16.05.1949
Sameinað þing: 74. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (1564)

42. mál, fjárlög 1949

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það var gaman að sumu hjá hv. 8. landsk. þm., Ásmundi Sigurðssyni, sem ekki átti að vera fyndið.

Sannleikurinn er sá, að aldrei hefur runnið upp eins mikið dýrðar- og stórgróðatímabil fyrir alls konar braskara og þegar kommúnistar réðu um stjórn landsins með þeim frjálslyndu.

Þm. minntist lítillega á þann 30. marz. Kommúnistar höfðu þá í hótunum við þingið. Þeir gerðu tilraun til að beita það ofríki, en höfðu ekkert af nema skömmina. Þetta brennir þá nú eins og eldur og nagar þá innan.

Áður en ég kem að því að ræða um störf ríkisstj. í innanlandsmálum og um þátttöku Framsfl. í henni, vil ég fara nokkrum orðum um utanríkismál. Þau hafa nú um skeið verið ofarlega á baugi með þjóðinni. Kommúnistar halda uppi æðisgengnum áróðri gegn þeirri ákvörðun Alþ., að Ísland gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu. Auðvitað ætti öllum að vera vorkunnarlaust að skilja, að sá áróður er ekki sprottinn af tryggð við íslenzkan málstað eða áhuga á því, að Íslandi sé ekki troðið um tær, heldur er hann sprottinn af þjónustu þeirra við málstað þess ríkis, sem nú ræður Austur-Evrópu og vill hafa lönd í Vestur-Evrópu opin og varnarlaus. Þetta sést þegar af því, þótt ekki sé lengra rakið, að kommúnistar hafa stundum áður beinlínis lagt það til, að Íslendingar gerðust þátttakendur í hervarnarbandalögum þjóða á milli. Sýndi ég fram á þetta með óyggjandi gögnum í síðustu útvarpsumræðum frá hv. Alþ., og var það ómótmælt, sem vonlegt var, af hendi kommúnista.

Atlantshafsbandalagið er stofnað af friðsömum þjóðum til varnar eingöngu. Spurningin var hins vegar sú, hvort Íslendingar ættu heima í slíkum varnarsamtökum og eðlilegt væri, að Ísland tæki þátt í þeim.

Framsfl. mun fyrstur allra flokka hafa ályktað, að Íslendingum bæri að leita sérstaks samstarfs um öryggismál sín við nágrannaþjóðirnar, án þess að erlendur her dveldist í landinu. Þegar til athugunar kom, hvort Íslendingar skyldu taka þátt í Atlantshafsbandalaginu, tók flokkurinn þegar að vinna að því, að slík þátttaka væri útilokuð, ef henni fylgdi skuldbinding um erlendan her á Íslandi eða erlendar herstöðvar á friðartímum, og þá jafnframt þá stefnu, að eðlilegt væri, að Ísland yrði með, ef samvinna um öryggismálin gæti orðið án þessara skilyrða.

Niðurstaðan varð sú, að sáttmálinn gerði einmitt ráð fyrir samvinnu þjóðanna um öryggismál sín, án þess að erlendar herstöðvar væru í þátttökulöndunum á friðartímum. Þess vegna tók Framsfl. afstöðu með því, að Íslendingar gerðust aðilar að bandalaginu. Enginn vafi leikur á því, að Íslendingum er ekki skylt að hafa hér erlendan her á friðartímum né erlendar herstöðvar og ekki skylt að segja öðrum þjóðum stríð á hendur né fara með hernaði, hvað sem í skerst. Sáttmálinn er tvímælalaus í þessu efni og greinilega þess utan tekið fram af Íslendingum, meira að segja við sjálfa undirskriftina, að Íslendingar hafi ekki her, ætli sér ekki að hafa her og gerist ekki styrjaldaraðili. Auk þess er margyfirlýst, að Íslendingar muni ekki leyfa hér erlendan her á friðartímum né erlendar herstöðvar.

Ég mun þá víkja að störfum ríkisstj. að öðru leyti, einstökum vandamálum, sem fyrir liggja, og stjórnmálaviðhorfinu almennt. Ég mun rekja hér nokkuð framkvæmdir og lagasetningar, sem stj. hefur unnið að á þeim rúmum tveimur árum, sem hún hefur starfað, og gera sérstaklega grein fyrir vinnubrögðum framsóknarmanna í stjórnarsamstarfinu, hvað þeir hafa lagt mesta áherzlu á, hvað þeim hefur orðið ágengt og í hverju þeim hefur ekki orðið ágengt.

Ég vil þá fyrst minnast á landbúnaðarmál. Þegar stj. tók við völdum fyrir tveimur árum, var þannig ástatt, að afurða- og verðlagsmál landbúnaðarins voru í höndum lögskipaðs forustuliðs bændastéttarinnar, búnaðarráðs, sem skipað var í beinni andstöðu við bændastéttina og samtök hennar og var þó til þess sett af valdhöfunum að fara með sum þýðingarmestu málefni bændastéttarinnar, þar á meðal afurðasölu og verðlagsmál. Þetta lögskipaða forustulið hafði, þegar hér var komið, haldið þannig niðri verðlaginu á landbúnaðarafurðum, að tekjur bænda voru í fullu ósamræmi við tekjur annarra stétta.

Framsfl. gerði það að skilyrði fyrir stjórnarþátttöku, að lögin um búnaðarráð yrðu afnumin, stéttasamtökum bænda fengin í hendur forusta í afurðasölumálum og sem fyllst völd um verðlagsmál. Þessi löggjöf var sett, og þótt ekki næðist allt, sem vera þyrfti, hafa afleiðingar hennar orðið þær, að hún hefur eflt Stéttarsamband bænda stórkostlega og haft í för með sér, fyrir íhlutun Stéttarsambandsins um verðlagningu, mjög þýðingarmiklar leiðréttingar á verðlagningu landbúnaðarvara til samræmis við þær hækkanir, sem orðið höfðu annars staðar, og til leiðréttingar á því ranglæti, sem áður ríkti.

