17.05.1949
Sameinað þing: 75. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í B-deild Alþingistíðinda. (1569)

42. mál, fjárlög 1949

Steingrímur Aðalsteinsson:

Þegar rætt er um störf og stefnu hæstv. núverandi ríkisstj., má ekki gleyma því, að þetta er alþýðuflokksstjórn — fyrsta stj. Alþfl. á Íslandi. Að vísu er hér um sambræðslustjórn að ræða, en það verður ekki af henni skafið, að hún er mynduð fyrir forgöngu Alþfl. og undir forsæti hins mikla formanns þess flokks. Formlega séð er það því Alþfl., sem hefur forustuna í þessu stjórnarsamstarfi og ætti þess vegna að ráða mestu um stjórnarstefnuna. — Þessu mega launastéttirnar ekki gleyma, heldur hafa hliðsjón af því, þegar þær meta störf og stefnu þessarar stj. og marka afstöðu sína til hennar.

Það er líka svo, að ekki vantaði alþýðuflokksbragðið af ýmsum stefnuskrárloforðum stj., þegar hún tók við völdum. - Ég hef ekki tíma til að rekja alla stefnuskrána, en verð að láta mér nægja að nefna nokkur dæmi.

Eins og vænta mátti ætlaði þessi ríkisstj. Alþfl. að tryggja góð og örugg lífskjör allra landsmanna og áframhaldandi velmegun. Það átti að tryggja öllum vinnandi mönnum „réttlátar tekjur“. Það átti að tryggja öllum verkfærum mönnum næga og örugga atvinnu. Það átti að berjast í líf og blóð gegn dýrtíðinni og tryggja fólkinu ódýrar neyzluvörur og framleiðendum ódýrar rekstrarvörur með því að láta aðeins þá innflytjendur fá innflutningsleyfi, sem bezt og hagkvæmust innkaup gerðu, — og með því að skipuleggja svo hagkvæma og ódýra vörudreifingu innanlands sem frekast er unnt.

Hin fögru loforð voru miklu fleiri en þetta. En því miður hefur einnig orðið alþýðuflokksbragð af efndunum, það gamalkunna bragð þessa flokks að svíkja flest sín veigamestu loforð við alþýðu þessa lands.

Hvernig hefur ríkisstj. Alþfl. farið að því að tryggja landsmönnum góð og örugg lífskjör og áframhaldandi velmegun?

Með því t.d. að halda aldrei svo heilög jól, að hún hefði ekki fyrst lagt nokkra tugi milljóna króna í tollum og sköttum á landslýðinn. Eitt af hennar fyrstu verkum var að hækka allan vörumagnstoll um hvorki meira né minna en 200% — og allan verðtoll um 65%. Gjald af innlendum tollvörutegundum hefur ríkisstj. látið hækka tvisvar til þrisvar á hverju þingi. Þannig er t.d. tollur af hverju kílói af suðusúkkulaði kominn upp í kr. 5,78. Til þess að auka á þægindi húsmæðranna — og þar með á öryggi heimilanna — hefur þessi ríkisstj. lagt sérstakan og þungan skatt á innflutning heimilisvéla. Fyrir hvers konar rafmagnstæki til heimilisnota, önnur en eldavélar og þvottavélar, þarf þannig að greiða fyrir innflutningsleyfið upphæð, sem er jafnhá kaupverði vörunnar. Af leyfum fyrir þvottavélum þarf að greiða sem svarar helmingi kaupverðs þeirra. Söluskatt hefur ríkisstj. látið setja á allar vörur og hvers konar þjónustu — og hækkar þennan skatt ár frá ári. Hina bráðnauðsynlegu vöru, benzínið, hefur ríkisstj. sett í flokk með brennivíni og tóbaki, sem eins og kunnugt er eru ásamt tollunum aðaltekjustofnar ríkisins — og stöðugt vaxandi, með sífellt hækkuðu verði á þessum vörum. — Í tíð núverandi hæstv. ríkisstj. hefur aðflutningsgjald á benzíni hækkað um hvorki meira né minna en 46,2 aura á hvern lítra, og er nú komið upp í 64,2 aura á litra. Reiknað er með, að benzínnotkun önnur en flugvélabenzín — nemi 40 millj. lítrum á ári, og verða þá árlegar tekjur ríkisins þar af tæpar 26 millj. kr., en það er um leið sú upphæð, sem með þessum hætti er tekin, að sumu leyti beint af þeim, sem benzínið nota á farartæki sín og vélar, en að hinu leytinu að krókaleiðum af almenningi með hækkuðum flutningsgjöldum.

