17.05.1949
Sameinað þing: 75. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (1568)

42. mál, fjárlög 1949

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Þegar ég lagði fjárlagafrv. fyrir árið 1949 fyrir Alþingi, en það var um 20 dögum eftir að þingið kom saman í október, lét ég svo um mælt, að ég legði höfuðáherzlu á, að gengið yrði frá greiðsluhallalausum fjárlögum í þetta sinn, svo að komizt yrði hjá frekari skuldasöfnun. Í frv. var gert ráð fyrir, að tekjur ríkissjóðs yrðu 241 millj., rekstrarafgangur 27 millj., en óhagstæður greiðslujöfnuður nam samkv. frv. 396 þús. kr. Var reynt að ná þessum niðurstöðum með það fyrir augum, að fjárhagur ríkissjóðs leyfði ekki frekari skuldasöfnun, enda ekki útlit fyrir, að takast mundi að útvega ríkissjóði frekari rekstrarlán, en þegar eru fengin. Það er rétt að taka það fram, að í frv. var áætlað til dýrtíðarráðstafana aðeins 33 millj. kr., eða allt að því helmingi lægri fjárhæð en eytt var til þeirra ráðstafana á s.l. ári. Þegar ég tala um dýrtíðarráðstafanir í þessu sambandi, á ég bæði við niðurgreiðslur innanlands í því skyni að lækka verð vörunnar til neytenda, uppbætur til bænda og loks útflutningsuppbætur á fisk og fiskafurðir bátaútvegsins og loks kjöt, sem hvort tveggja hefur reynzt nauðsynlegt vegna verðbólgunnar innanlands. Eins og tekið var fram í athugasemdum við frv., var áætlunin ekki höfð hærri en 33 millj. kr. í ofangreindu skyni með það fyrir augum, að þing og stj. tækju til rækilegrar yfirvegunar, hvort ekki væri hægt að draga úr þessum útgjöldum, en ef það þætti ekki tiltækilegt, þá yrði auðvitað að finna nýjar leiðir til tekjuöflunar. Lagði ég sérstaka áherzlu á það í fjárlagaræðunni, að teknar væru til athugunar eins rækilega og unnt væri þær lausnir, í stað fiskábyrgðarinnar, sem L.Í.Ú. hafði á aðalfundi sínum bent á, en þær gengu í stuttu máli út á það, að nægilega mikið af útflutningsverðmætinu yrði selt við hækkuðu gengi og sá erlendi gjaldeyrir, sem þannig væri seldur, væri notaður til innkaupa á vörum, sem ekki eru lífsnauðsynlegar, en eru þó eftirsóttar af almenningi. Sá gengisimismunur, sem þannig kæmi fram, yrði notaður til þess að bæta upp hinn útflutta bátafisk, í stað þess að greiða uppbæturnar beint úr ríkissjóði. Aftur á móti yrði allur sá gjaldeyrir, sem þarf fyrir beinar lífsnauðsynjar, seldur með núverandi gengi.**** 2 umf.

Þessi athugun, sem ég hafði heitið, að fara skyldi fram á málinu, átti sér svo stað, og fram eftir öllu hausti var um það rætt, hvor leiðin skyldi farin í þessu efni, sú, sem L.Í.Ú. og ég hafði bent á og mátti með nokkrum rétti kalla tvöfalt gengi, eða þá hin síðari leiðin, að taka fiskábyrgðina beint sem útgjaldalið ríkissjóðs og afla nýrra tekna til að standa undir tilsvarandi fjárhæð í þessu skyni. Ég þarf ekki við þetta tækifæri að fara öllu lengra út í þessa sálma né lýsa því ástandi, sem var í málefnum sjávarútvegsmanna allt frá haustnóttum til áramóta.