Þetta hefur haft stórfellda fjárhagslega þýðingu fyrir bændastéttina. Þessa leiðréttingu hafa bændur ekki úrskurðað sér einhliða án íhlutunar annarra. Lokaorðið hefur haft hlutlaus oddamaður frá ríkisvaldinu. En þessar réttarbætur fengust vegna þess, að búnaðarráðskerfið var rifið niður og nýtt byggt upp.

Fyrir rúmum þrem árum stóð Stéttarsamband bænda í stórstyrjöld við ráðandi þingmeirihluta og yfirvöld landsins um að fá til sín það fé, sem með sérstökum lögum og eftir eigin ósk bændastéttarinnar hafði verið safnað frá bændum sjálfum og átti að vera starfsfé stéttarsamtaka þeirra. Þáverandi meiri hluti þings og yfirvöld landsins þóttust sem sé færari um að ákveða, hvernig þessu fé skyldi varið, en samtök bændanna. Undir steininum lá sá fiskur að ofsækja Stéttarsambandið og svelta það fjárhagslega. Á þingi 1948 var þessi fjötur slitinn og sett ný löggjöf, sem tryggði Stéttarsambandinu verulegt starfsfé úr búnaðarmálasjóðnum.

Þegar núverandi ríkisstj. hóf starf sitt, var málum þannig háttað, að útflutningsábyrgð var á bátafiski, en þáverandi þingmeirihluti og yfirvöld höfðu fellt að hafa hliðstætt útflutningsábyrgðarverð á kjöti. Samt hafði ríkisvaldið þá tekið sér rétt til þess að ákveða verðlag á kjöti innanlands, með þeim afleiðingum, sem ég drap á áðan. Við þá verðlagningu var reiknað með fyllsta verði á útflutningskjöti, sem auðvitað ekki fékkst, og afleiðingin því sú, að bændur fengu ekki einu sinni það meðalverð fyrir kjötið, sem stjórnskipað búnaðarráð tiltók. Í dýrtíðarlöggjöfinni nýju um haustið 1947 fékkst það fram, að kjöt var gert hliðstætt bátafiski að þessu leyti. Fékkst þar fram mjög mikilsverð réttarbót, sem varð til þess, að veruleg leiðrétting átti sér stað á kjötverðinu frá því, sem verið hafði áður.

Það vita allir, sem þekkja eitthvað til, að þegar örast voru notaðar innstæður landsmanna erlendis og örast var fest féð, fór landbúnaðurinn mjög varhluta, bæði í úthlutun gjaldeyris og lánsfjár. Fyrir núverandi ríkisstj. hefur ekki verið hægt um vik að bæta úr þessu. Þegar hún tók við, var fjármagnið svo þorrið orðið, að komin var lánskreppa og erlendu innstæðunum öllum ráðstafað. Af þeim 50 millj. kr., sem eitt sinn var talið, að ætti að veita í gjaldeyri til nýrra landbúnaðartækja, hafði aðeins nokkur hluti verið veittur í leyfum, og þegar til átti að taka og greiða tækin, þá var gjaldeyririnn, sem á bak við átti að standa, að miklu leyti eyddur.

Það hefur því orðið að taka af gjaldeyristekjum síðustu tveggja ára til þess að greiða verulegan hluta af þessum leyfum og ekki af öðru að taka en útflutningstekjunum til þess að standa undir vélainnflutningi til landbúnaðarins. Á innflutningsáætlun, sem gerð hefur verið, tókst að koma 6,5 millj. til landbúnaðarvéla, en mikið af þeirri fjárhæð eyddist enn til þess að greiða eldri leyfi, sem voru framlengd, en raunverulega hefði átt að greiða af þeim gjaldeyri, sem fyrir nokkrum árum var lagður til hliðar, en var horfinn, eins og dögg fyrir sólu, þegar til átti að taka. Á árunum 1947 og 1948 var því ekki hægt að ákveða vélainnflutninginn eftir því, hvað hagfelldast var fyrir landbúnaðinn, vegna eldri innflutningsráðstafana, sem þurfti að standa við.

Á yfirstandandi ári tókst að koma 10 millj. kr. inn á innflutningsáætlunina til kaupa á landbúnaðarvélum. Barátta var tekin upp í fjárhagsráði fyrir því að hafa þá fjárhæð nálega 6 millj. kr. hærri með tilliti til Marshallaðstoðarinnar. En sú tillaga hefur ekki enn náð samþykki í fjárhagsráði eða ríkisstj., en því máli verður haldið vakandi. Gæti það ekki talizt ofrausn, þótt á þessu ári væru notaðar 15 millj. til kaupa á landbúnaðarvélum, og væri þá hluti af því tekinn af Marshallfé til jafnvægis við það, sem af Marshallfé hefur þegar farið til annarra atvinnuvega.

10 millj. kr. fjárveiting í sjálfri innflutningsáætluninni er veruleg aukning frá því, sem áður hefur verið. Sérstaklega er rétt að taka það fram, að sú hækkun, sem fékkst í innflutningsáætluninni, hefur leitt til þess, að nú hefur loks verið ákveðið að gefa út innflutningsleyfi og gjaldeyrisleyfi fyrir 67 beltisdráttarvélum til jarðræktarstarfa, og er það sá dráttarvélakostur, sem þarf til þess, að dómi kunnugustu manna, að ræktunarsambönd séu sæmilega búin þessum tækjum. En þessi tæki eru undirstaða allra framfara í landbúnaðinum. Hefur því nú verulegt skref verið stigið fram á við í þessum málum.

Í stjórnarsamningnum var frá því gengið, að sett yrði ný löggjöf um ræktunarsjóð. En vegna þess, hvernig þá var komið um fjárhagsmálin og möguleika til útvegunar á fé, varð þar að stíga minna skref, en framsóknarmenn hefðu viljað. Hefur af þessu orðið nokkurt gagn, en lánsfjárskorturinn er eitthvert stórkostlegasta vandamál landbúnaðarins, og eitt meginhlutverk þeirra, sem hafa skilning á þýðingu landbúnaðarins og áhuga á því, að hann geti þrifizt, er einmitt baráttan fyrir því á næstu missirum, að hæfilegur og viðunandi hluti af fjármagni þjóðarinnar á hverjum tíma sé festur í löngum lánum vegna nýrra framkvæmda í landbúnaðinum.

