fjárframlag og áður, t.d. til ýmissa heilbrigðismála og til skólabygginga. Hins vegar eru hér till. um 11/2 millj. kr. lækkun á fé til barnaskóla frá því, sem var á síðustu fjárlögum. Og þrátt fyrir það að til ýmissa slíkra bygginga hafi fengizt fjárfestingarleyfi til þess að hefja byggingar á s.l. ári, eru þær byggingar nú stöðvaðar, vegna þess að ríkið stendur ekki við sínar skuldbindingar, þrátt fyrir það að sú stofnun, sem skipuleggur framkvæmdirnar, hefur gefið leyfi til þess, að þær væru hafnar. Hins vegar eru hér á þessu þskj., sem eru till. meiri hl. fjvn., till. um hækkanir um rúma 1 millj. kr., sem var búið að fella í fjvn., en var tekið upp eftir óskum hæstv. ríkisstj., þ.e. 400 þús. kr. hækkun til byggingar á prestssetrum, 200 þús. kr. til útihúsa á prestssetrum, 90 þús. kr. til byggingar farþegaskýlis vegna tolleftirlits og 400 þús. kr. til byggingar sýslumannabústaða. Til þessara framkvæmda einna, t.d. byggingar prestshúsanna hér í Reykjavík, sem byggð voru á síðasta ári, og sömuleiðis til byggingar sýslumannabústaða, hefur verið varið allmiklu fé úr ríkissjóði á undanförnum árum og allmiklu fé fram yfir það, sem heimilað var á fjárl. Við sjáum þess vegna ekki ástæðu til þess að mæla með því, að þessar fjárveitingar séu samþ. nú, þegar þess er gætt, að skornar hafa verið niður fjárveitingar til annarra verklegra framkvæmda, sem við teljum ýmist eins nauðsynlegar eða nauðsynlegri en þessar, sem ég nú hef getið. Og við, hv. 2. þm. S-M. og ég, teljum okkur því ekki fært að vera flm.till. um fjárframlög, er eru á þessu þskj., nr. 686. Enn fremur virðist það einkennileg ráðstöfun, sem fólgin er í l. till. á þessu sama þskj., að lækka úr 400 þús. kr. framlag til byggingar fávitahælis, sem áður var búið að samþ., niður í 100 þús. kr., sem mun stöðva þá framkvæmd, sem flestir álíta þó mjög nauðsynlega; vegna þess að ekkert slíkt hæli er í raun og veru til í landinu.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta. En mér virðist, að hér sé verið að stefna að því að taka fé frá þeim hlutum, sem nauðsynlegir eru, til annarra, sem vægast sagt eru ekki eins nauðsynlegir.