17.05.1949
Sameinað þing: 75. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (1574)

42. mál, fjárlög 1949

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég hef ekki notað tíma minn hér til að gera upp reikninga síðustu stjórnar, nema það, sem ekki hefur verið hægt að komast hjá að minnast á í sambandi við þau verkefni, sem núverandi stj. er að glíma við. En það, sem drepið hefur verið á, virðist hafa komið heldur illa við þm. G-K. Hann vill skiljanlega sem minnst um fortíðina tala. Út af því, sem ég sagði áðan, var hann að spyrja, hvort ástandið hafi verið eins slæmt og menn segja. Já, það var sannarlega eins slæmt og menn segja og meira að segja miklu verra. Hann spurði líka: Var gjaldeyririnn búinn? Já, hann var búinn. Enn spurði hann: Var búnaðarráð eins slæmt fyrir bændur og af er látið, og voru fjárlögin 1947 svo voðalega-há? Já, búnaðarráðið var ekki viðunandi lausn fyrir bændur, og fjárlögin voru gífurlega há, og er auðvelt að sýna, að hækkunin varð þá 80–90 millj., sem stafaði af aðgerðum fyrrv. stj. Þegar þetta er athugað, er ákaflega eðlilegt, að þm. G-K. vilji sem minnst um fortíðina tala.

Hæstv. fjmrh. var að kvarta undan því í sinni ræðu, að Tíminn hefði sagt, að fjárlfrv. hefði verið afgr. frá fjmrh. með tugmilljóna króna halla. Það, sem blaðið kvartaði um, var það, að ekki heiði verið gert ráð fyrir nauðsynlegum útgjöldum vegna dýrtíðarinnar, sem óhjákvæmileg væru, meðan sömu stefnu væri haldið. Enn fremur sagði fjmrh., að einn flokkurinn, sem stæði að ríkisstj., hefði neitað honum um heimild til að draga úr verklegum framkvæmdum, ef þurfa þætti. Þetta er rétt, og ég vil taka fram, að þetta var Framsfl. Við álitum ekki rétt að heimila niðurskurð á þeim verklegu framkvæmdum, sem ákveðnar væru af Alþingi, þegar komið er fram í maí sama árið og þær á að vinna. Ef Alþingi getur ekki tekið nú ákvarðanir um, hvað á að gera á þessu ári, þá virðist alls ekki hægt að taka ákvarðanir um nokkrar framkvæmdir hjá hinu opinbera, enda algerlega ófært að fara síðar á árinu að skera niður þær framkvæmdir, sem þegar eru hafnar og ef til vill unnar eftir fastri áætlun. Auk þess er það alveg rétt, að Framsfl. var ófáanlegur til að lækka framlag til verklegra framkvæmda.

Þá minntist fjmrh. á skömmtunina og að æskilegt væri, að úr henni yrði dregið. Við framsóknarmenn erum fylgjandi því, að hætt verði að skammta kornvöru, kaffi og benzín, en vegna þess, hvernig högum okkar er háttað nú, sjáum við okkur ekki fært að fylgja fleiri undanþágum frá skömmtun. Hitt höfum við lagt áherzlu á, að skömmtunarseðlarnir væru látnir gilda sem innkaupaheimild, svo að sérhver maður fengi að verzla þar, sem hann fær bezt og hagkvæmust kjör. Þetta höfum við ekki fengið samþykkt, og má það furðu sæta, þar sem svo mikið réttlætismál er á ferðinni, en sérréttindi vissra manna virðast þar vera í veginum, og við þeim má ekki snerta.

Hv. 6. landsk., Steingrímur Aðalsteinsson, vildi deila á Framsfl. fyrir það, að hann hefði ekki barizt gegn verðbólgunni, eins og lofað hefði verið. Það er rétt, að Framsfl. lofaði að berjast gegn verðbólgunni, og það hefur verið gert með þeim aðferðum, sem hægt hefur verið að ná samkomulagi um. Hins vegar er því ekki að neita, að margar till. okkar í dýrtíðarmálunum hefur ekki enn orðið samkomulag um. En það, sem veldur erfiðleikunum nú, er viðskilnaður fyrrv. ríkisstj., og þar átti Sósfl. sinn snara þátt. Það má því segja, að ádellur 6. landsk. á Framsfl. komi úr hörðustu átt.