Við framsóknarmenn teljum, að verulegur ávinningur hafi orðið fyrir landbúnaðinn af þeirri stefnubreytingu í landbúnaðarmálum, sem varð fyrir rúmum tveimur árum.

Á þeim örlagaríku tímum, þegar það var að ráðast, hvort verðbólgan fengi að komast í algleyming eða ekki, lögðum við framsóknarmenn mjög mikla áherzlu á það, hver afleiðing hennar hlyti að verða fyrir sjávarútveginn. Við bentum á, að sjávarútvegurinn væri háður útflutningsverði afurðanna, að stórfelldar hækkanir innanlands hlytu að skella á sjávarútveginum, hann mundi verða í fremstu víglinu, og afleiðingar verðbólgunnar mundu einna fyrst segja til sín í afkomu hans.

Baráttan gegn vexti verðbólgunnar á þeim tíma var baráttan gegn því, að sjávarútvegurinn yrði hrakinn ofan í enn verra forað rekstrarhalla og skulda, en menn höfðu þekkt á tímum Spánarkreppunnar fyrir stríðið. Þetta var ekki nógu vel skilið þá og tómlæti sýnt þessum kenningum. Því fór sem fór. Haustið 1946 var þessum málum þannig komið, að bátaútvegurinn var kominn í sjálfheldu. Þá var engin von um viðunandi afkomu hjá bátaútveginum, nema afurðaverðið væri hækkað um 50%. Slíka hækkun var ómögulegt að fá á erlendum markaði, og þar með stóð allt fast. Menn vildu ekki gera samtök um að lækka framleiðslukostnaðinn. Útgerðarmenn og fiskimenn treystu sér ekki til þess að stunda sjóinn sjáandi fram á það, að jafnvel með góðum afla var ómögulegt að láta endana mætast né hafa það fyrir vinnu sína, sem nálgaðist það, sem þeim var ætlað, sem í landi voru. Lái þeim hver sem vill. Hvernig er hægt að hugsa sér, að það geti staðizt, að mikill hluti landsmanna hafi fastar tekjur, en að sá hluti þjóðarinnar, sem sækir útflutningsverðmætin í hafið, eigi að vinna við þau skilyrði að eiga ekki aðeins sitt undir aflabrögðum, heldur horfa fram á, að þótt menn með ótrúlegu harðfylgi nái góðum afla, þá sé samt engin von um að forðast skuldasöfnun né hljóta lífvænlegan hlut? Því fer svo fjarri, að þetta geti staðizt, að sjávarútvegurinn verður vegna óhappaáranna, sem ætíð koma, að byggjast á verulegum tekjuafgangi í allgóðum árum og glæsilegum hlut, þegar vel árar, samanborið við aðra kosti. Hér hlaut því annað hvort að gerast, að betra jafnvægi yrði komið á milli kostnaðarins við sjávarútveginn og verðlagsins erlendis, eða þá, að tryggja yrði fiskverð, sem gæfi von um viðunandi afkomu, án tillits til markaðsverðs erlendis. Hið fyrra var útilokað. Fyrir því var ekki fylgi. Hið síðara var gert með fiskábyrgðarlögunum, því neyðarúrræði, og Framsfl. var með því af sömu ástæðum og hann fylgdi gengislækkuninni 1939 og öðrum ráðstöfunum, sem fyrr og síðar hafa verið gerðar til bjargar, þegar sjávarútveginum hefur legið á.

Þegar núverandi ríkisstjórn tók við, var nýbúið að samþykkja fisk ábyrgðina, en peninganna hafði ekki verið aflað til þess að standa undir greiðslunum. Það hefur orðið hlutverk þessarar ríkisstj. og þess meiri hluta, sem að henni stendur, að framlengja fiskábyrgðina fram á þennan dag og afla tekna til þess að standa undir henni. Þannig eru á fjárlagafrv, núna ekki undir 40 milljónir, sem eiga að fara í nýjar og gamlar fiskábyrgðargreiðslur. Enn hafa ekki fengizt samtök um nein úrræði, sem gert hafi mögulegt að skipta þar um stefnu. Það hafa því verið lagðir á skattar og tollar, m.a. til þess að halda uppi greiðslum vegna fiskábyrgðarinnar. Þetta ástand er hins vegar jafnóviðunandi fyrir sjávarútvegsmenn og þjóðina í heild. Sjávarútveginum er haldið í sjálfheldu með þeirri háspennu, sem á öllu er innanlands, og settur í þá aðstöðu að standa í samningum og „prútti“ við ríkisvaldið um fiskverðið og nú síðast framlög úr ríkissjóði til þess að halda niðri vissum þáttum framleiðslukostnaðarins. Þessi aðstaða er ósæmileg og óviðunandi, en hins vegar alveg óhjákvæmilegt, að svo hlýtur að standa, þangað til ráðstafanir verða gerðar, sem breyta þannig hlutfalli á milli tilkostnaðar og útflutningsverðs, að afkomuhorfur séu viðunandi fyrir útgerðina og fiskimennina.

Með neyðarúrræðum hefur sjávarútveginum verið haldið gangandi og útflutningnum haldið uppi. Ég segi hiklaust neyðarúrræðum, því að ofan á það, sem þegar er nefnt, virðist þetta kerfi, sem notað er, vera að koma inn þeirri skoðun hjá ýmsum, að bátaútvegurinn, sem leggur til 2/3–3/4 alls útflutningsverðmætisins, sé eins konar ómagi á þjóðarbúinu, svipað því, sem sumir spekingar hafa sagt um landbúnaðinn, sem leggur til mikinn hluta þeirra fæðu, sem landsmenn neyta. Það fyrirkomulag, sem ýtir undir slíkan reginmisskilning og firru, er óalandi, og allt ástand í sjávarútvegsmálum er þannig, að nýrra úrræða er óhjákvæmilegt að leita, og kem ég að því síðar.

