12.05.1949
Sameinað þing: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (1487)

42. mál, fjárlög 1949

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Hv. form. fjvn. talaði um till. um að flytja tilraunastöðina að Hafursá til Skriðuklausturs og viðhafði það orðalag, að það þyrfti að gefa með gjöfinni, sem ríkinu var gefin. Þetta er ekki viðkunnanlegt orðalag, og vildi ég láta það koma fram, að gjöf Gunnars Gunnarssonar var afhent alveg kvaðalaust. Hann gaf ríkinu Skriðuklaustur þar sem er eitt veglegasta, sérstæðasta og skemmtilegasta hús á landinu, og jörðin einhver sú bezta á landinu, án allra kvaða. Það eina skilyrði, sem var sett, var það, að á Skriðuklaustri yrði rekin einhver menningarstofnun. Eftir ýtarlega athugun þótti rétt að flytja þangað tilraunabúið á Hafursá, og það er ekki viðeigandi orðalag að segja, að gefa þurfi með gjöfinni, þótt einhverju þurfi að kosta til vegna þessa flutnings. Þetta vildi ég láta koma fram til þess að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning.

Þá vil ég leyfa mér að mæla með brtt., sem ég flyt við 22. gr., sem sé að leyfa lántökuheimild fyrir 11/2 millj. kr. til framkvæmda við ríkisspítalana. Nú er langt komið viðbyggingunni við hælið á Kleppi, sem er mjög nauðsynleg, því að þar hefur verið hörmulega þröngt undanfarið, og ber nú brýna nauðsyn til þess að fullgera þessa viðbyggingu sem allra fyrst. Enn fremur er verið að byggja starfsmannahús á Vífilsstöðum og gera við Kristneshæli, og kostar þetta allt meira, en leyfilegt er samkv. frv., því að 1/2 millj. kr. af því, sem þar er veitt, er þegar búið að nota. Ýmislegt fleira en ég hef þegar nefnt er einnig mjög aðkallandi, svo sem það, að þvottahús Landsspítalans er orðið allt of lítið, en það er til stóraukinna útgjalda, ef fara þarf með þvottinn út úr stofnuninni, og þarf þegar að bæta hér úr. Enn fremur hefur það mjög verið rætt og fast sótt bæði af landlækni og sérstaklega af próf. Niels Dungal að fá í rannsóknarstofu Landsspítalans sérstakan blóðbanka, sem er stofnun, sem alltaf hefur blóð fyrirliggjandi og getur iðulega bjargað mannslífum, en til þess að slíkur banki komist upp, þarf aukið húsnæði í rannsóknarstöðinni, en af öllu þessu leiðir, að fjárveitingin til starfsemi ríkisspítalanna þarf að vera meiri en nú er í frv. Ég skal geta þess, að það er ekki vonlaust, að ríkissjóður geti fengið lán hjá Tryggingastofnun ríkisins til þessara hluta, og hins vegar má vera, að engin fjárfesting fáist fyrir þessum nýbyggingum, sem ég minntist á, en allt um þetta get ég ekki látið undir höfuð leggjast að flytja þessar till. og treysti hv. þm. til þess að samþ. hana, því að þessi heimild er bráðnauðsynleg, ef fjárfestingarleyfi fæst og samkomulag innan ríkisstj. að nota heimildina. Ef þetta nær ekki fram að ganga, gæti svo farið, að ekki yrði mögulegt að ljúka við þær framkvæmdir, sem verið er að vinna að á Kleppi og eru mjög aðkallandi, hvað sem öðru líður.