12.05.1949
Sameinað þing: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í B-deild Alþingistíðinda. (1499)

42. mál, fjárlög 1949

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Á öndverðu þessu ári hélt Bandalag starfsmanna ríkis og bæja ársþing sitt, og fjallaði þingið m.a. um launamál. Niðurstaðan varð sú, að ef þetta fólk ætti að fá sömu leiðréttingu og margt annað launafólk hefði fengið síðan launalögin voru sett, þá þyrfti það að fá 36% kauphækkun. Ég hygg, að stjórn bandalagsins hafi unnið að þessum málum síðan þingið var haldið, en þegar hún fann, að hún fengi engu áorkað í þessum efnum, kallaði hún saman aukaþing bandalagsins. Á því þingi voru staðfestar þessar kröfur, og menn voru gerðir út til ríkisstj. til að fá þessu framgengt. Bandalagið lagði fram sem lokatill. og algert lágmark að fá launahækkun, sem nemur 25%, og þykjast þó fá minna en aðrar launastéttir hafa fengið fram. Talið er, ef orðið er við kröfum bandalagsins um 25% hækkun, að það muni kosta ríkissjóð um 121/2 millj. kr., en þó er ekki víst, að það sé svo mikið. Ég er ekki í vafa um, að fólk, sem fékk sanngjörn laun með launalögunum 1945, býr nú við þröngan kost vegna aukinnar dýrtíðar, og fjöldi þessa láglaunafólks hefur nú ekki góða afkomu. Við getum áreiðanlega dregið glögga mynd af breytingunum síðan 1945, t.d. með því að athuga, hvernig ríkisbúinu mundi ganga að bera sig með sömu tekjum og það hafði og þurfti 1945. Á hverju ári síðan hefur fjmrh. í samráði við ríkisstj. borið fram óskir og kröfur um aukningu á tekjum ríkissjóðs, oftast vegna vaxandi dýrtíðar í landinu. Og úr því að útgjöldin hækka hjá ríkinu vegna vaxandi dýrtíðar, þá er því sennilega eins varið með hvert heimili í landinu, og vaxandi kostnaður krefst hærri tekna. Opinberir starfsmenn segjast þurfa minnst 36% hækkun á launum til að geta lifað sómasamlega. Við skulum nú athuga, hvort hér er um meiri hækkun að ræða en ríkisbúið þykist þurfa á sama tíma. Ég tók þetta saman áðan, og niðurstöðurnar eru þær, að nú nema gjaldaliðirnir um 300 millj. kr., en hvað þurfti þá 1945? Þá nægðu 100 millj., og hafði ríkið þó að ég held afgang. Útgjaldaþörf ríkisins hefur því ekki hækkað um 1/3 eða 1/4 eins og starfsmennirnir fara fram á. Hún hefur þrefaldazt. Þannig er útkoman á því heimilishaldi, sem hefur þó haft hina glöggustu menn til að stjórna málum sínum, og hygg ég, að þetta nægi til að sýna, að mikil þörf muni nú fyrir tekjur hjá þegnunum. Nú hefur hæstv. ríkisstj. ekki neitað að verða við kröfu B.S.R.B. og viðurkennt, að hún sé sanngjörn, og gefið undir fótinn, að reynt verði að bæta úr þessu, eða a.m.k. að teknir verði upp samningar um þetta efni. Það er augljóst, þegar bandalagið kallar saman aukaþing til að ræða þetta mál, að um allalvarlega ólgu er að ræða í þessum fjölmenna hópi, sem skiptir hundruðum eða þúsundum, og getur þetta orðið allalvarlegt, ef deilan verður ekki leyst án hörku. Þá má geta þess, að samtökin njóta fyllstu samúðar, ef ekki fulls stuðnings Alþýðusambandsins, í öllum sanngjörnum kröfum. Ég veit því, að hæstv. ríkisstj. hefur fullan hug á að leysa þetta mál í fullu samráði við samtökin, en til þess að geta það, verður hún að hafa heimild til að leysa málið jákvætt. Ég tel því, ef hæstv. ríkisstj. er ekki staðráðin í að hafa að engu kröfur bandalagsins, þá sé nauðsynlegt að samþ. till. okkar 4. þm. Reykv., en þar er lagt til að taka allt að 8 millj. af skattsektafé eignakönnunarinnar. Það er ekki ákveðið, hvernig þetta skiptist milli launaflokka, en lagt til, að það verði gert í samráði við B.S.R.B. Hér er aðeins gert ráð fyrir 8 millj. eða aðeins 750,6 af lágmarkskröfum bandalagsins, og auk þess sett allt að 8 millj. Nú er hugsanlegt, þar sem komið er fram undir mitt ár, að ríkisstj. verði 100% við kröfunum 1/2 árið, og þá dygði þessi upphæð til að verða við kröfunum eða þá að mæta á miðri leið og miða við allt árið.