Enginn skyldi þó halda, að þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, hafi reynzt eða séu fullnægjandi til þess að koma í veg fyrir samdrátt útflutningsframleiðslunnar. Sannleikurinn er sá, að þrátt fyrir þessar ráðstafanir hefur sjálfur útvegurinn dregizt saman, eldri togurum verið lagt og mörgum bátum einnig víðs vegar um land.

Á því tímabili, sem stj. hefur starfað, hefur orðið að gera allstórfelldar ráðstafanir til stuðnings útveginum í skuldamálum vegna þess, að tvær síldarvertíðir hafa brugðizt, og hefur þetta orðið allfrekt ríkinu, en ekki orðið hjá þeim útgjöldum sneitt, eins og fjárhag útvegsmanna var komið. Á fjárlagafrv. sem nú er verið að afgreiða, standa nær 9 milljónir vegna þessara skuldamála.

Í sambandi við aflabrestinn hefur nú komið skriður á þýðingarmikið málefni, setning löggjafar um aflatryggingasjóð útvegsins, sem verður afgr. á þessu þ. Er þar um mjög merkilegt mál að ræða, og hefur Framsfl. sérstakar ástæður til þess að fagna því nýmæli í löggjöf, þar sem það hefur ætið verið hans áhugamál, að slíkur tryggingasjóður fyrir sjávarútveginn gæti komizt á sem bakstuðningur vegna mikillar áhættu.****

Áður en skilizt er við sjávarútvegsmálin, vil ég segja nokkur orð um kommúnista og afskipti þeirra af þeim. Hvergi kemur lævísi þeirra og óhollusta greinilegar fram. Þeir standa gegn öllum ráðstöfunum, sem gætu orðið til varanlegrar lausnar á vandamálum útvegsins, og þeir gera allt, sem þeir geta, til þess að ýta undir og koma af stað enn stórfelldari aukningu framleiðslukostnaðarins og dýrtíðarinnar. Þeir heimta hærra ábyrgðarverð á fiski, en eru á móti allri tekjuöflun, hvernig sem hún er, til þess að standa undir þeirri ábyrgð, sem fyrir er, — hvað þá nýrri viðbót. Þeir hrópa: Ábyrgðarverðið er of lágt — og jafnhliða, að stj. hafi ekkert að bjóða fólki nema nýjar skattaálögur, sem auki dýrtíðina. Þetta er viðurstyggilegur loddaraleikur, en misheppnaður, — hann er miðaður við of lágt menningarstig og hittir ekki í mark.

Þessu næst vil ég minnast nokkuð á fjárfestingarmálin, framkvæmdirnar í landinu. Í stjórnarsáttmálanum var ákveðið, að setja skyldi á fót fjárhagsráð, er hefði eftirlit með fjárfestingu. Þegar þetta ákvæði var sett, var þannig ástatt, að handahóf réð því, í hvaða framkvæmdir ráðizt var, í hvaða framkvæmdir fjármagni, vinnuafli og gjaldeyri þjóðarinnar var eytt. Það var ekki farið eftir því, hvar þörfin var mest fyrir framkvæmdirnar, heldur réð það eitt í raun og veru, hverjir höfðu tök á fjármagninu. Framkvæmdir höfðu þá verið miklar um tíma, geysileg sóun verðmæta átt sér stað og miklum fjármunum eytt í margs konar framkvæmdir, sem að réttu lagi áttu að bíða. Um þessar mundir vofði yfir allsherjar stöðvun vegna þess, hve mikið hafði verið tekið fyrir, og gjaldeyrir þá á þrotum.

Fjárfestingareftirlitinu er ætlað það vandasama hlutverk að velja úr og leyfa þær framkvæmdir, sem mesta þýðingu hafa, en fresta öðrum. Áhrifanna frá glundroðanum, sem í þessum málum ríkti, gætti svo mjög á árinu 1947, að litlu tauti varð við komið á því ári. Árið 1948 voru skilyrði skárri til þess að beita, hinni nýju stefnu, þar sem minna gætti þá eldri áhrifa. Er því tímabært nú að spyrja, hver árangur hafi, orðið þessa eftirlits.

Ég vil minnast á nokkur höfuðatriði. Bygging lúxusíbúða hefur verið bönnuð. Notkun byggingarefnis í sumarbústaði, bílskúra og steingirðingar umhverfis hús hefur verið bönnuð. Engar íbúðir má byggja stærri en 130 fermetra, byggingu verzlunarhúsa hefur að mestu verið hætt um stundarsakir. Allt á þetta að miða að því, að byggingarefnið verði fyrst og fremst notað til nauðsynlegra íbúðarhúsabygginga, framleiðslufyrirtækja, útihúsabygginga og þýðingarmestu opinberra framkvæmda.

Á því leikur enginn vafi, að ýmiss konar mistök hafa átt sér stað. Það má tvímælalaust deila um einstakar leyfisveitingar, og á því er t.d. enginn vafi, að mikil mistök áttu sér stað á árinu 1948 um ákvörðun á innflutningi á þakefni, svo að stór vandræði hlutust af. Hitt getur ekki leikið á tveim tungum, að með þessu eftirliti hefur bráðnauðsynlegt starf verið unnið, komið í veg fyrir gífurlega eyðslu byggingarefnis í margvíslegar framkvæmdir, sem óþarfar eru og dregið hefðu til sín byggingarefnið, vinnuaflið og fjármagnið, og eftirlitið orðið til þess, að miklum mun meira hefur verið hægt að byggja af íbúðarhúsnæði til sjávar og sveita, af útihúsum og öðrum byggingum vegna framleiðslunnar, en ella hefði komið til mála. Í fyrra var t.d. unnt vegna sparnaðarráðstafana á byggingarefni að veita leyfi til þess að byggja öll íbúðarhús utan Reykjavíkur, sem um var sótt í tæka tíð, og öll útihús í sveitum. Í ár hefur þetta ekki reynzt mögulegt vegna þess, hvað umsóknir hafa verið gífurlega margar, þannig að gersamlega var útilokað, að hægt væri að gera allar þær framkvæmdir á einu ári.