Álögur hæstv. núverandi ríkisstj. á almenning eru óteljandi, — og skal ég ekki þreyta hv. hlustendur með frekari upptalningu. En þær álögur, sem henni með þessum hætti hefur tekizt að leggja á landslýðinn, nema nú orðið mikið á annað hundrað milljóna króna á ári. Mun tæplega þurfa að segja alþýðu manna, hversu mikið öryggi í þessu felst um áframhaldandi velmegun hennar. — Það mun alþýðan bezt finna sjálf í daglegu lífi sínu.

En hvað hefur fyrsta stj. Alþfl. á Íslandi gert til þess að tryggja öllum vinnandi mönnum „réttlátar tekjur“?

Því er fljótsvarað: Jafnframt því sem allar meginaðgerðir hennar hafa miðað að því að stórauka dýrtíðina í landinu, þannig að rétt reiknuð vísitala væri — samkv. áliti viðurkenndra hagfræðinga — nokkuð á fimmta hundrað stig, hefur hún lögbundið kaupgjaldsvísitöluna við 300 stig og þannig brotið löglega gerða kaupgjaldssamninga verkalýðsfélaganna við atvinnurekendur og svipt vinnandi menn og konur meira en fjórða hluta þeirra atvinnutekna, sem þeim að réttu lagi bæri samkv. kjarasamningum sínum.

Til viðbótar þessu hefur svo hæstv. ríkisstj. nú allra síðustu dagana gefið út löggiltan mælikvarða á það, hvað teljast skuli „réttlátar tekjur“ vinnandi fólks. — Þetta hefur hún gert í sambandi við afnám kjötuppbótarinnar, en það er nú ein tekjuöflunarleið hv. ríkisstj. að fella niður sem næst helmingi þeirrar kjötuppbótar, sem mönnum hefur verið greidd undanfarið. Í rökstuðningi sínum fyrir þessu fangaráði heldur ríkisstj. því fram, að samkv. þessari lagasetningu hennar verði kjötuppbótin tekin aðeins af þeim, sem hafa það háar tekjur, að þeir séu aflögufærir. Hinir, sem aðeins hafa „réttlátar tekjur“, eiga aftur á móti að halda sinni kjötuppbót. — Já, svo er nú það! En hverjir eru þessir réttlátu?

Jú, sjáum nú til: Einstaklingur, sem ekki hefur hærri tekjur en 7.087 kr. á ári, fær að halda sinni kjötuppbót. Að kjötuppbótinni meðtalinni verða þá árstekjur hans 7.300 kr. Það er — samkv. hinum löggilta mælikvarða fyrstu ríkissj. Alþfl. á Íslandi — „réttlátar tekjur“ handa vinnandi einstakling. 608 kr. á mánuði er réttlátt að einhleypur maður, karl eða kona hafi fyrir öllum lífsþörfum sínum: fæði, fatnaði, húsaleigu o.s.frv.

Þegar litið er á þennan mælikvarða hæstv. ríkisstj., er sannarlega ekki að undra, þótt hæstv. forsrh., formaður Alþfl., hafi tekið þunglega kröfum opinberra starfsmanna um 15% launahækkun og talið hana til þess eins fallna að æsa vinnandi fólk upp til þess að gera kröfur um kaup, sem engan veginn samrýmist þessum hugmyndum hæstv. ríkisstj. um „réttlátar tekjur“ vinnandi fólks. Og í fullu samræmi við þessar skoðanir flokksformannsins er það, að nú við afgreiðslu fjárlaganna greiddi enginn þm. Alþfl. atkv. með till., sem form. Sósfl. flutti um það að greiða opinberum starfsmönnum 25% uppbót á laun þeirra. Hitt á svo eftir að sýna sig, hvort opinberir starfsmenn og önnur alþýða þessa lands taka gildan mælikvarða hæstv. ríkisstj. um það, hvað sé réttlæti í þessu efni. Hinar almennu uppsagnir verkalýðsfélaganna á kjarasamningum sínum benda til, að svo muni ekki verða.