Mörgum hraus hugur við að ganga að nýju undir það jarðarmen að taka ábyrgð á afurðum bátaútvegsins, en jafnvel enn meiri voði virtist vera á ferðum, ef horfa ætti fram á það, að bátarnir gætu ekki sinnt aflabrögðum á vertíðinni eins og að undanförnu. Niðurstaðan varð sú, að ábyrgð var tekin á fiskafla bátanna og að öðru leyti náðist samkomulag við útvegsmenn um ráðstafanir í enn frekari mæli, en áður til að létta undir með bátaútveginum, og var þess ekki sízt þörf nú eftir undangenginn taprekstur á síldveiðunum í fleiri en eitt skipti. Hin endanlega niðurstaða var sú, að ríkissjóður skyldi taka á sig ábyrgðina eins og fyrr, og leiddi hún til þess, að sett voru lög um dýrtíðarráðstafanir. Í þessum lögum voru útgjöldin ákveðin og um leið gerðar ráðstafanir til að afla nýrra tekna til að mæta útgjöldunum. Skyldu þær tekjur renna í dýrtíðarsjóð ríkisins, sem með þessum lögum var ákveðið að mynda, en sjóðurinn aftur standa undir fiskábyrgðinni og kjötábyrgðinni, ef til kæmi, og niðurgreiðslunum.

Eftir að þetta var ákveðið, tók fjvn. dýrtíðarlögin til greina og breytti fjárlagafrv. samkvæmt þeim. Leitazt var við, eftir því sem unnt var, að afla dýrtíðarsjóði tekna á þann hátt að skerða eigi gjaldþol manna til þess að kaupa lífsnauðsynjar sínar, og þó reyndist það ekki að öllu leyti framkvæmanlegt, og á það sérstaklega við um söluskattinn, sem aukinn var í því skyni einu að standa undir útgjöldum til dýrtíðarráðstafana. Hann leiðir vitanlega af sér álag á allar nauðsynjar.

Að þessu sinni skal ég ekki neinu spá um það, hversu haldgóðir þeir tekjustofnar reynast, sem sérstaklega var til stofnað í því skyni að mæta þessum útgjöldum, en ég er því miður ekki bjartsýnn á, að þeir muni allir ná upphaflegum tilgangi sínum. Um þetta leyti var mjög uppi sú hugmynd að hækka benzínskattinn, bæði í framangreindu augnamiði og eins til þess að standa undir kostnaði við viðhald þjóðvega. Dróst það mál úr hömlu, þangað til nú fyrir fáum dögum, að lögin um hækkun á benzínskatti fengust samþykkt í þinginu, en þá var liðinn röskur þriðjungur ársins, og missist við það um 3 millj. kr. af þeim tekjum, sem ég taldi mig um áramót mega gera ráð fyrir, að fengjust á þennan hátt. Það er því alveg skiljanleg gagnrýni, sem fram kom við umræðurnar um það mál í efri deild Alþingis frá sjálfri stjórnarandstöðunni, þegar látin var í ljós undrun yfir því, að úr því að ríkisstj. teldi sér nauðsynlegt að fá þessa skattahækkun á benzíni til ríkisþarfa, þá væri það einkennilegt, að sú nauðsyn hefði ekki verið talin vera fyrir hendi fyrr á árinu.

Við 2. umr. fjárl. lagði fjvn. fram brtt. til lækkunar rekstrarútgjöldum um 6 millj. kr. og fékk þær samþ. að mestu leyti. Lækkanir n. voru gerðar að langmestu leyti á fjölmörgum liðum, sem í frv. eru áætlaðir af ráðuneytunum og byggðir eru á reynslu undanfarinna ára. Það virðist svo sem n. hljóti að hafa ætlazt til þess, að starfsfólki yrði fækkað eða dregið yrði úr kostnaði að skaðlausu, en um það lá enginn ýtarlegur rökstuðningur fyrir frá n. hálfu. Það er því miklum vafa undirorpið, hvaða raunverulegar lækkanir ná fram að ganga samkv. samþykktum Alþingis.

Það er að vísu rétt, sem fjvn. heldur fram og allir taka undir með henni, að þenslan í rekstri ríkisins er orðin meiri, en góðu hófi gegnir. En þegar kvartað er yfir kostnaði við ríkisbáknið, þá er vert að hafa það í huga, að þeim mun meiri opinberar ráðstafanir, sem ráðizt er í, því meiru þarf til að kosta til að framkvæma það, sem talið er nauðsynlegt að gera, og er þetta ekki sagt af því, að ég sé þeirrar skoðunar, að slík opinber afskipti séu alltaf nauðsynleg eða æskileg, heldur þvert á móti, en það er sagt vegna þess, að það þýðir ekki annað en að horfast í augu við staðreyndir. Við 2. umr. flutti fjvn. einnig stórkostlegar tillögur til hækkunar á útgjöldum, auk þeirra, sem dýrtíðarlögin sjálf kröfðust. Hennar hækkanir voru flestar til verklegra framkvæmda, þar á meðal til samgöngumála og raforkuframkvæmda, sem að vísu eru æskilegar, þegar hægt er með góðu móti að leggja í kostnað, sem af þeim leiðir, en þó gætu beðið, þegar eins stendur á með fjárhagslega getu ríkissjóðs og nú.