Við flm. töldum okkur skylt, þar sem svo áliðið er þingtímans, að skella þessu ekki inn í þingið án þess að benda á tekjumöguleika og höfum því lagt til, að skattsektum samkvæmt eignakönnunarl. verði varið til að standa undir þessu, eða allt að 8 millj. af þeim Nú sagði hæstv. fjmrh. áðan, að þessar tekjur væru ekki í hendi eða veruleiki nema að nokkru leyti. Það er rétt. Framtalsnefndin hefur starfað og jafnað niður utan Reykjavíkur, og nema skattsektir þar 41/2 millj., og telur hún líklegt, að Rvík ein geri heldur betur en verða eins há. Með öðrum orðum mun sektaféð nema 8–10 millj. kr. Þá er fullvist, að þessum tekjum hefur ekki enn verið ráðstafað með neinum l. hér í þinginu, hvorki í fjárl. né öðrum lögum. En ég held, að eitthvað sé imprað á því í stjórnarsamningnum, að 1/2 af því gangi til bæjarfélaganna og 1/2 í ríkissjóð. Ef staðið væri við þetta, kæmu aðeins um 4 millj. í ríkissjóð, en ég hef einnig frétt, að í ríkisstj. séu nokkrir ráðh. mjög ákveðnir í því að ekki komi til mála, að nokkuð af þessu fé gangi til bæjarfélaganna, en það gangi allt til hins mjög þurfandi ríkissjóðs. Þetta þýðir, að ríkissjóður hefur í pússi sínu álitlegan sjóð, sem hann gæti að meinfangalausu gripið til til að verða við sanngjörnum kröfum, er þetta snertir. Hæstv. ráðh. viðurkenndi, að það væri að nokkru leyti veruleiki, að hann teldi þennan tekjugróða ekki fyrir hendi, þar sem hann hefði áætlað tekju- og eignarskatt nokkuð djarflega og gæti því orðið full þörf að taka af þessum lið til að bæta upp hallann. Það er góðra gjalda vert, að hæstv. fjmrh. sé varfærinn í áætlunum sínum. Og sagt er, að þetta fjárlfrv. sé mjög gætilegt, og ef athugaður er þessi liður, þá sést, að hæstv. ráðh. hefur verið mjög gætinn í áætlun sinni, þar sem hann áætlar tekju- og eignarskatt 40 millj. kr., eða sömu upphæð og í fyrra, og ég sé engar ástæður til, að hann hafi lækkað. Ég sé í athugasemdum hæstv. ráðh., að tekju- og eignarskattur hefur reynzt 43 millj. 1947 og verið áætlaður 65 millj. 1948, en þar hafi boginn verið spenntur of hátt, en það hafi gefizt vel vegna eignakönnunarinnar. Það er því augljóst, að skattsektunum hefur ekki verið ráðstafað með neinum lögum og felast ekki í þessum lið fjárl. Í þessu felst aðeins tekju- og eignarskattur, að viðbættum tekjuaukaskattl. Skattsektir geta því ekki runnið undir þetta, en til þess að fá fulla vissu um þetta, talaði ég við 3 hv. fjvn.-menn og spurði, hvort þetta væri innifalið í fjárl., en þeir kváðu allir nei við og töldu, að þeim hefði á engan hátt verið ráðstafað. Ég skil því ekki, þegar hæstv. fjmrh. segir, að þetta sé enginn tekjugrundvöllur. Þessari fúlgu er algerlega óráðstafað að l., og ríkissjóður á þetta til vara, og er í þessari till. aðeins heimild um, hvernig megi verja því, ef nauðsynlegt er, til að leysa þetta mál sómasamlega gagnvart starfsfólki ríkisins. Ég held, að ég hafi nú sýnt, að hægt sé að inna þessar greiðslur af hendi eftir því, sem samkomulag verður milli B.S.R.B. og ríkisstj. Viljann vantar ekki, og þarna er bent á fjárhagslega möguleika.