Svo átti að tryggja öllum verkfærum mönnum næga og örugga atvinnu. — Hvernig hefur það verið gert?

Þannig t.d., að verulegur hluti iðnaðarins hefur verið stöðvaður eða stórlega dregið úr framleiðslugetu hans vegna vöntunar á efnisvörum. sem í ýmsum tilfellum hefur stafað meira af slóðaskap skriffinnskubáknsins í stjórn innflutningsmálanna heldur en af skorti á gjaldeyri. Húsbyggingar hafa að miklu leyti verið stöðvaðar, með neitun um fjárfestingarleyfi og innflutning byggingarefnis. Nýsköpunin frá stjórnarþátttökutímabili Sósfl. hefur verið stöðvuð. Meira að segja nýsköpunartogararnir voru bundnir við landfestar hálfan annan mánuð, þann hluta þessa árs, sem mest hagnaðarvon var af útgerð þeirra.

Þannig er atvinnuöryggið í tíð hæstv. núverandi ríkisstj., enda hefur atvinnuleysið — mesti óvinur hins vinnandi manns — á ný hafið innreið sína.

Loks er baráttan gegn dýrtíðinni, sem vera skyldi höfuðverkefni þessarar hæstv. ríkisstj. Ég hef áður minnzt á tekjuöflunarleiðir hæstv. ríkisstj., sem allar eru á þann veg að leggja tolla með einum eða öðrum hætti á notavörur almennings í landinu. Með þessum hætti hefur hæstv. ríkisstj. lagt á almenning viðbótarbyrði, sem nemur mikið á annað hundrað milljóna króna á ári — eins og fyrr er sagt. Þessar álögur koma fram í hækkuðu verði á alls konar neyzlu- og notavörum fólksins. Skal ég nefna aðeins nokkur dæmi um slíka hækkun á vöruverði:

1. Fatnaður alls konar er mjög útgjaldafrekur liður hjá fólki. En um þverbak keyrir nú í þessu efni, því að hinar nýju tollaálögur núverandi hæstv. ríkisstj. nema ekki minna en 642 kr. á einn — ytri og innri alfatnað karlmanns, — og annar fatnaður auðvitað eftir því. Til samanburðar þessu vil ég aðeins minna á, að þetta er hærri upphæð en hæstv. ríkisstj. samkv. áður sögðu telur „réttlátt“, að einstaklingar hafi sem tekjur á mánuði.

2. Kjöt hefur í tíð núverandi hæstv. ríkisstj. hækkað um allt að 20%.

3. Aðrar landbúnaðarvörur hafa hækkað um 7–40%.

4. Fiskur og fiskmeti hefur hækkað um 1030%.

5. Kornvara hefur hækkað um 10–30%.

6. Kaffi, sykur, sítrónur, saft og smjörlíki hafa hækkað um 10–50%.

Fjöldi annarra vara hefur þó hækkað miklu meira. Þannig má t.d. nefna, að þegar hæstv. fjmrh. nýlega leitaði eftir samþykki Alþingis til þess að hækka verð á tóbaki — svo að verðhækkun t.d. á sígarettum er orðin 60% í tíð þessarar hæstv. ríkisstj., — þá rökstuddi hann beiðni sína með því, að þessi verðhækkun væri til samræmis við hina almennu vöruverðshækkun í landinu. — Það er dómur hæstv. ríkisstj. sjálfrar um árangurinn af baráttu hennar gegn dýrtíðinni.