Ef til vill hefur það haft nokkur áhrif á niðurskurð n. á þeim útgjaldaliðum, sem ég minntist á áðan, að hún hafði stórhækkað ýmsa aðra liði frv., enda varð niðurstaðan sú, að eftir atkvgr. við 2. umr. fjárl. hafði greiðsluhallinn hækkað úr 396 þús., eins og hann var í stjórnarfrv., upp í rúmar 30 millj., sem eðlilegt er að vísu, þegar þess er gætt, hvaða stefna varð ofan á varðandi tekjuöflun til að greiða fiskábyrgðina og dýrtíðarniðurgreiðslur. Þessi rúmlega 30 millj. króna greiðsluhalli, sem frv. sýndi eftir 2. umr., varð ekki óverulegri fyrir það, að ýmsar þær hækkanir, sem samþ. voru af útgjöldum varðandi rekstur, eins og áður segir, munu tæplega reynast raunhæfar nema að litlu leyti. Ég vil samt sem áður kannast við það, að þótt æskilegt hefði verið og sjálfsagt, að lækkanir varðandi reksturinn hefðu verið viðurkenndar af ráðherrum þeim, er fara með hins ýmsu rn., hverjum fyrir sig, og þannig fengist fyrirheit þeirra um að taka þær til greina innan takmarka hins mögulega, þá er sá ákveðni vilji, sem með þessum lækkunum virðist koma fram hjá fjvn., talsvert aðhald fyrir ríkisstj. í heild að gera sitt ýtrasta til þess, ef ekki á þessu ári, þá því næsta, að færa niður rekstrarútgjöld í rn. og ríkisstofnunum.

Ég hef leitazt við, bæði í viðræðum þeim, er ég hef átt við fjvn., og eins undir meðferð málsins á þingi við allar umr., að halda fast fram þeirri stefnu, er ég lýsti í öndverðu, sem sé að afgreiða fjárl. greiðsluhallalaus. Þótt slíkt hafi áður oft átt sér stað, og seinast á s.l. ári, að afgr. fjárl. með stórkostlegum greiðsluhalla, þá má um það segja, þó að það eigi ekki við s.l. ár, að það hafi verið hættu minna að gera slíkt, þegar vitað hefur verið, að tekjuáætlunin hefur verið það varlega gerð, að fyrir fram var vitað, að miklar umframtekjur mundu koma. Mér hefur ávallt verið ljóst, að nú væri allt öðruvísi ástatt. Hinir auknu skattar, sem svo mjög hafa verið gagnrýndir, hafa verið lagðir á, ekki af því, að ríkisstj. hafi haft neina ánægju af að gera það, heldur af illri nauðsyn. Ég hef viljað forðast að ganga lengra á þeirri braut, en óhjákvæmilegt væri, en eina leiðin til þess að þurfa ekki að ganga hart að borgurum landsins í þessu skyni er sú, að gjöldunum sé stillt í hóf, en sé þeim það ekki, þá verður afleiðingin sú, að álögurnar verða að sama skapi úr hófi fram. Sá, sem ber ábyrgð á afgreiðslu fjárlaga, hlýtur að leggja á það höfuðáherzlu, að ekki sé til þess stofnað í upphafi, að stór mismunur verði ríkinu í óhag á útkomu hvers árs.

Með þeim samkomulagstillögum í ríkisstj. til hækkunar og lækkunar, áður en endanleg atkvgr. fór fram nú í 3. umr. fjárlaganna, var svo til ætlazt, að í stað greiðsluhallans yrði hagstæður greiðslujöfnuður um nokkur hundruð þúsund krónur. Með þetta fyrir augum gerði ég brtt. um hækkun á tekjuliðunum, þar sem teflt er út á yztu nöf, og má ekki út af bera í neinu.