Þótt ýmsum þyki slæmt að fá synjun frá fjárhagsráði og vafalaust séu því mislagðar hendur stundum, þegar velja skal og hafna þá raskar það ekki því, að fjárfestingareftirlitið hefur forðað frá verra öngþveiti í þessum málum en menn yfirleitt gera sér grein fyrir.

Hvernig halda menn t.d., að hefði farið nú, eftir að gjaldeyrisskorturinn fór að gera vart við sig, á sama tíma sem byggingaráhuginn jókst, ef það hefði átt að ráða eitt í þessum efnum, hverjir gátu vegna aðstöðu sinnar náð í byggingarefnið hjá byggingarefnisinnflytjendum eða höfðu peninga í stórhýsi? Hvernig ætli, að farið hefði um byggingarframkvæmdir víðs vegar um landið? Það er nógu slæmt, eins og það er vegna ósamræmis milli fjárfestingarleyfa og innflutningsleyfa. Um þverbak hefði þó keyrt alveg gersamlega, ef fjárfestingareftirlitið hefði ekki verið.

Þegar stj. tók við fyrir rúmlega tveimur árum, var gjaldeyrisskorturinn farinn að gera vart við sig, búið að ráðstafa öllum innstæðum og mjög mikið af gjaldeyris- og innflutningsleyfum í umferð. Innflutningsþarfirnar hins vegar stórfelldar, bæði vegna mikilla framkvæmda og mikillar neyzlu. Sýndi hæstv. forsrh. fram á þetta hér áðan með samanburði sínum á innflutningi fyrr og nú. Þrátt fyrir allmikinn útflutning hefur það verið mjög miklum erfiðleikum bundið að forðast eyðsluskuldasöfnun erlendis. M.a. vegna þeirra ráðstafana, sem gerðar hafa verið á vegum fjárhagsráðs, hefur gjaldeyrisjöfnuður hins vegar verið stórum hagstæðari en áður var. Árið 1945 keyptu bankarnir gjaldeyri fyrir 362 millj. og seldu gjaldeyri fyrir 426 millj. Jöfnuðurinn því óhagstæður um 100 millj. Árið 1946 keyptu bankarnir gjaldeyri fyrir 323 millj., en seldu fyrir 580 millj. Jöfnuðurinn var óhagstæður um 257 millj. Árið 1947 keyptu bankarnir gjaldeyri fyrir 301, en seldu fyrir 468 millj. Óhagstæður jöfnuður 167 millj. Árið 1948 keyptu bankarnir erlendan gjaldeyri fyrir 424 millj., en seldu fyrir 416 millj. Jöfnuðurinn var því hagstæður um 8 millj. kr.

Í innflutningnum er mjög mikið af vörum til nýrra framkvæmda, og hefur það að sjálfsögðu haft mikil áhrif á gjaldeyrisverzlunina. Gjaldeyrisskorturinn er stórfellt vandamál, og þegar allur varasjóður er tæmdur, má ekkert út af bera. Ómögulegt er að sjá, hvernig Íslendingar hefðu farið að því að útvega sér nauðsynjar í dollurum, ef þeir hefðu ekki orðið þátttakendur í Marshallsamstarfinu. Hefur fé fengizt þar með þrennu móti: lán, óafturkræft framlag, sem er verið að byrja að ráðstafa, og vegna vörusölu á vegum Marshallhjálparinnar gegn greiðslu í dollurum. Höfuðatriðið er, að lán þau, sem tekin verða, og óafturkræfa framlagið, sem fæst, verði ekki að eyðslueyri, heldur verði varið til þýðingarmikilla framfarafyrirtækja. Í frv. því, sem stj. hefur lagt fyrir þ. um þetta efni, er svo ákveðið, að óafturkræfa framlagið skuli notað til nýrra framkvæmda samkv. fjögurra ára áætlun ríkisstj. á sambandi við Marshallaðstoðina, annaðhvort dollararnir sjálfir eða jafnvirði þeirra í annarri erlendri mynt. Í framkvæmdinni veltur auðvitað allt á því, að það takist að láta útflutninginn hrökkva fyrir venjulegum innflutningi og menn neyðist ekki til að nota óafturkræfa framlagið úr Marshallaðstoðinni til þess.

Það sýnir auðnuleysi og ósjálfstæði kommúnista, að þeir eru látnir berjast á móti þátttöku Íslands í Marshallsamstarfinu. Þeir eru ekki öfundsverðir af þessu. Hefði þeirra ráðum verið fylgt, hefði enginn Þýzkalandssamningur fengizt fyrir ísfisk, engin sala þangað á freðfiski, svo að dæmi séu aðeins nefnd. Yfirleitt slitið viðskiptasamböndum við lýðræðisríkin í Vestur-Evrópu og orðið að ofurselja sig Rússum til þess að hafa að borða, en það er líka það, sem þeir vilja. Það er gott, að kommúnistar eru svo miskunnarlaust neyddir til þess að fletta sig klæðum í sambandi við Marshallsamstarfið.

Gjaldeyrisskorturinn hefur gert óumflýjanlegan mikinn niðurskurð á neyzluvörum fólks. Af þessu hefur leitt mjög stórfelld vandkvæði, og hafa komið átakanlega í ljós stórfelldir gallar á innflutningsskipulaginu, sem að vísu voru fyrir hendi áður, en minna bar á, vegna þess að gnægð var til af vörum.

Á þeim árum, þegar áhrifa Framsfl. gætti ekki verulega um framkvæmd verzlunarmálanna, hafði innflutningurinn með alls konar bolabrögðum verið færður yfir á hendur kaupmannastéttarinnar frá samvinnufélögunum, sem sjá þó um dreifingu vara til mikils hluta landsmanna. Urðu kaupfélögin að kaupa ýmsar neyzluvörur í stórum stíl hjá heildsölum, ef viðskiptamenn þeirra áttu ekki að vera án þeirra. Vörurnar fengust hins vegar á meðan verið var að eyða innstæðunum og heildsalar fengu mikinn innflutning. En þegar gjaldeyrisskorturinn sagði til sín og takmarka varð innflutning, töldu heildsalar sig yfirleitt ekki hafa vörur afgangs handa kaupfélögunum nema lítið, og sátu kaupmenn þá fyrir, en kvóti samvinnufélaganna stórlega niðurskorinn í mörgum þýðingarmiklum vörugreinum. Kaupfélögin og þeirra viðskiptamenn urðu því að láta sér nægja það litla, rangláta og með öllu ófullnægjandi vörumagn, sem samvinnuhreyfingunni var ætlað, og af því hefur leitt hið frekasta misrétti í garð fjölda landsmanna.