Þegar svo til viðbótar við þessar miklu verðhækkanir á öllum helztu neyzlu- og notavörum almennings bætist, að með festingu vísitölunnar eru allir launþegar rændir stórum hluta tekna sinna, verður augljóst, hversu kaupmáttur launafólksins hefur minnkað, hversu dýrtíðin hefur vaxíð, hversu lífskjör almennings í landinu hafa stórversnað.

Ég hef hér að framan einkum beint orðum mínum að Alþfl. sem stjórnarforustuflokki hef nefnt nokkur dæmi um hin fögru loforð hans við stjórnarmyndunina og sýnt fram á, hvernig efndirnar hafa orðið. En Alþfl. er svo sem ekki eini „vinstri“ flokkurinn í ríkisstj. — Ónei. Framsfl. á þar líka sæti. Og það, sem vert er að muna: Samkvæmt margendurteknum yfirlýsingum forustumanna Framsfl. tók hann sæti í ríkisstj. í alveg sérstökum tilgangi, þ.e. til þess að kveða niður verðbólguna og til að koma góðu lagi á verzlunarmálin.

Flestum mun í fersku minni hið sífellda raus Framsóknar um verðbólguna og verzlunarólagið, á meðan sá flokkur var í stjórnarandstöðu. Hinn 7. des. 1946 skrifar Eysteinn Jónsson enn um þessi mál í Tímann, en þá stóðu sem hæst tilraunir flokkanna til nýrrar stjórnarmyndunar, eftir að nýsköpunarstjórnin hafði sagt af sér. Þar segir hann, meðal annars:

„Stefna framsóknarmanna er óbreytt í þessum málum, eða sú að minnka verðbólguna og tryggja það, að útflutningsatvinnuvegirnir verði reknir á arðbærum grundvelli.... Fyrir þessari stefnu hefur Framsfl. barizt — og heldur kosið að vera í stjórnarandstöðu, en að víkja frá henni. Fyrir þessari stefnu mun hann berjast og ekki taka þátt í neinu stjórnarsamstarfi, er ekki tekur tillit til hennar.“

Svo var hæstv. núverandi ríkisstj. mynduð, — og Eysteinn Jónsson, núverandi hæstv. menntmrh., tók sæti í henni sem aðalfulltrúi Framsfl. og með sínum margtuggnu fyrirheitum um að stöðva dýrtíðina og stefna að lækkun hennar og að koma lagi á verzlunarmálin.

Hvernig hefur Eysteinn Jónsson, hæstv. menntmrh., og flokkur hans staðið í stykkinu um þessi mál? Þannig, að dýrtíðin hefur stórum vaxið síðan hann kom í stj., eins og ég áður nefndi glögg dæmi um. Og aldrei hefur verið slíkt öngþveiti og siðleysi í verzlunarmálunum sem einmitt nú: Meiri eða minni þurrð er á flestum nauðsynjavarningi, en okurverð á því, sem fæst. Almenningi er gert ókleift að skipta, nema mjög takmarkað, við sín eigin verzlunarfélög — vegna þess að nokkrir stórauðugir sérréttindamenn eru látnir gúkna yfir innflutningi varanna. Fyrir leyfi til þess að fá sér nauðsynleg heimilistæki verða menn að borga allt að því jafnmikið verð eins og viðkomandi tæki kosta. Svartur markaður blómgast, og biðraðir við verzlanir og bakdyrapukur er daglegt brauð.

Finnst ekki ykkur, framsóknarmönnum, að þetta sé bara glæsilegur árangur af því að senda Eystein Jónsson, hæstv. menntmrh., inn í ríkisstj. — til þess að kveða niður verðbólguna og koma lagi á verzlunarmálin!