Hækkunin á verðtolli og vörumagnstolli er gerð á þeim forsendum, að innflutningsáætlun sú, sem fjárhagsráð hefur gert fyrir þetta ár, verði framkvæmd að öllu leyti, og er miðað við hana sem lágmarksinnflutning. Tekjur af þessum innflutningsliðum hafa verið reiknaðar út af þeim mönnum, sem færastir eru í útreikningi tolltekna. Hækkunin á einkasöluvörum ríkisins er m.a. byggð á hækkuðu vöruverði bæði hjá áfengis- og tóbaksverzlun, benzínhækkunin á hinum nýju lögum varðandi benzínskattinn o.s.frv.

Mér var það ljóst, þegar ég lagði þessar brtt. fram, að þar er gengið á þunnum ís og getur breytzt mjög til hins verra, ef atvinnulíf þjóðarinnar af einhverjum orsökum verður fyrir því áfalli á þessu ári, að ekki sé næg gjaldeyrisöflun fyrir hendi til að standa undir innflutningi þeim, sem áætlunin gerir ráð fyrir. Á fleira mætti benda, sem getur talizt veikt í þessum tillögum, þó að ég sleppi því nú.

Á s.l. ári var sá varnagli sleginn við afgreiðslu fjárlaganna, að fjmrh. fékk heimild til þess, ef nauðsyn bæri til, að draga 35% af útgjöldum, sem ekki ættu sér stoð í öðrum lögum en fjárlögum, og var sú heimild notuð á s.l. ári að töluverðu leyti, og létti það að sama skapi undir fyrir ríkissjóði.

Ég leitaði eftir því í ríkisstj. nú að fá sömu heimild í hendur, en fyrir það var þvertekið af einum samstarfsflokknum. Var talið, að ekki væri unnt að draga úr verklegum framkvæmdum, af því að svo langt væri liðið á árið, og þegar þannig var tekið í málið, að ekki gat náðst eining um þetta atriði, þá sá ég ekki til neins að fara að gera það að þrætumáli á Alþingi. Ákvörðun um nokkurn samdrátt í þessu efni sökum fjárhagsörðugleika ríkissjóðs var tekin miklu síðar á árinu í fyrra. Ég tel því, að vel hefði mátt hafa þessa öryggisráðstöfun handbæra og að meðráðherrum mínum hefði verið óhætt að treysta því, að ég mundi ekki beita henni harkalega. Fyrir því tel ég, að þeir hafi fengið næga reynslu á s.l. ári, en þetta atriði verður enn til þess að gera fjárhagsafkomu þessa árs ótryggari en ástæða hefði verið til.

Áður en atkvgr. við 3. umr. frv. fór fram og ljóst var, hve miklar og háar brtt. einstakra þm. lágu fyrir, gerði ég ásamt tveim meðráðherrum mínum ýtarlegar ráðstafanir til þess að standa á móti því, að frv. yrði hrakið af þeirri leið, sem til var stefnt með samkomulagstilraunum ráðherra hinna þriggja flokka, eins úr hverjum flokki, og fyrir lágu í brtt. fjvn., sem hún flutti að beiðni ríkisstj. við 3. umr. málsins, en sú leið stefndi að því marki að afgreiða fjárlögin greiðsluhallalaus. Árangurinn varð nú samt sem áður ekki betri en svo, að samþ. voru við 3. umr. nýjar hækkunartillögur einstakra þm. snertandi bein útgjöld um 800–900 þús. kr.

Þetta verð ég að játa að urðu mér mikil vonbrigði. Niðurstaðan varð því sú, að greiðsluhallinn reyndist um 1/2 millj. kr. í stað hagstæðs greiðslujafnaðar. Mér voru þetta meiri vonbrigði fyrir þá sök að ég tel, að stuðningsflokkar ríkisstj. hefðu mátt vita það, að það var ekkert síður allrar ríkisstj. vegna en sjálfs mín vegna, að ég barðist fyrir því að fá frv. afgr. án greiðsluhalla.

