12.05.1949
Sameinað þing: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (1480)

42. mál, fjárlög 1949

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Það virðist ekki vera við marga að tala hér frekar en fyrri daginn og ekki vera mikil tök á að sannfæra menn, þó að rök kunni að liggja fyrir máli. Ég hef leyft mér að flytja hér tvær brtt., sem bornar eru fram á þskj. 681. Fyrri till., I, er varðandi framlag til fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, að í stað 300 þús. kr. framlags, sem er á fjárlfrv. nú, komi 400 þús. kr. Við 2. umr. fjárl. flutti ég brtt. um að hækka þetta framlag upp í 500 þús. kr. Sú till. var felld. Ég ætla ekki að fara að endurtaka þau rök, sem ég þá færði fram fyrir því, að þetta framlag til sjúkrahússins væri allt of lítið og ef það yrði ekki hækkað, mundi það tefja bygginguna um óeðlilega langan tíma. Það þýðir ekki að endurtaka þau rök, sízt þegar svo fáir heyra til. En ég vildi aðeins gera aðra tilraun til þess að fá þetta ofur litið hækkað og í von um, að hv. þm. vildu ganga inn á að veita þessa hækkun í stað hinnar, hef ég flutt þessa till. á ný. Hin brtt. er sú III. á sama þskj. og varðar framlag til hafnargerðar á Akureyri, að í staðinn fyrir 100 þús. kr. komi 300 þús. kr. Það kom mjög greinilega fram í umr. við 2. umr. fjárl. og var þá viðurkennt, m.a. af hv. form. og frsm. fjvn., að till. fjvn. um að veita aðeins 100 þús. kr. væri byggð á röngum upplýsingum, sem n. hefði fengið frá vitamálaskrifstofunni. Eftir að þetta hafði verið viðurkennt, þá tók ég till. aftur til 3. umr., í von um það, að hv. fjvn. sæi sér mögulegt að leiðrétta þetta misrétti, sem viðurkennt var af form. n. við 2. umr. fjárlfrv. og öllum hlýtur að liggja í augum uppi, sem vilja hlýða á þær upplýsingar, sem gefnar hafa verið um þetta efni, og hlíta þeim rökum, sem í þeim felast. Nú hefur hins vegar farið svo, að hv. fjvn. hefur ekki gert neina breytingu á fyrri till. sinni um þetta efni, og verð ég að segja það, að mig furðar nokkuð mikið á því, að hún skuli, þrátt fyrir þær upplýsingar, sem fram hafa komið og mjög greinilega hafa verið fyrir hana lagðar, ekki hafa séð tök á því að taka tillit til þeirra og breyta fyrri till. sinni um þetta efni, sem viðurkennt er, að byggð hefur verið á skökkum upplýsingum. Þar með hefur einnig fengizt viðurkenning á því, að á grundvelli þeirra framkvæmda, sem orðið hafa á hafnargerðinni á Akureyri og stendur til, að verði gerðar á yfirstandandi ári, og sé tekið tillit til hvors tveggja, þá liggur í augum uppi, að Akureyrarhöfn hlýtur að eiga að koma í flokk þeirra hafna, sem hæsta fjárveitingu fá á fjárl. Ég upplýsti við 2. umr. málsins með sundurliðuðum tölum, að vegna þeirra framkvæmda, sem þegar hefðu orðið við hafnargerðina á Akureyri, þá vantaði 357.750 kr. til þess, að ríkið hefði lagt fram sinn hluta l. samkvæmt á móti Akureyrarkaupstað. Til viðbótar við þetta liggur það fyrir, að búið er að vinna á þessu yfirstandandi ári fyrir 2 millj. kr. Framlag ríkisins af því mundi nema 800 þús. kr., þannig að til þess að ríkið stæði við sín framlög l. samkvæmt, ætti að veita á þessum fjárl. 1.157.750 kr. til þessa mannvirkis. Nú hefur mér ekki dottið í hug að fara fram á það, að þessi fjárhæð yrði veitt öll, því að til þess eru vafalaust ekki möguleikar, enda ýmsar aðrar hafnir sem búnar eru að vinna fyrir meira fé en þær hafa fengið framlag frá ríkissjóði á móti. Nú vil ég halda því mjög ákveðið fram, að gegn því geti ekki legið rök og hafa ekki verið færð rök, að Akureyri eigi vegna þessa alveg skýlausa kröfu um að verða sett í flokk þeirra hafna, sem hæstu fjárveitingu fá, og þó að það yrði gert, þá yrði framlag ríkissjóðs ekki nema tæplega af því, sem ríkið kemur til með að skulda á yfirstandandi ári. Eins og ég sagði áðan, varð ég nokkuð undrandi á því, að hv. fjvn. skyldi ekki taka tillit til þeirra raka, sem fyrir liggja um þetta efni, og hækka framlag til Akureyrarhafnar tilsvarandi við aðrar hafnir, sem sambærilegar eru. Hv. form. og frsm. n. drap á þetta við 2. umr. málsins, að búið væri að binda svo heildarfjárhæðina til hafnargerða, að frá því væri ekki hægt að víkja, og mundi þess vegna örðugt að breyta þessu eða bæta úr þessu, nema þá með þeim hætti, að Akureyri yrði lofað því meira framlagi úr hafnarbótasjóði, til þess á þann hátt að laga þetta misræmi. Nú hefur hins