En ef þið berið brigður á mín ummæli í þessu efni, þá vil ég leyfa mér að vísa ykkur á orð ykkar eigin flokksmanna í greinum hans í Tímanum 3. og 4. maí s.l. Á þeim takið þið væntanlega meira mark. En þar fer hann ómjúkum orðum um „brigð núverandi ríkisstjórnar“, í þessum efnum — og talar m.a. um „verzlunarkerfi .... með okri og svörtum markaði og slíku, sem íhaldið heimtar sem skilyrði þess, að Alþfl. fái að hafa „forustu“ í ríkisstj. Skopast hann síðan, sem vonlegt er, að 1. maí-kröfum Alþfl. um lækkun dýrtíðar og heilbrigða verzlun. En ég spyr: Er Framsfl. minna skoplegur í þessum efnum? Er þetta ekki þriðja árið, sem málamyndatillögur þeirra til úrbóta í verzlunarmálunum reika milli Heródesar og Pílatusar? Hafa ekki viðskiptastofnanir núverandi hæstv. ríkisstj., ráðin, sem kosta aðeins litlar 4 millj. kr. á ári, og eingöngu eru skipuð fylgismönnum ríkisstj. — haft þessar till. að leiksoppi allan tímann, — samþ. þær í einu ráðinu til þess að fella þær í öðru. Jafnvel sjálf ríkisstj. hefur tekið beinan þátt í þessum kynduga leik. Og samt sitja þeir, sælir með sig, Eysteinn og Bjarni! Síðast í dag felldi stjórnarliðið hér á Alþingi tillögur Framsfl, í verzlunarmálunum, — og við skulum sjá, hvort ráðherrar Framsfl. sitja ekki jafnrólegir fyrir því.

Það er víst liðin sú tíð, að Eysteinn kjósi heldur að vera í stjórnarandstöðu, en að víkja frá yfirlýstri stefnu flokks síns í dýrtíðar- og verzlunarmálum.

Svo má ekki gleyma garminum honum Katli — Sjálfstfl., sem læzt vera hjú á stjórnarheimili Stefáns hins digra, en ræður í raun og veru öllu, sem máli skiptir í stjórnarathöfnum.

Það var sú tíð, að Sjálfstfl. kenndi sig við nýsköpun atvinnulífsins — og þótti, sem vonlegt var, heiður að því. Þetta var á þeim einu árum, sem Sósfl. tók þátt í ríkisstj. og rak Sjálfstfl. áfram til byltingakenndar umsköpunar í atvinnulífi okkar Íslendinga. Þetta var tímabilið, sem hæstv. atvmrh., Bjarna Ásgeirssyni, fannst, að „fjandinn sæti hér flötum beinum“ — eins og hann orðaði það svo smekklega hér í útvarpinu áðan. Með því hefur hann enn einu sinni lýst afstöðu Framsfl. til nýsköpunarinnar. Nú hefur Sjálfstfl. auðsveipari menn við hlið sér í ráðherrastólunum — og nærsýnni og niðurlútari flokka að styðjast við, enda er hann nú hættur við alla nýsköpun.

Nei, þó ekki alveg alla. — Ein er sú nýsköpun, sem Sjálfstfl. hefur beitt sér fyrir í tíð núverandi hæstv. ríkisstj. og hann mun hljóta verðugan heiður fyrir. Það er síldarbræðsluskipið Hæringur, sem hæstv. forsrh. var að guma af hér í útvarpinu í gærkvöld, það eldgamla hró, sem Marshall var svo vingjarnlegur að lána hæstv. ríkisstj. aura fyrir og er þann veg skapað, að engir munu framar hætta á að sigla því landa á milli — jafnvel naumast hafna á milli, enda hefur sá kostur verið tekinn að fela þetta nýsköpunarskip núverandi hæstv. ríkisstj. umsjá „kammerherra“ Sjálfstfl., sem hefur látið binda það sem fastast við hafnargarð hér í höfuðborginni — og kostar til þess, eftir því sem fróðir menn herma, aðeins eitt hundrað þúsund kr. á mánuði, en ferlíkið liggur þarna án verkefnis mánuð eftir mánuð, vegfarendum til athlægis, en revíuhöfundum hentugt yrkisefni. Þetta skip — Hæringur — er tákn þeirrar þróunar, sem núverandi hæstv. ríkisstj. vinnur að í atvinnulífi þjóðarinnar.