Við afgreiðslu fjárlagafrv. voru samþ. margir liðir á 22. gr., sem eru um heimildir til ýmissa hluta, þar á meðal til þess að greiða fé beint úr ríkissjóði í ýmsu skyni. - Ég lýsti yfir því við 2. og 3. umr. málsins, að þótt slíkar heimildir yrðu samþ., teldi ég það ekki fært að inna slíkar heimildargreiðslur af hendi fyrr en séð yrði, að nægilegt fé yrði tiltækilegt til þess að standa undir greiðsluskyldum á rekstrargreinum fjárlaganna og á 20. gr. Þetta vil ég endurtaka nú. Og þar sem nú hefur af ástæðum, er ég greindi hér áður, fallið niður sú heimild, sem oft hefur áður verið í fjárlögum og ég núna taldi eins nauðsynlega og jafnvel nauðsynlegri en oft áður, sem sé það, að fjmrh. hafi vald til að draga úr útgjöldum, sem ekki eiga sér stoð í öðrum lögum en fjárlögum, þá verður það enn þá brýnna að umgangast allar heimildir til greiðslu á fé úr ríkissjóði með sérstakri varfærni.

Ég ætla, að það hafi þótt góð tíðindi öllu landsfólkinu, þegar forsrh. boðaði það í útvarpsræðu sinni í gærkvöld, að ríkisstj. hefði til athugunar að hætta skömmtun á kaffi, kornmat og benzíni. Þessari athugun verður vonandi hraðað, og erum við ráðherrar Sjálfstfl. þess mjög fýsandi og höfum lengi verið, að slakað yrði til á þessu sviði. Enn fremur er ástæða til að fagna því, sem forsrh. líka lagði áherzlu á, að á þessu ári yrði mun meiri áherzla lögð á innflutning á alls konar neyzluvarningi en áður hefur verið, og var það líka orð í tíma talað. Annars sýndu þær tölur, sem forsrh. nefndi, mjög greinilega, að því fer víðs fjarri, sem stjórnarandstæðingar hafa haldið fram, að núverandi ríkisstj. hafi dregið úr öflun hinna svokölluðu nýsköpunartækja. Það sanna er í málinu, að stj. hefur að mínu áliti dregið of mikið úr innflutningi almenns varnings, sem hvert heimili á landinu þarfnast, til þess að geta haldið við og jafnvel aukið innflutning nýsköpunartækjanna.

Á það hefur verið minnzt í þessum umræðum, að innflutnings- og gjaldeyrishöftin varðandi allan innflutning til landsins og gjaldeyri landsmanna hafi fyrst verið sett á 1934. Fram að þeim tíma var innflutningurinn að mestu leyti frjáls, og bar þá miklu minna á vöruskorti en oft hefur orðið síðan gjaldeyris- og innflutningshöftin voru sett.

Á það hefur verið bent við umræðurnar, að hér hafi nú myndazt hættulegt ástand í verzlunarmálunum, sem stendur í beinu sambandi við hinar ströngu innflutningshömlur og skömmtun, en það er svokallaður svartamarkaður. Ég tel þetta mjög alvarlegt og leitt á allan hátt og að eina leiðin til þess, að slíkir verzlunarhættir stöðvist, sé sú, að gefa innflutninginn svo frjálsan sem ástæður frekast leyfa á hverjum tíma. Um þetta hefur oft verið deilt og þeir, sem mest aðhyllast haftastefnu í innflutningsmálum, hafa getað bent á ýmsa agnúa á hinu frjálsara fyrirkomulagi, sem ég viðurkenni líka að því fylgja, t.d. hættan á að einstakir innflytjendur hlaði á sig gjaldeyrisskuldum, sem að síðustu verði að opinberri tilhlutun að leysa af hólmi. Þetta mun nú vera aðalhættan við frjálsari athafnir í innflutningsverzluninni, en hitt, sem nú er komið á daginn, svartamarkaðsbraskið, sem svo er nefnt, þrífst aðeins í skjóli innflutningshafta og strangrar skömmtunar. Mér virðist, þegar allir sjá þær afleiðingar hafta og skömmtunar, sem ég hef hér drepið á, þá sé það næsta furðuleg ráðstöfun til lagfæringar á ástandinu, þegar menn vilja lögfesta, að innflutningsheimild byggist á skömmtunarseðlunum, eins og fyrir liggur í frv. því frá framsóknarmönnum, sem nú er flutt á Alþingi. Þeir, sem ætla, að þarna sé leiðin út úr ógöngunum, ættu helzt ekki að kvarta yfir svartamarkaðsverzlun, því þá fyrst kæmist hún í algleyming, þegar hver maður gengi með innflutningsheimild upp á vasann, sem vel gæti orðið ein braskvaran til viðbótar á hinum svarta markaði.