Þá sagði 6. landsk., að Framsfl. hefði lofað að koma lagi á verzlunarmálin, en samt væri ástandið aldrei verra en nú, og þess vegna væru till. þær, sem bornar hafa verið fram, ekki annað en málamyndatill. Það er alveg nýtt, ef það er flm. till. að kenna, þó að þær séu felldar af öðrum, og ekki getur Framsfl. gert að því, þótt þm. Alþfl. í Ed. felldu frv. um breytingu á innflutningsfyrirkomulaginu. Annars held ég, að það væri hollt fyrir þm. að minnast þess tíma, þegar kommúnistar voru í ríkisstj., því að þeir gerðu aldrei neinar till. til úrbóta í þessu efni, enda höfðu heildsalarnir aldrei betri aðstöðu en í stjórnartíð þeirra, og ekki er mér kunnugt um, að stjórnarsamstarfið þá hafi strandað á ágreiningi í verzlunarmálunum, — nei, það heyrðist ekki nefnt. Ég tel því hollast fyrir þessa menn að tala sem minnst um sök Framsfl. á verzlunarólaginu. Sannleikurinn er sá, að kommúnistarnir hafa verið þarfasti þjónn auðvaldsins undangengin ár. Síðan þeir klufu Alþfl. hefur ekki verið hægt að mynda stjórn nema með Sjálfstfl., sem heldur í sérréttindaaðstöðu heildsala og annarra auðmanna eins lengi og mögulegt er, en sjálfir eru kommúnistar ekki samstarfshæfir. Þetta er ávöxturinn af þeirra starfi. Út yfir tekur þó, þegar rifjað er upp samstarf þeirra í ríkisstj. með Sjálfstfl., því að þar virðast þeir hafa skilið eftir utangarðs öll sín stærstu baráttumál, eftir því sem þeir lýsa sjálfir. Eða hvernig lýsa þeir hag verkalýðsins í landinu, sem þeir þykjast alltaf vera að berjast fyrir, eftir að hafa slitið við völd með auðmönnunum rúm tvö ár? Sú lýsing er ófögur, þó að ekki sé meira sagt. Svo eru þessir menn að stæra sig af því að hafa átt þátt í að kaupa inn til landsins 30 togara fyrir allan þann auð, sem þjóðin hafði þá úr að spila. En sósíalistum láðist að geta þess nú, hvað þeir hefðu knúið Sjálfstfl. til þess að framkvæma mikið fyrir alþýðuna, þegar þeir gengu frá samningum um togarakaupin. Þeir gleymdu því þá, að þessa togara þurftu að eignast fleiri en þeir, sem höfðu nóg af peningum, og urðu þeir að fara til Framsfl., sem var í stjórnarandstöðu, til þess að dreifbýlið gæti einnig fengið einhverja úrlausn. Um þetta sá Framsfl., þó að Sósfl. hafi láðst að geta um það og segi, að Framsfl. hafi verið á móti nýsköpun. — Loddaraleikur kommúnista ríður ekki við einteyming. Hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, talaði næst á eftir hv. þm. G-K., Ólafi Thors, og byrjaði hann ræðu sína með þessum orðum: „Einn af milljónamæringum Rvíkur var að tala.“ En hvað sagði þessi sami hv. þm. við síðustu alþingiskosningar vorið 1946? Þá kallaði þessi þm. Ólaf Thors foringja hins frjálslyndari hluta Sjálfstfl. og herra Ólaf Thors. Þetta er aðeins lítið sýnishorn.

Kommúnistar hlakka nú yfir því ástandi, sem orðið er í fjárhags- og atvinnumálum landsins. Þeim mun finnast allt hafa gengið eftir áætlun. Þeir voru a.m.k. potturinn, og allir vita hver var pannan í því að koma þessu ástandi á, og sífellt halda þeir áfram að ýta undir allt, sem þeir geta hugsað sér, að geti orðið til þess að gera ástandið enn verra. Síðan standa þeir álengdar og hrópa að þeim, sem leitast við að koma í veg fyrir sárustu afleiðingar af því öngþveiti, sem skapazt hefur, og leita að úrræðum til viðreisnar. Kommúnistar senda tóninn eins og óknyttastrákar, sem framið hafa strákapör, og hælast um í fjarlægð yfir þeim erfiðleikum, sem þeir hafa valdið. Í öllum þeim raunum, sem þeir eiga við að búa vegna berlegrar þjónustu við erlendan málstað og hagsmuni, eygja þeir einn ljósan punkt: Það eru vandræðin, sem að steðja í innanlandsmálum. En er nú víst, að kommúnistar hafi ástæðu til þess að hlakka yfir því? Að sjálfsögðu veltur það mikið á því, með hve miklum manndómi öðrum auðnast að taka á vandamálunum, og þá ekki síður á hinu, hvern skilning almenningur hefur á því, hverjar eru orsakir þess, hversu nú er komið. Kommúnistar hafa tæpast gert sér grein fyrir því, að í augum skynsamra manna leika þeir sama hlutverk og maðurinn, sem hjálpaði til þess að hrinda ofan í fenið og leitaðist síðan við, eftir því sem hann gat, að ýta dýpra og dýpra, gerði síðan óp að björgunarmönnunum og kenndi þeim um ófarir þær og hrakninga, sem af þessu leiddi. Sá maður hlaut ekki virðingu áhorfenda né traust. Á sama hátt mun fara fyrir kommúnistum. Þeir munu hljóta óvirðingu og vantraust þeirra manna, sem sjáandi hafa horft á atburði síðustu ára í þjóðlífi Íslendinga.