En þótt Sjálfstfl. hafi snúið baki við nýsköpuninni, nýtur þjóðin enn þá ávaxtanna af henni. — Samkvæmt útreikningi Landssambands ísl. útvegsmanna eru framleiðsluafköst hinna 30 nýsköpunartogara jafnmikil og 120 togara af þeirri gerð, sem við áður áttum. Af þeim ca. 100 millj. kr. í erlendum gjaldeyri, sem fengust fyrir Hvalfjarðarsíldina veturinn 1947–48, var helmingurinn fyrir veiði nýju vélskipanna, sem nú prýða flotann í hverri veiðistöð og skara fram úr um aflabrögð. Það er áreiðanlega ekki ofmælt, þótt sagt sé, að gjaldeyristekjur okkar væru nú helmingi minni, en þær eru, ef þessi nýsköpun hefði ekki orðið. Og hvar hefði hæstv. núverandi ríkisstj. staðið með öll sin stjórnleysisvinnubrögð, fjársukk og skriffinnskufargan, ef nýsköpunin hefði ekki verið henni slík mjólkurkýr sem raun ber vitni?

Samt kvartar hæstv. ríkisstj. alltaf um gjaldeyrishungur. Þrátt fyrir langtum hærri gjaldeyristekjur, en þessi þjóð hefur nokkurn tíma áður haft, hefur hæstv. ríkisstj, tekið sér betlistafinn í hönd og sér nú þann möguleika einan til að hanga hér við völd að skríða að fótum bandaríska auðvaldsins, betla þar um dollara til hvers, sem gera skal, en farga í staðinn helgum landsréttindum vorum og sjálfsforræði um fjármál þjóðarinnar.

Það er flokkurinn, sem kallar sig „Sjálfstæðis“-flokk, sem markar þessa stefnu í utanríkismálunum. En stefnan er dyggilega studd af Alþfl. og Framsfl. Það var ekki Bjarni einn, sem flaug til Achesons, heldur voru þeir Emil og Eysteinn í fylgd með honum. — Samábyrgðin á svikráðunum við þjóðina er það bindiefni, sem landsölustjórnin hangir á.

En slíkri stjórn verður að hrinda frá völdum. Ef hún fær að sitja, eru árangrarnir af nýsköpuninni í veði. Velmegun fólksins er í veði. Heiður og frelsi þjóðarinnar er í veði.

Formaður Framsfl. hefur undanfarið talað digurbarkalega um það, að fella þyrfti þessa ríkisstj., sem öllu sé að sigla í strand, og hendir gaman eitt að grundvallarkröfum Framsfl. í dýrtíðar- og verzlunarmálunum. En hann segir, að það strandi á Alþfl., og lýsir því réttilega, hvernig ráðherrar þess flokks standa vörð um „Heiðnaberg“, þ.e. hagsmuni milljónamæringanna og flokks þeirra — Sjálfstfl. Með skáldlegum líkingum orðar hann þetta þannig, að fyrir „Heiðnabergi“ milljónamæringanna sé járnhurð Sjálfstfl., en Alþfl. sé slagbrandurinn fyrir þeirri hurð.

Þetta er hnittin lýsing á hinni algeru þjónustu Alþfl. við íhaldið. — En formaður Framsfl. gleymir einu. Þótt undarlegt sé, gleymir hann því, að Framsfl. er innan dyra á stjórnarheimilinu, að það er enginn annar en formaður þingflokks Framsóknar, Eysteinn Jónsson, sem heldur um slagbrandinn — og getur dregið hann frá dyrum „Heiðnabergs“, hvenær sem hann vill!

Hvers vegna gerir hann það ekki? Vegna þess að lýsing Hermanns Jónassonar á þjónustu Alþfl. við íhaldið gildir á nákvæmlega sama hátt um Eystein og stuðningsmenn hans í Framsfl. Þátttaka þeirra í ríkisstj. er orðin þjónusta við íhaldið. Úr þeirri þjónustu mun Eysteinn Jónsson ekki ganga — fremur en að Alþfl. segi upp vistinni — fyrr en kjósendur þessara flokka taka í taumana og neita að veita þeim áfram umboð til slíkrar þjónustu við höfuðóvin allrar alþýðu þessa lands.

Þetta verða kjósendur að muna við næstu kosningar til Alþingis, hvenær sem þær verða.