07.12.1948
Efri deild: 26. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

92. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef þegar tekið fram, þótt það væri ekki við þessa umræðu, að ríkissjóð vantar viðbótartekjur af einhverju tagi, og þarf ekki að lýsa eftir þeirri skoðun minni hér af þeim ástæðum. — Í fjárlagaræðu minni benti ég á, að ýmsir kostnaðarliðir ríkissjóðs væru úr hófi háir — og tók ég einkum til eina 4 eða 5 liði: dýrtíðargreiðslurnar, sem árið 1947 voru yfir 60 millj.; kennslumálin, um 35 millj.; landbúnaðarmálin, yfir 20 millj. fyrir utan allar uppbætur, sem landbúnaðurinn fær; vegamálin, en til þeirra fóru að mig minnir um 20 millj. Og þessi 4–5 atriði, sem ég þarna taldi, munu hirða um 2/3 allra ríkisteknanna. Ég minntist einnig á, að útlagðar dýrtíðargreiðslur mundu verða hærri árið 1948. Og ég held, að reynslan ætli að sanna það, þó að við sleppum líklega betur við fiskábyrgðarnar, en út leit fyrir, þar sem svo hefur rætzt úr, að við höfum fengið loforð fyrir að fá seldan fisk, sem við liggjum með, fyrir ábyrgðarverð. En þó gleypa dýrtíðarniðurgreiðslurnar um 70 millj., og niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum eru þar síhækkandi liður. Mér dettur því langt frá í hug, að ríkissjóður standist, ef niðurgreiðslunum á að halda áfram í sama formi og hingað til. Ég notaði í fjárlagaræðu minni tækifærið til að benda á leið til að draga úr fiskábyrgðinni, en mér heyrist, að þeir, sem annars telja, að ríkissjóður eigi að standa undir öllu, séu ekkert hrifnir af því né því ráði, sem útvegsmenn voru með á þingi sínu í haust. Út af þessu frv. vil ég taka það fram, að umrætt gjald hefur farið síhækkandi. Það var upphaflega 1 kr., en er nú orðið 4,50 kr. Og það eru takmörk fyrir því, hvað hækka má, jafnvel þennan toll. Sumt, sem framleitt er, er vitanlega ekki alveg bráðnauðsynlegt. Mætti taka til dæmis öl, sérstaklega maltöl, sem ýmsir kaupa að jafnaði sér til heilsubótar, sem mundi falla undir þennan toll. Þá mundi einnig súkkulaði og góðgæti falla hér undir, en súkkulaði er a.m.k. ekki talið til sérstaks óhófs í öðrum löndum, þótt það sé ef til vill hér, og hæfileg notkun þess ekki frekar talin lúxus, en kaffi og te. Þetta gjald er áætlað í frv. 3 millj. kr. fyrir næsta ár, en ég veit ekki, hvort það verður meira en 3 millj. á þessu ári, en sjálfsagt ekki stór munur á. En þær millj., sem með frv. nást, hækka varla tekjurnar svo, að nokkrar keilur verði slegnar með því, nema þá að hækka tollana úr hófi fram. En svo er þess að gæta, að hér hefur risið upp nokkur iðnaður í sambandi við þetta. Og á yfirstandandi ári hefur það komið nokkuð við mig, að framleiðendurnir á öli og gosdrykkjum hafa fengið mjög lítið af hráefnum, og hafa þeir kvartað undan því við fjmrn. Segja þeir, að ráðuneytið hljóti að hafa áhuga á því, að ekki verði að loka verksmiðjunum, en það hefur gengið illa að fá áheyrn hjá innflutningsyfirvöldunum, þó að innflutningur þessi og starfræksla falli saman við hagsmuni ríkissjóðs. Þegar þessum atvinnuvegi er íþyngt með tollum, á sama tíma og stórlega eru takmörkuð við hann hráefni, þá má segja, að mjög sé gengið að þessum atvinnuvegi. Einhverjir kunna að segja, að þetta sé óþarfi. En það er það ekki og í öðru lagi löglegur atvinnuvegur, sem hluti landsmanna stundar og ríkið leyfir og skattleggur sér til ágóða. Frekari hækkun á tollum mundi því fremur verða til tjóns fyrir borgarana, en til hagnaðar fyrir ríkissjóð. Þetta þýðir ekki, að ekki séu möguleikar á að hækka tollana eitthvað, þó ég vilji ekki með þeim tollum verða frumkvöðull að því, að menn þessir verði að stöðva framleiðslu sína. En þó gæti komið til mála að hækka þá eitthvað vegna útgjalda, sem Alþ. stendur beint eða óbeint að vegna ábyrgðar fyrir héruð og bæjarfélög. Það verður að líta í fleiri áttir, en öllum þykir gott til þess að ná jafnvægi í tekjum og gjöldum ríkisins. En ef hækka á tekjurnar, finnst mér sjálfsagt að hækka tolla á innlendum lítt þörfum vörum. Sumir þurfa að drekka sherry, en það er samt selt háu verði. En þessar vörur eru að meira eða minna leyti óþarfar, og finnst mér því alrangt að hækka ekki þennan toll meira, ef ríkissjóður er í brýnni þörf, eins og ég held, að hann sé, en það veit ráðherra betur.