12.05.1949
Sameinað þing: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (1481)

42. mál, fjárlög 1949

Ásgeir Ásgeirsson:

Herra forseti. Ég bar að vísu fram hér nokkrar brtt. við 2. umr., sem ég tók til baka í þeirri trú, að það mundi tillit til þeirra tekið í fjárlagameðferð hv. fjvn. Svo hefur ekki orðið, og væri náttúrlega ástæða til þess fyrir mig að kvarta yfir því að hafa orðið afskiptur. En ég skal ekki eyða tímanum til þess. Það væri ófrjósamt. Ég vil samt minnast hér á eina litla till., sem ég ber hér fram, ásamt hv. þm. Str. og hv. þm. G–K., en hún er um það að veita ungu félagi, Félagi hinna sameinuðu þjóða á Íslandi. 6 þús. kr. í styrk á yfirstandandi ári. Þetta félag var stofnað í haust sem leið og hefur haldið nokkra fundi. Hefur það reynt að fá góða fyrirlesara, bæði innlenda og útlenda, og reynt að undirbúa sína framtíðarstarfsemi, en hún verður mikið í því fólgin að halda fræðslufundi, útvegun bóka um starfsemi Sameinuðu þjóðanna og utanríkispólitík Íslendinga, auk þess í því að gefa út smárit og pésa um Sameinuðu þjóðirnar og alþjóðastarfsemi yfirleitt. Þessi upphæð mun ekki fara í laun, en aðeins til fræðslu- og upplýsingastarfsemi. Ég vil vænta þess, að þessi till. verði samþ. Það er ekki um mikla fjárhæð að ræða til félags, sem starfar meðal almennings að fræðslu í utanríkismálum.