Við þetta tækifæri, þegar um fjárhag ríkisins er að ræða, kemst ég ekki hjá að minnast á það, að einn stjórnmálaflokkurinn, Framsfl., hefur í aðalblaði sínu, Tímanum haldið uppi þrálátum árásum á mig og sakað mig alveg sérstaklega um það, hversu ástatt er nú um fjárhag ríkisins og afgreiðslu fjárlaga. Hámarki náði þessi áróður Tímans gegn mér eftir afgreiðslu fjárlagafrv. við 2. umr., er fram fór þann 12. apríl. Þann 14. apríl birtir Tíminn einn sinna alkunnu svartleiðara og „talar þar svart“, svo að úr hófi keyrir. Er þar meðal annars fullyrt á tveimur stöðum að minnsta kosti, að fjmrh. hafi lagt fjárlagafrv. fyrir þingið með tugmilljóna greiðsluhalla og ekki bent á neina tekjuöflunarleið á móti. Hvað á nú svona ósannindavaðall að þýða? Frv. var lagt fyrir þingið með aðeins 396 þús. kr. greiðsluhalla, en ekki neinum tugmilljónahalla. Að sjálfsögðu var ekki í upphafi gert ráð fyrir allri þeirri upphæð, sem síðar reyndist nauðsynlegt að áætla til dýrtíðarráðstafana, því að aðstoðin til útvegsins var ákveðin síðar. Má einnig geta þess, að ég benti strax á leiðir til þess að létta þessum útgjöldum af ríkissjóði.

Það er á engan hátt ósk mín að hefja innbyrðis deilur um fjármálastjórnina milli stjórnarflokkanna, en ég vænti þess, að enginn lái mér það, þótt ég láti margendurteknar blekkingar Tímans ekki endalaust afskiptalausar. Veit ég að vísu, að árásir þessar munu ekki runnar undan rifjum ráðherra Framsfl., en allt fyrir það eru þær sízt til þess fallnar að styrkja stjórnarsamstarfið. Það ætti að vera hverjum manni augljóst, að í samsteypustjórn getur fjmrh. ekki nema að takmörkuðu leyti mótað fjármálastefnuna, því að hætt er við, að samstarfið færi fljótt út um þúfur, ef ráðherra eins samstarfsflokksins ætti að öllu leyti að ráða fjármálastjórninni. Það er því í mesta máta ómaklegt af aðalblaði Framsfl. að telja hið erfiða ástand í fjármálum ríkisins algerlega sök ráðherra Sjálfstfl. Er enda sennilegt, að blaðið vildi eigna sínum ráðherrum fyllilega bróðurpartinn af því, ef tækist að koma fjármálunum á öruggan grundvöll. Það væri fróðlegt að fá að vita, hvaða eyðslu ráðherrar Framsfl. hafa beitt sér gegn, en fjmrh. viljað samþykkja, og hvaða sparnaðartillögur þeir hafa komið með, en ég lagzt á móti? Ég segi þetta ekki í því skyni að bera neinar sakir á þessa samráðherra mína, en þetta er atriði, sem þjóðin á í rauninni kröfu til að fá að vita, vegna þeirra staðhæfinga Tímans, að öll vandræðin í fjármálastjórn ríkisins séu persónulega mín sök. Kann þó að vera, að þessa sé ekki þörf, því að öll þjóðin veit, hvern hug viss hluti Tímaliðsins ber til núverandi stjórnarsamstarfs og það jafnvel sinna eigin ráðherra í stjórninni, og mun því meta sannleiksgildi Tímaskrifanna í samræmi við það.

Þegar litið er á hinar hatrömmu árásir kommúnista á ríkisstj. fyrir aukin útgjöld ríkissjóðs og nýjar álögur á þjóðina til að mæta hinum auknu útgjöldum, mætti ætla, að þeir hefðu gert víðtækar tillögur um lækkun útgjaldanna, til þess þannig að koma í veg fyrir auknar skattaálögur. En það er nú eitthvað annað. Við 2. umr. fjárlaganna nú báru kommúnistar einir fram hækkunartillögur við fjárlagafrv., sem námu samtals 21.4 millj. kr., og við 3. umr. lögðu þeir fram till. um 192 millj. kr. útgjaldahækkun. Auk þessa voru þeir meðflm. margra tillagna annarra um aukin útgjöld. Hitt láðist kommúnistum aftur á móti, að benda á leiðir til þess að afla þessara milljónatuga, en torvelt er að sjá, hversu hefði átt að fá þetta fé nema með enn auknum álögum á þjóðina, því að ekki báru kommúnistar fram neinar tillögur til sparnaðar á öðrum liðum fjárlagafrv. En þetta hátterni kommúnista er í fullu samræmi við ábyrgðarleysi þeirra við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1948. Þá vildu þeir hafa útgjaldahlið fjárlaganna 20 millj. kr. hærri, en hún að lokum var ákveðin og réðust með sama offorsi á ríkisstj. fyrir há ríkisútgjöld og auknar álögur á þjóðina.