Framsfl. hefur haldið uppi harðri baráttu í viðskiptanefnd, í fjárhagsráði, í ríkisstj. og á Alþ. og allsstaðar þar, sem hann hefur getað því við komið til leiðréttingar á þessu herfilega ranglæti. Sú barátta hefur borið árangur á þann hátt, að þokazt hefur nokkuð til leiðréttingar frá því, sem verst hefur orðið í þessum efnum og gilti, þegar núverandi stj. tók við þessum málum, en fjarri fer því, að viðunandi ástand eða jafnrétti hafi náðst, og enn síður, að skipulagi hafi verið breytt þannig, að til frambúðar geti staðizt.

Framsfl. miðar sínar till. og sína baráttu í þessum málum ekki aðeins við það að rétta hlut samvinnumanna og tryggja rétt samvinnufélaga, heldur vill hann koma á í þessu efni nýrri skipan, sem tryggir frjálsari verzlun og tryggir, að menn fái raunverulega þær vörur, sem þeir eiga rétt á. Hann vill miða innflutninginn á neyzluvörum við skömmtunarseðla, og innflutning byggingarefnis vill hann miða við fjárfestingarleyfi. Enn þá hefur þessu ekki fengizt framgengt, vegna þess blátt áfram, að mínum dómi, að of miklu ráða hagsmunir þeirra, sem telja sér hag í að viðhalda kvótakerfinu. Allur almenningur hefur hins vegar gagnstæða hagsmuni, en hag af því, að tillögur framsóknarmanna nái fram að ganga, bæði þeir, sem verzla við kaupmenn og kaupfélög. Þau úrræði tryggja samkeppni í verzlun og dreifingu vara víðs vegar um landið í samræmi við fólksfjölda.

Framsfl. mun halda baráttu sinni áfram fyrir þessum málum í fullu trausti þess, að menn láti ekki til lengdar fara með sig á þann hátt, sem gert er, og í trausti þess, að þegar menn sjá, að barátta flokksins í þessum málum hefur ekki leitt til nauðsynlegra breytinga vegna mótstöðu annarra, þá komi menn til liðs við flokkinn við fyrsta tækifæri og veiti honum þannig styrk til þess að knýja fram endurbætur.

Ég vil þá minnast nokkrum orðum á afgreiðslu fjárl. á þessu stjórnartímabili. Það byrjaði með því, að núverandi ríkisstj. tók við fiskábyrgðarlögunum án þess, að tekjur væru til þess að standa undir greiðslum, er ábyrgðin hefði í för með sér. Enn fremur neyddist ríkisstj. til þess að auka niðurgreiðslur dýrtíðarinnar og færa vísitöluna þannig úr 316 stigum í 310 stig til þess að örva framleiðsluna veturinn 1947. Jafnt og þétt hafa svo komið fram verðhækkanir, sem stöfuðu af kauphækkunum, sem höfðu verið gerðar áður, og nokkrar erlendar verðhækkanir hafa einnig átt sér stað. Á árinu 1947 koma í fyrsta skipti í fjárlög milljónatugir útgjalda, sem stöfuðu af löggjöf þeirri, sem sett hafði verið 1946. Allt þetta hefur orðið þess valdandi, að afgreiðsla fjárlaga hefur orðið nærri óleysanlegt verkefni, að óbreyttum ástæðum í fjárhags- og atvinnumálum. Þetta er þó tæpast nema það, sem hlaut að verða afleiðing verðbólgunnar.

Dýrtíðargreiðslurnar eru nú á þessum fjárlögum, sem loksins er verið að afgreiða, þegar 41/2 mánuður er liðinn af fjárhagsárinu, milli 60–70 millj. kr. Allir endar hafa verið hnýttir fastir í ríkiskassann, ef svo mætti segja.

Hver hefur svo verið afstaða Framsfl. til afgreiðslu fjárlaganna út af fyrir sig? Það hefur verið fyrsta boðorð flokksins í því efni, að ekki bæri að lækka framlög ríkisins til allra þýðingarmestu framfaramála almennings, svo sem vega, brúa, síma, hafnargerða og ræktunar- og raforkuframkvæmda. Hins vegar yrði að lækka framlög til opinberra bygginga og sætta sig við, að þar verði farið miklu hægar, en gert hefur verið að undanförnu, og framkvæma margs konar sparnað.

Nú hugsar máske einhver: Er þetta nú ekki vafasöm stefna, þegar þess er gætt, hve margt annað hleðst á ríkið og hve illa gengur að ná jöfnuði á fjárlögunum? Þessa afstöðu sína byggir Framsfl. á þeirri skoðun, að ef inn á það væri gengið að lækka framlög til þessara lífsnauðsynlegu framkvæmda, sem eru blátt áfram undirstaða þess, að eðlileg þróun atvinnulífsins víðs vegar um land geti átt sér stað, þá mundi niðurstaðan verða sú, að í dýrtíðarhítina yrði kastað því fé, sem áður hefði til þessara mála gengið, og menn freistuðust blátt áfram til þess að nota þá fjármuni til að velta dýrtíðarbagganum á undan sér enn lengur en ella og um ófyrirsjáanlegan tíma með vaxandi fjáraustri. Ofan á allt annað bættist þá kyrrstaða í allra mest aðkallandi framkvæmdunum. Þetta er byggt á þeirri bjargföstu sannfæringu, að til nýrra stóróhappa dragi, ef framlag til þessara mála væri skert stórkostlega; en til framkvæmda kæmu ekki alhliða ráðstafanir til sparnaðar í ríkisrekstri eða ráðstafanir til þess að losa ríkissjóð við hinar óbærilegu dýrtíðargreiðslur.