vegar tvennt komið í ljós: Að heildarframlagið á fjárl., a.m.k. yfirleitt, — það hefur að vísu ekki raskazt heildarframlagið til hafnargerða út af fyrir sig frá því, sem það var við 2. umr. fjárl., - hefur mjög raskazt frá því, sem það var við 2. umr. fjárl., og jafnvel hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir því með tilstyrk hv. fjvn. að hækka fjárveitingar fjárl. mjög verulega. Hv. fjvn. leggur nú til, f. h. hæstv. ríkisstj., .að bætt sé við hvorki meira né minna en 1 millj. kr. til þess að byggja íbúðarhús handa prestum og sýslumönnum. Og þegar ekki er meiri þröng fyrir dyrum en t.d. þessar till. bera vott um, ásamt öðrum till. til aukinna fjárútláta, sem fjvn. ber fram, þá finnast mér það harla veigalítil rök, að ekki sé hægt að leiðrétta þetta augljósa og viðurkennda misrétti, vegna þess að ekki megi hækka þá upphæð, sem á fjárl. er veitt til hafnargerða. Hins vegar hefur komið í ljós, þrátt fyrir ummæli, sem fram hafa verið færð, bæði við 2. umr. og í framsöguræðu fyrir brtt. fjvn. við 3. umr., um það, að bæta ætti Akureyrarkaupstað þetta misræmi með framlögum ár hafnarbótasjóði, að engar ráðstafanir hafa verið til þess gerðar. Í framsöguræðu form. fjvn., þó að hann dræpi á þetta og talaði um það vítt og breitt, fólst ekki neitt loforð eða nein ummæli, sem bindandi gætu talizt um, að Akureyrarkaupstaður fengi nokkuð úr hafnarbótasjóði, og sízt af öllu, þó að Akureyrarkaupstaður kæmi þar til greina eins og aðrar hafnir, að þá yrði nokkuð bætt úr því misrétti, sem er á framlagi á fjárl. til hennar og annarra hafna. Til viðbótar við þetta hef ég beinlínis spurt hæstv. samgmrh. um það, hvort hann hafi í hyggju og gæti gefið um það yfirlýsingu hér, að Akureyrarhöfn skyldi fá einhverja ákveðna og verulega upphæð, svo verulega, að það gæti talizt leiðrétting á því misræmi, sem um hefur verið rætt hér. Hefur hæstv. samgmrh. svarað því, að á þeim lista, sem hann nú hafi yfir það, hvernig hann hafi hugsað sér að skipta framlögum úr hafnarbótasjóði, sé Akureyri alls ekki með. Mér virðist málið liggja þannig fyrir, að þó að þetta misrétti og ósamræmi sé viðurkennt, þá sé ekki til vilji fyrir því, hvorki hjá hv. fjvn. eða hæstv. ríkisstj., að leiðrétta þetta mál. Og þykir mér það harla undarlegt, ég get ekki annað sagt, ef það á að verða niðurstaðan í þessu máli, að þrátt fyrir þær upplýsingar, sem hafa verið lagðar fram hér fyrir Alþ. og fjvn. og hæstv. ríkisstj. og samgmrh. hlýtur einnig að vera vel kunnugt um„ eigi Akureyrarhöfn aðeins að fá 100 þús. kr., þó að ríkið skuldi henni, ekki 100 þús. kr., heldur 1 millj. kr. betur, þegar aðrar hafnir fá allt upp í 300 þús. kr. framlag, og það m.a. hafnir, sem undanfarin ár hafa fengið mjög rífleg framlög, t.d. úr hafnarbótasjóði, eins og t.d. Akranes, sem er búið að fá 11/2 millj. kr. til viðbótar við hæsta framlag á fjárl. í nokkur ár í röð. Ýmsar aðrar hafnir hafa fengið enn þá hærri fjárveitingu og margar hverjar einnig rífleg framlög úr hafnarbótasjóði. Ég hefði því gjarna viljað fá tækifæri til þess að láta hv. þm. heyra rök mín fyrir þessu máli og þá útreikninga, sem lagðir hafa verið fyrir n. í þessu máli. Það er nú einu sinni svo, að það virðist ekki vera tækifæri til þess. Menn fást ekki til þess að sitja og hlýða á ræður um mál, sem liggur fyrir að afgreiða, og má því vel fara svo, að meiri hl. hv. þm. muni ekki, þegar að afgreiðslu málsins kemur, hafa hugmynd um þau rök, sem fyrir till. liggja, og muni þess vegna láta aðeins að óskum ríkisstj. og fjvn. um að beita Akureyrarhöfn og Akureyrarbæ þeirri rangsleitni, sem felst í þessari skiptingu fjárl. til hafnargerða. Við því verður ekki gert. Ég hef gert það, sem í mínu valdi stendur, bæði við 2. umr. fjárl. og nú, til að upplýsa þetta mál. Ég tel mig hafa fyllstu rök að mæla og engin sanngirni geti talizt í því að fella þá till., sem ég hef flutt um þetta efni. Meira get ég ekki gert, og verður þá að ráðast, hvernig fer, þegar til atkvgr. kemur. Það þýðir að sjálfsögðu ekki að vera að tala um þetta lengra mál. Það mundi engu breyta, og ég skal þá heldur ekki þreyta hæstv. forseta og þá örfáu þm., sem hér sitja, á því að ræða um þær aðrar till., sem hér liggja fyrir, eða fjárl. í heild, þó að ástæða væri til þess að tala kannske nokkru nánar um fjárlagaafgreiðsluna í heild en ég hef gert. Inn á það hef ég í raun og veru ekkert komið.