Hefðu kommúnistar komið fram vilja sínum, hefði útgjaldahlið fjárlaganna þessi 2 ár orðið samtals um 40–50 millj. kr. hærri. Hver heilvita maður hlýtur að sjá, að slíkt hefði þýtt stórauknar álögur á þjóðina frá því, sem nú er, og mun þó flestum þykja ærið nóg. Þegar þetta framferði kommúnista er haft í huga, er dálítið kaldhæðnislegt að lesa stóryrtar fyrirsagnir Þjóðviljans um það, að ríkisstj. ætli að auka álögur á þjóðina um 35–40 millj. kr., því að þetta er einmitt það, sem þeir sjálfir vildu, og meira en það, því að samþykkt tillagna þeirra til hækkunar nú í ár hefði ekki aðeins gert óumflýjanlegt að auka álögurnar um 40, heldur 60 millj. kr. Raunar hefði þó þessi upphæð getað orðið mun hærri, því að bæði nú og í fyrra greiddu kommúnistar atkvæði með svo að segja hverri einustu brtt. við fjárlögin, sem stefndi að auknum útgjöldum fyrir ríkissjóð.

Þjóðviljinn prentar í dag með feitustu fyrirsögnum sínum þá fregn, að Dagsbrún hafi sagt upp samningum. Þeim þykir þar hvalur rekinn á sínar fjörur. Sérhvert verkfall er þeim feginsefni. Stöðvun atvinnulífsins, þrot þjóðarbúsins, atvinnuleysi og fátækt, það er þeirra draumur og á að varða veg þeirra inn í hið fyrirheitna land, ríki öreiga, sem stjórnað sé af einræði kommúnista. Hingað til höfum við ekki búið við atvinnuleysi síðan fyrir stríð. Ríkisstj. og atvinnurekendur hafa verið samtaka í því að bægja atvinnuleysi frá, og maður mætti ætla, að verkamenn og konur sæju sinn hag í því að stuðla að því að sínu leyti, að truflanir atvinnulífsins yrðu sem minnstar. Verkföll og vinnustöðvanir eru alltaf til stórtjóns fyrir framleiðslustörf þjóðarinnar, en framleiðslan er undirstaðan að kaupum lífsnauðsynja og velmegun allri. Fallandi verðlag er á heimsmarkaðinum á ýmsum framleiðsluvörum Íslendinga. Afkoma þjóðarinnar hvílir þess vegna ekki á traustum grundvelli hvað snertir afurðasölu vora utanlands. Tilkostnaður framleiðslunnar innanlands er geysihár, og má það sízt breytast til hins verra. Umfram allt er þessari þjóð það nauðsyn, að atvinnulíf hennar gangi skrykkjalaust að svo miklu leyti sem mennirnir fá við ráðið. Við höfum nóga erfiðleika samt, svo mjög sem framleiðslan er háð tíðarfarinu, samkeppni á hinum erlenda markaði og verðlagsbreytingum, sem við höfum ekki vald á.

Þetta allt ætti að vera okkur nægileg áminning um að meta starfsfrið meir en vinnudeilur. Enginn má sköpum renna. Íslendingum verður oft vandratað meðalhófið. Á Sturlungaöld missti þjóðin sjálfstæði sitt vegna átakanna um völdin meðal höfðingja landsins. Þjóðin hefur nú öðlazt pólitískt sjálfstæði, en hún á það á hættu að missa fjárhagslegt sjálfstæði sitt, ef atvinnustöðvun, verkföll og dellur verða hér ríkjandi. Við það fer meira verðmæti forgörðum en þjóðin hefur efni á að missa, því að nú þarf hver sú þjóð, sem ekki vill verða á eftir í samkeppninni, að stunda vinnu sína í friði, svo að hagur almennings blómgist og þjóðfélagið dafni.