Þegar Framsfl. ákvað að eiga þátt í þessari ríkisstj. með þeim stjórnarsáttmála, sem gerður var, þá gerðu menn sér ekki neinar sérstakar gyllivonir um skjótar og stórfelldar ráðstafanir til þess að bæta í einu vetfangi úr því öngþveitisástandi, sem orðið var. Flokknum var og er það ljóst, að það er ekki margra góðra kosta völ. Flokknum hefur ætíð verið það ljóst, að úr ýmsu því versta misrétti, sem verðbólgan hefur skapað, verður aldrei bætt til fulls. Stjórnarþátttaka flokksins byggðist á því, að hann sá, að hann gat þá orkað stefnubreytingu í ýmsum þýðingarmiklum málum, og hann vildi eiga þátt í tilraun, sem gerð yrði til að hindra vöxt verðbólgunnar með þeim úrræðum, sem þá var hægt að fá þá þrjá flokka til að sameinast um.

Um dýrtíðarmálið segir svo í stjórnarsáttmálanum: „Það er hlutverk ríkisstj. að vinna að því af alefli að stöðva hækkun dýrtíðarinnar og framleiðslukostnaðar og athuga möguleika á lækkun hennar.“ Ríkisstj. hefur ekki tekizt að stöðva með öllu hækkun dýrtíðarinnar, þótt leitazt hafi verið við með mörgu móti. Stafar það að dómi okkar framsóknarmanna sumpart af því, að réttum úrræðum hefur ekki verið beitt, en sumpart af því, að afleiðingar þess, sem áður var búið að gera, hafa reynzt of þungar í skauti, til þess að unnt væri að komast hjá nokkrum vexti dýrtíðar af þeim völdum. Einnig kemur hér til, að þrátt fyrir viðleitni ríkisstj. hafa verið knúðar fram nýjar hækkanir, sem komið hafa í bága við stöðvunarstefnuna.

Samt sem áður hefur vísitalan ekki hækkað nema úr 316 í 326 stig á þessu tímabili, og athuganir sýna, að framleiðslukostnaður sjávarútvegsins hefur staðið í stað á árinu 1948, og er það í fyrsta skipti síðan fyrir stríð, að slíkt hefur komið fyrir. Rétt er jafnframt að horfast í augu við það, að vöruskorturinn og ólagið á vörudreifingu hefur fært mönnum að höndum nýtt vandamál, sem er svartur markaður í ýmsum greinum.

Nú er þjóðin enn einu sinni á vegamótum í þessum efnum. Nú skortir ekki raddir, sem segja: Dýrtíðin hefur vaxið í hlutfalli við launin. Nú ber að krefjast og knýja fram launahækkanir. Almenn herferð er undirbúin til launahækkana. Ef í hana verður lagt og hún ber árangur, getur enginn hagur af því orðið samt. Ástandið er þannig orðið, að því meiri launahækkanir sem verða, því meiri skattar — því meiri skerðing vísitölu — því meiri gengishækkun eftir skamma stund — eftir því til hvers gripið verður í neyðinni. — Launasamtökin verða að skilja, að þau verða að leggja orku sína og áhrif í annað. Þau verða að taka alvarlega sínar eigin ályktanir og leggja þungann í að styðja það og krefjast þess, að margs konar ráðstafanir verði gerðar, sem komi í staðinn fyrir kauphækkanir, í verzlunarmálum, húsnæðismálum, iðnaðarmálum, skattamálum og verðlagsmálum. Þau verða að setja þetta fram nú á elleftu stundu og gefa tóm til, að það fái að koma í ljós, hvaða áhrif það hefur á afgreiðslu mála, ef þau beita sér raunverulega á þennan hátt af alvöru og með þunga og setja samræmingaróskir sínar í samband við slíka jákvæða stefnu.

Ástand í fjárhags- og atvinnumálum er þannig, að fjárlög geta ekki orðið afgreidd einu sinni enn á þeim grundvelli, sem fyrir hendi er Þrýstingurinn er svo stórkostlegur og afleiðingar hans svo geigvænlegar fyrir atvinnurekstur, útflutning og innflutning, að það verður heldur ekki mögulegt að sjá borgið fjárhag þjóðarinnar út á við, ef svo fer fram sem nú horfir, hvað þá ef enn verður reist ný dýrtíðaralda. Afgreiðsla þessa þings á fjárhagsmálum og fjárlögum er ljóslega talandi vottur um það, hvernig ástatt er.

Tímabil varnarinnar er liðið. Sóknin verður að hefjast. Framsfl. leggur höfuðáherzlu á, að nú verði ekki sá háttur upp tekinn; sem verið hefur á undanförnum árum, að frá því að fjárlög hafa verið afgr. að vorinu nú upp á siðkastið og þangað til seint á hausti sé aðgerðarlaust í þessum málum. Nú er þannig ástatt, að það er ekki hægt að halda þannig á, og það verður að gera sérstakar vonir um, að það sé nú orðinn jarðvegur til þess að taka öðruvísi á málunum. Það er ekki hægt að bíða nú aðgerðalaust fram á haust eða næsta vetur, og að menn viti ekki, hvort til er meiri hluti á Alþingi fyrir þeim ráðstöfunum, sem geta orðið öflug tilraun til björgunar. Það er ekki hægt að vera aðgerðalaus og eiga það á hættu, að þegar til á að taka næsta vetur, sé ekki samstæða um neitt, aðalmálefnin hrekist mánuðum saman og síðan ókleift að koma saman fjárlögum ríkisins.

Framsfl. leggur því höfuðáherzlu á, að það verði gengið með fullri hreinskilni að ganga úr skugga um það, hvort þeir flokkar, sem nú fara með stjórn landsins, geta komið sér saman um viðunandi ráðstafanir í fjárhags-, dýrtíðar- og atvinnumálum, á þessu sumri, og að þessar athuganir eigi sér stað engu síður, þótt svo fari, að Alþingi hætti störfum um stundarsakir.