Talsmenn kommúnista í þessum umræðum hafa verið að klifa á ágreiningi og jafnvel klofningi í Framsfl. Það er óhætt að segja þessum mönnum, að það er valt fyrir þá að byggja framavonir sínar og valdadrauma á óeiningu í Framsfl. Þeir, sem hnýttir eru á þrælaband, skilja ekki, hvernig frjálsir menn vinna í flokki. Þeir skilja ekki, að frjálsir menn, sem vinna að sameiginlegum áhugamálum, þurfa ekki að fara í felur með það, þótt þá greini á um starfsaðferðir eða einstök atriði. Þeir skilja ekki, að þeir, sem berjast fyrir sameiginlegri stefnu og sameiginlegum áhugamálum, geta verið jafnöruggir samherjar, þótt þeir ræði hreinskilnislega og hispurslaust fyrir opnum tjöldum það, sem á milli kann að bera um starfsaðferðir stöku sinnum. Í félagi frjálsra manna er slíkt eðlilegt, vekur enga furðu og er styrkleika-, en ekki veikleikamerki. Í þrælahúsinu er öðru máli að gegna. Þar verður að byrgja alla glugga, á meðan þrætt er upp á bandið. Þeir, sem þar eiga heima, skilja ekki vinnubrögð og starfshætti frjálsra manna, og þess vegna er þetta barnalega tal um klofning í Framsfl.

Framsfl. veit, hvað hann vill, og hann hefur hagað störfum sínum undanfarið þannig, að landsmenn þekkja hans áhuga- og baráttumál og vita, að honum er óhætt að treysta. Framsfl. hefur gert sér grein fyrir því, á hvað leggja beri mesta áherzlu í baráttunni á næstunni, og framsóknarmenn standa saman um það. Hver einasti framsóknarmaður er sannfærðari um það nú en nokkru sinni fyrr, að það veltur á miklu fyrir íslenzku þjóðina, að Framsfl. verði efldur og sú stefna, sem hann berst fyrir. Fyrir því munu flokksmenn allir berjast og til liðs við þá munu margir koma. — Þetta er sagan um ágreininginn í Framsfl.

Þessar umr. hafa nú staðið tvö kvöld og hafa að mínum dómi sýnt meðal annars: Að kommúnistar hafa ekkert til málanna að leggja annað en það, að Íslendingar slíti öllu sambandi við Vesturlönd, hafni Marshallsamvinnu, fari úr Atlantshafsbandalaginu, verði leppríki Rússa og byggi alla sína pólitík, atvinnu og tilveru á samstöðu og sambandi við Rússa. Að þeir eru svo lítilsigldir, að þeir þora ekki að segja þetta berum orðum, en taka heldur þann kostinn að þvæla hér gersamlega samhengislausar langlokur á móti öllu, sem gert er, sem fyrst verða skiljanlegar mönnum með fullu viti, þegar þær eru botnaðar fyrir þá á þennan hátt. Að kommúnistar eru að burðast við að kalla þessa þjónustu við steinrunnið afturhald austur í löndum, sem byggir á hernaðareinræði, vinstri stefnu og stefnu gegn auðvaldi og sérréttindum, en eru þó sannir að því, að aldrei hefur auðvaldið á Íslandi né sérréttindastéttirnar lifað slíkt dýrðartímabil og þegar kommúnistar voru í stjórn hér um árið. Að kommúnistar voru a.m.k. potturinn í því að koma á því ástandi, sem nú ríkir og hefur ríkt um skeið í þjóðmálum Íslendinga, og eru ráðnir í því, sem vænta mátti, að hafa þau ein afskipti af þjóðmálum á næstunni að hindra nauðsynlegar framkvæmdir til viðreisnar, ef þeir geta. Þá hefur enn fremur verið sýnt fram á, að í tíð núv. stj. hafi orðið stefnubreyting til bóta í landbúnaðarmálum, fjárfestingu og gjaldeyrismálum, — að ekki hefur tekizt að stöðva verðbólguna, en hins vegar að draga mjög úr áframhaldandi vexti hennar, með margvíslegum ráðum, — að ástandið er nú þannig, að svo búið getur ekki staðið, — að nýjar kauphækkanir hljóti að vekja nýja verðbólguöldu, er krefjist gagnráðstafana svo að segja samtímis, og að leiðin er sú að grípa nú til nýrra ráða, sem auka kaupmátt peninganna, og jafnframt annarra, sem koma á auknu jafnvægi í fjármálum og samræmi milli framleiðslukostnaðar og afurðaverðs. Það hefur verið sýnt fram á, að nú veltur kannske mest á því, að launastéttirnar beiti afli sínu til þess að knýja fram réttlátar ráðstafanir í þessa stefnu og starfi að því afdráttarlaust með alvöru: að setja samræmingarkröfur sínar í samband við slíka jákvæða stefnu. — Loks hef ég leyft mér að undirstrika, að ástandið er svo alvarlegt, að til skarar verður að skríða um það nú í sumar, hvort samstaða er um hagnýtar björgunarráðstafanir eða ekki. Og sú nauðsyn minnkar ekki, heldur vex, ef vorið verður notað til þess að reisa nýja verðbólguöldu.