Framsfl. leggur megináherzlu á, að gerðar séu allar hugsanlegar skynsamlegar ráðstafanir fyrst og fremst til þess að auka kaupmátt peninganna innanlands, minnka misréttið, sem verðbólgan hefur skapað og gera menn þannig færari um að taka á sig byrðar viðreisnarinnar. Mestum vandkvæðum valda hér húsnæðismálin, og þar hefur verðbólgan hlaðið múr milli þeirra, sem áttu húsnæði fyrir stríð, og hinna, sem nú þurfa að afla sér húsnæðis.

Það þarf að leggja á háan stóríbúðaskatt til þess að auka framboð á leiguhúsnæði, lögbjóða lækkun á húsaleigu, sem ákveðin hefur verið á verðbólguárunum, og veita leigutökum aðstöðu til þess að hafa áhrif á og eftirlit með framkvæmd þeirrar löggjafar, bæta úr því misrétti, sem þeir eiga við að búa, sem aflað hafa sér húsnæðis á verðbólguárunum, með því að taka tillit til þess í skattagreiðslum, leggja þungar refsingar við húsaleiguokri og tryggja barnafjölskyldum forgangsrétt að íbúðum. Þá þarf að aðstoða menn með öllu móti til þess að koma sér upp hentugum íbúðarhúsum, veita mönnum aðgang að ódýrum eða ókeypis teikningum og ódýrum leiðbeiningum og greiða m.a. þannig fyrir þeim, sem byggja yfir sig sjálfir. Afnema þarf hið gegndarlausa álag byggingarmeistara á byggingarkostnaðinn. Láta þá sitja fyrir fjárfestingarleyfum og því fjármagni, sem mögulegt er að sópa saman í hæfilega löng byggingarlán, sem eru að byggja íbúðir handa sjálfum sér í sveitum og við sjó. Láta innflutningsleyfi fylgja fjárfestingarleyfum fyrir byggingar og tryggja mönnum þannig byggingarefni á hinn hagkvæmasta hátt.

Taka verður upp nýja stefnu í verzlunarmálum, sem tryggi neytendum og framleiðendum sem mest frjálsræði um að velja milli verzlana og drepa þannig svarta markaðinn. Þetta er hægt með þeim úrræðum, sem Framsfl. hefur barizt fyrir og berst fyrir. Búa þarf þannig að verksmiðjuiðnaðinum í landinu, að afköst þeirra fyrirtækja, sem hafa góðar vélar, geti notazt, og tryggja um leið verðlækkun á iðnaðarvörum. Herða þarf á verðlagseftirliti, láta samtök neytenda fá fulltrúa við framkvæmd eftirlitsins, skipa fulltrúa frá neytendum með almennum dómurum í verðlags- og gjaldeyrismálum, þyngja refsingar fyrir verðlags- og gjaldeyrisbrot og endurskoða sérstaklega, eins og áður er tekið fram, álagningu í byggingariðnaðinum og álagningu á margs konar aðra þjónustu.

Framkvæma þarf hinn ýtrasta sparnað í opinberum rekstri, taka upp í opinberum stofnunum fullkomna tækni og starfshætti í því skyni, herða á eftirliti með skattaframtölum og setja nýja löggjöf til stuðnings þeim framkvæmdum.

Þessar ráðstafanir og ýmsar fleiri þarf að gera á undan eða jafnhliða öðrum frekari, til þess að tryggja afkomu atvinnuveganna og nægilega atvinnu í landinu. Getur þar verið um að ræða til viðbótar aðallega allsherjar niðurfærslu eða gengislækkun. Jafnhliða þessum ráðstöfunum væri rétt að leggja á stóreignaskatt, og jafnóðum og þessar ráðstafanir bæru árangur, yrði síðan að draga úr höftum ýmiss konar og lækka dýrtíðarskattana eftir því, sem frekast reyndist mögulegt.

Þetta er í höfuðdráttum sú stefna, sem framsóknarmönnum sýnist óhjákvæmilegt, að hrundið verði tafarlaust í framkvæmd. Þetta er sú meginstefna, sem okkur sýnist blátt áfram þjóðarnauðsyn, að sem allra flestir sameinist um, án þess að langur dráttur verði á framkvæmdum.

Framsfl. hefur lagt fram frumvörp og tillögur á Alþingi um einstaka þætti þessara mála og er reiðubúinn að standa að framkvæmd þessarar stefnu. Frumvörpum okkar og tillögum hefur verið misjafnlega tekið eins og áður hefur verið á bent, en flokkurinn mun ekki hætta baráttu sinni fyrir þessari stefnu og hann leggur höfuð áherzlu á það nú, eins og áður er undirstrikað, að þótt svo fari, að Alþingi hætti nú starfi um stundarsakir, þá verði það aðeins um stundarsakir og ekki gert hlé á þessum málum, heldur gengið í það af atorku að ganga úr skugga um, hvort þeir flokkar, sem nú standa að ríkisstj., geta staðið saman um nauðsynlegar óhjákvæmilegar ráðstafanir í þessum málum nú í sumar eða ekki.

Íslenzka þjóðin á mikla eldraun í vændum. Það hefur ekki reynzt neinni þjóð létt verk að komast upp úr verðbólgufeninu, þegar út í það er komið.

Málefnin eru vandleyst mjög, og nauðsynlegar ráðstafanir margar hitta ýmsa harkalega. Ofan á þetta bætist, að víða eru skemmdaröfl að verki. Sérhagsmunaöflin reyna að smjúga og verja sig, og svo eru hinir pólitísku úlfar, sem sitja um bráð. Allir eru þeir á veiðum, þegar úr vöndu er að ráða, flestir í sauðargærum, en gengur illa að dyljast sumum. Þeir eiga það eitt erindi að sá tortryggni og óánægju, egna hvern gegn öðrum, til þess að ekki ráðist við neitt og jarðvegur verði fyrir úlfasamfélagið.

Nú er allt undir því komið, að hægt verði á næstunni að fylkja nógu mörgum saman um réttláta stefnu í dýrtíðar- og fjárhagsmálunum, þar sem höfuðsjónarmiðin eru þau að gera allt, sem með réttu er hægt að krefjast, til þess að tryggja hag almennings og jafnframt óhjákvæmilegar ráðstafanir til þess að rétta við fjárhag ríkisins og atvinnuveganna.